Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Hið sanna klám

Ríkiskirkjustrollan

Ári eftir árásina á tvíburaturnana sá ég svipmyndir frá einhverjum kórtónleikum sem voru hluti af minningarathöfninni um voðaverkin. Nokkrar gamlar og búttaðar söngkonur hreyfðu munnana í takt, en stjórnandinn djöflaðist með höndunum í forgrunni, gretti sig og yggldi.

Fáránlegt athæfi og svo augljóslega afkáralegt þegar maður heyrir ekki tónlistina. Það er jú þannig að þegar maður nær að sefjast af því sem fram fer verður öll svona hegðun svo lítill og óviðkomandi partur af heildinni. Maður tekur ekki eftir henni.

Hafið þið prófað að fylgjast með dansi í sjónvarpi með hljóðið af? Eða áhorfendum á djasstónleikum? Hvað með tilburði sölumanna og -kvenna í auglýsingasjónvarpi?

Sprenghlægileg hegðun, þegar maður hefur lokað sig frá sefjuaráreitinu.

Sé maður ónæmur fyrir boðskap preláta í hvítasunnusöfnuðum, stendur eftir hegðun sem er algerlega út í hött. Sama gildir um altarisgöngur, fermingar, skírnir og jafnvel jarðarfarir. Fáránleiki trúarástundunar verður sýnilegur þeim sem ekki er næmur fyrir skilaboðunum á nákvæmlega sama hátt og dans verður asnalegur þegar tónlistin heyrist ekki.

"Já, en það hlýtur að vera fötlun að heyra ekki tónlistina/skilaboðin," segið þið, "auðvitað er trúarástundunin afkáraleg í þínum augum fyrst þig vantar móttakarann fyrir Guð. Ástundunin verður ekkert verri fyrir það."

Málið er ekki svo einfalt.

Það er nefnilega ekkert lögmál að þótt maður heyri tónlist nái maður að sefjast. Þetta veltur allt á gæðum hennar. Mikill hluti þeirrar tónlistar sem berst í eyru mín daglega er fyrir mér of mikið rusl til að hætti að sjá hvað hegðunin við að koma henni til skila er fíflaleg. Ég lít svo á að ég sé einfaldlega vaxinn upp úr fullt af tónlist, hún hvorki fróar mér né skemmtir. Í raun sit ég, í mínum fílabeinsturni, uppi með lítið meira en Miles, Coltrane og Bach, auk nokkurra afburðamanna héðan og þaðan.

Sama á við þegar kemur að lífsskoðunum mínum. Orð predikaranna eru einfaldlega of naiv, óskynsamleg og fráleit til að ég geti ánetjast. Allt tilstandið í kringum þetta, kirtlar og kjólar, söngl og kjökur, klapp og stapp og ójarðnesk tungumál, verður þeim mun óviðurkvæmilegra.

Kannski er þetta hið eina sanna klám.

Það er hægt að vaxa upp úr öllu, tónlist, lífsvenjum, já og trú. Ég er einfaldlega löngu vaxinn upp úr því að eiga ósýnilega vini.

Birgir Baldursson 03.11.2010
Flokkað undir: ( Hugvekja )

Viðbrögð


Einar (meðlimur í Vantrú) - 03/11/10 12:14 #

Bænir og þessar trúarathafnir eru sjálfssefjun hins trúaða.

Að horfa á þetta utan frá... getur verið sprenghlægilegt..


Halla Sverrisdóttir - 03/11/10 13:59 #

Er tilgangurinn með Vantrúarvefnum sá að tíunda ótal sinnum og á sem fyndnastan hátt hvað iðkun trúarbragða er asnaleg? Öll aðhöfumst við nú sitthvað asnalegt eða í það minnsta misgáfulegt og trúarbragðaiðkun fullorðins fólks káfar ekkert upp á mig, nema að því leyti sem ætlast er til að ég fjármagni hana eða henni sé troðið upp á börnin mín í opinbera skólakerfinu. Mér finnst það ekki vandaðri rökræðu og umræðu um þessi mál til framdráttar að vera með það sem ég get eiginlega ekki lesið sem annað en skæting og "fólk sem trúir á Guð er fífl"-málflutning. Það kemur niður á þeim sem leggja annað og málefnalegra á borðið. Með kveðju, Halla


Þórður Ingvarsson (meðlimur í Vantrú) - 03/11/10 14:19 #

Það er svo margt annað á þessum vef Halla. Málefnalegur færslur, vísanir, ábendingar, greinarraðir og svo fram vegis. Einnig saklausar hugvekjur, líkt og þessi, þar sem höfundar velta vöngum um hindurvitni og tengd málefni.


Einar Þórir Árnason - 03/11/10 14:21 #

Ég einmitt fann fyrir þessu í vor þegar frænka mín var að fermast, ég er trúlaus og kýs að stíga ekki fæti inní kirkjur, en í þetta skipti gerði ég undantekningu til að vera til staðar fyrir fjölskylduna. Ég af sjálfsögðu sat bara og horfði á og fékk þessa tilfinningu eins og ég væri að horfa á langdregið og innantómt leikrit. Þá fór ég að hugsa að það getur ekki verið að ég sé sá eini fullorðni sem finnur fyrir þessu. Þá er spurning hvort fólk geri þetta af vana allt frá innrætingu á ungum aldri eða vegna tillitsemi. Það er eins og með þegar fólk segi "Guð hjálpi þér" þegar fólk hnerrar, fólk virðist segja það bara á autopilot. Ég hef aldrei sagt þetta og ég er stundum spurður af hverju. Ég svara "Í fyrsta lagi er ég trúlaus og í öðru lagi ertu ekki með pláguna". Ég sé það reglulega hvaða áhrif svona mötun hefur, hlýðni án vafa. Sennilega skýringin af hverju mörgum finnst þetta bara allt í lagi. Mér er sama hvað fólk trúir á sínu eigin heimili ég er ekkert að setja útá það, en þegar opinberar trúarstofnanir fara að skipta sér af mínum málum þá verður þetta vandamál.


Nonni - 03/11/10 15:55 #

Mér fannst þessi grein of stuðandi, þangað til ég rifjaði upp að nákvæmlega svona leið mér seinast þegar ég var viðstaddur kirkjulega athöfn. Núna finnst mér hún bara stuðandi af því ég er stundum svolítið meðvirkur.

Það er ekki hægt ætlast til að ég og allir meðlimir Vantrúar séum alltaf nákvæmlega sammála um áherslur, orðalag og hversu mikil þörf er á svona hugvekjum.


Halla Sverrisdóttir - 03/11/10 19:25 #

Æ,það hljóp eitthvað í mig þegar ég las þessa grein. Mér finnst t.d. samlíkingin við klám ekki virka á neinn hátt og hef á tilfinningunni að hún sé notuð til þess eins að stuða en ekki til að setja fram ígrundaða hugsun.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 03/11/10 23:48 #

Okkur sem erum ekki næm fyrir þessu er stundum stefnt inn í kirkjur, t.d. við brúðkaup, jarðarfarir og fermingar. Þeir tilburðir sem þarna fara fram, þessi geðveikislegi skrípaleikur, virka óviðurkvæmilega á mig. Mér líður nánast eins og sé verið að gyrða niðrum sig þarna uppi á altarinu.

Ég er ekki viðkvæmur fyrir venjulegu klámi, en þessu er ég viðkvæmur fyrir. Og verst þykir mér þegar þeir sem vinna við þennan afkáraleika eru að espa saklaus börn upp í þessa hegðun. Það gæti í mínum huga sem best flokkast undir barnaklám.

Ég stuða ekki til að stuða, heldur er ég að koma á framfæri einhverjum þeim sjónarmiðum sem stuða suma.


Einar Arason - 08/11/10 06:14 #

Hvað finnst ykkur um áhorfendur á fótboltaleikjum?

Er í lagi að sleppa beislinu og sýna tilfinningar við svona tækifæri, þó svo maður virki svoldið asnalegur á meðan?

Mörgum finnst messur eins og leikrit. Ég er einn þeirra. Samt er ég trúaður maður.

Lúther notaði dægurlög síns tíma. Skrýtið að taka dægurlög 16. aldar og gera að himneskunni í dag.

Ein athugasemd til viðbótar:

Ég tek eftir að þið á Vantrú segið: "Sýnið viðbrögð, en vinsamlegast sleppið öllum ærumeiðingum."

Mjög gott hjá ykkur. Til fyrirmyndar. Ég er ánægður að sjá svona áherslu á málefnin framar kjaftshöggum.

Ég vil góðfúslega minna á að einhver hefur gleymt sér hérna. Ég á við orð Birgis:

Og verst þykir mér þegar þeir sem vinna við þennan afkáraleika eru að espa saklaus börn upp í þessa hegðun. Það gæti í mínum huga sem best flokkast undir barnaklám. (03/11/10 23:48)

Ég vil taka fram, að ég skil líkinguna. Og ég sé ekkert að því að tjá sig í sterkum orðum og koma örugglega meiningunni til skila.

Hins vegar finnst mér að þegar verið er að stimpla þetta sem "barnaklám" þá sé það álíka ódýrt og þegar fólk sem er á móti samkynhneigðum talar um "kynvillugiftingar" og margt þaðan af ljótara.

Mér finnst einhvern veginn að ef við forðumst svona sterk ærumeiðandi lýsingarorð (í þessu tilfelli á orðið við hóp sem leiðir börn í kirkju) þá er umræðan einhvern veginn á hærra plani fyrir vikið. Við hljótum að geta tekist á án þess að lýsa frati á hver annan.

Nú geri ég ráð fyrir að Birgir hafi einungis gleymt sér í hita leiksins og bregðist ljúflega við hógværri beiðni minni. Ég er ekki að kalla eftir afsökunarbeiðni. En eins og þið segið sjálfir, þá viljið þið láta málefnin tala. Gerum það þá með virðingu gagnvart þeim hópum sem um er rætt, þó svo við áskiljum okkur rétt til að vera ósammála ýmsu hjá þeim.

Allt í lagi?


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 09/11/10 01:15 #

Trúarleg hegðun er algert klám í mínum huga. Klám hefur víðari merkingu en svo að orðið nái aðeins yfir óviðurkvæmilegar kynferðislegar athafnir.

Greinin kveður upp úr með að þetta sé klám í skilningi óviðurkvæmilegheita. Trúarleg hegðun við kristilegar athafnir særir blygðunarkennd mína. Og hvað er þá hægt að kalla það þegar börn eru véluð í þessar stellingar?

Þetta er hugvekja. Hugvekja þýðir ekki mærðarlegt snakk um heilaga náð. Hugvekju er einfaldlega ætlað að vekja hugann, eins og felst í orðsins hljóðan.


Einar S. Arason - 10/11/10 04:33 #

Birgir: Ég var ekki að biðja um neitt mærðarlegt snakk. En það er hluti af málefnalegri umræðu að forðast stimplandi hugtök.

Lifðu heill.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.