Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Lögin í Gamla testamentinu

Fyrr á þessu ári voru ein hjúskaparlög samþykkt þrátt fyrir andstöðu Þjóðkirkjunnar gegn fyrri tilraunum Alþingis til að gefa samkynhneigðum einhver réttindi. Eins og við mátti búast stukku forstöðumenn ýmissa trúfélaga og aðrir fram og mótmæltu lögunum með tilvísunum í Biblíuna. Þrátt fyrir tilvísanir gegn samkynhneigðum í Nýja testamentinu eru það þær tilvísanir sem eru í Gamla testamentinu sem hljóta meiri athygli, líklegast vegna þær eru harðorðari.

Algengasta vörnin sem ég hef heyrt er að lögin í Gamla testamentinu misstu gildi sitt við uppstigningu Jesúsar til himins. Þessi afsökun er notuð í tilraun til að víkja undan því óréttlæti sem lýst er í Gamla testamentinu og þá sérstaklega gegn þrælum, konum og samkynhneigðum. Hins vegar hikar sama fólk ekki við að benda á það góða í Gamla testamentinu þegar það hentar málstað þeirra.

Grænsápuguðfræðingar beita stundum þeim rökum, þegar lengra er komið inn í umræðuna, að lögin sem um ræðir giltu eingöngu um ‚hina útvöldu þjóð guðs‘ og eiga því ekki lengur við. Gallinn við þá rökfærslu er að Jahve er, skv. Biblíunni, að fyrirskipa óréttlæti á hendur ákveðnum hóp fólks. En ætti alvitur guð ekki að geta sett sanngjörn lög fyrir þjóð sína? Vísa ég þá á Jesaja 40:8 þar sem stendur að orð Jahves standa að eilífu. Því er seint hægt að segja að lögin séu úreld eða útrunnin. Þar að auki er eðlilegt að öll lög slíkrar veru endurspegli fullkomið réttlæti en lögin í Gamla testamentinu eru langt frá því.

Sumir hugsa með sér að þetta gerðist fyrir löngu og í öðrum menningarheimi og á því ekkert við í dag. Er því fólki t.d. alveg sama þótt samkynhneigðir gyðingar hafi verið grýttir vegna kynhneigðar sinnar (3. Mósebók 20:13)? Ég er viss um að hið sama fólk myndi ekki réttlæta sömu refsingu ef hún væri framkvæmd í öðrum löndum í nútímanum. Á meðan ósanngjörnu lögin eru ekki notuð gegn þeim sjálfum, þá er því sama.

Biblían inniheldur margar tilvísanir í orð Jahve sem innihalda fyrirskipanir um hræðilegar gjörðir sem refsingu fyrir hluti sem teljast sjálfsögð mannréttindi í dag. Jafnvel á Íslandi hafa forstöðumenn trúfélaga haldið þessum gömlu lögum hátt á lofti um hvað megi gera og hvað ekki en skipta síðan um skoðun þegar hin sömu lög henta þeim ekki. Í þeim tilvikum er augljóst að Biblían er notuð sem vopn til að koma persónulegri skoðun predikaranna inn á almenning í skjóli laga settum af ósýnilegri veru sem elskar okkur öll en hikar ekki við að refsa okkur ef við förum ekki eftir því sem hún segir.

Jafnvel á þessum upplýstu tímum er kirkjan samt með tangarhald á lögum þjóðfélagsins og rígheldur í þau lög sem eftir eru á meðan almenningur reynir að fletta þeim af sér. Meðal dæma er staða Þjóðkirkjunnar á ríkisspenanum samkvæmt stjórnarskránni og guðlastslögin. Vonandi munu þessu lög hægt og bítandi hverfa úr lagabókum heimsins. Við getum allavega verið þakklát fyrir að refsingarnar eru ekki eins harðar og í þá daga.

Svavar Kjarrval 27.08.2010
Flokkað undir: ( Biblían , Stjórnmál og trú )

Viðbrögð


Svanur Sigurbjörnsson - 27/08/10 21:59 #

Alveg ljómandi hugvekja hjá þér Svavar. Kristin trú og fleiri eru gangandi mótsagnir við sjálfa sig og geta því aldrei hentað sem siðferðislegar fyrirmyndir.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 28/08/10 22:59 #

Munurinn á fordæmingu samkynhneigðar Gamla- og Nýja testamentisins felst í því að Gamla fordæmir athöfnina, en Nýja hneigðina.


Bryndis Svavarsdóttir - 20/09/10 20:54 #

Góð grein Svavar, Þetta með... ,,lögin sem um ræðir giltu eingöngu um ‚hina útvöldu þjóð guðs‘... þá dettur mér í hug bæn gyðingsins í einhverri bíómynd: Góði Guð viltu velja einhverja aðra þjóð. Gyðingar báðu ekki um þessa útvalningu.

Annað sem er mjög rétt hjá þér er að ,,Á meðan ósanngjörnu lögin eru ekki notuð gegn þeim sjálfum, þá er því sama"... Mikið rétt, það berst enginn fyrr en spjótið beinist að þeim sjálfum.

Að lokum, Biblían og trúin hefur í gegnum aldirnar verið valdatæki gráðugra manna sem vildu drottna yfir öðrum... en með almennari eign á Biblíunni og þekkingu á Orðinu hafa völd kirkjunnar minnkað.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.