Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Annáll 2010 : III af V

Pjakkur og Ormur

[I. hluti] [II. hluti] [IV. hluti] [V. hluti]

Það komu út þrjár frekar áhugaverðar bækur árið 2010 sem lesendum gæti fundist fróðlegar. Ranghugmyndin um guð eftir Richard Dawkins í þýðingu Reynis Harðarsonar. Þú sem ert á himnum eftir Úlfar Þormóðsson. Af því tilefni að 150 ár eru liðin síðan Uppruni tegundana kom fyrst út kom út bókin Arfleifð Darwins en hún "inniheldur fjórtán greinar ritaðar af sextán íslenskum fræðimönnum á sviði líffræði, jarðfræði, trúarbragðafræði og vísindasagnfræði."

Sumarfrí Vantrúar lauk um miðjan ágúst með Dauðastríði ríkiskirkjunnar eftir Reynir Harðarsson. Ríkiskirkjan hafði nýlega neitað um niðurskurð þrátt fyrir kreppu. Kirkjan var einnig byrjuð að kljást við gamla fortíðardrauga í formi Ólafs Skúlasonar biskup og auk þess þurfti stofnunin að svara fyrir ákveðnum sérréttindum presta, þ.e. að þeir telji sig vera hafna yfir landslög. Síðar í mánuðinum var almenningur hafðir að fífli þegar Geir Waage svaraði fyrir þagnarskyldu presta, sem hann telur að eigi að vera algjör og undantekningalaus. Þannig að það kom ekki á óvart að fólk varð reitt.

Mikil reiði ríkir nú í garð ríkiskirkjunnar í kjölfar allrahanda sóðamála innan raða hennar. Kirkjan neitar að taka þátt í niðurskurði, prestar ræða um það í fúlustu alvöru hvort þeim beri að hlíta barnaverndarlögum, mál Ólafs biskups enn að þvælast fyrir biskupsstofu og svona mætti lengi telja. Allt kemur þetta svo í kjölfar þess að kirkjunni tókst í fjölda ára að standa í vegi fyrir sjálfsögðum mannréttindum samkynhneigðra í hjúskaparmálum.

Reiðin átti ekkert eftir að minnka þegar rifjað var upp þátt Karls Sigurbjörnssonar og Hjálmar Jónssonar við að beinlínis að þagga niður í konunni sem ásakaði Ólaf Skúlason um kynferðisbrot. Þó það hafi verið viss Þórðargleði hér á Vantrú yfir því að:

[...]að hulunni er flett af skinhelgi og vanhæfni ríkiskirkjunnar í siðferðismálum er hugur okkar jafnframt hjá þeim sem eiga um sárt að binda vegna brota hennar og getuleysis.

Og meðal brota hennar og getuleysi er t.a.m. mál séra Auði Eir Vilhjálmsdóttur og skólaheimilið Bjarg og barnaníðingurinn Helgi Hróbjartsson, sem flúði land þegar upp um hann komst. Það hefur ekkert uppgjör átt sér stað. Það virðist stundum bara vera að þeim sé alveg sama um velferð barna þá og nú, svo fremi sem flestir eru bara skráðir í ríkiskirkjuna. Það virðist vera það eina sem skiptir máli. Ekki þarf að vera að hér sé um að ræða meðvitaða "mannvonsku hjá prestum heldur þeirri samfélagslegu staðreynd að prestar eru ekki lengur í sambandi við þjóð sína" einsog Frelsarinn benti á í einni grein:

Mestur krafturinn fer í að skíra, ferma, gifta, jarða, trúboð, allskyns helgileiki og kristilegt munaðarlíf. Í þessum fílabeinsturni koma ekki nokkur vitræn samfélagsleg verkefni sem skipta máli fyrir samfélagið utan ákveðin sálusorgarverkefni. Enda sést það vel þegar ákveðnir fjölmiðlaprestar á höfuðborgarsvæðinu hlaupa í fréttatíma þegar voðaatburðir gerast til að leika fjölmiðlafulltrúa. Lengra ná ekki verkefni þeirra á 21. öld og sannarlega ná þau ekki til velferðar barna.

Nú, einsog þá, virðast prestar bara vilja gleyma þessu öllu saman, að nóg sé að fella tár yfir þessum hörmungum, þá er allt fyrirgefið. Svo bregðast krosstré, segir Reynir Harðarsson:

Kirkjan er dálítið sjálfhverf. Viðbrögð hennar þessa dagana virðast snúast um að dusta rykið af skrautkraganum í stað þess að moka út skítnum. Aðalatriðið er að bjarga andlitinu en fórnarlömbin gleymast.

Auðvitað var töluverð fjölmiðlaumfjöllun um þessi kynferðisbrot Ólafs Skúlassonar og vandræðagang kirkjunnar varðandi þagnarskylduna og kynferðisbrot almennt. Einn af helstu stuðningsmönnum Ólafs á sínum tíma var Örn Bárður Jónsson, sóknarprestur Neskirkju, sem kallaði þessi umfjöllun fjölmiðla einelti í predikun sem var útvarpað í útvarpi allra landsmanna. Hjákátleg hugsun hjá klerkinum, en déskoti dæmigerð.

Glæpur fjölmiðla er þó fyrst og fremst að fjalla um málefni kirkjunnar, orð og gjörðir presta. Örn Bárður saknar væntanlega stöðunar árið 1996 þegar flestir fjölmiðlar (að Alþýðublaðinu og HelgarPóstinum undanskyldum) gerðu sitt besta til að hunsa mál Ólafs Skúlasonar.

Það er eitthvað verulega rotið í ríkiskirkjunni og af því tilefni má benda á Hreinsunin mikla: Opið bréf til presta íslensku ríkiskirkjunnar eftir Véstein Valgarðsson:

Arfleifð Ólafs Skúlasonar mun fylgja íslensku ríkiskirkjunni þangað til hún hefur verið gerð upp af vægðarlausum myndugleik. Þetta er staðreynd. Það þýðir ekki að bera það fyrir sig að Ólafur sé látinn, því málið snýst ekki eingöngu um það að hann hafi verið öfuguggi og glæpamaður, heldur að heil stofnun hafi verið meðvirk með honum, maður gengið undir manns hönd til að hylma yfir glæpi sem þeir vissu um. Það snýst um að lunginn úr heilli stétt manna var reiðubúin til þess að þagga málið niður eða láta það liggja milli hluta. Vilja ekki vita, eða vita og vilja ekki aðhafast. Og það stétt sem réttlætir ríkisrekna tilveru sína með því að hún leggi öðrum línurnar í siðferðismálum.

Óli Gneisti Sóleyjarsson rakst á "lokaverkefni frá Kennaraháskóla Íslands sáluga þar sem búin eru til gagnvirk verkefni í trúarbragðafræði fyrir börn á miðstigi í grunnskóla. " Fyrir forvitnissakir einar þá blaðaði Óli í gegnum þetta til að athuga hvort eitthvað væri minnst á guð- eða trúleysi. Það sem vakti athygli var eftirfarandi spurning sem virtist varða guðfræðilega rétt arfgengi trúar:

Til hvaða trúar telst þú ef móðir þín er gyðingur og faðir þinn er kristinnar trúar?

Upp voru gefnir þrír svarmöguleikar: Trúleysingi, Gyðingur, Kristinnar trúar. Auðvitað fæðist maður ekkert trúaður og trú erfist ekkert í móðurlegg. Þ.a.l. er þessi spurning bara rugl.

Vantrú er oft á milli tannanna á fólki í umræðu á netinu. Meðal þess sem stundum er sagt um félagið, er að það sé á móti skoðanafrelsi, tjáningarfrelsi og trúfrelsi. Vantrú er alls ekki á móti þessum grundvallar réttindum. Hreint alls ekki.

Í pistlinum Skoðanafrelsi, tjáningarfrelsi og trúfrelsi eftir Sindra G. vísar hann þessum ofantöldu rangfærslum til föðurhúsana. Töluverður fjöldi einstaklinga telja að við í Vantrú viljum banna allt sem tengist trú, trúarbrögðum og trúariðkun. Það er náttúrulega rakið kjaftæði:

Það er merkilegt að sumt fólki skuli telja að vegið sé að skoðana-, tjáningar- og trúfrelsi sínu, við það eitt, að skrifaðar séu greinar á netið, þar sem menn halda fram skoðunum sem eru ólíkar skoðunum þeirra. Heldur fólkið að trúfrelsi og tjáningarfrelsi þýði frelsi undan andmælum?

Það kemur bara eitthvað annað í staðinn segir Kristinn Theódórsson og vísar þá í ofsóknaróða trúmenn sem spurja í heilagri vandlætingu "Hvað kemur þá í staðin fyrir trúarbrögðin? Trúleysi? Eiga allir að dásama realismann og lesa Dawkins?":

Auðvitað kemur eitthvað annað í staðinn, en það í sjálfu sér segir okkur ekki að við eigum að sitja á heima og þegja á meðan allskyns fásinnu er haldið að fólki um allan heim, hvort sem fásinnan á í sinni loðnustu mynd að vera táknmynd hins óþekkta eða bókstafleg skilaboð frá guði um að brenna eigi albínóa lifandi og eða úthýsa samkynhneigðum.

Stolnar fjaðrir eftir Hjalta Rúnar Ómarsson er vísað í þá þörf kristna að eigna kristinni allt það sem gott er; lýðræði, mannréttindi, manngildishugsjónir, siðferðisleg ábyrgð og að kristni sé "eldsneytið sem knúði réttindabaráttu fyrri kynslóða og veitir enn afl og styrk í þágu lífsins" einsog Karl Sigurbjörnsson komst að orði einu sinni. Kjaftæði:

Það er ljóst að atvinnutrúmennirnir eru tilbúnir til þess að fórna sannleikanum til að fegra kristni. Þeir eru ófeimnir við að tileinka kristni og Jesú hluti sem annað hvort finnast ekki eða eru beinlínis andstæðir heimildunum sem við höfum. Það kæmi mér alls ekki á óvart ef að prestar muni innan nokkurra áratuga fara að halda því fram að réttindi samkynhneigðra, umhverfisvernd og internetið séu allt Jesú að þakka.

Svavar Kjarrval velti ögn fyrir sér lögunum í gamla testamentinu í ljósi þess að ný hjúskaparlög voru samþykkt. En vitaskuld var það mótmælt af sumum trúmönnum með tilvísun í biblí. Hann bendir á mótsögn:

Algengasta vörnin sem ég hef heyrt er að lögin í Gamla testamentinu misstu gildi sitt við uppstigningu Jesúsar til himins. Þessi afsökun er notuð í tilraun til að víkja undan því óréttlæti sem lýst er í Gamla testamentinu og þá sérstaklega gegn þrælum, konum og samkynhneigðum. Hins vegar hikar sama fólk ekki við að benda á það góða í Gamla testamentinu þegar það hentar málstað þeirra.

Í greininni Tilfinningar, rök og trú reynir Reynir Harðarson að gera lesendum grein fyrir því að gagnrýnin umræða um trú og trúarbrögð á vefritinu Vantrú er einmitt ekkert meira en það; gagnrýnin umræða.

Vantrú er vettvangur umræðu um trúmál. Hér heyrast raddir efasemdarmanna því aðrir hafa sinn vettvang. Blekkingar, svik, villa og svími eru eitur í okkar beinum en það er ekki það sama og hatur. Gagnrýni okkar á skoðanir og fullyrðingar trúmanna, svikamiðla, skottulækna og annarra bullukolla eru ekki persónuárásir.

[...]

Við skiljum líka mætavel afstöðu andstæðinga okkar, þeirra sem við köllum trúmenn, svikamiðla, skottulækna, bullukolla og annað þess háttar. Auðvitað sárnar þeim og finnst að persónu sinni vegið, oft í fullkomnu skilningsleysi okkar og virðingarleysi, en ég ítreka að það er ekki hatur, persónuárásir eða hroki. Við tölum hreina íslensku, umbúðalaust. Lygi er lygi og bull er bull.

Þann 6. september sl. var eitt ár liðið frá láti Helga Hóseassonar. Til að heiðra minningu mótmælanda Íslands var afhjúpuð minningarhella á horni Langholtsvegar og Holtavegar. Þetta var frekar látlaus athöfn og hugguleg.

Hugmyndin um minnisvarða um Helga Hóseasson kom fram skömmu eftir andlát hans og stofnaður var Facebook-hópur um það verk. Steinsmiðjan S. Helgason hafði hins vegar samband við Vantrú og bauðst til að leggja fram bæði vinnu og efni ef gera ætti minnisvarða um Helga. Við bentum forsvarsmanni Facebook-hópsins, Alexander Frey Einarssyni, á þetta tilboð en lítið gerðist fyrr en Vantrú ákvað að fara í málið. Þótt vilyrði hafi fengist fyrir hellu í tíð fyrri borgarstjórnar þurfti að hefja ferlið upp á nýtt eftir borgarstjórnarskipti. Kerfið er hins vegar svifaseint en með hjálp dr. Gunna í Besta flokknum komst skriður á málið. Þór Sigmundsson steinsmiður hjá S. Helgason teiknaði steininn og þegar leyfi lá fyrir var steinninn smíðaður og honum komið fyrir í samráði við og undir handleiðslu borgarstarfsmanna.

Það hryggir mann töluvert að sumir (jafnvel fræðimenn) telja að Helgi Hóseason hafi verið eitthvað geðveikur. En Helgi Hóseason var ekkert geðveikur einsog Birgir Baldursson benti á fyrr á þessu ári.

Bjarki Sigurveinsson bendir á hvað laun eins prests kosta þjóðfélagið árlega. Um sjö milljónir.

Samkvæmt samkomulagi ríkis og þjóðkirkju frá 1997 tók ríkisvaldið að sér að greiða laun biskups, vígslubiskupa, 18 starfsmanna biskupsstofu og 138 presta. Í samkomulaginu er einnig miðað við að fjöldi presta á launaskrá ríkisins væri tengdur fjölda meðlima í þjóðkirkjunni á hverjum tíma.

Ef fimm þúsund manns skrá sig úr ríkiskirkjunni þá hverfur einn prestur af launaskrá, skv. lögum um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar. Sem þýðir að meira en 700.000 íslendingar þurfa að skrá sig úr henni þannig að hún verði sjálfdauð. Sanngjarnt, ekki satt?

Froðuspeki um kærleiksguðinn eftir Óla Gneista Sóleyjarsson fjallar einfaldlega um þá froðukenndu staðhæfingu sumra presta um að "Guð er kærleikur" og það tilgangsleysi sem fylgir að inna klerkana eftir því hvað í ósköpunum þeir meina. En Baldur Kristjánsson hafði einmitt látið þessi orð falla í kjölfarið á yfirlýsingu Stephen Hawkins að gvuð væri ónauðsynlegur til að útskýra tilurð heimsins.

Ef sá sem segir að guð sé kærleikur getur ekki svarað einföldum spurningum um eðli guðsins sem hann þykist þekkja þá hljótum við að komast að þeirri niðurstöðu að hann sé einungis að tala í innantómum frösum. Svona frasar eiga að gefa til kynna dýpt en er best lýst sem froðu.

Ásgeir Berg Matthíasson prófar líka að þjarma að séra Baldri en var vitaskuld fátt um svör.

Þetta eru svo sem engin nýmæli, að frjálslyndir guðfræðingar þori ekki að kannast við trú sína og sjóði upp einhverja moðsuðu til að hanga á embættum og launaseðlum og í stað þess að kasta henni þá spinni þeir sjálfum sér „heimspekilegan sjálfsblekkingarvef“, eins og Þorsteinn Gylfason heimspekingur hafði að orði um slíka guðfræði.

Hjalti Rúnar Ómarsson hlustaði á viðkvæma blómið Davíð Þór Jónsson í útvarpinu sem kom með alveg klassískar ranghugmyndir varðandi bókina Ranghugmyndin um Guð. Bók sem hann hefur ekki lesið og mun líklegast ekki lesa - kannski útaf því hann er tepra, hver veit? En hann hefur samt skoðanir á henni, að sjálfsögðu, skoðanir sem byggðar eru á ranghugmyndum Alistar McGrath um sömu bók, t.a.m. að Dawkins tínir bara út obboslega ljótu kaflana en sleppir öllu hinu.

Þegar Dawkins vitnar í ljótu kafla biblíunnar, þá er punkturinn hans oftast sá að trúfólk byggi siðferði sitt ekki á biblíunni. Það sigtar út þá kafla biblíunnar sem því líkar við og lokar augunum fyrir hinum. Þegar maður veit það þá sér maður auðvitað að „Dawkins minnist ekki á góðu kaflana!” er ekkert svar, hann viðurkennir alveg að það eru góðir kaflar. Það vill svo heppilega til að einn þáttarstjórnandanna kom með nákvæmlega þennan punkt: „þið [guðfræðingar og prestar] tínið út þetta góða”.

Andrea Gunnarsdóttir skrifaði greinina Byggingarréttur á grundvelli trúarbragða í kjölfarið á umræðu sem hún tók þátt í í félagsfræðitíma. Í tímanum var óformleg atkvæðagreiðsla um hvort þessir 23 nemendur - öll yfir tvítugt - væru hlynnt, andvíg eða hlutlaus varðandi byggingu mosku á Íslandi. 10 voru hlynnt, 6 hlutlaus og 7 andvíg. Kennarinn innti eftir ástæðu þeirra sem voru andvíg og vitaskuld voru ástæðurnar byggðar á fordómum og fáfræði; auka á núning milli trúarhópa hér á landi, múslímar mundu aldrei leyfa kristnar kirkjubyggingar í sínum heimalöndum o.s.frv.

Á meðan hin evangelíska lútherska þjóðkirkja liggur á spena ríkisins og hefur 322 kirkjur hérlendis til að þegnar hennar geti iðkað sína trú eftir eigin sannfæringu og prestar fá að troða boðskap sínum í börn landsins í gegnum leikskóla, grunnskóla og aðrar opinberar stofnanir þá sé ég ekkert að því að múslimar fái að reisa mosku hér á landi.

Reynir Harðarsson fékk birta Skinhelgi kirkjunnar í Fréttablaðinu þann 21. september þar sem hann reyfar aðeins á Ranghugmyndinni um guð, konurnar sem ásökuðu Ólaf Skúla um kynferðisofbeldi og Vantrú.

Ég leyfi mér að fullyrða að almenningur gerir sér enga grein fyrir hvað hann er gjörsamlega gegnsósa af kenningum kirkjunnar og þeim lúmska áróðri sem hún beitir á opinberum vettvangi. Í Vantrú höfum við lengi gagnrýnt kristna trú, kirkju og málflutning kirkjunnar manna. Fyrir vikið höfum við fengið að reyna á eigin skinni andúð kirkjunnar manna og ofurkristinna. Við þekkjum skítkastið, símhringingarnar, slúðrið og áhrif á atvinnu okkar.

[I. hluti] [II. hluti] [IV. hluti] [V. hluti]

Þórður Ingvarsson 04.01.2011
Flokkað undir: ( Leiðari )

Viðbrögð

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.