Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Trúfélagaskráning á heimsvísu

Jörðin

Vantrú hefur náð að aðstoða meira en eitt þúsund manns við að leiðrétta trúfélagaskráningu sína sem verður að teljast nokkuð góður árangur. Rétt skráning fólks í trúfélög gefur betri mynd af trúarlífi landans og með hverju árinu sem líður fjarar meira undan ríkiskirkju Íslands. Með þessu áframhaldi verður eflaust ekki hjá aðskilnaði ríkis og kirkju komist, hvenær sem það nú verður.

Þetta starf sem unnið hefur verið á undanförnum árum af dugnaðarforkum Vantrúar leiðir hugann að því hversu undarlega er staðið að trúfélagaskráningum. Allt niður í nýfædd kornabörn eru vígð inn í söfnuð foreldra sinna og talið tilheyra eftir það ákveðnum trúarbrögðum.

Trúarkenningar, eins furðulegar eins og þær eru allar, eru flókin fyrirbrigði og ekki hægt að búast við því að neinn skilningur á þeim náist í fyrsta lagi en börnin fara að verða stálpuð. Samt sem áður hika menn ekki við að flokka börn og unglinga niður eftir trúarbrögðum þótt að hugtakið kristin börn eða múslímsk börn séu fáránleg. Allt eins væri hægt að ræða um marxísk börn eða anarkísk börn.

Þetta er samt enn viðtekin hefð eins og glöggt má sjá á fjölmiðlum og víðar. Hver kannast t.d. ekki við það að sjá fréttir af því að múslimar séu orðnir þetta og þetta margar milljónir? Hvað býr þó þarna að baki? Það er ekki um að ræða fullorðið fólk sem tók upplýsta ákvörðun um að helga Allah líf sitt heldur einfaldlega talning á fjölda fæðinga undanfarið í þeim löndum þar sem meirihlutinn aðhyllist íslam. Er þetta eðlilegt fyrirkomulag?

Hvað eru margir raunverulega trúaðir af þeim sem flokkaðir eru hiklaust í ákveðin trúarbrögð eftir búsetu þeirra? Ef við höldum áfram með dæmið af íslam þá nefnir Wikipedia að 99,7% af íbúum Afganistans séu múslimar. Samt sem áður eru 44,5% af ríflega 28 milljón íbúum Afganistans fjórtán ára og yngri. Börn sem kunna jafnvel ekki að skríða, tala né sitja upprétt eru talin tilheyra einhverjum trúarbrögðum einvörðungu vegna þess hvar í heiminum þau fæddust. Nánast öll trúarbrögð eru sek um þetta ofmat á vinsældum sínum með örfáum undantekningum en hægt er að finna dæmi um trúarbrögð sem stunda ekki barnaskírnir.

Þótt hin dapurlega staðreynd sé sú að væntanlega eiga flest þessara barna eftir að falla í hóp trúarbragða foreldra sinna, sérstaklega í þróunarlöndunum, þá er hægt að hugga sig við þá staðreynd að fjöldi trúmanna í heiminum er stórlega ofmetinn. Þ.e. sé einungis litið til þeirra sem hafa náð fullorðinsaldri því um 30% íbúa heimsins eru enn á barnsaldri eða undir átján árum. Einnig gæti efahyggjufólk eða kannski einhver sem aðhyllast frumgyðistrú eða aðra trúvillu leynst á meðal þeirra hópa fólks sem flokkuð eru eftir hefðinni til ákveðinna trúarbragða. Í mörgum heittrúuðum löndum fylgir fólk straumnum til að verða ekki fyrir aðkasti sanntrúaðara samborgara sinna.

Trúfélagaskráningar þarfnast því greinilega leiðréttingar við víðar en á Íslandi. En allar breytingar byrja víst hjá manni sjálfum í sínum garði. Bið alla þá sem hafa ekki þegar leiðrétt sín mál að gera það sem fyrst.

Lárus Viðar 10.03.2010
Flokkað undir: ( Hugvekja )

Viðbrögð


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 10/03/10 09:39 #

Lög um skráð trúfélög 8. gr. 2. mgr.:

Barn skal frá fæðingu talið heyra til sama skráða trúfélagi og móðir þess.

Þetta stangast á við jafnréttislög og nú er í stefnu allra stærstu stjórnmálaflokkanna að breyta þessum lögum. Frumvarp um þetta á að koma í vor.

Aðeins 51% landsmanna játa kristna trú samkvæmt niðurstöðum dr. Péturs Péturssonar (þótt hann kunni reyndar ekki að vitna í þær tölur sjálfur).

Auðvitað öðlast barn ekki trúarsannfæringu um leið og klippt er á naflastrenginn og meintur meirihluti trúaðra hverfur þegar nánar er að gáð. Mörgum finnast kenningar kristni og kirkju ekki bara ótrúlegar heldur beinlínis ógeðfelldar.


Guðbjörg Kristín - 10/03/10 22:27 #

Góðar og gildar hugleiðingar, en ég verð að viðurkenna að ég varð fyrir vonbrigðum þegar ég las greinina. Ég varð nefnilega svo glöð þegar ég sá yfirskrifina vegna þess að ég var að vonast eftir tölfræði um skráningu í trúfélög t.d. í Evrópu. Mér finnst Íslendingar svo oft álykta að "allir" séu skráðir í trúfélög í öðrum löndum og líka að "allir" fermist í löndum þar sem t.d. mótmælendatrú er stærst trúfélaga. Ég las reyndar á heimasíðu þýsku mótmælendakirkjunnar að þriðjungur Þjóðverja tilheyri þeim og að um þriðjungur árganga barna fermist. Þetta er reyndar ekki sambærilegt ísl. "kerfinu" vegna þess að þar er fólk miklu meðvitaðri um skráningu sína, vegna þess að sóknargjöldin sjást mjög greinilega á skatta-álagningaseðlunum þess Getið þið ekki setta saman einhverjar tölur eða bent mér á tölur um þetta?


Guðbjörg Kristín - 10/03/10 22:31 #

Ýtti of fljótt á "senda"; sá amk þrjár innsláttarvillur :-( Er ekki hægt að leiðrétta færslur eftirá?


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 11/03/10 00:07 #

Upplýsingar um helstu trúarbrögð og útbreiðslu þeirra má t.d. finna hér og ef flett er upp á einstökum löndum eða álfum í Wikipedia er getið um trúarbrögð, fólksfjölda og prósentuskiptingu trúarbragða.

Hins vegar eru afar fáar ríkisstjórnir sem halda beinlínis skrá yfir aðlid þegna sinna að trúfélögum. Slíkt þykir ekki við hæfi í siðuðum löndum :) Tölurnar endurspegla því yfirleitt menningu fremur en trú.


Innkaup - 11/03/10 16:34 #

[ athugasemd flutt á spjall ]

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.