Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Annáll 2010 : V af V

Landslag

[I. hluti] [II. hluti] [III. hluti] [IV. hluti]

Miðað við hvernig málflutningur og framkoma ríkiskirkjunnar hafði verið þetta haust þá hefði það ekki átt að koma mikið á óvart að kirkjan leitaði núna í nóvember ráða hjá fagaðilum í almanatenglum við að miðla rétt málum og tala til fólksins, bæta ímynd ríkiskirkjunnar. Leitað var til KOM - almanatengla, en þar er reynsluríkt fólk sem geta rætt málin.

En við komumst þó ekki hjá því að spurja; Af hverju þarf ríkiskirkjan almannatengla? Til hvers að eyða einhverjum milljónum í að reyna líta vel út? Er hennar ekki vegurinn, sannleikurinn og lífið? Hefði sá aur ekki verið betur varið í bókhaldara?

Hér er ráðlegging til kirkjunnar sem gæti bætt ímyndina ykkar og þetta ráð er frítt nú sem endranær:

Segið bara satt. Hættið þessum ýkjum og siðlausu lygum. Ef þið viljið fá nánari útlistun á þessum hugtökum, þá skuluð ekki leita í guðfræðibækurnar, kíkið í orðabækurnar.

Hvort við höfum einhverja ágætis ráðleggingu fyrir Gunnar og Jónínu í Krossinum, það er nú annað mál. Þau hefðu átt að prófa að þegja. En Gunnar í Krossinum var gefið það að sök að hafa beitt þónokkrar konur í Krossinum kynferðislegu ofbeldi, þ.m.t. systur þáverandi konu sína.

Í stað þess að játa, iðrast og gera yfirbót, eins og siðurinn býður, eða bjóða hina kinnina, hefur Gunnar gripið til þess ráðs að ráðast á þær konur sem telja sig þolendur brota hans og sverta mannorð þeirra.

Þetta gerði hann í hinum fúla anda Ólafs Skúlassonar. Hann neitaði öllum sökum og spólaði svo í þær. Versta. Taktík. Ever. Fyrst hann gerði það þá fóru fleiri í Krossinum að gera það sama og fremst í flokki var Jónína Ben sem fór að gera það sem hún gerir best; að úthúða, svívirða og skíta uppá bak.

Þau hjúin voru ansi lengi að átta sig að aðdróttanir og hótanir virka ekki lengur í svona málum og kannski var það ekki fyrr en einn stjórnmaður í Krossinum sagði sig frá stjórninni í kjölfarið á útspili Jónínu Ben að kalla talskonu kvennana, sem ásaka Gunnar um kynferðisbrot, "druslu" og þaðan af verra, að þau sáu af sér. Hún baðst þó afsökunar á þessum ummælum sínum, en hversu mikið gagn það gerir miðað við þann sóðakjaft sem hún viðhafði, er ekki gott að segja. Með öðrum orðum: hvort það hafi ekki verið fullseint í rassinn gripið.

En það voru fleiri fréttir um kynferðisleg ofbeldi í kristnum söfnuðum þetta árið:

Kynferðislegt ofbeldi er ítrekað og skipulega þaggað niður í kristnum söfnuðum. Í gær var sagt frá kristnu siðferði Votta Jehóva. Hér eru svo viðtöl við tvær konur úr söfnuðinum: Malín Brand og Elfa Lind Berudóttir

Kosið var til stjórnlagaþings í vetur. 520 buðu sig fram, 25 komust áfram. Það ætti ekki að koma lesendum á óvart en helsta málið sem við viljum sjá gerast á þessu stjórnlagaþingi er aðskilnaður ríkis og kirkju, að þetta samband verði endanlega rofið og að öll dómsdagsþvæla og trúverndarlög verði skoluð úr íslenskri löggjöf, reglugerðum og stjórnsýslu. Að eilífu. Amen.

Allt rugl um að þetta sé eitthvað flókið ferli er akkúrat það, bara rugl. Að við verðum að halda í hefðirnar og hluti af okkar íslensku hefð er ríkiskirkja, er einnig algjört rugl. Hér verður ekkert almennilegt jafnrétti og trúfrelsi fyrr skorið verður á þessi óeðlilegu tengsl.

Því miður fyrir fólk sem vonaðist eftir réttsýnu og réttlátu fólki á stjórnlagaþingið þá komst Örn Bárður Jónsson inn. Vonandi að þessi óheiðarlegi ríkiskirkjuprestur eigi ekki eftir að sjanghæja umræðuna um aðskilnað með einhverjum lúalegum fantabrögðum.

Kannanir hafa sýnt ár eftir ár í að verða 17 ár að meirihluti landsmanna vilja fullan aðskilnað ríkis og kirkju og það ekki seinna en 1944. Engu breytir þó að meirihluti landsmanna séu skráð í ríkiskirkjunna enda hafði ríkiskirkjan það forskot að nær öll þjóðin var skráð í þetta apparat frá stofnun þess og lög hafa verið sniðin sérstaklega til þess að viðhalda þessu fyrirkomulagi t.d. með sjálfkrafa skráningu barna í trúfélags móður og þessi glæpsamlegi samningur ríkis og kirkju frá 1997. Þó ástandið hér sé ekkert einsdæmi þá verðum við að breyta þessu. Finnar eru meira segja pirraðir á lúthersku evangelísku kirkjunni þar:

Hin kristilegu gildi kirkjunnar víða um heim virðast orðið í síauknu mæli felast í þrjóskri íhaldsemi, mismununaráráttu og dulbúinni mannvonsku. Enda byggir þetta allt saman á úreltri skruddu sem fyrir löngu er kominn fram yfir síðasta söludag.

Við hvetjum alla sem hafa ekki enn látið verða af því að leiðrétta trúfélagsskráningu sína, það er lítið mál og tekur enga stund. Það er einnig hægt að gera það rafrænt. Munið bara eftir að gera það fyrir 1. desember nk. og þó þið hafið nægan tíma þá er bara miklu betra að gera þetta sem fyrst. Þið sem skráið ykkur utan trúfélaga greiðið í ríkissjóð og getið þá hugsanlega sparað ríkinu um nokkrar milljónir annars fara sóknargjöldin í trúfélag að eigin vali.

En vindum okkur aftur í nokkrar greinar. Birgir Baldursson velti fyrir sér hið sanna klám:

Sé maður ónæmur fyrir boðskap preláta í hvítasunnusöfnuðum, stendur eftir hegðun sem er algerlega út í hött. Sama gildir um altarisgöngur, fermingar, skírnir og jafnvel jarðarfarir. Fáránleiki trúarástundunar verður sýnilegur þeim sem ekki er næmur fyrir skilaboðunum á nákvæmlega sama hátt og dans verður asnalegur þegar tónlistin heyrist ekki.

Hjalti Rúnar Ómarsson er mikill áhugamaður um starfsemi kirkjunnar. Hann skoðaði kirkjuþingið í vantrúarljósi. Þarna voru stór mál, peningamál, aðskilnaðarmál, skólamál og almanatengslamál rædd í ljósi krists, og að sjálfsögðu er verið að vinna í einhverri glansmynd:

Þegar ég fer yfir þessi mál, þá blasir við mér mynd af kirkjunni sem hún vill ekki að aðrir hafi af sér. Kirkjan er mjög upptekin af peningum, hefur áhyggjur af úrsögnum úr kirkjunni, vill gjarnan komast í snertingu við hugi barna og hefur áhyggjur af þeirri mynd sem fólk hefur af henni, og vill eyða miklu í að breyta því.

Af hverju eftirlíf? Ketill Jóelsson veltir því aðeins fyrir sér í stuttri hugvekju:

Ég trúi ekki á eftirlíf. Þegar ég dey er ég allur. Ég hef þetta eina líf til þess að láta gott af mér leiða. Þannig lifi ég áfram, í minningum afkomenda, ættingja og vina, sem munu vonandi minnast mín sómasamlega.

Kristján Lindberg bendir á að það er ekki til neitt sem heitir "ókeypis prestur", en haft var eftir Báru Friðriksdóttur þegar hún skrifaði grein er tengdist að sjálfsögðu tillögu Mannréttindanefndar Reykjavíkur að "það þarf ekkert að borga prestinum í núverandi skipulagi sem þarf að gera séu aðrir fagaðilar kallaðir til". Þetta bull hrekur Kristján og Iðunn nokkur neglir þetta:

Sálfræðiþjónusta við skóla er lögboðin og ekki þarf að greiða aukalega fyrir þjónustu sálfræðings td í kjölfar áfalla.#

Og það voru fleiri vanvitar sem vildu bregðast við tillögu Mannréttindaráðs Reykjavíkur á einhvern hátt, t.d. kom fáránleg tillaga Árna Johnsen og félaga á Alþingi sem Egill Óskarsson greindi frá. En sú arfavitlausa tillaga felst beinlínis í því að gera kristni hærra undir höfði í grunnskólum. Svona einsog að "kristileg arfleifð íslenskrar menningar" í aðalnámskrá sé ekki nóg.

Þingsályktunartillagan sjálf er algjör froða sem erfitt er að sjá einhverja merkingu úr. Reyndar er merkilegt að hún fjallar ekkert um mikilvægi fræðslu um önnur trúarbrögð og lífsviðhorf heldur er eingöngu bent á kristnu arfleiðina í grunnskólalögunum og alþingi á að álykta að mikilvægt sé að vel sé staðið að fræðslu um hinn kristna menningararf. S.s. algjörlega innihaldslaust þvaður í ljósi þess að þetta er eitthvað sem skólar gera nú þegar.

Aðventuhugvekja Birgis Baldurssonar fjallaði að mestu um drottnun og þá furðulegu þörf veikgeðja einstaklinga að láta drottna yfir sér.

Áskorun mín er þessi: Eigum við ekki öll, sér í lagi þau sem finna sig fangin í faðmi drottnara af einhveru tagi, að nota þessa aðventu til að losa sig úr þeim viðjum? Eigum við ekki að stefna að því öll að mæta jólunum sem frjálsir einstaklingar og án lotningar fyrir hvers kyns yfirvaldi? Eigum við það ekki öll inni hjá mönnum á borð við Gunnar í Krossinum að vald þeirra sé frá þeim tekið í eitt skipti fyrir öll?

Styrmir Reynisson spyr hvort prestar vinna við að segja ósatt. Já, það gera þeir.

Þegar ég komst til örlítils vits, svona um það bil 10 ára, fór ég að spyrja óþægilegra spurninga. Hélt presturinn að einhver mundi trúa því að Nói hefði verið 600 ára þegar hann smíðað þessa örk? Hvernig varð þriðja kynslóð manna til á eftir Adam og Evu? Af hverju lét Jesú ekki bara sleppa því að krossfesta sig fyrst hann gat bara allt? Hvers vegna þurfti að krossfesta Jesú? Af hverju ekki bara fyrirgefa syndir mannfórnalaust?

Andrea Gunnarsdóttir er draumóramanneskja og vill sjá breytingar á samfélaginu. "Sér í lagi hvað varðar trúmál." Í greininni Draumasamfélagið? bendir hún á eina ágætis lausn:

Sekúlarismi í opinberum stofnunum eins og trúboðsleysi í leik- og grunnskólum leiðir til hlutlausra skóla, sem leiðir til umburðarlyndis í garð samferðamanna fólks, sem leiðir til fordómaleysis í garð trúarbragða og þeirra sem iðka engin trúarbrögð. Þannig geta öll dýrin í skóginum verið vinir, því að trúarbrögð þurfa ekki að hafa nein áhrif á gang mála frekar en skoðanir manna á engifer og myntu.

Siggeir F. Ævarsson spurði í desember: Af hverju trúir þú ekki á jólasveininn? Það er ýmislegt sem jólasveinninn (eða -sveinar) á sameiginlegt með annarri veru; hann er alsjáandi, því sem næst almáttugur og algóður, en hann mismunar börnum á þann hátt hvort þau hafi verið góð eða vond þetta árið.

Ég hef líklega verið 9 ára gamall þegar ég horfðist loks í augu við þá staðreynd að holurnar í sögunni um jólaveininn voru of margar og of stórar til að halda vatni. Jólasveininn er ekkert nema ímynduð vera, stjórntæki sköpuð af samfélaginu til að beita okkur félagslegu taumhaldi og tryggja að við högum okkur vel. Kunnulegt stef, ekki satt?

Fjalar Freyr Einarsson er grunnskólakennari. Að mati Egils Óskarssonar þá skrifaði hann grein í Fréttablaðið á fölskum forsendum, en Fjalar minnist ekkert á það að hann er einnig forseti Gídeon-félagsins.

En allt skilur þetta eftir sig stóra spurningu: af hverju kemur formaður Gídeonfélagsins á Íslandi, félags sem á mikilla hagsmuna að gæta í þessari umræðu, ekki hreint fram? Af hverju þessi feluleikur? Er Fjalar ef til vill hræddur um að orð hans hafi minna vægi þegar fólk veit hvaða hagsmuna hann hefur að gæta?

Hvað á Taimour Abdulwahab sameiginlegt með manni einsog mér? Nú, hann var víst öfgamaður eins og ég. Óli Gneisti Sóleyjarsson bendir á það gríðarlega misræmi sem felst í því að að kalla fólk sem boðar og beitir ofbeldi og sjálfsmorðssprengjuárásir og svo okkur í Vantrú "öfgamenn":

Öfgar mínar eru nefnilega fyrst og fremst að nota tjáningarfrelsi mitt til gagnrýna skoðanir annarra og hvetja til trúfrelsis og jafnréttis. Hver hugsandi maður ætti líka að sjá að ég á ekkert sameiginlegt með þeim öfgum sem Taimour Abdulwahab var gagnrýndur fyrir. Það er hrein og bein gengisfelling orðsins öfgar þegar því er beint að mér og mínum friðelskandi félögum í Vantrú og er þá fyrst og fremst merki um vitsmunalegt gjaldþrot þess sem notar orðið á þann hátt.

Guðmundur D. Haraldsson bendir á í greininni Ríkiskirkjan: Fara prestar eftir því sem þeir predika? á þá augljósu siðferðisbresti og mótsagnir í málflutningi kirkjunnar þegar þeir ræða um aðskilnað ríkis og kirkju, segjast vilja stuðla „samtali, umburðarlyndi, virðingu fyrir manngildinu og lotningu fyrir lífi“ og boða "að græðgi og efnishyggja sé af hinu slæma":

Þeir tala um að kirkjan sé aðskilin ríkinu með lögum, hún sé óháð ríkinu, en á milli kirkjunnar og ríkisins séu í gildi samningar. Samningar þessir réttlæta að þeirra sögn sérstakar greiðslur til kirkjunnar sem aðrir söfnuðir fá ekki. Afvegleiðingin felst í því að hunsa algerlega þá staðreynd að kirkjan eignaðist þessar eignir á vafasaman hátt, eins og fjallað hefur verið um hér. Hún felst líka í því að ef þessar greiðslur eru arður af kirkjujörðunum, þarf þessi arður að vera nokkuð mikill – sem er ósennilegt. Þessi mál þarf að ræða, í samræmi við það „samtal“ sem kirkjan boðar, en ekki snúa út úr umræðunni.

Það er nefnilega óneitanlega skondið að þegar talið berst að buddum prestana, þá er hlaupið upp til handa og fóta.

Guð sem MacGuffin er stuttur pistill eftir Valgarð Guðjónsson og bendir á tilgangsleysi einhvers guðs, enda auðvelt að skipta þessu fyrirbrigði út fyrir eitthvað annað.

Hitchcock (og fleiri) skilgreindi MacGuffin í bíómyndum (og sögum) sem eitthvert óskilgreint atriði sem sagan snérist um og allir væru að eltast við, en það skipti í rauninni engu máli hvert atriðið var, hálsmen í glæpasögu eða leyniskjöl í njósnasögu. Söguþráðurinn hefði í sjálfu sér ekkert með atriðið að gera og má auðveldlega skipta því út án þess að það breyti nokkru um söguna.

Meðan við birtum bara ræðu eftir Robert G. Ingerssol þá fékk stór hluti þjóðarinnar heldur leiðindaviðmót frá ríkiskirkjunni um jólin sem Frelsarinn gerði ágæt skil í pistlinum Gullkálfurinn baular á jólanótt! og benti á tvær jólapredikarnir sem fluttar voru á jóladag.

Á Íslandi er að verða til lútersk ríkiskirkjuklíka sem veður yfir allt og alla á skítugum skónum. Þar er hnefaréttur þess sterka réttlættur með helfalskri barnatrúfélagaskráningu í Þjóðskránni. Allt svo að gráhærðu strákarnir í ríkiskirkjunni með guðfræðipróf fái laun og megi gera það sem þá langar við skattfé og eigur almennings. Svo langt hefur þessi klíka gengið að ríkiskirkjan reyndi að stjórna lýðræðislegum kosningunum til stjórnlagaþings. Engri annarri ríkisstofnun eða ríkisforstjóra dettur slíkt siðleysi og ólýðræðisleg hegðun í hug. Hugsið ykkur ef forsetinn hefði útbúið sérstakan lista til að tryggja sína stöðu á stjórnlagaþinginu. Þetta jaðrar við valdarán, löglegt en siðlaust.

III

Íslenska húmanistafélagið Siðmennt hélt uppá 20 ára starfsafmælið sitt í fyrra og efndi til málþings um veraldlegt samfélag - gildi þess og framtíð. Við og fleiri óskuðum félaginu til hamingju með þennan árangur. En þó fékk félagið kaldar kveðjur frá kirkjunni.

Mótmæli voru við Hallgrímskirkju í allt sumar. Efast var á kránni nær allt árið. Ríkisrekið trúfélag var þá og er enn tímaskekkja en framtíðin,hvað það varðar, er nokkuð björt.

Við vísuðum í nokkur myndbönd á árinu og ég má til með að benda á þær athyglisverðustu.

Hið heilaga Ísland er stutt heimildarmynd Samúels Þórs Smárasonar og var auk þess útskriftarverkefni hans frá fjölmiðlatæknibraut Borgarholtsskóla. Heimildarmyndin fjallar um sambands ríkis og kirkju.

Christopher Hitchens greindist með krabbamein þetta ár sem hann ræðir um í opinskáu viðtali hjá CNN. Við bentum einnig á heimildarþáttinn hans Engill helvítis sem fjallar um móður Teresu og þann skúrk sem hún hafði að geyma.

Ekki vera asni eða "Don't be a dick" er fyrirlestur eftir Phil Plait sem fjallar um hvað trúleysingjar geta verið miklir dóna á internetinu og heimfærir það yfir á veruleikan. Plait er sjálfur trúlaus, en honum finnst hvimleitt að lesa umræður á netinu sem innihalda gífuyrði og uppnefni. PZ Meyers svarar þessum fyrirlestri nokkuð vel í greininni The Dick Delusion

Richard Dawkins hélt þrumuræðu af tilefni komu Joseph Ratzinger (betur þekktur sem helvítis páfinn) til Bretlands núna í september.

Svo bentum við á myndband sem mætti líta á sem kynningu á gagnrýnni hugsun og einnig vísuðum við í vídjó sem "útlistar og útskýrir" samhengið í biblí.

IV

Já, þetta var sirka allt árið hér á Vantrú. Áður en ég lýk þessari yfirferð ætla ég aðeins að stikla á einu málefni sem ég á það til að furða mig á: Ríkiskirkjan.

Það er einkennilega lunda hjá lúthersk-evangelískum prestum ríkiskirkju Íslands að viðurkenna ekki eða neita því alfarið að hér á Íslandi sé ríkiskirkja. Það er talið uppnefni og jafnvel móðgun að segja að hin "biðjandi, boðandi og þjónandi þjóðkirkja" sé ríkiskirkja. Eflaust er þetta tekið sérstaklega fram í guðfræðideildinni að þetta sé háðungsleg meinyrði, og þannig lesa þeir það í hvert sinn sem orðið er notað, jafnvel þó notast er við frekar almenna og hlutlæga skýringu. Engu skiptir samhengið og hver segir það. Ríkiskirkja er eflaust bara orðið jafnt og ofbeldið sem trúboðið er. En burtséð frá því hvað starfsmenn stofnuninnar segja, þá er hún samt sem áður ríkiskirkja.

Hún byggir alla sína afkomu á fjársýslu ríkisins og er tryggð allskyns opinber réttindi frá ríkinu sökum þess og einungis að hin lúthersk-evangelíska kirkjudeild á Íslandi er sérstaklega vernduð í stjórnarskránni og skal "ríkið að því leytinu vernda hana og styðja". Ekkert guðfræðilegt og póstmódernískt orðasalat getur sannfært sæmilega skynsamt fólk að Þjóðkirkja Íslands sé ekki ríkiskirkja þegar það gerist ekki skýrara en henni sé getið í stjórnarskrá lýðveldisins. Þegar prestar segja að kirkjan sé "sjálfstæð frá ríkinu" þá er það einmitt eitt innihaldið í þessu rotna orðasalati sem borið er á borð þjóðarinnar.

Á Íslandi er ríkiskirkja. Þetta vita flest allir þó sumir vilja ekki viðurkenna það. Í meira en 100 ár hefur þjóðfélagið verið skikkað til að borga ríkiskirkjunni ákveðna upphæð á hverju ári. Af hverju? Því einhverjar örfáir gaurar á fámennri eyju ákvaðu það fyrir þúsund árum síðan að þessi þjóð yrði kristinn. Vá. Verstu. Rök. Í heimi.

Þessi upphæð sem ríkiskirkjan á rétt á frá ríkinu er reiknuð útfrá einhverjum ímynduðum arði af ómetnum jörðum sem talið er vera 17 þúsund milljarða króna virði(!). Auk þess fær kirkjan sóknargjöld frá rúmlega 80% þjóðarinnar. Svo einhver önnur aukagjöld og nefskatt og ýmsar aukasporslur úr ríkisstyrkjum, fjársterkum bakhjörlum og velunnurum. En munið samt að sóknir landsins verða að standa skil á ársreikningum til Ríkisendurskoðunar.

Opinberir starfsmenn þess hafa svo tekið að sér að leggja einhverjar línur í siðferðislegum, kynferðislegum og jafnvel fjárhagslegum efnum. En hafa sýnt og sannað undanfarin ár hvað þeir geta verið brenglaðir þegar það kemur að þessum málefnum og verða fljótt gjaldþrota þegar innt er á eftir einhverjum almennilegum skýringum þegar þessi mál virðast vera í uppnámi hjá kirkjunni.

Og þessi sömu 100 ár hefur umræða verið um aðskilnað ríkis og kirkju. Áherslurnar og áhuginn á umræðunni hafa verið misjafnar þessa öld sem við höfum haft bona fide ríkiskirkju. En krafan hefur verið og er skýr og hefur aldrei verið jafn háværri en nú: Fullur aðskilnaður ríkis og kirkju.

Við í Vantrú munum halda áfram að hamra á þessu andlega beyglaða hafti lýðræðis og mannréttinda. Það er óeðlilegt og eiginlega bara skaðlegt samfélaginu að einhver dómsdagsþvæla og dauði og rugl þvælist svona fyrir í stjórnsýslu, skólakerfi og annarri opinberri starfsemi. Við munum alveg reyna spara stóru orðin - nema sá stíll eigi við. En það er óhjákvæmilegt að fullur aðskilnaður ríkis og kirkju verði að veruleika. Við fullyrðum að það verður alveg gríðarlegt framfaraskref fyrir þjóðfélagið og mun vera veigamikill þáttur í að færa þetta litla land á skynsamlega, sátta og jarðbundna braut.

Burt með báknið.

[I. hluti] [II. hluti] [III. hluti] [IV. hluti]

Þórður Ingvarsson 11.01.2011
Flokkað undir: ( Leiðari )

Viðbrögð

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.