Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Það kemur bara eitthvað annað í staðinn

Whatever

Við sem teljum að trúarbrögð séu líklega heldur til ógagns en til gagns fyrir mannkynið erum sum hver að jagast dálítið í trúarhefðunum og reynum eftir fremsta megni að benda á eitt og annað sem við teljum vera galla við trúarbrögðin og trúarhugmyndafræðina. Sumir láta þessar aðgerðir fara í taugarnar á sér, ýmist af heimspekilegum ástæðum, af trúarlegum ástæðum eða af hreinni tilfinninga- og íhaldssemi.

Hinir fyrstnefndu telja margir að mannkynið sé bara þannig gert að það þurfi dálítið á því að halda að skálda í eyðurnar, til að finnast tilveran ekki hroðalega kuldaleg eða tilgangslítil, nú eða bara til að vera í dálítið dularfullum gír. Menn eru sem sagt að gefa sér, alveg óháð sannleiksgildi trúarbragða, að þessi hegðun sé mannlegt eðli, að þeir sem trúi ekki á guði og engla til að fylla líf sitt merkingu séu bara helteknir af pólitík, umhverfisvernd, kapítalisma, trúleysi sínu eða einhverju öðru sem gefur þeim þessa óskilgreindu og kannski í raun fölsku sjálfsréttlætingu. Þannig séu nánast allir trúaðir og það eitthvað sem drífur menn áfram og veitir þeim þá blekkingu að þeir hafi verðugt hlutverk eða einhvern tilgang í heildarmyndinni er þeirra trú.

Gott og vel, segi ég þá. Þarna er búið að skilgreina trú afar vítt og dálítið út frá sálfræðilegu sjónarmiði; trú er bara tegund af hegðun sem gefur fólk eitthvað af þessu tagi og allir nálgast það eitthvað með einum eða öðrum hætti. En í framhaldi af þessum vangaveltum kemur oft upp einhver kæruleysisafstaða þar sem það að hafa neikvæða afstöðu til trúarbragða er sagt tilgangslaust, af því þetta er bara mannlegt eðli og það kemur bara eitthvað annað í staðinn. Um þetta eitthvað annað í staðinn skulum við aðeins fjalla.

Eitt sinn voru menn brenndir á báli fyrir að hafna jarðmiðjukenningunni og enn fremur fyrir það eitt að eiga biblíuna á öðru tungumáli en kaþólsku kirkjunni þótti rétt, þ.e. á öðru tungumáli en latínu (Vúlgatan). Listinn yfir ranghugmyndir og ofbeldi sem þrifist hafa í nafni trúarlegrar sannfæringar er óralangur og mikill. Enn þann dag í dag á samfélagið í töluverðum erfiðleikum með að losa krumlu trúarbáknsins af valdhöfum, hverjir t.d. ákvarða hvaða mannréttindi samkynhneigðir skuli búa við, hvort prestar séu öðrum fremur undanskildir lögum af ýmsu tagi og hvort greiða skuli ríkiskirkjunni en ekki öðrum lífsskoðunarfélögum gríðarlegar upphæðir á hverju ári fyrir að halda úti starfsemi sinni.

Ástandið er þó augljóslega ekki eins slæmt og það var á miðöldum og það er af því að eitthvað annað hefur núþegar komið í staðinn og það voru upplýsingin og siðabótin. Eftir þær menningar- og þekkingarbyltingar breyttist hlutverk kirkjunnar og kannski líka eðli trúarinnar. Aðdragandi þessara breytinga var fólginn í miklum sveiflum í Evrópu, uppstokkun valdhafa (bændabyltingin, fall konungsveldanna), ýmsum breyttum hagsmunum, tækninýungum og kannski ekki síst heimspekilegum skrifum ýmissa hugsuða. Hversu stór hver þáttur er í jöfnunni er erfitt að spá um, en allir hafa þeir vægi. Þessi þróun er enn að eiga sér stað og samkvæmt ýmsum mælingum í dag er trúleysi ein mest vaxandi lífsskoðunin víða um heim.

Hvað kemur þá í staðin fyrir trúarbrögðin? Trúleysi? Eiga allir að dásama realismann og lesa Dawkins?

Í ljósi þess að nánast hver sú sannfæring sem veitir fólki lífsfyllingu er hér að ofan skilgreind sem trú, er ljóst að það getur ýmislegt komið í stað trúarbragða. Guð hins vestræna heims er gjarnan af efasemdarmönnum kallaður guð eyðanna, þar sem hann oft virðist af trúuðum vera skilgreindur sem óþekkt frumorsök og oft hreinlega orsök flest alls sem við ekki skiljum. Sé þeim hugmyndum ekki blandað við trúarrit af neinu tagi er einfaldlega um vissa lotningu fyrir hinu óskiljanlega og óþekkta að ræða. Einhver slík lotning í bland við áframhaldandi þekkingarleit og tilraunir til að dreifa valdi og hagsæld sem víðast meðal fólks er því að mínu mati augljóslega vel möguleg án þess að hengja sig í þúsund ára gömul trúarrit og vilja þunglamalegra tilbeiðslufélaga.

Auðvitað kemur eitthvað annað í staðinn, en það í sjálfu sér segir okkur ekki að við eigum að sitja á heima og þegja á meðan allskyns fásinnu er haldið að fólki um allan heim, hvort sem fásinnan á í sinni loðnustu mynd að vera táknmynd hins óþekkta eða bókstafleg skilaboð frá guði um að brenna eigi albínóa lifandi og eða úthýsa samkynhneigðum.

Það kemur bara eitthvað annað í staðinn er merkingarlaust svar við tilraunum til að breyta hlutunum og hafa áhrif, því það er einmitt verið að reyna að fá eitthvað annað í staðinn, það er markmiðið.

Skylt efni:

Upphafning sinnuleysis

Kristinn Theódórsson 25.08.2010
Flokkað undir: ( Efahyggja )

Viðbrögð


Hlynur - 25/08/10 19:41 #

Allt er, það er, þrennt er.

Útskýrir nokkuð vel afhverju trú kom til.

Jákvætt verður að vera borið saman við neikvætt svo það jákvæða ríki og hafi tilgang. (Helvíti, jörð, himnaríki) 1 2 3.


Guðjón Eyjólfsson - 25/08/10 22:39 #

Sæll Krisinn Þú talar um að sumir láti Vantrú fara í taugarnar á sér. Það sem skiptir máli er að sumir telja sig hafa fundið trúfélag sem vinnur gagnlegt starf. Treystir þú þér til að fullyrða að öll trúfélög á íslandi séu skaðleg og eigi sér því ekki tilverurétt. Ég leyfi mér að efast um að þú þekkir starfsemi allra trúfélga á íslandi í einstökum smáatriðum. Menn velja að starfa í trúfélgögum vegna þess að þeir telja að það sé betra fyrir þá að starfa í trúfélaginu heldur en að standa utan þess. Þú hefur greinilega komist að annari niðurstöðu. Það er vissulega rétt að trúarbrögð geti valdið skaða, en það er grundvallar misskilingur að sá skaði aukist við að taka þátt í starfsemi trúfélags sem vinnur gott starf.


Kristinn (meðlimur í Vantrú) - 25/08/10 23:16 #

Treystir þú þér til að fullyrða að öll trúfélög á íslandi séu skaðleg og eigi sér því ekki tilverurétt.

Nei, hvar fullyrði ég það?


gös - 26/08/10 11:55 #

Það er vissulega rétt að trúarbrögð geti valdið skaða, en það er grundvallar misskilingur að sá skaði aukist við að taka þátt í starfsemi trúfélags sem vinnur gott starf.

Er samt ekki líklegra, að öðrum hlutum jöfnum, að sá sem tekur þátt í starfsemi trúfélags, og umgengst því mikið iðkendur þess trúfélags, eigi erfiðari með að mótmæla skaðsömum og siðlausum kenningum þess trúfélags? Vegna hópþrýstings?

Færri raddir sem mæla með t.d. fullu jafnrétti samkynhneigðra finnst mér aukinn skaði.


Guðjón Eyjólfsson - 26/08/10 16:26 #

http://www.gaychristian.net

Það er alls ekki rétt að allir trúaðir hafi eitthvað á móti samkynheigðum. Það er mjög ósanngjart að tala eins og ekkert hafi gerst í þeim málum. Það er t.d. vel hægt að hugsa sér kristilegt starf sem byggir á þeirri forsendu að samkynheigðir og gagkynheigðir hafi sömu stöðu gangvart Guði. Sjá http://www.gaychristian.net.


Hjalti Rúnar Ómarsson (meðlimur í Vantrú) - 26/08/10 17:28 #

Guðjón, auðvitað hafa ekki allir trúaðir eitthvað á móti samkynhneigðum, en það er örugglega algengara þar. Það er að segja, það er fylgni þar á milli.

Og á þessari síðu sem þú bendir á, er meira að segja grein eftir einhvern kristinn homma sem er að halda því fram að samkynhneigðir eigi að lifa skírlífi (af því að annnað væri auðvitað synd)!


Guðjón Eyjólfsson - 26/08/10 18:33 #

Ég tók líka eftir þessu með að samkynheigðir kristnir hafa ekki allir sömu afstöðu í þessum efnum. Í mínu huga er meginatrið þessa máls að kynheigð og manngildi er sitthvað. Það breytir hins vegar engu um það sem ég benti á og það er að það eru til trúfélög þar sem samkynheigðir eru velkomnir og litið er svo á að kynheigð þeirra sér fyrst og fremst þeirra mál og þetta sé atriði sem miki áhersla er lögð á.


danskurinn - 26/08/10 19:32 #

Það er náttúrulega alveg augljóst, ef maður horfir til kenninga um þróun, að trú og trúarbrögð verða til vegna gagnsemi þeirra fyrir framgang tegundarinnar. Það er jafn augljóst, að þegar gagnsemin minnkar, hættir eða umbreytist í ógagn fyrir tegundina, þá mun þessi eiginleiki hverfa. Það gæti þó tekið einhverja aldir að skrifast í erfðamengið. Á sínum tíma þegar sykur var af skornum skammti, þróaðist sterk sykurlöngun okkar svo tryggt væri að við fengjum þá skammta sem heilinn þarfnaðist. Núna er þessi eiginleiki vandamál vegna þess að sykur er til staðar í umhverfi okkar í miklu samþjöppuðu magni. Það mun taka einhverjar aldir til að rétta af kúrsinn. Næstum allir mannlegir eiginleikar verða til af nauðsyn. Líka trú.


Þórður Ingvarsson (meðlimur í Vantrú) - 26/08/10 19:33 #

@Guðjón Eyjólfsson:

Svona einsog Fríkirkjan.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.