Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Tilgátan um guð

Ranghugmyndin um guð

Upphaf 2. kafla í Ranghugmyndinni um guð eftir Richard Dawkins:
í þýðingu Reynis Harðarsonar.

Trúarbrögð einnar aldar eru bókmenntaleg skemmtun þeirrar næstu.
Ralph Waldo Emerson.

Færa má rök fyrir því að guð Gamla testamentisins sé ein ónotalegasta persóna í samanlagðri bókmenntasögunni: afbrýðisamur og stoltur af því; smámunasamur, óréttlátur, miskunnarlaus eftirlitsharðstjóri; hefnigjarn, blóðþyrstur þjóðernishreinsari; kvenhatari; hommahatari; kynþáttahatari; barnamorðingi; þjóðarmorðingi; siðspillandi, sadómasókískur, duttlungafullur og meinfýsinn ofbeldisseggur með mikilmennskubrjálæði. Þau okkar sem hafa vanist honum frá barnæsku geta orðið ónæm fyrir hryllingnum.

Nýgræðingur getur hins vegar litið málið óbrjáluðum augum. Randolph, syni Winstons Churchill, tókst einhvern veginn að vera alls ófróður um ritninguna þar til Evelyn Waugh, félagi hans í hernum, veðjaði að hann gæti ekki lesið alla Biblíuna á hálfum mánuði. Þeir höfðu verið sendir á sama stað í stríðinu og Evelyn gerði þetta í þeirri veiku von að með því tækist honum að fá Randolph til að þegja. „Því miður er útkoman ekki sú sem við höfðum vænst eftir. Hann hefur aldrei lesið neitt í henni áður og er óður og uppvægur, les tilvitnanir upphátt og segir: »Ég er viss um að þið vissuð ekki að þetta er í Biblíunni …« eða slær sér á lær og það iktir í honum: »Almáttugur, er guð ekki skíthæll!«“

Thomas Jefferson – betur lesinn – var á svipaðri skoðun og lýsti guði Móse „sem hræðilegum karakter – grimmum, hefnigjörnum, kenjóttum og óréttlátum.“

Það er ósanngjarnt að ráðast á svo auðvelt skotmark. Tilgátan um guð ætti hvorki að standa eða falla með ógeðfelldustu birtingarmynd sinni, Jahve, né dauflegri andstæðu hans í Kristi, „Ljúfi Jesú, góðlyndur og mildur“. (Til að gæta allrar sanngirni ber að geta þess að þessa kveifarlegu sögupersónu ber að rekja frekar til fylgjenda hans á Viktoríutímabilinu en til Jesú sjálfs. Getur velgjan hafist í hærri hæðir en í ljóði frú C. F. Alexander „Kristnum börnum ber að vera / blíð og hlýðin eins og hann“?).

Ég er ekki að ráðast á ákveðna eiginleika Jahve, Jesú, Allah eða nokkurs annars ákveðins guðs eins og Baals, Seifs eða Óðins. Þess í stað ætla ég að skilgreina tilgátuna um guð með forsvaranlegri hætti: Það er til ofurmannleg, yfirnáttúruleg vitsmunavera sem ákvað að hanna og skapa alheiminn og allt í honum, þar á meðal okkur. Í þessari bók er haldið fram öðru sjónarhorni: Þeir vitsmunir, sem eru forsenda fyrir allri sköpun, verða aðeins til fyrir tilstilli langs ferils þróunar. Þar sem vitsmunir til sköpunar þróast, koma þeir seint til sögunnar í alheiminum og geta því ekki borið ábyrgð á tilurð hans. Guð, eins og hann er skilgreindur, er ranghugmynd, og eins og sýnt verður fram á í síðari köflum, hættuleg ranghugmynd.

Þar sem tilgátan um guð á rætur sínar í reynslu einstakra manna samkvæmt hefðum á hverjum stað er ekki að undra að hún er til í mörgum útgáfum. Sagnfræðingar geta rakið framvindu trúarbragða frá frumstæðri andatrú yfir í fjölgyðistrú eins og hjá Grikkjum, Rómverjum og norrænum mönnum, til eingyðistrúar eins og gyðingdóms og afleiðna hans, kristni og íslam.

Ritstjórn 30.08.2010
Flokkað undir: ( Bókaskápur efahyggjunnar )

Viðbrögð


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 30/08/10 09:40 #

Bókin kemur út 1. september en hana má panta nú þegar hjá Ormstungu.


Teitur Atlason (meðlimur í Vantrú) - 30/08/10 09:45 #

Bravó. Stefnumótandi bók sem ég hvet alla til að kaupa.


Ólafur Kristjánsson (meðlimur í Vantrú) - 30/08/10 11:02 #

Er þegar búinn að taka frá pláss fyrir þessa í bókahillunni hjá mér. Frábært framtak.


gös - 30/08/10 11:57 #

Spaugilegt að The Dawkins Delusion sé búin að vera til í íslenskri þýðingu í tæp 2 ár. http://www.amazon.co.uk/Dawkins-Delusion-Atheist-Fundamentalism-Denial/dp/0281059276/ref=sr_1_1?ie=UTF8&s=books&qid=1283169209&sr=8-1
http://www.bokafelagidugla.is/versla/?sida=bok&bok=39
http://www.bokafelagidugla.is/baekur2008.htm

Það sem mér finnst spaugilegt er að þýða enskt andsvar við bók á ensku yfir á íslensku. Ætlaður lesendahópur hlýtur að vera þeir sem geta ekki lesið Dawkins Delusion á ensku... en þá gætu þeir væntanlega ekki lesið God Delusion á ensku heldur.

En ég ætti svo sem ekki að kasta steinum úr glerhúsi, þar sem ég les oft andsvör við trúuðum án þess að lesa upphaflegu textana :)


Tommi - 30/08/10 16:22 #

Væri skemmtilegt ef Íslensk bókasöfn myndu færa þessa bók undir trúarbrögð og setja allar biblíunnar í skáldsöguhornið.


Jon Steinar - 30/08/10 22:04 #

Gleðilegur áfangi. Finnst titillinn einhvernveginn og mjúkur og áherslunum víxlað frá ranghumynd á guð. Skynvilla má eiginlega segja. Orðið ranghugmyndir er einhvernveginn svo samgróðið samfélaginu hér og algengt fyrirbrigði í geðlæknisfræðinni til að hafa þann sama slagkraft og orðið delusion. Að vera delusional er miklu alvarlega en að hafa netta ranghugmynd. Það málar mynd af freyðandi fábjána sem talar í samhengislausu óráði um það sem ekki er. Held að það hafi verið hnykkja á. Orðið Delusion var aðalinntakið. Þarna sjáum við hve fátæk tungan okkar er í raun.


Tommi - 30/08/10 23:00 #

"Guð blekkingin"


Jón Steinar - 28/09/10 03:52 #

Prestar eru af miklum móð að kenna yngstu börnum sköpunarsögu biblíunnar í hrollvekjandi og ísmeygilegum heimsóknum sínum í leikskóla landsins. Hefur einhverjum hugnast að spyrja þá hvers vegna?

Geta þeir réttlætt þetta með einhverju móti?


Árni Árnason - 29/09/10 21:16 #

Er að lesa bókina og hún lofar góðu. Mér flaug samt aðeins í hug að e.t.v. hefði verið réttara bókin, sem á frummálinu heitir The God delution, héti: "Ranghugmyndin guð" frekar en "Ranghugmyndin um guð"

Flestum finnst þetta sjálfsagt bitamunur en ekki fjár, og jafnvel óttalegt nöldur, en í orðunum the God delution felst eða er a.m.k sterklega gefið í skyn að hugmyndin um að til sé guð sé ranghugmynd eða með öðrum orðum að fyrirbærið guð sé ranghugmynd. Íslenski titillinn gengur að því leytinu skemur að hann gefur undir fótinn með að guð sé eða geti verið til, en einhverjir geri sér ranghugmynd um hann.

Ranghugmyndin guð = guð er ranghugmynd. Ranghugmyndin um guð = guð er til en er miskilinn.

Það getur vel verið að ég sjái þetta í ljósi eigin ranghugmynda, en það verður þá bara að hafa það. Efnistök Dawkins í bókinni taka reyndar af allan vafa um að fyrirbærið guð sé ranghugmynd, og því ekki til í raunveruleikanum.

Kommenta nánar á bókina þegar ég er búinn með hana.


Árni Árnason - 29/09/10 21:19 #

Delusion að sjálfsögðu "delution" er einhverskonar útþynning. Guð er reyndar orðinn ofslega útþynntur ef út í það er farið :-)


atli - 24/12/10 07:30 #

Eftir að hafa lesið úr 2. kafla, sem kallast "Tilgátan um Guð", finnst mér sem hér sé hugtakið "tilgáta" notað all frjáslega. Er ekki gerð krafa um opinn möguleika á að afsanna tilgátu? Hugmyndin um Guð er tæplega afsannanleg og stenst þess vegna ekki kröfur sem gerðar eru um tilgátu. Eða hef ég msskilið eitthvað hér?


Jón Grétar Borgþórsson - 24/12/10 14:19 #

@atli: Orðið "tilgáta" eins og mörg orð á borð við "trú" getur haft margar meiningar þannig séð. Hér er ekki að tala um þýðingu á orðinu "theory" (sem sjálft getur haft ýmsar merkingar) sem þú virðist vera að hugsa um heldur þýðing á orðinu "hypothesis" sem getur verið loðnara.


Balli - 28/12/10 20:35 #

Sæl og gleðileg jól

Ég fékk þessa bók í jólagjöf og var að ljúka við hana. Verð að viðurkenna að líkurnar á því að trúaður maður, jafnvel þó að hann sé í efa, sé til í að lesa 450+ blaðsíður um það að guðir séu ekki til. Þessi bók er frekar einsog bók númer tvö eða þrjú sem maður myndi lesa. Bókin "The Dawkins Delusion?" eftir Alister McGrath er bara 75 bls og ég geri ráð fyrir að hún sé þar af leiðandi hnitmiðaðri (án þess að hafa lesið hana). Mér fannst í bókinni hans Dawkins oft á tíðum of miklar vangaveltur og að hann gefi sér stundum hluti, sem hann er gagnrýnir að trúað fólk gerir. En málið er að það er erfitt að "sanna" að eitthvað sem er ekki til sé ekki til. Þessvegna enda rökin stundum í furðulegum pælingum. Er til styttri bók sem hentar handa þeim sem eru í sýnum fyrstu skrefum í efasemdum um tilvist guðs? Ég sé að þið hafið bókina hans Dawkins á forsíðunni ykkar, en er til einhver einfaldari bók fyrir byrjendur?


gös - 29/12/10 10:00 #

Sæll Balli,

Þú gætir prófað Af hverju ég er ekki kristinn eftir Bertrand Russell í þýðingu Ívars Jónssonar. Hún er til á vefbókasafni þessa vefs og er einungis 25 blaðsíður.

Ég er áhugasamur um efnislega gagnrýni á bók Dawkins - það væri gaman að fá konkret dæmi um að það þegar þér finnst hann gefa sér hluti á gagnrýnisverðan hátt, jafnvel með blaðsíðutali. En bara ef þú nennir. (Ég held að "of miklar vangaveltur" sé hins vegar frekar huglægt mat.)


Sveinbjörn Halldórsson - 04/12/11 00:36 #

Dæmigerð óvífni þessa handahafa sannleikans, sem Dawkins þykist vera, að snúa út úr orðum Emerson með tilvinun sinni. Það væri nær að þessi "virti" fræðimaður kynnti sér betur trúarskoðanir Emerson áður en hann vitnar í hann.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.