Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Hvernig skal standa að tillögu um aðskilnað ríkis og kirkju?

Nú þegar það virðist nær óhjákvæmilegt að stjórnlagaþing samþykki aðskilnað ríkis og kirkju. Það er því rétt að velta fyrir sér hvernig ferlið gæti orðið. Hið augljósa er að það þarf að breyta 62. gr. stjórnarskrárinnar en fleira þarf til.

Þau atriði sem stjórnlagaþing þarf að ákvarða eru þrjú:

  • Á að koma ný grein í stað þeirrar sem fellur niður og hvernig ætti hún að hljóma?
  • Hvenær á þjóðaratkvæðagreiðsla um stjórnarskrárbreytinguna að fara fram (skv. 79. gr. núgildandi stjórnarskrár þarf þjóðaratkvæðagreiðslu um þetta mál)?
  • Hve langan frest á að gefa til að ganga frá þessum lögskilnaði í orði og borði?

Ef við byrjum á byrjuninni þá legg ég til að ný grein komi í staðinn fyrir þá gömlu. Þetta er þó háð því hvort að fjallað verði betur um þessi mál í endurbættum mannréttindakafla. En núverandi grein er svohljóðandi:

62. gr. Hin evangeliska lúterska kirkja skal vera þjóðkirkja á Íslandi, og skal ríkisvaldið að því leyti styðja hana og vernda. Breyta má þessu með lögum.

Mín tillaga að nýrri grein er svona:

62. Íslenska ríkið skal gæta hlutleysis í trúmálum. Öll trú- og lífskoðunarfélög skulu njóta jafnræðis að lögum.

Hinar tvær spurningarnar varða báðar tíma. Hvað varðar þjóðaratkvæðagreiðslu eru engar kosningar á áætluninni fyrren kosið verður til forseta sumarið 2012. Það væri ákjósanlegt ef hægt væri að koma atkvæðagreiðslunni að fyrr en það er ekkert sem útilokar að beðið sé. Það þyrfti þó að endurspeglast í tímamörkunum sem aðskilnaðinum er gefinn.

Ef stjórnlagaþing legði til og Alþingi samþykkti að kosið yrðu um málið eftir þrjá mánuði þá mætti miða við að aðskilnaðarferlinu væri gefið allt að fimm ár. Ef kosningarnar færu fram ári seinna þá mætti í raun stytta þetta niður í fjögur ár enda væri þá rýmri tími til undirbúnings.

Satt best að segja þá er þetta ekkert sérstaklega flókið úrlausnarefni miðað við önnur verkefni sem bíða stjórnlagaþings. Svo lengi sem hlutföllin aðskilnaðarsinna og ríkiskirkjusinna á stjórnlagaþingi séu nálægt því sem gengur og gerist í þjóðfélaginu almennt þá ætti að vera hægt að afgreiða þessi mál fljótt og örugglega.


Höfundur er fyrrverandi formaður Vantrúar og frambjóðandi til stjórnlagaþings.
[Heimasíða] | [Stuðningssíða á Facebook]

Óli Gneisti Sóleyjarson 16.11.2010
Flokkað undir: ( Stjórnmál og trú )

Viðbrögð


Þröstur - 16/11/10 13:15 #

En hvað með þær jarðir sem kirkjan á. Þarf ríkið að skila þeim öllum til baka?


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 16/11/10 13:22 #

Ég fjalla hér einungis um hvað stjórnlagaþing þarf að gera en mun í framtíðinni skrifa um hvaða skref Alþingi þarf að taka næst. Ég bendi hins vegar til dæmis á þessa grein ef þú vilt ræða þessi jarðamál.


Jón Steinar - 16/11/10 19:30 #

Hjörtur Magni skrifar hér ádrepu um málið: http://visir.is/sidlaus-samningur-rikis-og-kirkju/article/2010203821796

Þetta er síst baráttumál trúlausra, heldur aðallega annarra kristinna söfnuða sem vilja réttlæti. Menn geta sagt sér það sjálfir, því ekki eru 74% þjóðainnar trúlaus eða húmanistar.

Af því að hér er talað um "eignir" kirkjunnar, þá bendir Hjörtur hér á augljósa staðreynd, sem ég hef lengi reynt að benda mönnum á, en þaðer sú staðreynd að þetta "eignasafn" varð til í tíð annars trúfélags með ofbeldi og kúgun og var aldrei í eigu Lútersku Kirkjunnar, heldur hinnar Kaþólsku. Þeir eiga þetta ekki, svo málið er engin fyrirstaða.

Í stjórnarskrá þarf aðeins að standa. Á Íslandi skal ríkja trúfrelsi. Lengra er ekki hægt í því plaggi aðráðskast með eða hampa anlegri sannfæringu og trú, enda kemur orðið trú ekki fyrir í plagginu. (ekki heldur orið trúfrelsi)

Aðra afurð Kirkjunnar má finna í mannréttindaákvæðinu, sem kveður á um að ekki megi mismuna eftir Trú kynþætti, þjóðerni etc. Þar vantar orðið "kynhneigð". Nú...af hverju skyldi það vera? Hmmm?


Ingólfur Harri - 17/11/10 02:28 #

Ég sé ekki að núverandi stjórnarskrá krefjist þess að þetta ákvæði sé sett sérstaklega í þjóðaratkvæðagreiðslu, nema ef því er einu breytt án þess að setja breytinguna í almennt samþykkarferli (samþykkt af tveim þingum með kosningar á milli).

Auðvitað ætti þjóðin að fá að kjósa um nýja stjórnarskrá í heild, helst áður en Alþingi fer að fikta í niðurstöðunum. Og stjórnlagaþingið ætti að haga sínum tillögum þannig að um þær verði sem víðtækust sátt á meðal þjóðarinnar.

Til þess að ná sem bestri sátt um þessa grein væri t.d. hægt að gefa þjóðkirkjunni rúman aðlögunartíma.


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 17/11/10 13:43 #

Ég á erfitt með að skilja 79. greinina öðruvísi en að öll breyting á kirkjuskipan krefjist þjóðaratkvæðagreiðslu.


Ragnar Þ. - 18/11/10 11:51 #

Mér er spurn: Hvers vegna þarf að leggja áherslu á að breyta 62. greininni í stjórnarskrá þegar það liggur ljóst fyrir að Alþingi getur breytt henni með lögum?

Liggur ekki fyrir að það er meirihlutavilji fyrir því að aðskilja ríki og kirkju? Þarf ekki bara að fá þetta í gegn með lögum frá Alþingi?

"62. Íslenska ríkið skal gæta hlutleysis í trúmálum. Öll trú- og lífskoðunarfélög skulu njóta jafnræðis að lögum."

Ég er dálítið hræddur við að fá þetta orð, "lífskoðunarfélag" inn í stjórnarskrána. Geta nýnasistar ekki röklega séð verið lífskoðunarfélag? eða Hell's Angels, jafnvel Djöfladýrkendur? Á Stjórnarskráin að vernda slíka hópa?

Það lýst mér ekki á.


Árni óreiða - 19/11/10 15:31 #

Varðandi breytingar á stöðu þjóðkirkjunnar, segir í 62. grein stjórnarskrárinnar:

"Hin evangeliska lúterska kirkja skal vera þjóðkirkja á Íslandi, og skal ríkisvaldið að því leyti styðja hana og vernda.

Breyta má þessu með lögum."

Þetta þýðir, að þetta er eina ákvæðið í stjórnarskránni, þar sem ekki þarf þjóðaratkvæði.

Þetta ákvæði var sett inn til að friða "rétttrúaða" en gefa Alþingi samt frelsi til að skilja að ríki og kirkju.

Þar með er þetta líklega, lögfræðilega séð, eitthvert furðulegasta ákvæðið í stjórnarskránni, þ.e. breytingar krefjast þjóðaratkvæðis nema nákvæmlega þessi grein.

Varðandi eignir kirkjunnar er skoðun mín sú, að þær séu flestar illa fengnar og bezt væri að þjóðnýta þær.

Árni óreiða


Hjalti Rúnar Ómarsson (meðlimur í Vantrú) - 19/11/10 15:36 #

Það þarf þjóðaratkvæði, sbr 79. grein:

Nú samþykkir Alþingi breytingu á kirkjuskipun ríkisins samkvæmt 62. gr., og skal þá leggja það mál undir atkvæði allra kosningarbærra manna í landinu, til samþykktar eða synjunar, og skal atkvæðagreiðslan vera leynileg.


Árni Páll - 20/11/10 07:00 #

Ég legg frekar til að 62. hljóði svona.

"Á íslandi skal ríka frelsi frá trú." +Enginn skal stunda trúboð +Öll trúariðkun skal vera stunduð í einrúmi

Er þetta of gróft?


Hjalti Rúnar Ómarsson (meðlimur í Vantrú) - 20/11/10 13:15 #

Árni Páll, ég vona að þú sért að grínast. Að banna trúboð væri t.d. afnám tjáningarfrelsis.


Árni Páll - 20/11/10 16:53 #

Já þetta var smá sprell

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.