Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Reiði, kirkja og Vantrú

Biskupsstofa

Mikil reiði ríkir nú í garð ríkiskirkjunnar í kjölfar allrahanda sóðamála innan raða hennar. Kirkjan neitar að taka þátt í niðurskurði, prestar ræða um það í fúlustu alvöru hvort þeim beri að hlíta barnaverndarlögum, mál Ólafs biskups enn að þvælast fyrir biskupsstofu og svona mætti lengi telja. Allt kemur þetta svo í kjölfar þess að kirkjunni tókst í fjölda ára að standa í vegi fyrir sjálfsögðum mannréttindum samkynhneigðra í hjúskaparmálum.

Óhreinn þvottur

Á DV má nú nálgast greinaröð um leyndarmál kirkjunnar.

Áhugasamir geta líka rifjað upp fyrirgefningu syndanna í fyrra þar sem vikið er að máli Gunnars Björnssonar sóknarprests á Selfossi, Ágústar Magnússonar barnaníðings í KFUM/K auk Ólafs Skúlasonar biskups.

Menn muna kannski að það var organistinn á Selfossi sem studdi frásögn vesalings stúlknanna þar. Nú hefur annar organisti, nánasti samstarfsmaður Ólafs biskups 1972-7, lýst kynferðislegu óeðli og vægast samt vafasömum tilburðum Ólafs í Bústaðakirkju. Sá organisti sagði jafnframt:

Mörgum árum síðar,eða þegar kvennamál Ólafs komust í hámæli, kom hann til mín næstum daglega í meðferð. Gerðist ég nokkurs konar sálusorgari hans. #

Ólafur var vígður prestur Vestur Íslendinga í Norður Dakota í Bandaríkjunum 1955. Árið 1960 var hann skipaður fyrsti æskulýðsfulltrúi þjóðkirkjunnar en 1964 sóknarprestur í Bústaðasókn í Reykjavík og "þjónaði" þar í aldarfjórðung. Árið 1975 var hann skipaður dómprófastur í Reykjavík og vígslubiskup Skálholtsstiftis 1983. En 1989 var Ólafur kjörinn biskup Íslands og var æðsti maður ríkiskirkjunnar til ársins 1997.

Sigrún Pálína reyndi fyrst að vekja athygli á brotum Ólafs 1993. "Þá talaði hún við séra Pálma Matthíasson (nú prest Bústaðakirkju) og árið eftir við séra Vigfús Þór Árnason. Hún bað prestana tvo að taka málið upp innan kirkjunnar en hvorugur hafðist að í málinu."

Árið 1996 sakaði Sigrún Pálína séra Ólaf Skúlason, þáverandi biskup, opinberlega um nauðgunartilraun. Mál Sigrúnar vakti mikla athygli á og í kjölfar ásakana hennar gáfu aðrar konu sig fram og sökuðu biskup um kynferðislega áreitni.

En biskup kærði málið til saksóknara. Já, biskupinnn kærði fórnarlömbin og sagði sakaráburð þeirra "vega að friðhelgi einkalífs hans og æru með ólögmætum hætti. Í yfirlýsingu sem hann sendi frá sér á þessum tíma sagði að ráða mætti af ummælum í fjölmiðlum að markmiðið með þessum röngu sakargiftum væri að þvinga hann til að segja sig frá biskupsembættinu." En þar sem saksóknari sá enga ástæðu til að gera neitt í máli fórnarlambanna ákvað biskupinn að falla frá sinni kæru á hendur þeim.

Nánasti samstarfsmaður biskups er biskupsritari. Ritari Ólafs var lengi vel Þorbjörn Hlynur Árnason, nú prófastur og sóknarprestur í Borgarfirði. Nýjasta afrek hans á tru.is (frá 2008) er greinarstúfur til varnar núverandi biskupi og lofrulla um víðsýni hans í málefnum samkynhneigðra. Í ljósi orða organistans um kynferðislega þrá eða löngun Ólafs, sem kom fram í óeðli, er við hæfi að vitna aðeins í Þorbjörn Hlyn:

Þá má nefna að íslenska kirkjan hefur aldrei samþykkt, né heldur rætt í alvöru, að láta kynhneigð fólks skipta einhverju hvað varðar embættisgengi eða störf í kirkjunni. Þannig hefur kirkjan gætt þess að sýna virðingu og samstöðu með þeim sem hafa sannarlega í gegn um árin þurft að gjalda fyrir kynhneigð sína. #

Nú er ekki vitað hvort að Þorbjörn varð sálusorgari Ólafs líkt og organistinn. En sama ár og ásakanir á Ólafi komu upp tók annar prestur við hlutverki biskupsritara Ólafs Skúlasonar, en það var Baldur Kristjánsson.

Baldur var því hægri hönd Ólafs biskups þegar stormurinn geysaði hvað harðast vegna kynferðisbrotamálanna og árið 1997 þegar Ólafur reyndi líka að fá Spaugstofuna ákærða fyrir guðlast.

Fyrir þá sem muna lítið eftir máli Ólafs má minna á að það kom beint í kjölfar organistamálsins í Langholtskirkju og margir litu á það sem ofsóknir á hendur Ólafi fyrir það hvernig hann tók á því. Einu prestanir sem voguðu sér örlitla gagnrýni á biskup í fjölmiðlum tilheyrðu annarri prestaklíku en hann. En jafnvel þeir sögðu ekkert almennilegt. Og þegar Ólafur hafði tilkynnt um afsögn þá var meirihluti landsmanna mótfallinn henni, studdi sumsé biskup. Tímarnir hafa sem betur fer breyst.

Gríðarleg ófrægingarherferð hafði verið sett í gang, sérstaklega gegn Sigrúnu Pálínu. Hótanir biskups um meiðyrðamál var hluti af því en síðan fór bara hið góða kristna fólk landsins sjálft í varnargír fyrir biskup. Um þetta segir m.a. í DV:

Einn þeirra sem tengdust inn í mál kvennanna gegn séra Ólafi biskupi á sínum tíma var séra Karl Sigurbjörnsson, þá prestur og nú biskup. Samkvæmt frétt DV 6. mars 1996 beittu tveir prestar, þeir Hjálmar Jónsson, sem þá var þingmaður en er nú dómkirkjuprestur, og Karl, núverandi biskup, áhrifum sínum til að fá konurnar sem ásökuðu Ólaf biskup um kynferðislega áreitni til að falla frá málum sínum. Í fréttinni segir meðal annars að prestarnir tveir hafi átt tíða fundi með konunum og að í kjölfar þeirra hafi ein kvennanna dregið mál sitt til baka. „Munu prestarnir meðal annars hafa lagt mikla áherslu á kostnaðinn sem því fylgi að standa í málarekstri gegn biskupi,“ segir í fréttinni. Séra Karl vildi ekkert tjá sig um þetta á þeim tíma en ónafngreindur prestur sem DV ræddi við á þeim tíma sagði að miklu „handafli“ hefði verið beitt af hálfu biskupsmanna til að þagga það niður. #

Biskup reiddist líka Stígamótum og gaf í skyn að það væri ósiðlegt af samtökunum að ganga gegn honum vegna þess að kirkjan gæfi þeim peninga! Guðrún Jónsdóttir benti á að það væri ósatt og þá kom séra biskupsritari biskupi til varnar í fjölmiðlum og sagði að Ólafur hafi meint að Kvennaathvarfið fengi peninga.

Þingmaður rumskar

Vantrú hefur lengi bent á hræsni, hroka, blekkingar og jafnvel glæpi ríkiskirkjumanna. Þetta gerum við ekki í annarlegum tilgangi heldur af hugsjón, eins og bent var á í nýlegri athugasemd. Þátttaka presta í trúmálaumræðum á Vantrú hefur þó jafnan verið lítil. Almenningur er fyrir löngu farinn að sjá í gegnum helgislepjuna og jafnvel einstaka þingmenn. En þegar varaformaður fjárlaganefndar spyr sig Á hvaða leið er kirkjan? hópast prestarnir að bloggi hans eins og mý á mykjuskán. Sennilega vegna þess að þar er ekki um hugsjónir eða trúmál að tefla heldur beinharða peninga.

Prestagerið eys þar hressilega úr skálum reiði sinnar og hneykslunin er augljós. Reiðin beinist að því að þingmaðurinn vogaði sér að nefna að í kjölfar sóðamála kirkjunnar væri e.t.v. ráð að endurskoða hvort rétt sé að ausa í hana fimm þúsund milljónum árlega. En hvar er hneykslun presta á deilum á prestaþingi um hvort virða beri barnaverndarlög, á þöggunartilburðum biskupsstofu o.s.frv.? Við getum bara spurt.

En prestar verða að gæta þess að styggja ekki fjárveitingarvaldið og blessa það auðvitað rækilega fram og aftur í hverri messu. En um Vantrú gildir öðru máli. Auðvitað eru margir prestar pirraðir á því að Vantrú lætur ekki satt kyrrt liggja heldur er óþreytandi að benda á skítinn. Því er nærtækt að ráðast á Vantrú og trúlausa og það er iðulega gert, eins og við bendum oft á. Þó er sjaldgæft að skítkastið sé jafnrætið og lágkúrulegt og kom fram í bloggi Baldurs Kristjánssonar nýlega. En hann lét ekki nægja að birta það á eigin bloggi heldur útvarpaði því líka á moggabloggi sínu. (Við höfum reyndar svarað því)

Er Vantrú virkilega sjúki aðilinn í þessu öllu saman?

Ritstjórn 20.08.2010
Flokkað undir: ( Siðferði og trú , Vísun )

Viðbrögð


Matti (meðlimur í Vantrú) - 20/08/10 12:26 #

DV 6. mars 1996


Helgi Briem (meðlimur í Vantrú) - 20/08/10 12:46 #

Brot Ólafs voru miklu verri en eitthvað smá káf á fullorðnum konum.


Guðlaugur Örn (meðlimur í Vantrú) - 20/08/10 14:00 #

Hvernig ætlar kirkjan að taka á þessu máli?

Karl biskup segir í grein sinni í dag í Fréttablaðinu:

Fagráð um kynferðislegt ofbeldi hefur verið starfandi innan kirkjunnar í 12 ár. Fagráðinu er ætlað að móta verklag fyrir starfsmenn kirkjunnar um það hvernig eigi að bregðast við þegar slík tilkynning berst um kynferðisbrot af hendi annars starfsmanns og hafa umsjón með að ferlinu sé fylgt.

Þó beitti hann þrýstingi og "handafli" til þess að hræða konurnar frá frekari aðgerðum vegna Ólafs fyrrverandi biskups. Verður þetta þaggað í hel eða verður hann látinn sæta ábyrgð?

Tökum mun vægara dæmi í öðru ljósi: Segjum sem svo að nú kæmu fram upplýsingar varðandi vafasama ráðningu sem gerð var af fyrrverandi ráðherra (A). Til dæmis að hann hafi ráðið bróður konu sinnar frekar en konu honum ótengda sem teldist þó mun hæfari í starfið. Núverandi ráðherra (B), hefði á sínum tíma beitt konuna þrýstingi og "handafli" og hrætt hana frá því að sækja málið og rétt sinn frekar. Ætli ráðherra B yrði ekki krafinn afsagnar um leið og þessar upplýsingar kæmu fram? Heldur betur.

Getur maðurinn haldið áfram eins og ekkert hafi í skorist? Manni er skapi næst að skrá sig aftur í þjóðkirkjuna til þess eins að geta sagt sig úr henni vegna þessa máls (ekki að það sé ekki nóg ástæða til eins og tíundað er hér að ofan).


Sigmundur Guðmundsson stærðfræðingur - 20/08/10 14:23 #

Fróðlegt verður að fylgjast með því hversu lengi herra Karl situr áfram í embætti biskups

http://www.dv.is/frettir/2010/8/11/kirkjan-leynir-brefi-biskupsdottur/


Þórður Ingvarsson (meðlimur í Vantrú) - 20/08/10 16:34 #

Og ekki má gleyma Geir okkar Waage og hans staðföstu og einörðu afstöðu. Gvöööð blessi hann.


Einar (meðlimur í Vantrú) - 20/08/10 18:12 #

Var einmitt að lesa greinina sem þú bendir á Þórður, um afstöðu Geirs Waage til barnaverndarlaga, en hann hyggst ekki fara eftir þeim.

Hvað er hægt að segja við svona... verð ekki oft orðlaus... en eftir lestur þessa pistils.. svei mér þá. :/


Baldur Kristjánsson - 20/08/10 22:26 #

Þið kallið bloggið mitt rætið og lágkúrulegt. Hvers konar þvæla er þetta. Það er í besta falli hressilegt og svolítið kvikindislegt og þið áttuð það skilið að mínu mati. Þið eruð farin að fjalla um kirkjuna sem glæpahreiður sbr. myndatextann hér að ofan. Nær eingöngu vinnur innan kirkjunnar heiðarlegt gott og vammlaust fólk spegilmynd af fólkinu í samfélaginu. Kv. Baldur


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 20/08/10 22:31 #

Baldur, hvað finnst þér um að maðurinn sem þú starfaðir sem ritari fyrir hafi verið alræmdur nauðgari og barnaníðingur? Vissir þú af því og gerðir ekkert í málinu?


Matti (meðlimur í Vantrú) - 20/08/10 22:42 #

Þið kallið bloggið mitt rætið og lágkúrulegt. Hvers konar þvæla er þetta. Það er í besta falli hressilegt og svolítið kvikindislegt og þið áttuð það skilið að mínu mati.

Af hverju áttum við það skilið að þínu mati? Vegna þess að við bentum á til eru prestar sem telja sig hafna yfir lög? Höfðum við ekki algjörlega rétt fyrir okkur og hefur þetta ekki einmitt verið fullkomlega staðfest.

Ég ítreka lokaorð pistilsins, er Vantrú virkilega vandamálið?


Guðlaugur Örn (meðlimur í Vantrú) - 21/08/10 08:04 #

Hylmt var yfir með barnaníðingi og nauðgara og það er staðreynd. Ég held að fólk sem tók þátt í því með einum eða öðrum hætti ætti að sæta ábyrgð.

Ætlar einhver að reyna að réttlæta það?

Eða á bara að halda áfram með "Nei-þú!!" taktíkina og benda bara á Vantrú eða einhvern annan í staðinn?


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 21/08/10 12:34 #

Þegar mál Ólafs komst í hámæli 1996 var Geir Waage endurkjörinn formaður á aðalfundi Prestafélags Íslands.

Í máli Geirs kom fram að hann hefði undirbúið spurningar til herra Ólafs Skúlasonar biskups sem hann hefði viljað fá svör við á nýlokinni Prestastefnu. Spurningarnar hefði hann dregið til baka eftir að biskup og Þorsteinn Pálsson, dóms- og kirkjumálaráðherra, hefðu við setningu stefnunnar beðið um frið um ákvörðun biskups um starfslok hans eftir eitt og hálft ár.

Þarna sést ágætlega þöggunin. Það mátti ekki rugga bátnum. "Friðurinn" var sannleikanum yfirsterkari.

Úr stjórn gekk Baldur Kristjánsson en hann hafði setið í stjórninni í þrjú kjörtímabil og var því ekki kjörgengur.


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 21/08/10 12:46 #

Yfirmenn presta eru prófastar og þeir hafa líka sitt félag og ályktun prófastafélagsins frá 1996 hljóðar m.a. svo:

Prófastar lýsa hryggð sinni og áhyggjum vegna þeirrar aðfarar sem gerð hefur verið að biskupi Íslands, herra Ólafi Skúlasyni, með ósönnuðum aðdróttunum í hans garð, þar sem gróflega er vegið að mannorði hans og starfsheiðri.

Prófastar lýsa andúð sinni á gáleysi þeirra fjölmiðla, sem í umfjöllun sinni hafa látið líta svo út sem þessar ásakanir væru sannaðar. Þetta hefur valdið biskupi og fjölskyldu hans þjáningu og miska og öllum þeim sem unna kirkjunni sárindum og hryggð. Lýsum við samúð með öllum þeim sem þjáðst hafa vegna þessa máls.

Prófastar harma þá stöðu sem upp er komin. Nauðsynlegt er að brugðist verði við af festu og ábyrgð. Því er í alla staði eðlilegt að fela málið dómbærum aðilum ­ enda er það fullvissa okkar að þá muni sakleysi biskups sannast. Væntum við þess að söfnuðir landsins slái sem fyrr skjaldborg um kirkjuna og það sem hún stendur fyrir.


Baldur Kristjánsson - 21/08/10 17:38 #

Birgir. Nú veist þú ekkert hvað þú ert að tala um elsku vinur. Biskupsritari er staðgengill biskups hvað varðar stjórnsýslu og á þessu hörmungartímabili mæddi mikið á mér að stjórna ásamt skrifstofustjóra 30 manna vinnustað sem bjó við yfirmann sem var sakaður um níðingsskap. Þetta var sannast sagna mjög erfitt. Ég sá um að svara fjölmiðlum m.a. og var almælt meðal blaðamanna hvað aðgangur að biskupsstofu var góður (þó biskup fyndist oft ekki.) Ég lagði mig í líma við að gefa allar upplýsingar fljótt og vel. Ég var snemma á þeirrar skoðunar að biskup yrði/ætti að segja af sér. Á þessum tíma var ég ekki prestur í embætti. Sagði upp embætti þegar ég fór frá Hornafirði og varð atvinnulaus þegar ég hætti á biskupsstofu. Ég vona að Birgir spari sér dylgjur í minn garð. Hann veit ekkert um mig og mín princíp.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 21/08/10 17:49 #

Dylgjur? Þetta voru einfaldar spurningar. Og þú svaraðir þeim ágætlega, takk fyrir.


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 21/08/10 18:16 #

Baldur, þú átt heiður skilinn fyrir að tjá þig hérna og mættu aðrir kirkjunnar menn taka það til eftirbreytni. Þeir eru margir sem gjóa hingað augum en segja fátt ef nokkuð.

Þessa ljótu fortíð þarf kirkjan að takast á við og mér sýnist þú í lykilstöðu í málinu á margan hátt.

Svo vindum við ofan af gagnkvæmri tortryggni og fordómum.


Baldur Kristjánsson - 21/08/10 19:31 #

Birgi fyrirgefið. Ég er alveg sammála þér Reynir, kirkjan þarf að taka á þessari ljótu fortíð. Hún þarf að spyrja sig að því hvernig á því standi að maður eins og Ólafur -og þá gengur maður út frá því að ásakanir gegn honum séu í meginatriðum réttar- gat orðið biskup, ekki bara biskup heldur raðaði hann á sig öllum embættum innan kirkjunnar, vígslubiskups, prófasts, form. P.Í. Hann var vinsælasti prestur í Reykajvík, eftirlæti hinnar nýju borgarastéttar. Hvað segir þetta um kirkjuna okkar og um þjóðfélagið nýliðið. Þetta er á árunum 1970-1990. Svo vindum við ofan af.... Kv. Baldur


danskurinn - 21/08/10 21:18 #

Þetta er svokallað kristið siðferði. Það er í lagi að ljúga að fólki, því himaríki bíður þeirra sem játa trú, sama hvaða þrjótar þetta eru. Frelsarinn hefur einmitt fyrirfram tekið á sig allar syndir hinna rétttrúuðu. Baldur! Þú munt hitta séra Ólaf í himnaríki.


Baldur Kristjánsson - 21/08/10 22:18 #

Það er nú ekki víst að ég komist þangað miðað við þínar forsendur. Kannski hittumst við í neðra! Bkv. Baldur


Árni Árnason - 22/08/10 15:31 #

Mig langar mjög að leggja hér orð í belg þó að þau komi kannski ekki í beinu framhaldi af umræðunni þar sem hún er stödd í þessum þræði.

Mér finnst Biskupinn endanlega hafa brugðist öllu trausti með síðustu viðbrögðum sínum í máli fyrrverandi biskups og fórnarlamba hans. Honum hafa ítrekað gefist ný tækifæri til að sjá sig um hönd, hætta þögguninni og hrista slyðruorðið af kirkjunni. En hvað, enn og aftur kýs hann að fara í gamla þöggunargírinn, ulla upp úr sér einhverju mærðarlegu hjali um að menn teljist saklausir uns sekt þeirra er sönnuð, um að Ólafur fái þann dóm sem bíði okkar allra, að enginn mannlegur máttur fái dæmt í þessu máli o.s.frv. Hann fullyrðir meira að segja að engin leið sé að meta sannleiksgildi frásagnar dóttur biskupsins fyrrverandi og að það sem þar komi fram verði aldrei sannað. Hann sem sagt ætlar að halda áfram, hvað sem á gengur, að drepa málinu á dreif í þeirri von að ekki komi til uppgjörs af neinu tagi. Honum er eflaust ljóst að hann kæmi enda afar illa út úr slíku uppgjöri, hafandi ásamt þingmanni og dómkirkjupresti gengið hvað harðast fram í að berja fórnarlömbin til þagnar.

Við sjáum glöggt hvar forgangsröðun biskups liggur. Nr.1 Verja fyrrverndi biskup, eigin fyrri aðgerðir ( sem og aðgerðarleysi) og þöggun kirkjunnar. Svo koma eflaust fullt af fjárhagslegum forgangsatriðum, eins og að tapa ekki mjólkurkúnni, hinum íslenska skattgreiðanda o.s.frv. Alveg aftast í forgangsröð biskups, svo aftarlega að flokkast sem algert aukaatriði, er svo sannleikurinn, nema ef vera skyldi enn aftar sálarheill og uppreisn æru fórnarlambanna sem hafa þurft að lifa með kökk í hálsinum og ör á sálinni árum saman, og jafnvel þurft að flýja land vegna ásakana um rangar sakargiftir.

Biskupinn má gjarna gera sér grein fyrir því að málið snýst ekki um að koma böndum á óbermi, það er því miður of seint, heldur að rétta þó í litlu sé hlut þeirra sem beðið hafa óbætanlegt tjón á sál sinni. Það tjón sem núverandi biskup sjálfur hefur magnað og margfaldað með eigingjarnri meðhöndlun á málinu.

Biskupnum núverandi verður í sínum mærðarlegu langlokum tíðrætt um hlýjuna í garð náungans sem er svo nauðsynleg. Kveðjurnar sem brotin fórnarlömb fá þó frá honum gerast vart mikið kaldari.


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 22/08/10 16:07 #

Ég tek undir hvert einasta orð hjá Árna.


Stefán Þór Sigfinnsson - 22/08/10 19:05 #

Baldur ég ætla rétt að vona að það sé meirihluti presta með skoðanir á þessu máli eins og þú,Bolli Bollason og Bjarni Karlsson. Með því móti er hægt að bæta ímynd kirkjunnar sem hefur laskast mjög mikið upp á síðkastið. Svo ætla ég í framhaldinu að kalla eftir því að konur innan kirkjunar komi og tjái sig um þessi mál. Kirkjan þarf á því að halda.


Baldur Kristjánsson - 22/08/10 21:30 #

Ég held að mikill meirihluti presta deili skoðunum með okkur Bjarna og Bolla eins og þú nefnir Stefán. Kv. b


Freyr - 23/08/10 12:32 #

Ég dáist að þér Baldur Kristjánsson fyrir að taka þátt í þessari átakanlegu umræðu svo opinskátt og af heilindum.

kv.

F


Hanna Lára - 24/08/10 19:10 #

Einhvers staðar las ég þá fullyrðingu að "kirkjan mætti muna sinn fífil fegri." Með allri virðingu fyrir fíflum þá hefur kirkjan, eðli sinu samkvæmt, alltaf verið fremur ljótur fífill að ekki sé meira sagt. Við erum bara svo heppin í dag að standa á herðum þeirra risa fortíðarinnar sem börðust fyrir trúfrelsi. Margir þeirra létu lífið í þeirri baráttu en upplýsingin skilaði því að við erum ekki lengur neydd með vopnavaldi og ógnunum að játa þá trú sem hentar hverju sinni. Og ég spyr: við hverju er að búast af fólki sem hefur lifibrauð sitt af að ljúga viðstöðulaust og þykist geta ráðlagt öðrum um líf og dauða? Og enn væla prestar og þá einkum biskupinn mærðarlega og reyna að klóra yfir skítinn. Ég skora á alla að segja sig úr þessari gegnrotnu ríkiskirkju. Trú getur maður rækt hvar sem er. Ekki vakir fyrir mér að ræna neinn trúnni - en ég vil ekki borga fyrir 'brauðið' síst þegar það er orðið svona myglað og maðksmogið.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.