Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Laun eins prests

Línurit

Sennilega kannast nú flestir við sóknargjöldin (ath: FAQ: Hvað eru sóknargjöld). Það eru fjárveitingar ríkisins til þjóðkirkjusafnaða og annarra skráðra trúfélaga sem veittar eru fyrir hvern skráðan meðlim yfir 16 ára aldri. Færri vita að úrskráning úr þjóðkirkjunni hefur ekki aðeins áhrif á sóknargjöldin heldur er kirkjunni hjálpað við nauðsynlegan niðurskurð með öðrum hætti.

Samkvæmt samkomulagi ríkis og þjóðkirkju frá 1997 tók ríkisvaldið að sér að greiða laun biskups, vígslubiskupa, 18 starfsmanna biskupsstofu og 138 presta. Í samkomulaginu er einnig miðað við að fjöldi presta á launaskrá ríkisins væri tengdur fjölda meðlima í þjóðkirkjunni á hverjum tíma. Ákvæði samkomulagsins voru tekin upp í lögum um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar nr. 78/1997 þar sem segir í 2. mgr. 60. gr.:

Fjölgi skráðum meðlimum þjóðkirkjunnar um 5.000 miðað við þjóðskrá í árslok 1996 skal ríkið greiða laun eins prests til viðbótar því sem greinir í 1. mgr. Sama á við um frekari fjölgun. Fækki skráðum meðlimum þjóðkirkjunnar um 5.000 miðað við þjóðskrá í árslok 1996 lækkar tala starfandi presta í 1. mgr. um einn. Sama á við um frekari fækkun.

Á meðfylgjandi línuriti má sjá þróun fjölda meðlima í þjóðkirkjunni síðan 1996. Svarta heila línan markar þann fjölda meðlima sem samkomulagið tekur mið af en brotnu línunar marka þá þröskulda þar sem prestum á launaskrá ríkisins fjölgar eða fækkar. Eins og sjá má hefur einn prestur bæst við síðan samkomulagið var gert og ættu þeir því að vera 139.

Skýringarmynd

Miðað við fréttir af úrskráningum síðustu vikna þá er líklegra en ekki að meðlimir þjóðkirkjunnar verði færri en 249.060 1. desember næstkomandi og því muni prestum á launaskrá ríkisins fækka um einn á næsta ári. Eins og við vitum þá eru ríkisprestarnir ekki láglaunastétt, þeir hafa að lágmarki hálfa milljón i laun á mánuði og með launatengdum gjöldum þá nema útgjöld ríkisins vegna hvers prests ekki undir 7 milljónum árlega og sennilega talsvert meira en það að meðallagi. Þeir peningar gætu komið í góðar þarfir á öðrum vettvangi.

Bjarki Sigursveinsson 07.09.2010
Flokkað undir: ( Stjórnmál og trú , Sóknargjöld )

Viðbrögð


Ingó - 07/09/10 18:49 #

Er það rétt skilið hjá mér að ríkiskirkjan fær aðeins peninga frá ríkinu í gegnum þann skatt sem meðlimir hennar borga. Er þjóðkirkjan að fá eitthvað meira en þennan skatt sem kemur frá fólki sem er skráð í þjóðkirkjuna?


Hjalti Rúnar Ómarsson (meðlimur í Vantrú) - 07/09/10 18:52 #

Er það rétt skilið hjá mér að ríkiskirkjan fær aðeins peninga frá ríkinu í gegnum þann skatt sem meðlimir hennar borga.

Neibs, hún fær pening frá skattinum sem allir borga, meðlimir eða ekki.


Ingó - 07/09/10 20:53 #

Þetta er mjög skrýtið. Hvað fá þá önnur trúfélög fá þau bara skattinn frá því fólki sem er skráð í trúfélagið?


Bjarki (meðlimur í Vantrú) - 07/09/10 21:05 #

Önnur trúfélög fá sóknargjöld í samræmi við meðlimafjölda. Þjóðkirkjan fær sóknargjöldin og svo tvo milljarða að auki sem launagreiðslur til starfsmanna og framlög í ýmsa sjóði.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.