Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Hreinsunin mikla: Opið bréf til presta íslensku ríkiskirkjunnar

Arfleifð Ólafs Skúlasonar mun fylgja íslensku ríkiskirkjunni þangað til hún hefur verið gerð upp af vægðarlausum myndugleik. Þetta er staðreynd. Það þýðir ekki að bera það fyrir sig að Ólafur sé látinn, því málið snýst ekki eingöngu um það að hann hafi verið öfuguggi og glæpamaður, heldur að heil stofnun hafi verið meðvirk með honum, maður gengið undir manns hönd til að hylma yfir glæpi sem þeir vissu um. Það snýst um að lunginn úr heilli stétt manna var reiðubúin til þess að þagga málið niður eða láta það liggja milli hluta. Vilja ekki vita, eða vita og vilja ekki aðhafast. Og það stétt sem réttlætir ríkisrekna tilveru sína með því að hún leggi öðrum línurnar í siðferðismálum.

Nú verð ég seint talinn með hollvinum ríkiskirkjunnar. Hér eru þó nokkur hollráð sem eru sett fram í einlægni. Ég hygg að væri þeim fylgt, mundi það verða til góðs, bæði fyrir minn trúfrelsissinnaða málstað og fyrir hin heiðarlegri element innan kirkjunnar sjálfrar. Hér lít ég því framhjá því sem mér þykir athugavert við sjálfa trúna, en skoða kirkjuna sem stofnun og gef mér að trúin sé það sem hún gengur út á.

Þegar ég segi „vægðarlausum myndugleik“ meina ég að kirkjan þarf ekki að dusta sorann af sér með fjaðrakústi, heldur sandblása hann. Myndugleikinn þýðir að það þarf að taka af skarið með röggsemi, þora að gera það sem þarf, án hiks og fumlaust. Og vægðarleysið þýðir að það þarf að láta réttlætið ganga fyrir, svona einu sinni, einfaldlega svipta þá hempunni sem hafa sýnt af sér siðferðisbrest, höggva burt allar feysknar og sjúkar greinar og á eld kasta.

Karl, Hjálmar, Vigfús og Pálmi þurfa að víkja. Og heill hópur á eftir þeim, sem ég hirði ekki um að telja upp. Það er ekkert persónulegt, en þeir geta ekki gegnt stöðum sínum með sóma ef þeir eru með svona ljótar slettur á kjólnum. Einu ástæðurnar fyrir því að þeir sitja ennþá er persónuleg metorðagirnd og ást á launaseðlum. Þeir elska sjálfa sig meira en stofnunina sem þeir þykjast þjóna. Við vitum öll að ásakanirnar gegn Ólafi eru sannar. Við vitum öll að þeir kusu að aðhafast ekki. Þeir eru hluti af vanda kirkjunnar, ekki lausninni. Kirkjan hefur ekkert við þá að gera, að svo miklu leyti sem hún er ærleg.

Ærleg, já. Það verður fróðlegt að sjá hvernig kirkjan lendir þessu máli. Hún getur ekki gert það með hálfkáki eða málamiðlunum. Ef niðurstaðan verður sú að vitorðsmenn sitji sem fastast, þá er það áfellisdómur fyrir stofnunina alla. Ef hún getur ekki rekið þá af höndum sér, þá hefur henni einfaldlega mistekist sem stofnun. Nei, það þarf að fara fram uppgjör og uppgjör af þessu tagi getur ekki verið annað en sársaukafullt. Það þarf bara að horfast í augu við það og muna hvert markmiðið er: Að hreinsa kirkjuna af sora.

Hér eru hollráðin komin, prestar góðir, og verði ykkur að góðu. Ég veit að þið munuð ekki fara eftir þeim vegna þess að þið treystið ykkur ekki til þess. Þið vitið að kirkjan stendur á brauðfótum og að skvapholda og spillt kirkja þolir ekki svona uppgjör. Þið vitið að hún er svo viðkvæm að hún lifir kannski ekki uppskurðinn af. En þá verður meinið áfram til staðar og heldur áfram að tæra kirkjuna og svíða. Nei, örlögin verða ekki umflúin. Þið verðið að velja milli þess að halda áfram að koðna niður á sársaukafullan og niðurlægjandi hátt, ellegar þá að bjarga því sem bjargað verður.

Að lokum vil ég benda ykkur á að lesa grein eftir sjálfan mig, sem birtist í þrem hlutum á Vantrú fyrir nokkrum árum. Hún fjallar í stuttu máli um að ganga í það uppgjör sem kirkjan þarf að ganga í, og á eins vel við í dag eins og þegar hún birtist fyrst:

Vésteinn Valgarðsson 09.09.2010
Flokkað undir: ( Stjórnmál og trú )

Viðbrögð


Jón S. - 09/09/10 09:48 #

Hér nafngreinir þú menn og ræðst á persónu þeirra sem varðar við lög. Ætli þetta sé einn af seinustu nöglum í líkkisu vantrú.is. Ég vona það. Þetta er óþolandi síða og mig svíður í augun að lesa ruslið eftir ykkur.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 09/09/10 10:14 #

Jón, á því er einföld lausn. Hættu að lesa "ruslið".


Einar E (meðlimur í Vantrú) - 09/09/10 10:58 #

"Hér nafngreinir þú menn og ræðst á persónu þeirra sem varðar við lög. Ætli þetta sé einn af seinustu nöglum í líkkisu vantrú.is."

Þetta er nú með því heimskulegra sem álpast hefur inn í athugasemdakerfið hérna.

Er eitthvað af því sem kemur fram í þessum pistli, ósatt ?

Þetta er allt satt og vonandi losnar þjóðin sem fyrst við þessa þjóðkirkju og hendur presta úr vösum skattborgara. Og fleiri stöðum reyndar, miðað við fréttir undanfarið.


Jóhann - 09/09/10 19:56 #

Ertu að leggja til "reformation" kirkjunnar í anda þínum, Vésteinn?


Vésteinn Valgarðsson (meðlimur í Vantrú) - 09/09/10 23:09 #

Ég er bara tala um að fræsa sorann út úr þeim skúmaskotum sem hann hefur fengið að þrífast í innan kirkjunnar.


Jóhann - 09/09/10 23:49 #

"Ég er bara tala um að fræsa sorann út úr þeim skúmaskotum sem hann hefur fengið að þrífast í innan kirkjunnar."

Eins of Marteinn Lúter?


Árni Árnason - 10/09/10 02:18 #

Ég gæti ekki verið meira sammála greinarhöfundi. Allir þeir sem nafngreindir eru (og eflaust margir fleiri) brugðust á ögurstundu sínum minnsta bróður. Hvort ástæðan var þrælslund eða ótti við yfirmann ellegar misráðin tilraun til að bjarga andliti kirkjunnar breytir ekki nokkru. Fórnarlamb kynferðisofbeldis leitaði til þeirra, en þeir, allir sem einn, fóru beint í að finna sér afsakanir fyrir því að gera ekki neitt.

Kirkjan mun ekki geta þvegið þetta af sér með ilmvatni, hér dugir ekkert veikara en vítissódi, þó að undan svíði.

( fattaði ekki fyrr en eftir á hvað "vítis"-sódi er viðeigandi orð.)


Vésteinn Valgarðsson (meðlimur í Vantrú) - 10/09/10 07:44 #

Jóhann, ég er bara að tala um að uppræta mannréttindabrot. Ef þú vilt kalla það siðbót, þá máttu það alveg mín vegna, en ég er ekki að tala um eitthvert guðfræðilegt uppgjör. Slíkt varðar mig ekki um.


Jóhann - 10/09/10 20:28 #

Takk fyrir svarið Vésteinn. Ég vona að klerkarnir taki ávirðingar þínar til greina.

Mannsandinn gerir það, enda stefna mannréttindamál til betri vegar. QED.

Það er t.d. skemmtilegt að fylgjast með því hvernig hann löðrungar sjálfan sig í Færeyjum þessa dagana.


Carlos - 10/09/10 22:32 #

Það er álíka líklegt, að kirkjan siðbæti sig fumlaust og af frjálsum vilja og íslenska stjórnkerfið fari brosandi og með opnum hug í gegnum sandblástur. Því miður fyrir hvort fyrir sig.

Hvað mig varðar, þá tek ég hvert orð til greina, Valgarð, enda einn þeirra sem brást 1996. Ég trúði og stóð með Ólafi og vantreysti Sigrúnu Pálínu og hinum konunum. Gerði lítið til að bæta ástandið og lét afgreiða mig með nokkrum setningum. Svei mér þá.


Sigríður Guðmarsdóttir - 10/09/10 23:38 #

Takk fyrir brýninguna um hinn vægðarlausa en nauðsynlega myndugleik, Vésteinn. Kveðja, Sigríður


danskurinn - 11/09/10 16:17 #

Öfugmæli eru mannlegur eiginleiki. Þess vegna eru andmælendur kirkjunnar lifandis fegnir að fá svona skítamál til að nota í gagnrýni sinni. Vandlætingin er eins og sauðagæra utanyfir hina hneyksluðu - til að fela gleðina og háðsglottið. Húrra fyrir Ólafi sem negldi nagla í líkkistu ríkiskirkjunnar. Því til hvers ætti andmælandi kirkjunnar að vilja reka pokapresta úr þjónustu hennar ef það leiðir til sátta og eykur lífslíkur hennar?


Siggi Örn (meðlimur í Vantrú) - 11/09/10 19:08 #

Danskur, hvarflar ekki að þér að við séum andmælendur kirkjunnar vegna svona skítamála? Heldurðu að við höfum ákveðið að vera andmælendur kirkjunnar að gamni okkar og bíðum svo spenntir eftir því að hún hlaupi á sig?


Carlos - 11/09/10 21:38 #

Vinur er sá sem til vamms segir.

Ég greini engan vegin þá Þórðargleði sem Danskurinn ætlar Vésteini, hvorki í þessari færslu né nokkurri sem ég man í svipinn eftir.


danskurinn - 12/09/10 00:39 #

Einmitt. Vésteinn er vinur kirkjunnar.


Ásgeir - 12/09/10 16:05 #

Vel gert að sjá hlutina svart-hvíta, danskur.


Jóhann I - 15/06/11 16:24 #

Mjög góður pistill.

Verst að Guðs-menn munu líklega aldrei hafa sig í að lesa hann, hvað þá taka hann til sín.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.