Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Minnisvarði Helga Hóseassonar

Whatever

Klukkan sex í dag verður látlaus athöfn á horni Langholtsvegar og Holtavegar til að minnast þess að ár er liðið frá láti Helga Hóseassonar. Um leið verður afhjúpuð minningarhella sem komið hefur verið fyrir á sama stað.

Í minningargreinum er gjarnan vitnað í þau orð Hávamála að orðstír deyi aldrei eða dómur um dauðan hvern. Í lifanda lífi var Helgi oft litinn hornauga og smánarleg var sú afgreiðsla sem hann fékk hjá fyrirmönnum þjóðarinnar og sér í lagi Þjóðkirkjunnar. Helgi var hreinn og beinn, heill í gegn.

Við erum stolt af því að hafa gert Helga Hóseasson að fyrsta (og enn eina) heiðursfélaga Vantrúar. Sjálfsagt fylgdi því lítil upphefð í hugum flestra á sínum tíma en tímarnir breytast, ólíkt Helga.

Helgi var óhræddur við að fylgja sannfæringu sinni, hvort sem það var andstaða við reykingar, hernaðarbrölt eða skömm á kennisetningum kristninnar. Réttlætiskennd hans var sterk og hann hlýddi kalli samvisku sinnar, að vekja athygli á neyð manna í stríðshrjáðum löndum og hræsni kirkjunnar. Þótt Helga hafi ekki tekist að fá skírnarsáttmálanum rift vakti hann athygli á hversu fáránlegt það er að sjálfskipaðir fulltrúar himnadrauganna telji sig geta komið á samningi fyrir þeirra hönd við ómálga börn en svo sé enginn mannlegur máttur sem geti rift slíkum gjörningi.

Við í Vantrú höldum baráttu Helga áfram með því að benda á að kristni er ekkert annað en frekar aumkunarverð hindurvitni, ef maður nennir aðeins að gá. Og við reynum að koma í veg fyrir að börn séu skráð við fæðingu í trúfélag. Raunar finnst okkur engin ástæða til að ríkisvaldið haldi skrá yfir meintar trúarskoðanir þegnanna og auðvitað á ríkið hvorki að vernda né styðja eitt trúfélag umfram önnur.

Hugmyndin um minnisvarða um Helga Hóseasson kom fram skömmu eftir andlát hans og stofnaður var Facebook-hópur um það verk. Steinsmiðjan S. Helgason hafði hins vegar samband við Vantrú og bauðst til að leggja fram bæði vinnu og efni ef gera ætti minnisvarða um Helga. Við bentum forsvarsmanni Facebook-hópsins, Alexander Frey Einarssyni, á þetta tilboð en lítið gerðist fyrr en Vantrú ákvað að fara í málið. Þótt vilyrði hafi fengist fyrir hellu í tíð fyrri borgarstjórnar þurfti að hefja ferlið upp á nýtt eftir borgarstjórnarskipti. Kerfið er hins vegar svifaseint en með hjálp dr. Gunna í Besta flokknum komst skriður á málið. Þór Sigmundsson steinsmiður hjá S. Helgason teiknaði steininn og þegar leyfi lá fyrir var steinninn smíðaður og honum komið fyrir í samráði við og undir handleiðslu borgarstarfsmanna.

Á hellunni má sjá skóför og far eftir mótmælaspjald. Ofan á þá mynd er skrifað með leturgerð Helga: „HVER SKAPAÐI SÝKLA“. Til hliðar er svo fullt nafn Helga Hóseassonar. Ákveðið var að sleppa dagsetningum og ártölum til samræmis við afstöðu Helga sjálfs til þeirra mála.

Okkur brá hins vegar nokkuð í brún þegar sú frétt birtist óvænt að einhverjir aðrir ætluðu að setja upp minnisvarða um Helga á sama horni. Síðar kom í ljós að hann var á einkalóð og er bekkur, sem á stendur Krosslafur, auk þess sem endurgerð af einu skilta hans er við bekkinn. Við gleðjumst að sjálfsögðu yfir því að fleiri vilja minnast Helga og vonum að þessir tveir ólíku minnisvarðar bæti hvor annan upp.

En við gerum fleira en að halda áfram baráttu Helga og heiðra minningu hans á torgum. Við höfum líka kvartað til siðanefndar Háskóla Íslands vegna þess hvernig afstaða hans hefur verið skrumskæld af einum stundakennara í guðfræði- og trúarbragðafræðideild. Málið verður tekið fyrir síðar í mánuðinum eftir allsérstakar slaufur innan háskólans.

Látið sjá ykkur og heiðrið minningu Helga með okkur.

Ritstjórn 06.09.2010
Flokkað undir: ( Helgi Hóseasson , Tilkynning )

Viðbrögð


Funi - 06/09/10 14:57 #

,,Látlaus athöfn!" Segir allt um púritanska lífssýn ykkar positífista. Voðalega verður þessi goðmagnalausa veröld ykkar þar sem allt krefst sannana, leiðinleg. Helgi setti þó smákrydd í mannlífið. Þótt hann hafi hamast gegn reykingum sem er honum til ævarandi skammar. Vonandi nennir einhver að mæta.


Baldvin (meðlimur í Vantrú) - 06/09/10 15:19 #

Ég vona þín vegna, Funi, að þetta hafi átt að vera fyndið ...


Trausti (meðlimur í Vantrú) - 06/09/10 21:21 #

Fyndið hvað það er erfitt að greina á milli kristinna trúmanna og grínista, sbr. Funa hér að ofan.

Hvort er þetta flott djók til að ýfa fjaðrir trúleysingja eða aumkunarverður kristlingur að tjá skoðanir sínar?

Þetta er það sem við vantrýslingar þurfum að díla við alla daga. Er manninum alvara eða er hann að djóka.

Það besta er að flest brandara-kommentin sem við fáum eru frá öðrum trúleysingjum til að æsa okkur.

Frændur eru frændum verstir.


Guðmundur I. Markússon - 06/09/10 23:05 #

Gott mál.


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 07/09/10 10:04 #

Við þökkum þeim sem létu sjá sig í gær. Allt fór vel fram og létt var yfir fólki.

Við þekkjum þá sögu vel að eftir andlátið reyna kristlingar oft að eigna sér menn og telja til samherja sinna, ljúga jafnvel upp á þá trúarjátningum á dánarbeði.

En hverjum hefði dottið í hug að ári eftir lát Helga gæti einhver verið svo ósvífinn að halda því fram "að Helgi Hóseason hafi í raun verið mikill trúmaður og sannkristinn fram í fingurgóma"? #

Svo bætir þessi bloggari reyndar um betur og segir um Helga: "Hann hefði ekki átt neina samleið með félagsskapnum „Vantrú” . Aldrei."

Undarlegt hvað sumir eru í litlum tengslum við veruleikann. Eins og margoft hefur komið fram var Helgi heiðursfélagi í Vantrú og hér má t.d. sjá myndir af Helga og Vantrúarmönnum á skyrdeginum mikla.


Hrafnhildur - 07/09/10 11:34 #

Skoðaði helluna þegar ég hjólaði í vinnuna í morgun og er ánægð með framtakið. Útfærslan er mjög smekkleg.

Hins vegar hefur vaxið úr kertunum sem voru við víxluna sullast á gangstéttina, við og á helluna. Reikna með að nú hefjist kapphlaup um hver er fyrstur til að hreinsa það í burtu.


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 07/09/10 12:05 #

Fréttir af hellunni:

Tilkynning á mbl.is. #

Tilkynning á visir.is. #

Tilkynning á dv.is. #

Viðtal á Rás 2. # (Setjið bendil undir fyrr o í "Rondo")

Viðtal við hvatamann Facebook-hópsins. #

Frétt af athöfninni á mbl.is. #

Umfjöllun um athöfnina í 10 fréttum RÚV. # (Hefst við 5:00 mín.)

Sýnið viðbrögð, en vinsamlegast sleppið öllum ærumeiðingum. Einnig krefjumst við þess að fólk noti gild tölvupóstföng, líka þegar notast er við dulnefni. Ef það sem þið ætlið að segja tengist ekki þessari grein beint þá bendum við á spjallborðið. Þeir sem ekki fylgja þessum reglum eiga á hættu að athugasemdir þeirra verði færðar á spjallborðið.

Hægt er að nota HTML kóða í ummælum. Tög sem virka eru: a href, b, i, u, br, p, strong, em, ul, li og blockquote. Einnig er hægt að notast við Markdown rithátt í athugasemdum. Notið skoða takkann til að fara yfir athugasemdina áður en þið sendið hana inn.










Muna þig?