Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Stjórnlagaþing fundar í Valhöll

Ef það bærist frétt af því að stjórnlagaþingmenn ætluðu að funda í húsnæði Sjálfstæðisflokksins myndi það væntanlega vekja mjög neikvæð viðbrögð. Sömu sögu er hægt að segja ef LÍÚ myndi skaffa ókeypis húsnæði fyrir fundarhöld. Það er mjög augljóst að þetta væri óviðeigandi enda er þarna um aðila sem hafa ríkra hagsmuna að gæta þegar kemur að störfum stjórnlagaþings.

Nú berast fréttir af því að stjórnlagaþingmenn séu að hittast í safnaðarheimili ríkiskirkjunnar. Það eru fáar stofnanir sem hafa meiri hagsmuna að gæta þegar kemur að niðurstöðum stjórnlagaþings heldur en kirkjan. Við sáum í kosningabaráttunni hvernig þessi ríkisstofnun reyndi að hafa áhrif á umræðuna með því að taka til gögn um afstöðu frambjóðenda til aðskilnaðar ríkis og kirkju. Færri áttuðu sig á því hvernig einn frambjóðandi fékk konunglega meðferð hjá útgáfufélagi kirkjunnar í gegnum kynningar á bók sinni um Þjóðgildin. Allt fullkomlega óviðeigandi.

Það er reyndar illskiljanlegt hvers vegna ekki var tekið fyrir framboð starfsmanna Þjóðkirkjunnar til stjórnlagaþings. Öllum hlýtur að vera ljóst að prestur sem situr þar er bullandi vanhæfur enda er þar um ræða beina fjárhagslega hagsmuni hans og yfirmanns að ræða. Ef Örn Bárður Jónsson hefur einhverja sómakennd mun hann að sjálfsögðu víkja sæti þegar þessi mál koma til umræðu.

Silja Bára Ómarsdóttir gerir vel þegar hún bendir á hve óviðeigandi fundarhöld stjórnlagaþingmanna í húsnæði kirkjunnar er. Það er í raun skrýtið að það þurfi að taka þetta fram. Það væri vandfundinn sá stjórnlagaþingmaður sem hefði ekki mótmælt því að fundað yrði í húsnæði LÍÚ eða Sjálfstæðisflokksins, hverjar sem skoðanir þess þingmanns væru, en það virðist vera einhver skringileg blinda á ferðinni þegar kemur að málum kirkjunnar. Vonandi ná mótmæli Silju Báru að opna augu þeirra sem ekki sjá.

Óli Gneisti Sóleyjarson 14.12.2010
Flokkað undir: ( Stjórnmál og trú )

Viðbrögð


Halldór L. - 14/12/10 10:07 #

Ef að Örn Bárður hefði sómatilfinningu myndi hann flytja úr landi. Sómi hans hingað til virðist felast í því að níðast á minna megandi og ljúga upp á fólk, ef ekki almennt.

Það er móðgun við stjórnarskrána að hafa hann þarna.


Andri - 14/12/10 10:46 #

Ég held það komi málinu ekkert við hvar þessi fundur var haldinn. Þetta er bara bull í ykkur. Ég hefði ekkert séð athugavert við það heldur ef þetta hefði verið haldið í Ásatrúarfélaginu eða í Vantrú ef það hefði verið laus aðstaða þar. Líklegasti staðurinn sem presturinn getur boðið upp á er væntanlega vinnustaðurinn hans. Starfsmaður Háskóla Íslands hefði hugsanlega getað boðið fólki upp á að koma þangað. Það er meira hvað það er hægt að væla yfir smáatriðum. Dettur einhverjum í alvöru í hug að einhver skipti um skoðun varðandi greinina sem fjallar um þjóðkirkjuna bara af því að fundur var haldinn í kirkju.

Það er reyndar líka hlægilegt að sjá ykkur kvarta yfir því að prestar megi bjóða sig fram eftir að hafa séð hversu margir vantrúaðir (veit svosem ekki hvort það var úr siðmennt eða vantrú) buðu sig fram, sem hafa líka greinilega augljósa hagsmuni.


gös - 14/12/10 10:57 #

Andri: Vantrúaðir hafa sterka skoðun á málinu, en ekki beina fjárhagslega hagsmuni (umfram aðra) ólíkt starfsmönnum Þjóðkirkjunnar.


Baldvin (meðlimur í Vantrú) - 14/12/10 11:04 #

Hvaða hagsmuni hafa vantrúaðir í þessu máli, umfram fólk almennt, bara?

Geturðu nefnt dæmi um trúleysingja sem hefur fleiri hundruð þúsunda í laun á mánuði fyrir að halda úti skoðunum sínum?

Geturðu nefnt stofnun sem rekin er utan um trúleysi sem er sérstaklega vernduð í stjórnarskrá og fær þúsundir milljóna úr sameiginlegum sjóðum á hverju ári?

Það að fólk hafi skoðanir er ekki það sama og að um hagsmunaárekstra sé að ræða, það hlýtur að gefa auga leið.


GH - 14/12/10 11:32 #

Algjörlega sammála færslu. Presturinn tók þarna ákveðna forystu og finnst greinilega ekkert ósvífið við það eða að bjóða kristilegt safnaðarheimili fram sem fundarstað. Ósvífið að því leytinu að stjórnlagaþing mun fjalla um hluti sem gætu einmitt komið illa við pyngju hans og hans líka. Mér skilst af mörgum að þetta sé hinn vænsti maður (á sínu sviði) en þetta var ákaflega óviðeigandi af honum.


Andri - 14/12/10 13:04 #

Æ búhú...

Þið vitið alveg jafn vel og ég að þetta hefur engin áhrif á skoðanir hinna stjórnlagaþingmannanna. Ef þetta fólk er svona ósátt þá hefði það nú bara átt að láta vita og stinga upp á öðrum stað. Ef fólk er svona flöktandi í skoðunum sínum að þær breytast við það eitt að koma inn í kirkju þá ætti það nú bara að segja af sér strax.

Ég er reyndar sjálfur ekkert hrifinn af því að ríkisvaldið borgi laun prestanna. Ég er kristinn, en finnst bara eðlilegt að Biblíulega leiðin sé farin, þ.e. að borga þetta með tíund og fórnum (sem ég hef þó heyrt trúleysingjana kvarta yfir líka... erfitt að gera sumum til hæfis). Þá borga þeir sem nýta þjónustuna.

Svo er ég ekkert sérstaklega hrifinn af því að hafa ríkiskirkju þar sem mér finnst ekki að ríkið eigi að geta skipt sér af málefnum kirkjunnar.

En mér finnst alveg eðlilegt að starfsmenn hins opinbera megi taka þátt í þessu, jafnt prestar sem aðrir.

Svo voru þetta líka bara kosningar og allir sem kusu presta vissu alveg hvað þeir voru að kjósa, þeir voru að kjósa að þjóðkirkjan yrði áfram ríkiskirkja, alveg eins og þeir sem kusu trúleysingjana voru að kjósa að þjóðkirkjan yrði ekki lengur ríkiskirkja.

Þið eruð bara hræddir um að tapa.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 14/12/10 13:21 #

Svo voru þetta líka bara kosningar og allir sem kusu presta vissu alveg hvað þeir voru að kjósa, þeir voru að kjósa að þjóðkirkjan yrði áfram ríkiskirkja, alveg eins og þeir sem kusu trúleysingjana voru að kjósa að þjóðkirkjan yrði ekki lengur ríkiskirkja.

Kosningarnar snerust víst um meira en bara þetta. Þó ég hafi vissulega farið eftir viðhorfum frambjóðenda til aðskilnaðar ríkis og kirkju er ekki víst að meirihluti kjósenda hafi gert það.

Þið eruð bara hræddir um að tapa.

Já! Er eitthvað að því? Mér þykir það ömurleg tilhugsun að við fáum hér nýja stjórnarskrá þar sem enn verður vísun í hina evangelísku lúthersku kirkju. Ég mun aldrei sætta mig við þá stjórnarskrá.


Andri - 14/12/10 13:30 #

Jájá þær snerust svosem um meira en þetta. En þetta mál var það áberandi að ég held að flestir hafa áttað sig á því.

Ef þeir hafa ekki áttað sig á því þá er þeim væntanlega alveg sama um þetta málefni.

Sjálfur held ég samt reyndar að þið vinnið gegn málstað ykkar. Þrátt fyrir að mér finnist allt í lagi þó þjóðkirkjan verði tekin úr stjórnarskránni þá vil ég ekki að það gerist á ykkar guðleysis forsendum... :/


Þórður Ingvarsson - 14/12/10 13:39 #

Þetta snýst um jafnrétti. Við erum ekki að óska eftir að ný stjórnarskrá innihaldi sérstakt ákvæði um trúleysi. Hættu þessu bulli.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 14/12/10 14:49 #

þá vil ég ekki að það gerist á ykkar guðleysis forsendum.

Hvaða forsendur eru það? Annað hvort er ákvæði um stuðning ríkis við hina evangelísku lúthersku kirkju í stjórnarskrá eða ekki.


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 14/12/10 15:01 #

Okkar hógværa afstaða er trúfrelsi og jafnrétti. Ef við hefðum einhverjar guðleysisforsendur þá myndum við væntanlega heimta að stjórnarskráin styddi guðleysi í landinu.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 14/12/10 15:38 #

Andri, fyrir ofan athugasemdarform kemur fram að við krefjumst þess að fólk noti gilt tölvupóstfang þegar það sendir inn athugaemd. Þetta gildir líka fyrir þig.


Hans - 14/12/10 17:33 #

Það er könnnun á vísi í gangi uM hvort það eigi að banna burkur á islandi.... hingað til hafa 82% sagt já !!!

HvaÐ finnst ykkur uM þetta á ekki bara að banna fólki að ganga í prestafötuM þar seM að það hefur slæM áhrif á börn , alveg eins og fólk vill Meina að burkur hafa slæM áhrif á konur.

Svo er líka hægt að banna bara öll trúarbrögð þar se það hefur slæM áhrif á heilann og frelsi fólks ??!!


Þórður Ingvarsson (meðlimur í Vantrú) - 14/12/10 17:56 #

Hvað ertu að reyna segja Hans? Að við styðjum við bann á búrkum? Að við teljum að öll vandamál heimsins megi leysa með því að banna hluti? Og hvað í andskotanum kemur búrkubann stjórnlagaþinginu við? Heldurðu að við séum að fara óska eftir því að öll trúartákn verði bönnuð? Um hvað ertu að tala?


Steindór - 14/12/10 18:07 #

Könnun á Vísi er ekki það sama og að fá skoðun þjóðarinnar. Þarna fékkst skoðun þeirra sem af einhverjum óskiljanlegum ástæðum lesa Vísi og ég veit ekki af því að það sé verið að ræða af einhverri alvöru að koma þessu í lög.

Það er ekki heldur verið að banna trúarbrögð, hér er verið að ræða um aðskilnað ríkis og kirkju, það eru enginn bönn sem fylgja því að ein stofnun þurfi að standa á eigin fótum fjárhagslega.


Frelsarinn (meðlimur í Vantrú) - 14/12/10 18:10 #

Ég tel að Ríkiskirkjan hafi gert grófustu aðför sem gerð hefur verið, frá stofnun lýðveldisins, að lýðræðinu í landinu með hátterni sínu í aðdraganda kosninga til stjórnalagaþings. Stofnanir ríkisins eiga ekki að stjórna kosningabaráttu eða standa í að smala sínu fólki á þing. Hvorki Biskup né hans dátar skilja að lýðræðið kemur frá fólkinu í landinu en ekki ofan af himni eða frá biskupstofunni á laugarveginum.


Halla Sverrisdóttir - 14/12/10 22:37 #

Að gefnu tilefni, vegna þess að bæði Hans og Þórður töluðu, að vísu óbeint, um búrkur sem trúartákn, vil ég minnast á það hér að búrkur eru EKKI birtingarmynd trúarbragða heldur birtingarmynd kvennakúgunar. Það er hvergi talað um það í neinu trúarriti að konum beri að hylja allan líkama sinn og andlitið, það er túlkun karla/klerkaveldisins í nokkrum ríkjum þar sem íslam er ríkjandi trú (einkum Afghanistan og sumum Afríkuríkjum) að hægt sé að finna því kúgunartæki stoð í Kóraninum. Hvort á að banna þær eða ekki er svo önnur umræða, en búrkur eru ekki hluti af neinni trúarhefð eða tjáning á persónulegri trúarsannfæringu heldur aðferð til að kúga konur. Bara svo það sé á hreinu.


Kristján (meðlimur vantrú) - 14/12/10 23:57 #

Þó ég sé ekki alveg sáttur að fundurinn hafi verið haldinn í sal kirkjunnar, myndi ég þó ekki endilega vera sáttur við að fundurinn væri í einhverjum sal Háskóla Íslands, þar sem þetta á að vera þing fólksins og það hefur þegar verið umræða um að þeir völdu hafi verið einhver ,,elíta". Samt sem áður Silja ,,respect".

Ég vil þó gefa Erni Bárði það credit að þó hann sé andstæðingur minn í málum trúar og ríkis, vil ég þó veita honum það að hann styður umræðuna um þetta. Ég til að mynda fór á málþing í Neskirkju þar sem fræðimaður ræddi um sögu ríkis og kirkju ásamt mögulegum lausnum um samböndum eða skort á þeim. Þar var gagnrýnin umræða (að vísu ekki margir þar) en samt sem áður jákvæð að mínu mati. Hann er alla vega að velta fram þessum möguleika þó hann taki auðvitað stöðu kirkjunnar, eins og ég og þið takið stöðu hins andstæða. Ég vildi sjá gagnrýni gagnvart honum eilítið málefnalegri.


Hjalti Rúnar Ómarsson (meðlimur í Vantrú) - 15/12/10 00:08 #

Halla, ef að það er túlkun einhverra karla/klerkaveldis á Kóraninum (og líklega sögum um Múhameð) að þar sé að finna stuðning við búrkur, þá eru búrkur hluti af trúarhefð þeirra og "tjáning á persónulegri trúarsannfæringu" þeirra. Aðferð til að kúga konur getur verið trúarhefð.

En þessi grein fjallar ekki um búrkur :)


Egillo (meðlimur í Vantrú) - 15/12/10 18:05 #

Kristján, það er einmitt ákveðið vandamál varðandi þetta aðskilnaðarmál og Örn Bárð, það fer eftir því við hvern hann talar hvaða skoðun hann hefur á því. Þegar hann svarar spurningum DV fyrir stjórnlagaþingskosningar er hann 'frekar hlynntur' aðskilnaði. En hjá Fréttablaðinu eftir þær er hann orðin andstæðingur þeirra.

Örn Bárður fær svo yfirleitt bara þá gagnrýni sem hann á skilið held ég:)


Þórður Ingvarsson (meðlimur í Vantrú) - 15/12/10 18:22 #

Vandamálið við Örn Bárð er að hann er tvítyngd lydda.


caramba - 15/12/10 23:37 #

Umræddur klerkur virðist mér fremur viðsjárverður náungi. Hér gerir hann tilraun til að leggja undir sig stjórnlagaþingið með því að draga það inn í húsnæði þar sem hann sjálfur ræður ríkjum. Honum tókst að leggja undir sig ágætan vettvang, annall.is, þar sem fram fór öðru hvoru vitræn umræða um trúmál og heimspeki. Nú birtir hann þar endalausar kippur af minningargreinum auk fréttapistla af sjálfum sér við predikun eða blaðaskrif. Í þeim síðasta skapar hann nýyrðið "andhelgi" sem á að tákna andlegan menningararf þjóðarinnar. Andheilagur er þá sá sem varðveitir menningararfinn, eða hvað? Orðið er gott að því leyti að það rímar við landhelgi og hagyrðingar geta hugsanlega haft af því einhver not en mér sýnist það gagnslaust að öðru leyti nema sem frekar fyndið innlegg í andlausan debatt klerka og trúleysingja.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.