Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Annáll 2010 : I af V

Flugeldar

[II. hluti] [III. hluti] [IV. hluti] [V. hluti]

I

Góðir lesendur

Áður lengra er haldið vil ég kom því á framfæri að Vantrú óskar ykkur og landsmönnum öllum gleðilegs nýs árs og farsæls komandi árs, og vonum að þið hafið haft það gott um hátíðirnar og verið góð hvert við annað. Ekki væri heldur amalegt ef þessi vellíðun héldi áfram árið 2011.

Í þessum annál verður stiklað á því helsta sem gerðist í heimi hindurvitna árið 2010. Við rýndum, rengdum og efuðumst hvað best við gátum hér á vefritinu. Við héldum aðalfund félagsins. Við bárum upp erindi til siðanefndar Háskóla Íslands,héldum bingó einn föstudaginn í mars, buðum uppá bjór á alþjóðlega degi trúlausra í apríl. Hinn töfrandi galdrakarl James Randi heimsótti klakann og hélt fyrirlestur í troðfullum sal í júní. Ranghugmyndin um Guð eftir Richard Dawkins kom út á íslensku í september.

Á haustmánuðum bentum við á tveggja ára gamla grein sem margir urðu hissa yfir og létu sitt í sér heyra. Í kjölfarið urðum við - einsog öll þjóðin - vitni að ótrúlega klúrum og klénum vinnubrögðum kirkjunnar varðandi kynferðisbrot kirkjunnar manna gegn konum og börnum. Að sjálfsögðu vikum við ekki undan skyldunni og mótmæltum ýmsu sem prestar létu hafa eftir sér hvað það varðar og margt annað, til dæmis varðandi trúboð í skólum og allskyns fabúleringar um tillögu Mannréttindaráðs Reykjavíkur. Og í desember héldum við svo uppá jólin.

En ekki má gleyma því að það var náttúrulega svakalegt eldgos á árinu sem er að líða. Það er eiginlega eitt það merkilegasta sem almennt gerðist.

Annálnum verður skipt upp í fimm hluta og munu næstu hlutar birtast á komandi dögum.

II

Janúar byrjaði með hugsanlegu hryðjuverki:

Nú um áramótin voru brotnar rúður í Grensáskirkju og málningu slett. Fljótlega var ýjað að því í bloggfærslum að það gæti nú tengst gagnrýni Vantrúar á kirkjuna [...]

Auðvitað þurftu pörupiltarnir og vandræðagemlingarnir í Vantrú að svara þeim barnalegu aðdróttunum að við hefðum staðið fyrir rúðubrotum í Grensáskirkju. Það var nú ýmislegt látið falla varðandi þennan atburð og þar fylgdi nú ekki alveg hugur og hönd.

Okkur finnst dálítið merkilegt hvað sumt fólk hefur alveg stórkostlega furðulegar hugmyndir varðandi þennan félagsskap sem Vantrú er. Sumt fólk tekur það sem við skrifum mjög persónulega. En oftast er þetta fólk sem hefur furðulegar hugmyndir um ýmislegt, t.d. uppeldi, og það er ekki alltaf gefið hvaðan þessar furðulegu hugmyndir eru komnar.

Þessar furðulegu samsærispælingar varðandi Vantrú hafa ágerst hjá frekar lokuðum hópi manna síðan við sendum inn athugasemd til siðanefndar Háskóla Íslands í byrjun febrúar er varðaði kennsluefni eins stundakennara hjá Guðfræði- og trúarbragðafræðideildinni.

Í kjölfarið á þessari athugasemd - sem síðar varð að kæru - skrifuðum við greinaröð þar sem við útlistuðum málið. Greinaröðin fékk heitið Guðfræði Í Háskóla Íslands og eru komnir þrettán kaflar. Líklegt er að þeim eigi eftir að fjölga á nýju ári:

I. Fúsk, fáfræði eða fordómar?

En árið 2009 var nafni guðfræðideildar breytt í guðfræði- og trúarbragðafræðideild og þar kennir Bjarni Randver Sigurvinsson guðfræðingur kúrs sem hann kallar „Nýtrúarhreyfingar“. Ein af þeim hreyfingum sem Bjarni Randver „kynnir“ nemendum sínum er Vantrú!

II. Bjarni Randver Sigurvinsson

Auk þess að vera stundakennari við HÍ er Bjarni Randver Sigurvinsson guðfræðingur formaður starfshóps Þjóðkirkjunnar um samskipti við önnur trúarbrögð. Höfuðrit hans (sem BR þýddi) er áhugaverð lesning[...]

III. Níels Dungal og Helgi Hóseasson

Þegar kemur að prófessor Níels Dungal og bók hans „Blekking og þekking“ þykir okkur sem Bjarni Randver missi sjónar á aðalatriðum og umfjöllun hans og val á tilvísunum einkennist frekar af andúð og áróðri en upplýsingu og fræðslu. [...] Helgi Hóseasson er einungis kynntur sem orðljótt níðskáld og klámkjaftur. Í kjölfar þess er því slengt upp að hann hafi verið heiðursfélagi í Vantrú. Og síðan klikkt út með þjófkenningu Helga á hendur þeim félaga í Vantrú (og Siðmennt) sem vottaði honum virðingu að honum nýlátnum.

IV. Vantrú

Áður en lengra er haldið er rétt að lesendur rifji upp fögur fyrirheit Bjarna Randvers þegar kemur að "þvertrúarlegum samskiptum" og þeir beri þau síðan saman við meginniðurstöðu hans um málflutning Vantrúar, en Bjarni Randver stillir okkur upp sem lærisveinum Richards Dawkins.

V. Vantrú kynnt til sögunnar

Það er rétt að vefurinn var opnaður árið 2003 og ekki er fjarri lagi að tala um að "helstu upphafsmennirnir" hafi kynnst innan raða SAMT hjá Siðmennt. Réttara er þó að stofnendur Vantrúar kynntust á netinu, á spjallborðum og bloggsíðum. Flestir voru í SAMT þegar Vantrú var stofnað.

VI. Dawkins-heilkennið

Tilgangur Bjarna virðist vera að sýna að vantrúarmenn sem lærisveina eða skósveina Richards Dawkins.

VII. Um trúarleg efni

Það má vissulega og með sanni segja að "Vantrúarmenn" fullyrði um trúarleg efni. Við getum auðvitað ekki alltaf komið með alla þá þekkingarfræðilegu fyrirvara sem við eiga í hvert sinn í hverri grein og við hverri fullyrðingu. En við krefjumst einfaldlega sannana eða rökstuðnings fyrir stórbrotnum staðhæfingum. Við færum líka rök fyrir máli okkar. Það er viss munur á þessari afstöðu og afstöðu ýmsra trúmanna sem veigra sér ekki við að koma með fullyrðingar á litlum eða engum grundvelli.

VIII. Vantrúboð

Það er erfitt að færa rök fyrir skoðun sem maður telur vera rétta án þess að um leið telja sig vera að sannfæra aðra um að hún sé rétt. Þegar við erum að hrekja fullyrðingar trúmanna, hvort sem það er kristni, miðlar eða skottulæknar, þá erum við auðvitað um leið að vonast til að fólk hætti að trúa þessu.

IX. Orðbragðið

Greinar á Vantrú einkennast ekki af uppnefnum og ljótu orðbragði um nafngreinda einstaklinga þó margir telji annað. Vissulega eru dæmi þess að einstaka meðlimir Vantrúar hafið verið dónalegir á bloggsíðum sínum. Bloggsíður eru einatt til þess fallnar að koma persónulegu skilaboðum á framfæri á augabragði og iðulega er orðfæri frjálslegt og óheft á þeim vettvangi.

X. Vottar og virðing

Sennilega er tilgangurinn sá að líkja Vantrúarmönnum við Votta sem mótmæla trúarbrögðum þrátt fyrir að vera sjálfir meðlimir í sértrúarsöfnuði. Fram hefur komið að í þessum fyrirlestri er Vantrú skilgreint sem trúfélag [...]

XI. Síðustu glærurnar

Þessi kennsla virðist að nær öllu leyti til þess fallin að vara verðandi guðfræðinga við mönnum sem eru að eyðileggja samfélagið með því að rjúfa friðinn í landinu og brjóta niður allsherjarreglu með því að brúka kjaft. Látið er líta út fyrir að Vantrúarseggir séu eingöngu orðljótt ofstopafólk sem vinnur gegn mannréttindum annarra og sé að öllum líkindum gyðingahatarar. Eða hvað?

XII. Hin æpandi þögn

Vandamálið er ekki að það fjallað sé um Vantrú í Háskólanum í námskeiði um nýtrúarhreyfingar, við erum bara mjög ánægð með það, vandamálið er hvernig. Við gerumst svo djörf að telja að flestir sem hafa fylgst með þessu séu sammála okkur - þó að fólk sé ekki endilega sammála um framsetninguna - að meðhöndlunin sem við fáum er verulega ósanngjörn.

XIII. Þögnin rofin

Rúmum mánuði eftir að forseta Guðfræði- og trúarbragðafræðideildar barst erindi Vantrúar hefur hann loks svarað [...]

Þessu máli er nefnilega ekki lokið og hefur tekið alveg stórfurðulega stefnu. Ragnar Aðalsteinsson, hæstaréttalögmaður, er orðinn viðriðinn þetta mál og allt virðist vera gert til að réttlæta þennan vafasama kúrs.

Vantrú gefur sig ekki út fyrir að vera akademísk stofnun þar sem stunduð er akademísk fræðimennska á háskólastigi. Ef markmiðið með þessari kennslu var að fræða um Vantrú þá er málið að skoða það sem sagt er á Vantrú og hvað félagsmenn hafa sagt er varðar þau málefni sem Vantrú fjallar um. Maður fer ekkert að róta um í lokuðu einkaspjalli einsog hefur komið á daginn, fiska eftir einhverjum skít í athugasemdakerfum víðsvegar um internetið og lesa svo færslur á vefbókum sem koma félaginu Vantrú nákvæmlega ekkert við.

Við gerum það sem prestar og aðrir hafa látið út úr sér opinberlega að umtalsefni. Skilst mér að slík vinnubrögð séu stundum stunduð í háskólum og öðrum menntastofnunum. Svo eiga nokkrir aðilar innan Vantrúar það til að ræða beint við annað fólk. Það er tekið uppá teip og birt á vefritinu undir Sunnudagaskólinn.

Vantrú var meira segja með kynningu á félaginu í Guðfræðideild Háskóla Íslands. Færri komust að en vildu og talsmenn Vantrúar voru meira að segja tilbúnir til að svara spurningum og spjalla við gesti. Hverjir létu sjá sig til að spurja félagsmenn spjörunum úr? Að minnsta kosti ekki Bjarni Randver Sigurvinsson, því hann þorir ekki að tala við okkur. Hann fer aðrar, undarlegri og undirförulli leiðir, og það mun svosum ekkert koma á óvart - miðað við vinnubrögðin sem maður hefur séð eftir hann hingað til - að hann muni róta í ruslatunnum félagsmanna Vantrúar í veikri von um einhvern svakalegan skít og óþverra. Verði honum og vinum hans að góðu.

Vantrúin stendur keik þegar þessi verk eru rædd enda eru aðferðir okkar engin myrkraverk. Við erum stolt af því að nota heiðarlegri aðferðir en prestarnir til að ná til fólks. Okkar verk þola dagsljósið vel. #

Matthías Ásgeirsson velti fyrir sér miðborgartrúboða Reykjavíkurborgar, en lagt var til fyrr á þessu ári að hætta að greiða rúmar 5 milljónir á ári fyrir hálft starf miðborgarprests. Vitaskuld var þessi tillaga felld.

Það hefur oft vakið furðu okkar hér á Vantrú hvað borgin hefur sett mikið fé í ríkiskirkjuna og félög henni tengd. Þannig hefur borgin styrkt sumarbúðir ríkiskirkjunnar um milljónatugi og KFUM/K hafa einnig fengið verulega styrki frá borgarbúum. Duga milljarðarnir frá skattgreiðendum virkilega ekki?

Í Englar guðs og mannfyrirlitning gerir Trausti Freyr pistil Davíðs Þór að umtalsefni. Í pistlinum er Davíð Þór að kryfja einhverja skrítlu á guðfræðilegan hátt og reynir að finna einhvern boðskap í skrítlunni:

Boðskapur skrítlunnar er sem sagt þessi: ef þú, lesandi góður, gerir eitthvað gott og aðdáunarvert þá er það ekki vegna þess að þú ert góð mannvera heldur er það góði guð sem á heiðurinn að því verki. Ef þú hins vegar gerir eitthvað slæmt þá er það af því að þú ert fæddur skíthæll.

Tinna Gunnarsdóttir Gígja greindi frá miklum harmleik í Borgarfirði er séra Elínborg Sturludóttir tók við sókninni í Stafholtsprestakalli. Henni var lofað íbúðarhúsi og hvaðeina. En sökum viðhaldsleysis á húsakostum sóknarprestsins var hún hálfneydd til að búa í hinni sæmilegustu íbúð um stundarsakir meðan verið væri að vinna í húsamálunum. Heldur verri voru nú fréttirnar af áhyggjum nokkurra presta af peningamálum biskups Íslands, okkar minnsti bróðir.

ABC-barnahjálpin eru hjálpar- og trúboðasamtök sem Reynir Harðarson gerir ágæt skil í greininni Skólar í trúboði og þá undarlegu klemmu sem skólinn og þessi samtök koma sumum foreldrum og börnum í.

Skólinn og ABC gera ráð fyrir samþykki foreldra nema þeir hafi fyrir því að senda börnin með bann við þátttöku í skólann. Kynningin fer fram án samráðs við foreldra og þeir settir í þá stöðu að útskýra fyrir barni sínu af hverju barninu er bannað að hjálpa börnum! Og börnunum er svo falið að gera skólanum grein fyrir banninu.

Einnig má benda á greinina ABC Barnahjálp Æ - Ö eftir sama höfund. Lesendur og landsmenn verða að gera sér grein fyrir því að þetta er einn þáttur í þeirri trúarinnrætingu sem á sér stað í ansi mörgum skólum. Valgarður Guðjónsson gerir einnig ABC-barnahjálpina að umræðuefni í Trúboðssöfnun:

Ég velti líka fyrir mér hvers vegna verið er að tengja saman trúboð og hjálparstarf. Væri það ekki einmitt meira í anda kristninnar að hjálpa nafnlaust og nánast úr felum?

Nýbúar og trúboðskennsla er stuttur pistill eftir BZ sem bendir á fáránleika þess að eigna nýbúum og niðjum þeirra einhverjar annarlegar hvatir er kemur að trúboði í skólum:

En þar sem sem annað foreldri mitt er frá múslímsku landi þá er andúð mín á trúarinnrætingu kristinna í leik- og grunnskólum iðulega skrifuð á þennan uppruna minn.

Snemma í mars birtist greinin Biblían: Vindhani kristninnar eftir Kristinn Theódórsson. Hann útlistar meðal annars ágætlega að hvaða kristni einstaklingur sem er getur auðveldlega túlkað nær hvað sem er úr Biblíunni til að styðja sínar skoðanir:

Biblían er þó augljóslega ekki orð guðs, og ekki aðeins af því að guð er ekki til, heldur af því að það er ekki hægt að lesa biblíuna án þess að túlka merkingu hennar eftir eigin skilningi á hlutunum og þá eru orðin mikið til orðin orð lesandans, en ekki orð guðs.

Sem felst að mestu í því að:

[...] eigna alltaf guði það sem gott þykir, en skrifa allt annað á frjálsan vilja mannsins. Þannig má alltaf færa ábyrgðina til og frá, eins og perlur á reiknitöflu, þangað til allar heppilegu perlurnar eru öðru megin, en þær óheppilegu hinum megin.

Kristinn þarf til dæmis enga svona drasl-hækju til að tala um trúleysið sitt, hann notar bara þekkingu og skynsemi.

Hjalti Rúnar Ómarsson veltir fyrir sér bókstafstrú á biblíudegi og annað rugl sem haft er eftir Gunnar Jóhannesson, prest.

Þessi trú hans á fullkomleika og áreiðanleika biblíunnar vekur margar spurningar. Er biblían ekki skeikul þegar höfundar rita í Nýja testamentinu segja að heimsendir sé rétt ókominn? Ég efast um að Gunnar eigi eftir að geta varið þennan óskeikulleika án þess að hann útvatni skilgreininguna á óskeikulleika þannig að hún verði eitthvað í líkingu við biblían er óskeikul þegar hún boðar eitthvað sem er ekki augljós vitleysa.

Birgir Baldursson spyr nokkurra spurninga er varðar að einhverju leyti siðvit samfélagsins:

Af hverju ætti nokkur lifandi maður að leggja eyrun við þegar leikmaður ætlar að úttala sig um siðferði? Eru ekki siðfræðingar og jafnvel guðfræðingar okkar helsta átorítet í þeim efnum? Er eitthvað að græða á trúlausum götustrák þegar kemur að þessum merka málaflokki?

Fólki hlýtur nú að vera sjálfsvald sett hvort það reynir svara þessum spurningum, er það ekki? Svo er eflaust hægt að bæta við fleiri spurningum. Einsog til dæmis einni klassískri: Er trúleysi ekki bara trú? Nei.

[II. hluti] [III. hluti] [IV. hluti] [V. hluti]

Þórður Ingvarsson 31.12.2010
Flokkað undir: ( Leiðari )

Viðbrögð


Jón Steinar - 01/01/11 08:11 #

Takk fyrir þessa upprifjun og gleðilgt nýtt ár með þökk fyrir framtak ykkar á liðnum árum. Það að þið séuð lærisissveinar Dawkins þýðir væntanlega að Vantrú er áhuaféla um lífræði eða hvað?


Þórður Ingvarsson (meðlimur í Vantrú) - 03/01/11 03:20 #

Þakka þér og gleðilegt nýtt ár sömuleiðis.

Það er nú töluverður fjöldi í þessu félagi sem hefur gríðarlegan áhuga á líffræði. Að því leytinu þá er þessi nafnbót ekkert fjarri lagi. :)

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.