Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Guðfræðilega rétt arfgengi trúar

Við á Vantrú höfum oft fjallað um hve lágur standard er á kennsluefni í kristin- og trúarbragðafræðum á Íslandi. Nýverið rakst ég á lokaverkefni frá Kennaraháskóla Íslands sáluga þar sem búin eru til gagnvirk verkefni í trúarbragðafræði fyrir börn á miðstigi í grunnskóla. Ég veit ekki hvort prófið er nokkuð notað við kennslu.

Ég ákvað að prufa hvort að hér væri nokkuð minnst á guð- eða trúleysi. Ég fann eina vísun í trúleysi en hún var svo undarleg að ég gat ekki stillt mig um að skrifa grein til að benda á hana.

Það var eftirfarandi spurning sem vakti áhuga minn og ekki bara fyrir slaka íslenskunotkun:

Til hvaða trúar telst þú ef móðir þín er gyðingur og faðir þinn er kristinnar trúar?

-Trúleysingi
-Gyðingur
-Kristinnar trúar

Ég efast um að höfundur sé hérna að vitna í skemmtilega líkingu Richard Dawkins að almennt smitist fólk af trúarbrögðum foreldra sinna. Raunar veit ég alveg hvað höfundurinn er að vísa í. Samkvæmt lögmálum gyðinga þarf móðir manns að vera gyðingur til þess að maður teljist sjálfur gyðingur. Það eru til margar betri leiðir til að orða þá spurningu um þessa hefð gyðinga.

Spurningin er, eins og er, fráleit. Hún virðist gera ráð fyrir að trú erfist í móðurlegg. Ef mamma þín er gyðingur telst þú vera gyðingur. Reyndar virðist íslenska ríkisvaldið einmitt gera ráð fyrir að svona erfist trú og þá ekki bara gyðingdómur - en það er annað mál.

Vandamálið við þessa spurningu er að hennar er spurt einungis út frá forsendum umræddra trúarbragða. Það má segja að hún sé guðfræðilega rétt en hún er mjög röng miðað við raunveruleikann. Í raunveruleikanum þá gæti verið að foreldrar samsinnist um að ala barnið upp þannig að því sé kenndar báðar trúarhefðirnar og síðan fái það að ráða trú sinni sjálft þegar það sé nógu gamalt. Það gæti líka verið að kristni faðirinn heimti að barnið sé bara alið upp í kristni. Eða eru allir sem tilheyra kristinni kirkju samþykkir því að öll börn sem kristnir karlmenn eiga með gyðingakonum teljist gyðingar? Ég efast um það.

Við getum endalaust lent í svona ranghölum ef við áttum okkur ekki á að börn geta með þroska komist að sjálfstæðum niðurstöðum í trúmálum. Ef við förum til dæmis eftir því sem íslenskir ríkiskirkjuguðfræðingar telja rétt þá er ég kristinn þar sem ég var skírður. Það að ég tel það fráleita hugmynd að Jesús hafi verið sonur Guðs og frelsari mannkyns kemur málinu ekki við.

Trú, eða trúleysi, er ekki eitthvað sem hægt er að erfa frá móður eða föður. Ég vona að sonur minn verði góður trúleysingi eins og foreldrar hans en að lokum þá verður það hans eigin niðurstaða sem ákvarðar það. Við megum ekki við því að koma inn ranghugmyndum hjá börnum þó þær séu guðfræðilega réttar, kannski sérstaklega ekki ef þær eru guðfræðilega réttar.

Óli Gneisti Sóleyjarson 18.08.2010
Flokkað undir: ( Kristindómurinn , Skólinn )

Viðbrögð


Halla Sverrisdóttir - 18/08/10 09:47 #

Athyglisvert. Í spurningunni er gengið út frá algildum forsendum, þ.e. að eitthvað SÉ einhvern veginn, vegna þess að ein tiltekin trúarhefð vilji hafa það þannig. Rétt gæti spurningin verið: Til hvaða trúar telst þú samkvæmt gyðinglegum trúarsiðum/hefðarvenjum ef móðir þín er gyðingur og faðir þinn er kristinnar trúar? eða Til hvaða trúar telst þú ef móðir þín er gyðingur og faðir þinn er kristinnar trúar, samkvæmt skilningi gyðinglegra trúarsiða?

Mér finnst alltaf óþægilegt þegar talað er eins og hægt sé að flokka börn "by default" í einhvern trúarsið. Hvort sem það er kristindómur, gyðingdómur, islam eða eitthvað annað.

Hvernig þætti fólki að sjá þessa spurningu á félags- eða lífsleiknisprófi:

Til hvaða stjórnmálaskoðun aðhyllist þú ef móðir þín er vinstri græn og faðir þinn Samfylkingarmaður?


Guðjón Eyjólfsson - 18/08/10 14:15 #

Sæll Óli

Ég er alveg sammála þér um að það sé full ástæða til þess að skoða kennslu í trúarbragðafræðslu. Það þarf að tryggja að nemendum sé ekki mismunað vegna trúarskoðanna. Það er að mínu mati mjög mikilvægt að leggja áherslu á umburðalyndi í trúmálum. Það skiptir líka miklu máli að foreldrar sé sáttir við þá uppfræðslu sem barnið fær. Þess vegna verður að taka tillit til óska foreldra í þessum málum.
Seinna verða börnin svo fullorðin og þá geta þau gert það sem þeim þókast og aðhyllst þá lífskoðun sem þeim þókast. Ég tel að íslenskur almenningur mætt gjarnan vera upplýstari í þessum málum.


Frode F. Jakobsen - 21/10/10 22:22 #

Áhugavert að lesa viðbrögðin við lokaverkefnið frá Kennaraháskóla Íslands. Þegar maður sinnir trúarbragðafræðslu í grunnskóla og þekkir nokkuð vel kennsluefni gefið út af Námsgagnastofnun til þessara kennslu, þá finnst mér áhugavert að sjá það gleymast svolítið í sambandi við gyðingdóminn og fræðslu um trúarlegan og menningarlegan þátt gyðingdóms. Þegar maður lærir um þetta, er mikilvægt að átta sig á því að menningarlega eru þeir taldir gyðingar sem eiga móður eða ömmu sem eru gyðingar. En það þýðir ekki að viðkomandi aðili geti ekki verið kristinnar trúar, eða ekki. En til þess að börn okkar skilji þessa hluti varðandi mismunandi trúarbrögð og menningarheima þá þyrfum við kannski að standa okkur enn betur í að fræða börn landsins bæði í því sem snertir kristna trú og önnur trúarbrögð. Það getur varla verið lausn á málinu að hætta allri fræðslu um þessa mikilvægu þætti í lífi fólks.


Baldvin (meðlimur í Vantrú) - 21/10/10 23:20 #

Enda hefur enginn lagt til að trúarbragðafræðslu verði hætt.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.