Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Stolnar fjaðrir

Notaðir bílar

Maður verður að passa sig á sölumönnum, því að oft verður sannleikurinn fórnarlamb í viðleitni þeirra við að selja vöruna sína. Prestar eru sölumenn, þeir selja kristni. Þegar þeir fjalla um kristni þá er söluvaran þeirra svo frábær að ætla mætti að allt frá regnboganum til almenningssundlauga sé kristni að þakka.

Ræða sölumannsins

Samfélag Vesturlanda, manngildishugsjón, samfélagssýn, stjórnarfar byggir á orðum og verkum Jesú Krists. Af hinum kristnu rótum, sprettur hin vestræna hugmynd um hinn frjálsa vilja og um siðferðislega ábyrgð, um rétt og réttlæti. Það er forsenda lýðræðis og mannréttinda, þar er eldsneytið sem knúði réttindabaráttu fyrri kynslóða og veitir enn afl og styrk í þágu lífsins. #

Ef þetta væru ekki orð æðsta biskups ríkiskirkjunnar, Karls Sigurbjörnssonar, þá myndi mann gruna að um oflof væri að ræða. En honum er líklega alvara, þannig að við skulum athuga hvort að samfélag Vesturlanda og stjórnarfar byggi á „orðum og verkum Jesú Krists“, nánar til tekið grundvallarhugmyndirnar lýðræði og umburðarlyndi.

Lýðræði

Maður þarf í raun og veru ekki að skoða orð og verk Jesú til þess að vita að lýðræði, eitt af grundvallaratriðum stjórnarfars vestrænna landa, er ekki frá honum komið. Því eins og allt sæmilega upplýst fólk ætti að vita, þá var lýðræði stjórnarfar í ýmsum borgríkjum í forn-Grikklandi langt fyrir tíma Jesú.

Þegar maður svo skoðar orð og verk Jesú í Nýja testamentinu, þá er ekki einn einasta stafkrók að finna um lýðræði. Ef Jesús mælti með lýðræði þá fannst höfundum guðspjallanna það greinilega ekki nógu merkilegt til að minnast á það.

Ef maður skoðar síðan sögu hins kristna heims, þá virðist reglan frekar vera konungsríki sem sækir vald sitt frá guði, enda er hægt að finna réttlætingu fyrir því stjórnarfari í Nýja testamentinu, hjá Páli:

Sérhver maður hlýði þeim yfirvöldum, sem hann er undirgefinn. Því ekki er neitt yfirvald til nema frá Guði, og þau sem til eru, þau eru skipuð af Guði. Sá sem veitir yfirvöldunum mótstöðu, hann veitir Guðs tilskipun mótstöðu, og þeir sem veita mótstöðu munu fá dóm sinn. (Róm 13.1-2)

Grundvallaratriði í lýðræði er að uppspretta valdsins er hjá fólkinu, en þarna er guð uppspretta valdsins. Það má því vel halda því fram að lýðræði sé í raun og veru afskaplega ókristilegt. Það er líka augljóst að það byggir ekki á „orðum og verkum Jesú“ eins og sölumaðurinn Karl segir.

Umburðarlyndi

Annað grundvallaratriði Vesturlanda er umburðarlyndi, nánar til tekið trúfrelsi. Við eigum ekki á hættu að ríkisvaldið refsi okkur fyrir að hafa aðra trúarskoðun en þá sem ríkið heldur upp á.

Aftur er sagnfræðin ekki hliðholl Karli, kristin samfélög hafa ekki beint einkennst af umburðarlyndi gagnvart trúvillingum og heiðingjum. Hér á Íslandi kom trúfrelsi til dæmis ekki á fyrr en á seinni hluta nítjándu aldar.

Ef við skoðum síðan hina kristnu arfleið, þá átta fæstir sig eflaust á því að fyrsta boðorðið af boðorðunum tíu er gjörsamlega andstætt þessari hugsjón okkar. Þar er beinlínis bannað að dýrka aðra guði að viðlagðri dauðarefsingu (2Mós 22.20) og ef einhver boðaði trú á annan guð þá átti að grýta þann mann til bana (5Mós 13.6-10).

Það er erfitt að finna eitthvað í orðum eða verkum Jesú sem tengist þessu, þar sem hann var bara valdalaus predikari sem sagði ekkert um hvernig lög ættu að vera í landinu. En ef maður kíkir á almennt viðhorf hans til ofbeldis gagnvart fólki sem var ekki sammála honum í trúmálum, þá virðist hann hafa verið fylgjandi því.

Jesús sagði að íbúar þeirra borga sem tóku ekki við boðskapi hans ættu skilið að brenna á dómsdegi, að Sódómu muni líða betur en þeim borgum (til dæmis Lúk 10.11-13). Annars staðar líkti hann endalokum þeirra sem voru ekki sammála honum við fólk sem konungur lætur taka að lífi (Lúk 19.27), svo ekki sé minnst á allar hótanirnar um helvíti. Hann virðist sem sagt ekki hafa séð neitt athugavert við það að beita fólki ofbeldi vegna trúarskoðana þeirra, þó svo að hann segi ekki að ríkisvaldið muni beita sverðinu.

Framtíð söluvörunnar

Það er ljóst að atvinnutrúmennirnir eru tilbúnir til þess að fórna sannleikanum til að fegra kristni. Þeir eru ófeimnir við að tileinka kristni og Jesú hluti sem annað hvort finnast ekki eða eru beinlínis andstæðir heimildunum sem við höfum. Það kæmi mér alls ekki á óvart ef að prestar muni innan nokkurra áratuga fara að halda því fram að réttindi samkynhneigðra, umhverfisvernd og internetið séu allt Jesú að þakka.

Hjalti Rúnar Ómarsson 26.08.2010
Flokkað undir: ( Kristindómurinn , Íslenskir biskupar )

Viðbrögð


Sindri G (meðlimur í Vantrú) - 26/08/10 09:41 #

Fín grein. Ég er hræddur um að Kalvinistar yrðu ekki hrifnir af hugmyndum prestsins um að hugmyndin um frjálsan vilja eigi rætur að rekja til Jesú.


Kristinn (meðlimur í Vantrú) - 26/08/10 09:46 #

Hverslags vilja ætli við höfum haft fram að því að menn ákváðu að hann væri frjáls? :-P


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 26/08/10 10:20 #

Regnboginn er auðvitað beint úr kristni... eða, sko gyðingdómi... sem er það sama, eða þannig. Hann er sönnun þess og trygging að guð Ísraelsmanna lofar að drekkja ekki öllum skepnum og gróðri jarðar... aftur. Svona er Jesús góður, því Jesús og guð Ísraelsmanna eru einn og sami hluturinn, þó auðvitað séu þeir tvennt ólíkt, faðir og sonur, þú skilur. Og já, ég gleymdi. Við erum Ísraelsmenn, eða þannig.


Sveinn - 26/08/10 10:45 #

Ein hugmynd sem þjóðkirkjan hefur verið að reyna að selja, en hún er sú, að verði aðskilnaður ríkis og kirkju, beri hinni Lútersku kirkju allar kirkjujarðir. Staðreyndin er sú að hin Lúterska kirkja fékk sínar jarðir frá kaþólskum sem aftur fengu flestar sínar jarðir frá ásatrúarmönnum. Ef skila á kirkjujörðum ættu þær flestar að falla í hendur ásatrúarmanna.


Einar Þorn - 26/08/10 14:04 #

Biblían er stjórnarskrá einveldis og forsendan eingyði sbr. verði þinn vilji....


Geir - 27/08/10 13:37 #

"Af hinum kristnu rótum, sprettur hin vestræna hugmynd um hinn frjálsa vilja og um siðferðislega ábyrgð, um rétt og réttlæti."

Þetta er líka allt saman rangt hjá Karli.

Hugmyndin um frelsi viljans (og líka hugmyndin um nauðhyggju, þ.e. ánauð viljans) er komin úr grískri heimspeki og mótast mest í rökræðum aristótelískra heimspekinga við stóumenn (en á sér lengri rætur).

Hugmyndin um siðferðilega ábyrgð er sennilega mest mótuð af Aristótelesi; hugmyndin um rétt og réttindi verður til í grískri stjórnmálasögu annars vegar og stóuspeki hins vegar og bæði Platon og Aristóteles höfðu fjallað í löngu máli um réttlæti á 4. öld fyrir okkar tímatal.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.