Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Ríkiskirkjan: Fara prestar eftir því sem þeir predika?

Barn

Nú er kosningum til stjórnlagaþings lokið. Umræðan fyrir þingið var mikil, kannski ekki að undra því á þinginu stendur til að skrifa nýja stjórnarskrá, sjálfa undirstöðu lagakerfisins. Umræðurnar voru fróðlegar. Sérstaklega var fróðlegt það sem sumir prestar ríkiskirkjunnar sögðu um samband ríkis og kirkju, en mikið var rifist um hvort ætti að slíta því sambandi eða ekki – ef ekki var rifist um hvort sambandið væri yfir höfuð til staðar.

Áður en við lítum á hvað prestarnir sögðu, skoðum hvað ríkiskirkjan segist standa fyrir. Kirkjan segist vilja stuðla að „samtali, umburðarlyndi, virðingu fyrir manngildinu og lotningu fyrir lífi“. Biskup og prestar kirkjunnar hafa margoft sagt þetta vera eitt af meginviðfangsefnum kirkjunnar. Sama fólk hefur og boðað að græðgi og efnishyggja sé af hinu slæma [1, 2]. Þetta ættu flestir geti tekið undir.

Þegar umræðan um stjórnlagaþing stóð sem hæst var eins og þessi gildi kirkjunnar gleymdust. Þegar aðskilnaðurinn barst í tal fóru nokkrir prestar – og hér skal undirstrikað, nokkrir – að gefa ýmislegt í skyn, hótanir jafnvel.

Sigurður Árni Þórðarson, prestur, segir þetta til dæmis í pistli:

Þjóðkirkjan er ekki ríkisrekið apparat. Kirkjan afhenti ríkinu gífurleg verðmæti til eignar. Ríkið greiðir aðeins vexti af þeim höfuðstól. Laun presta eru slík greiðsla en alls ekki framlag ríkisins. Skilja strax? Ja, þá verður ríkið jafnvel dæmt til að skila öllu eignasafninu, sem í eru nokkur helstu dýrmæti Íslands, t.d. Þingvellir, allt land Garðabæjar (land Garðakirkju), Borgarnes (land Borgar). Ríkissjóður Íslands hefur jafnvel ekki burði til að skila eða bæta.

Hann byrjar hér að segja að ríkiskirkjan sé ekki ríkisrekin, sem er ekki rétt (sjá hér). Næst gefur hann í skyn málsókn kirkjunnar gegn ríkinu – að ríki og kirkja þurfi að mætast fyrir dómstólum og útkljá afleiðingar aðskilnaðar ríkis og kirkju þar, svo kirkjan geti mögulega fengið til baka eigur sínar sem hún safnaði á öldum saman með vafasömum hætti (sjá hér). Þetta líkist hegðun hvaða kapítalista sem er sem vill alls ekkert missa af sínum efnislegu gæðum. Þetta er klárlega hegðun gráðuga efnishyggjumannsins!

Sigurður Árni segir í sama pistli:

Þjóðkirkjan óskar, að ríkið skipti sér sem minnst af málum hennar. Hún vill góð samskipti því það er þjóðin, sem kirkjan þjónar, og það er sama þjóð, sem ríkið á að þjóna. Höldum áfram aðgreiningarferli. Skiljum ekki fyrr en allt er fullrætt og allir sáttir. Gætum að því að börn þjóðarinnar klemmist ekki í átökum um trú og trúfélög. Aðeins gott aðgreiningarferli getur leitt til gæðaskilnaðar. Skilja strax – nei, kannski seinna.

Lítum nánar á það sem Sigurður segir. Honum tekst á einhvern undarlegan hátt að blanda börnum landsbúa inn í aðskilnað ríkis og kirkju. Hann segir að þau geti „klemmst“ í þessum „átökum“. Sér einhver hvernig aðskilnaðurinn muni særa börnin okkar? Ég fæ ekki betur séð en að hér sé um að ræða einhvers konar bragð prestsins til að afvegaleiða umræðuna, enda rökstyður prestur ekki fullyrðingu sína á nokkurn hátt. Þetta er óheiðarlegt bragð og varla í anda „samtal[s]“ og „umburðarlyndis“. Dæmigert bragð til að hafa áhrif á tilfinningalíf lesenda í því skyni að afvegleiða hann og fá hann á sitt band.

María Ágústsdóttir, einnig prestur, var frambjóðandi fyrir stjórnlagaþingið. Hún ritaði pistil þar sem hún sagði:

Hvort við viljum umorða innihald 62. greinarinnar er alveg umræðunnar virði. Hins vegar megum við ekki gleyma því að tæp 90% þjóðarinnar (nánar tiltekið 89.2% samkvæmt heimildum Hagstofu Íslands 1. jan. 2010) tilheyrir kristnum kirkjum á Íslandi og hlýtur sú háa tala ekki að gefa til kynna eindreginn vilja til að hafa kristileg gildi og siðgæði að leiðarljósi í stjórnarskránni? Að staðhæfa annað gerir lítið úr frjálsri hugsun meginþorra þjóðarinnar.

Þessar efasemdir Maríu hefðu kannski verið markverðar, ef ekkert væri bogið við trúfélagsskráningar á Íslandi. En svo er ekki raunin, það er margt bogið við þær skráningar. Það má geta þess hér, að langflestir landsbúar virðast vilja aðskilnað. Um 75% vill aðskilnað ríkis og kirkju og hefur stuðningurinn aukist undanfarin ár. En María nefnir þetta ekki, heldur tyggur sömu tugguna um 80 prósentin (90 hjá sumum). Prestur sem vill stuðla að „samtali“ ætti ekki að reyna að afvegaleiða umræðuna með þessum hætti sem María gerir.

Sumir (1, 2) prestar hafa reynt aðrar leiðir til að afvegleiða umræðuna. Þeir tala um að kirkjan sé aðskilin ríkinu með lögum, hún sé óháð ríkinu, en á milli kirkjunnar og ríkisins séu í gildi samningar. Samningar þessir réttlæta að þeirra sögn sérstakar greiðslur til kirkjunnar sem aðrir söfnuðir fá ekki. Afvegleiðingin felst í því að hunsa algerlega þá staðreynd að kirkjan eignaðist þessar eignir á vafasaman hátt, eins og fjallað hefur verið um hér. Hún felst líka í því að ef þessar greiðslur eru arður af kirkjujörðunum, þarf þessi arður að vera nokkuð mikill – sem er ósennilegt. Þessi mál þarf að ræða, í samræmi við það „samtal“ sem kirkjan boðar, en ekki snúa út úr umræðunni.

Kæru prestar. Umræðan um aðskilnað ríkis og kirkju er skiljanlega ekki þægileg fyrir ykkur. En í öllum bænum, ekki láta eins og fégráðug auðvaldssvín sem vilja ekki missa spón úr aski sínum þegar gagnrýnendur spyrja spurninga eða koma með kröfur – jafnvel þó þær séu harðar. Og ekki snúa útúr umræðunni þegar á ykkur er sótt. Mætið rökum gagnrýnenda ykkar með gildum rökum.

Nema auðvitað, ef þið trúið ekki orði af því sem þið segið. Gerið þá það sem ykkur sýnist.

Guðmundur D. Haraldsson 19.12.2010
Flokkað undir: ( Ríkiskirkjan , Stjórnmál og trú )

Viðbrögð


Halldór L. - 19/12/10 13:42 #

Kirkjan er ein stór hræsni, ég efa stórlega að Kristur hefði viljað hafa nokkuð svona lagað.

Svo ekki sé minnst á Örn Bárð Jónsson... brrr... einhver ókristilegasti maður sem ég veit um í kirkjunnar röðum.


Ingó - 19/12/10 23:57 #

Þegar prestar tala um aðskilnað ríkis og kirkju nefna þeir að ríkið skuldi kirkjunni einhverja peninga fyrir vöxtum af eignum hennar.

Eins og ég horfi á þetta þá hefur ríkið haldið kirkjunni uppi frá siðaskiptum og á þann hátt borgað sínar skuldir til kirkjunar.

Ég hef hins vegar lítið vit á hagfræði en mér finnst það bara sanngjart af kirkjunni að sætta sig við það að ríkið hætti að halda presta stéttinni uppi en hins vegar finnst mér líka sangjart að prestarnir fái að halda kirkjunum.

Kveðja Ingó

Sýnið viðbrögð, en vinsamlegast sleppið öllum ærumeiðingum. Einnig krefjumst við þess að fólk noti gild tölvupóstföng, líka þegar notast er við dulnefni. Ef það sem þið ætlið að segja tengist ekki þessari grein beint þá bendum við á spjallborðið. Þeir sem ekki fylgja þessum reglum eiga á hættu að athugasemdir þeirra verði færðar á spjallborðið.

Hægt er að nota HTML kóða í ummælum. Tög sem virka eru: a href, b, i, u, br, p, strong, em, ul, li og blockquote. Einnig er hægt að notast við Markdown rithátt í athugasemdum. Notið skoða takkann til að fara yfir athugasemdina áður en þið sendið hana inn.










Muna þig?