Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Froðuspeki um kærleiksguðinn

Mjúkur og sætur kettlingur

Það eru rúm sjö ár síðan þetta vefrit var stofnað og síðan þá hef ég oft tekið þátt í rökræðum við trúmenn. Ein slík umræða átti sér stað um daginn í pistli sem séra Baldur Kristjánsson skrifaði í kjölfar yfirlýsinga um guð sem Stephen Hawking hefur gefið frá sér til að kynna nýjustu bók sína. Séra Baldur taldi að guðshugmyndin sem Hawking gengi út frá væri nú langt frá sinni eigin guðshugmynd og sagði þá m.a. "Guð er kærleikur".

Ég hef oft heyrt þessa setningu frá trúmönnum og ég hef aldrei fengið neina skýringu á henni. Í mínum huga er kærleikurinn eiginleiki sem við sem tegund erum nógu heppin að hafa fengið vegna þróunar. Það er ekkert sérstaklega dularfullt hvers vegna einstaklingar sem gátu fundið til væntumþykkju voru líklegri til þess að eignast afkvæmi sem sjálf eignuðust afkvæmi. Þannig náði eiginleikinn útbreiðslu.

En þar sem titil pistils séra Baldur var "Þjarmað að Guði!" ákvað ég að gera það. Ég reyndi, ásamt fleirum, að fá svör við nokkrum einföldum spurningum er vörðuðu guð Baldurs. Svör Baldurs voru fá og ómarkviss. Ég bjóst svosem við því enda hef ég reynslu af svona rökræðum. Trúmenn telja að hægt sé að koma með frasa eins og "Guð er kærleikur" og láta eins og að það hafi einhverja merkingu. Svo er ekki.

Ef guð er kærleikur hlýtur maður að spyrja hvort að hann sé þá bara einhvers konar myndlíking sem hafi í raun ekkert með guð Biblíunnar að gera. Er þetta guð algyðistrúarinnar? Hafði þessi guð yfirhöfuð eitthvað með sköpun heimsins eða mannsins að gera? Er til einhvers konar framhaldslíf í boði þessa guðs?

Ef sá sem segir að guð sé kærleikur getur ekki svarað einföldum spurningum um eðli guðsins sem hann þykist þekkja þá hljótum við að komast að þeirri niðurstöðu að hann sé einungis að tala í innantómum frösum. Svona frasar eiga að gefa til kynna dýpt en er best lýst sem froðu.

Óli Gneisti Sóleyjarson 10.09.2010
Flokkað undir: ( Rökin gegn guði )

Viðbrögð


Guðlaugur Örn (meðlimur í Vantrú) - 10/09/10 10:28 #

Ég spurði Baldur 3.september:

Skapaði guð manninn? Skapaði guð heiminn?

Hann hefur ekki svarað því enn... kannski hann vilji svara því hér (því ég veit hann er að lesa þetta)?


Siggeir F. Ævarsson (meðlimur í Vantrú) - 10/09/10 12:13 #

Guð virðist hægt en örugglega vera að leysast upp í froðu, sem er vel.


Baldur Kr - 12/09/10 19:56 #

Sæll Guðlaugur Örn. Fyrirgefðu að ég hef ekki svarað þér. Ein svartilraun er þessi: Guð er ávöxtur af og svar við trúarþörf mannsins. Hvort hann er til eða ekki verður alltaf trúarlegt atriði. Það fer svolítið eftir því hvernig ég er stemmdur með hvaða hætti mér finnst hann vera til. Framhaldslíf: Hver veit nema að það sé til með þeim hætti sem við getum ekki ímyndað okkur. En það er eins og með Guð- það veltur á trú (og hver veit nema að trú hvers og eins raungerist í dauðanum). Er þetta nógu skýrt?! kv. B


Jon Steinar - 18/09/10 22:40 #

Taladni um froðu...:D

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.