Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Þórðargleði Vantrúar

Þótt Vantrúarmenn fagni því fölskvalaust að hulunni er flett af skinhelgi og vanhæfni ríkiskirkjunnar í siðferðismálum er hugur okkar jafnframt hjá þeim sem eiga um sárt að binda vegna brota hennar og getuleysis.

Höfum hugfast að þótt kynferðisleg áreitni sé óþolandi og óafsakanleg og kynferðislegt ofbeldi glæpsamlegt þá er ekkert viðbjóðslegra en að nota börn til að svala girndum sínum. Hér eru tvær tilvitnanir þar að lútandi:

Þetta er einhver hræðilegasti glæpur sem til er og liggur þungt á fólki, eyðileggur líf. Þetta er sálarmorð og á ekki að lýðast. Og samfélagið allt á að standa vörð um það að ekkert barn verði fyrir slíku. Við getum aldrei komið algjörlega í veg fyrir það en við eigum að leita allra ráða til þess að koma þeim til hjálpar sem verða fyrir slíku. #

Það fer ekki á milli mála að kynferðisleg valdbeiting eða áreitni er eitthvað það ógeðfelldasta og ógeðslegasta sem þjakar mannlegt samfélag. Kynferðisleg misnotkun barna veldur líka öllu heilbrigðu fólki miklum áhyggjum enda vitum við það að misnotkun barns, sérstaklega af nánum ættingja eða þeim sem það hefur borið traust til, hefur áhrif allt lífið. Það mótar afstöðu til fólks af gagnstæðu kyni auk þess sem það mótar veruleika alla ævi. Kirkjunni ber að koma slíku fólki til aðstoðar. Kirkjunni ber að sinna því ekki síður en þeim öðrum sem eiga við vandamál stríða. #

Sú fyrri er beint úr munni Karls Sigurbjörnssonar biskups Íslands í Kastljósi 23. ágúst sl. en sú síðari eru orð Ólafs Skúlasonar biskups, merkilegt nokk, þegar hann tilkynnti í júní 1996 að hann ætlaði að láta af embætti einu og hálfu ári síðar!

Nú segir fólk sig umvörpum úr Þjóðkirkjunni því það eina sem biskup virðist ætla að gera í stöðunni er að "geyma frásögnina í hjarta sér". Það gáfulegasta sem núverandi formanni Prestafélags Íslands dettur í hug að segja er að "Karl Sigurbjörnsson biskup þurfi að leita stuðnings hjá preststéttinni og þjóðinni um áframhaldandi setu sem biskup." #

Sumir ómerkilegustu prestar landsins heimta höfuð Geirs Waage. Þar reið Bjarni Karlsson á vaðið sem sagði:

Það er háskalegt og varðar hreinan brottrekstur úr prestsembætti að halda fram því sem sr. Geir Waage gerir, því það verður að vera hafið yfir allan vafa að vígðir þjónar kirkjunnar setji öryggi barna og annarra sem ekki geta borið hönd yfir höfuð sér í forgrunn. #

En við minnum á að Bjarni Karlsson sat aðalfund Prestafélags Íslands 2007 þar sem eftirfarandi var ritað í fundargerð:

Sr. Geir G. Waage lagði áherslu á að um algjöran trúnað væri að ræða. Presturinn segði engum frá neinu og skipti engu máli um hvað væri að tefla. Hverjum ætti að vera hægt að treysta ef frjálst væri að halda þagnarskyldu? Prestafélag sem er frjálst félag innan þjóðkirkjunnar getur ekki lýst því yfir ótilneytt og bundið félagsmenn sína við þá stefnumörkun að fremur beri að hlýða mönnum en Guði. Sagðist vel geta lifað við að slíkt stæði í lögum en skyldur hans sem prests gengju lengra en mannanna boð. Gæti vart verið félagi í P.Í. ef þessu yrði breytt. #

Nokkrir aðrir prestar tóku í sama streng og Geir. Í fundargerð kemur líka fram að Bjarni Karlsson var á öðru máli en af hverju verður afstaða Geirs allt í einu að brottrekstrarsök þremur árum seinna? Er það ekki vegna þess að Bjarni Karlsson sækist eftir vinsældum umfram allt annað? Kannski var glæstasta stundin í ömurlegri sögu Prestafélags Íslands einmitt þegar Geir Waage var formaður þess og reyndi að fá Ólaf Skúlason biskup til að segja af sér í kjölfar ásakananna sem komu fram 1996. Ólíkt Bjarna eltir Geir ekki vinsældir eða tíðaranda, til dæmis hugmyndir nútímamanna um hjónaband samkynhneigðra. En 24. þessa mánaðar sagði Geir í bréfi til kollega síns:

Eg þakka þjer fyrir, þú bendir á kjarna málsins. Það er svívirt barn, svívirtar konur og karlar, sem hjer verður að verja og hjálpa með öllum tiltækum ráðum. Það verður ekki gert með því að loka eina farveginum, sem kann að koma að gagni til þess að einhver vitneskja berist einhverjum um svívirðuna. Börn eru ekki líkleg til þess, að vitja prests vegna þessa, þó ekki sje það útilokað. Iðrun brotamanns, er ef till eina vonin, en þá reynir líka á prestinn, drengskap hans og trúnað við það sem heilagt er. #

Konurnar sem urðu fyrir barðinu á Ólafi biskupi og vildu vara aðra við reyndu árangurslaust að leita til kirkjunnar aftur og aftur, og jafnvel enn. Fyrst var leitað til Sigurbjörns Einarssonar, þá fyrrverandi biskups, sem sendi konuna á fund Ólafs, „sem brást hinn versti við og gaf í skyn að hún væri geðveik“ (Vikan 2. júlí 2009). Þá til séra Pálma Matthíassonar 1994, sem gerði ekkert, svo til séra Vigfúss Þórs Árnasonar, sem gerði ekkert. Þá til siðanefndar, sem gerði ekkert. Svo reyndu þeir Karl Sigurbjörnsson biskup (þá prestur) og séra Hjálmar Jónsson að leita sátta – þ.e.a.s. að þagga málið niður, en það gekk ekki. Í júní 2009 lagðist Kirkjuráð svo lágt að hlusta á frásögn einnar konunnar og útkoman varð þessi:

„Kirkjuráð harmar sársauka og vonbrigði sem fram komu í frásögn hennar á fundinum og skort á skilningi og máttleysi í viðbrögðum kirkjunnar á sínum tíma." Kirkjuráð hafi þó ekki vald til að leggja mat á eða úrskurða um framangreindar sakargiftir. #

Og þá erum við komin til atburða síðustu daga sem öllum er í fersku minni. Við bendum þó á ágæta samtantekt Hörpu Hreinsdóttur um þetta mál og umfjöllun Vantrúar

Enn sem fyrr bregst yfirstjórn kirkjunnar hlutverki sínu. Málin eru „afgreidd“ með merkingarlausum frösum og hálfvelgju. Fórnarlömbum þessarar stofnunar mætir tilfinningalaust bákn og kerfiskarlar í stað kærleika, skilnings og umhyggju. Gagns-, getu- og valdalausar siðanefndir, fagráð, siðareglur og ferlar veita nákvæmlega enga huggun, enga líkn þegar skaðinn er orðinn, ekki frekar en innistæðulaus fagurgali siðapostulanna og mærðarleg tilgerð eða fögur orð um hluttekningu í hugsanlegri vanlíðan.

Róttækustu og raunhæfustu viðbrögðin sem stungið hefur verið upp á til þessa eru hugmyndir um svokallaða „óháða sannleiksnefnd“. # Sem fyrr vísar hver á annan. Dómsmálaráðherra segir að kirkjan sé sjálfstæð og þurfi að taka á málum en biskup segir að ekki sé hægt að dæma í máli látins manns. Heródes og Pílatus með öfugum formerkjum. # Ef þessi nefnd verður skipuð jafnsálarlausum kerfiskörlum og hingað til hafa vélað um þessi mál í bákninu er verr farið en heima setið. En ef nefndin hristir af sér viðjar formsins og kerfisins líkt og rannsóknarnefnd Alþingis á orsökum bankahrunsins má vera að eitthvað af viti komi út úr störfum hennar. En það er ekki nóg!

Við minnum á að Ólafur Skúlason var skipaður fyrsti æskulýðsfulltrúi Þjóðkirkjunnar árið 1960. Það ár varð dóttir hans sex ára, sú sem hann misnotaði kynferðislega ítrekað og gróflega á meðan hún var barn og unglingur. # Rifjum upp hvað kom fram árið 1996:

Í þriðja lagi liggja fyrir upplýsingar frá konu um að biskup hafi áreitt hana kynferðislega á sundmóti sem fram fór á sama stað og tíma og þar var haldið fermingarbarnamót. Þetta var upp úr 1960 og Ólafur Skúlason þá æskulýðsfulltrúi þjóðkirkjunnar. Hann á að hafa farið höndum um stúlkuna þar sem hún var íklædd sundbol og viðhaft ýmis ummæli um vöxt hennar og líkamlegan þroska. Hún hafi þá verið 13 ára að aldri. Einnig á núverandi biskup að hafa farið höndum um 11 ára gamla systur hennar við sama tækifæri undir því yfirskini að hann væri að bera saman þroska þeirra. Fimmta tilvikið varðar konu sem ber að á sínum tíma hafi núverandi biskup áreitt hana kynferðislega er hún var á fermingaraldri og sóknarbarn í Bústaðasókn. Hann á að hafa viljað fá hana til samræðis og talað um það sem hinn fullkomna samruna. #

Hversu mörg börn og unglingar urðu fórnarlömb æskulýðsfulltrúa Þjóðkirkjunnar? Hversu margar konur urðu fórnarlömb prestsins, prófastsins, formanns Prestafélagsins og biskupsins? Við því fást aldrei svör. En þegar dóttir þessa hræsnara hefur nú tekið af allan vafa um það óeðli, sem organistinn í Bústaðakirkju hafði vitnað um áður, efast enginn annar en biskupinn um sekt Ólafs og kirkjunnar. En sektin er ekki bara kirkjunnar heldur okkar allra sem þjóðfélags. Í stjórnarskránni er þess getið að ríkisvaldinu beri að vernda og styðja Þjóðkirkjuna alveg sérstaklega. Þótt dómsmálaráðherra, sem fulltrúi kerfisins, þykist ekkert geta gert í málinu vegna sjálfstæðis ríkiskirkjunnar er ábyrgðin líka ríkisvaldsins. Og þar sem öllum má ljóst vera að ríkiskirkjan er ekki bara getulaus heldur líka viljalaus til að gera nokkuð þurfum við að gera þá kröfu til ríkisvaldsins og okkar sem þjóðar að hlutur fórnarlamba kirkjunnar verði bættur með áþreifanlegum hætti. Trúverðugleiki kirkjunnar er að engu orðinn og traust manna á henni í molum. Þess vegna þarf ríkisvaldið að grípa til eftirfarandi aðgerða:

  1. Bjóða fórnarlömbum kynferðisglæpamanna kirkjunnar ókeypis og tafarlausa meðferð raunverulegra fagaðila í sálarmeinum, s.s. sálfræðinga og geðlækna.
  2. Rannsaka kynferðisglæpi kirkjunnar manna a.m.k. síðustu fimmtíu ár og greiða þeim fórnarlömbum sem gefa sig fram ríflegar fébætur líkt og gera á í tilviki Breiðavíkurdrengjanna.
  3. Það sama á við um aðra glæpi og fórnarlömb kerfisins s.s. Heyrnleysingjaskólans, Byrgisins, Bjargs o.s.frv.
  4. Aðskilja ríki og kirkju við fyrsta tækifæri og staðfesta að þjóðin á allar þær jarðir sem kirkjan sölsaði undir sig með vafasömum hætti á öldum áður en ekki sértrúarsöfnuðurinn „Þjóðkirkjan“.

Þjóðkirkjunni ráðlegg ég að glugga í svörtu bókina og taka upp á þeirri nýbreytni að breyta líkt og Kristur boðar, þ.e.a.s. að gefa allar eigur sínar fátækum og hafa ekki áhyggjur af morgundeginum o.s.frv.

Innan kirkjunnar starfa ótal sómamenn og konur sem nú líða fyrir afbrot og afglöp yfirmanna hennar fyrr og síðar. Þau eiga samúð okkar. Margir telja sig illa svikna og sumir kunna að efast um trúna sem þessi kirkja hefur boðað. Það getur líka verið sárt en er öllum mönnum hollt. Brotaþolar þessa bákns eiga auðvitað samúð okkar líka en það er sérstök ástæða til að tilgreina sérstaklega dóttur Ólafs biskups og fjölskyldu hans alla.


Þórðargleði felst í því að hlakka yfir óförum annarra. Sambærilegt hugtak í þýsku er Schadenfreude og er notað sem tökuorð í ensku og öðrum tungumálum. Frændur okkar í Noregi og Danmörku tala um skadefryd sen Svíar um skadeglädje.

Reynir Harðarson 25.08.2010
Flokkað undir: ( Siðferði og trú , Vísun )

Viðbrögð


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 25/08/10 16:20 #

Nú íhuga kirkjunnar menn að fela Kirkjuþingi í nóvember að koma með tillögur um hvernig kirkjan geti látið rannsaka sjálfa sig.

Sjá hér og hér.


Einar (meðlimur í Vantrú) - 25/08/10 17:49 #

To little, to late...

http://www.dv.is/frettir/2010/8/25/kirkjad-bidur-sigrunu-og-gudrunu-fyrirgefningar/


Rúnar Þórarinsson - 25/08/10 20:08 #

Karl vill að þjóðfélagið sé opið en hann getur samt ekki tekið afstöðu með því að menn ljóstri upp um nauðganir á fólki sem ekki er börn.

Og svo trúir hann ekki samhljóma frásögnum fjölda einstaklinga og vitnum (eins og organistans í Langholtskirkju).

Áttum okkur á þessu: Maðurinn trúir mörgþúsund ára gömlum, margbreyttum textum um ofsjónir og geðveiki troðfullum af barnalegum fullyrðingum um uppruna alls og tilgang alls, en á svo bágt með því að trúa konum sem í hugrekki sínu stíga fram og lýsa níðingsverkum forvera síns í starfi.

Auðvitað á hann eftir að beygja sig í duftið og biðjast afsökunar á þessu, enda er fólk nú búið að fá sig fullsatt af þessu og segir sig úr þessum kirkjuklúbbnum sem aldrei fyrr og hætt er við að Kalli og kumpánar detti af ríkisspenanum hvað úr hverju.


Jórunn - 26/08/10 15:58 #

Það er enn eitt ruglið að fela kirkjuþingi að skipa einhverja sannleiksnefnd! Ég segi eins og Illugi Jökulsson í Kastljósi í gærkvöld (25.8) að það er verk dómsmálaráðherra.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.