Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Séra Auður Eir Vilhjálmsdóttir og Skólaheimilið Bjarg

Stúlknaheimilið Bjarg
Stúlknaheimilið Bjarg á Seltjarnanesi

Í vor samþykkti Alþingi Lög um sanngirnisbætur fyrir misgjörðir á stofnunum eða heimilum sem falla undir lög nr. 26/2007. Þessi lög voru sett í kjölfar rannsóknar á meðferð á vistmönnum, börnum, á vistheimilum og stofnunum. Meðal annars er fjallað um Skólaheimilið Bjarg og ásakanir á hendur starfskonum þess en það var stofnað og rekið af Hjálpræðishernum.

Það er rétt að leggja áherslu á að fátt í skýrslunni er nýtt. Á sínum tíma var þetta mál alþekkt. Það tíðkaðist bara ekki hér áður fyrr að trúa "vandræðastúlkum" eins og hér um ræðir.

Hér að neðan eru nokkrar valdar tilvitnanir úr skýrslunni. Við hvetjum fólk vissulega til að lesa umrædda kafla í heild sinni til að fá heildarmyndina.

Auður Eir Vilhjálmsdóttir fæddist árið 1937 og lauk guðfræðiprófi árið 1962. Síðar sama ár varð hún hermaður í Hjálpræðishernum og leiðtogi í æskulýðsstarfi hans. Frá árinu 1960 átti hún sæti í Hjálparnefnd stúlkna og um svipað leyti hóf hún störf hjá kvenlögreglunni. Sumarið 1967 var Auður skipuð skólafulltrúi á Bjargi. Starf hennar sem skólafulltrúa fólst í því að fá kennara til starfa og skipuleggja kennsluna en sem nefndarmaður í stjórn heimilisins hafði hún eftirlit með heimilinu sem slíku. Auður kenndi kristinfræði og önnur fög á heimilinu. (336)

Upplýsti [stúlkan] um að ein starfskvenna Bjargs hafi komið í einhver skipti þá viku sem hún var í einangrun til að biðja fyrir henni og í eitt þeirra tilvika hafi hún framkvæmt á henni skoðun til að kanna hvort hún væri óspjölluð. Í kjölfar þess atburðar og einangrunar sem hún þurfti að sæta, hafi hún ákveðið að svipta sig lífi og í þeim tilgangi komist yfir klór sem var geymdur á salerni Upptökuheimilisins. Kvaðst hún hafa drukkið klórinn og orðið mjög veik af en hún minntist þess ekki að hafa verið færð til læknis eða á sjúkrahús vegna þessa eða að læknir hafi verið kallaður á heimilið. Í stað þess hafi starfsfólk Upptökuheimilisins látið hana drekka saltvatn og við það hafi hún kastað upp því sem hún hafði drukkið. (354-355)

Þannig greindu fimm af þeim sjö sem komu til viðtals við nefndina frá því að hafa verið beittar líkamlegu ofbeldi af hálfu starfsfólks og hafa orðið vitni að því að starfsfólk beitti aðrar stúlkur líkamlegu ofbeldi og ein greindi frá því að hafa orðið vitni að ofbeldi starfsfólks gagnvart öðrum viststúlkum, en ekki orðið fyrir slíku sjálf. Komið hafi fyrir að starfsfólk hafi löðrungað viststúlkur, rifið í hár þeirra, klipið í líkama þeirra. Ennfremur komu fram nokkrar frásagnir um að tvær viststúlkur hafi verið dregnar á hári og höndum niður stiga á vistheimilinu. Starfsfólk hafi beitt líkamlegu afli sem hafi ekki verið í þeim tilgangi að kveða niður árásargjarna hegðun viststúlkna heldur viðbrögð starfsfólks ef stúlkurnar neituðu að gera það sem þeim var fyrirskipað eða voru með dónalegar athugasemdir í garð starfskvenna. (356)

Fjórar af þeim sjö konum sem komu til viðtals við nefndina greindu frá því að hafa orðið fyrir kynferðislegri áreitni af hálfu tiltekinna starfskvenna. Tilteknar starfskonur hafi kysst stúlkur á munninn þegar þær voru að bjóða góða nótt og þá oft með þeim hætti að stinga tungunni upp í munn þeirra. Þá greindu þær einnig frá því að komið hafi fyrir að stúlkum hafi verið strokið innanklæða, t.d. yfir brjóstin eða bakið, og greindu tvær frá því að hafa orðið vitni að því er starfskona hafi í eitt tilgreint skipti baðað viststúlku og við það tækifæri sýnt af sér kynferðislega hegðun, m.a. strokið um brjóst hennar og kynfæri. Greindu þær báðar frá því að hafa fundist undarlegt að starfskonan hafi verið að baða stúlkuna þar sem viststúlkur á heimilinu hafi allar verið unglingsstúlkur og að aðfarir við böðunina hafi verið óviðeigandi. (357)

Nefndin tók viðtal við fyrrverandi starfskonu Upptökuheimilisins í Kópavogi á árunum 1965-1968. [...] Algengt hafi verið að lögregla hafi komið með börn í vistun og þá einnig svokölluð kvenlögregla, en starfsmaður hennar hafi á þeim tíma jafnframt verið fyrrgreindur nefndarmaður í stjórn skólaheimilisins Bjargs sem kom til viðtals við nefndina. Kvaðst hún minnast þess sérstaklega að fyrrgreindur nefndarmaður í stjórn heimilisins hafi komið með stúlkur frá Bjargi og þá fyrirskipað að þær skyldu sæta einangrun. Hafi henni fundist sú ráðstöfun vera harkaleg og komið hafi fyrir að hún og forstöðukonan hafi leyft stúlkunum að dvelja frammi með starfsfólki. (364)

Í ljósiofangreinds verður nú gerð grein fyrir ályktun nefndarinnar um hvort telja verði, þegar á heildina er litið, að meiri líkur en minni séu á því að fyrrverandi viststúlkur á skólaheimilinu Bjargi hafi þurft að sæta illri meðferð eða ofbeldi í þeirri merkingu sem rakin er í kafla 2 í V. hluta skýrslunnar. (368)

Hvað sem líður þessum viðtölum og framburðum starfskvenna, sem eðli máls samkvæmt hafa hér persónulegra hagsmuna að gæta, telur nefndin því ekki fært að láta hjá líða að álykta að frásagnir viststúlknanna séu í meginatriðum trúverðugar og að meiri líkur en minni séu á því að þær lýsi a.m.k. ákveðnu mynstri neikvæðra atburða á starfstíma vistheimilisins. (369-370)

Hvað varðar kynferðislega áreitni sem fyrrverandi viststúlkur greindu frá að hafa þurft að sæta af hálfu tiltekinna starfskvenna, meirihluti þeirra sem komu til viðtals við nefndina og meirihluti þeirra sem gáfu skýrslu fyrir dómi í upphafi árs 1968, telur nefndin að ekki verði fram hjá því litið að lýsingar á háttsemi starfskvenna eru nánast að öllu leyti sambærilegar. Að mati nefndarinnar voru frásagnir af meintri kynferðislegri áreitni starfskvenna almennt séð trúverðugar. Framburður fyrrverandi nefndarmanns í stjórnarnefnd heimilisins og starfsmanna þess um að þeir hafi hvorki haft slíka háttsemi í frammi né haft vitneskju um að slíkir atburðir ættu sér stað geta ekki að mati nefndarinnar dregið úr trúverðugleika framburða viststúlkna sem að framan eru raktir. (370)

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið er það niðurstaða nefndarinnar að telja verður, þegar á heildina er litið, að meiri líkur en minni séu á því að sumar viststúlkur hafi mátt þola illa meðferð í formi tiltekinna líkamlegra athafna og kynferðislegrar áreitni af hálfu einhverra starfskvenna. (372)

Ritstjórn 26.08.2010
Flokkað undir: ( Siðferði og trú , Vísun )

Viðbrögð


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 26/08/10 14:01 #

Hversu margir Íslendingar hafa heyrt svipaðar sögur og verri sem aldrei hafa þó komið fram opinberlega?

Við þekkjum þær nokkrar og okkur hryllir við. Vantrú er ekki að hvetja til nornaveiða eða galdrabrenna. Enda voru þær og eru enn einn af ljótustu blettum kristinnar trúar.

En ofbeldi og sér í lagi kynferðislegt ofbeldi þeirra sem þykjast hafa til að bera meiri kærleika eða þá betra siðferði vegna sérstakra tengsla þeirra við algóða, yfirnáttúrulega veru er alveg sérstaklega viðbjóðslegt. Nefnum tvö dæmi:

Guðmundur misnotaði aðstöðu sína og fjárhagslega yfirburði, veikleika skjólstæðinga sinna og leit þeirra í trúna á Guð í þeim tilgangi að fullnægja eigin hvötum og kynlífsfíkn. #

Fimmta tilvikið varðar konu sem ber að á sínum tíma hafi núverandi biskup áreitt hana kynferðislega er hún var á fermingaraldri og sóknarbarn í Bústaðasókn. Hann á að hafa viljað fá hana til samræðis og talað um það sem hinn fullkomna samruna. #

Herra Karl Sigurbjörnsson segir að annar þessara manna a.m.k. hafi verið "breyskur" en það ógildi engan vegin þær "helgu stundir" sem fólk hafi átt með honum. Flestum detta önnur orð í hug. Þessa menn og aðra slíka ofurhræsnara á að afhjúpa og koma undir manna hendur í stað þess að bíða eftir þeim dómi sem biskup telur bíða eftir dauðann.


Siggeir F. Ævarsson (meðlimur í Vantrú) - 26/08/10 16:07 #

Þetta eru svo hroðalegar lýsingar að maður á erfitt með að lesa þetta til enda.


Svanur Sigurbjörnsson - 26/08/10 18:30 #

..og Auður Eir ber enn hempuna og var einn af þeim prestum sem undirrituðu sérstaka stuðningsyfirlýsingu við Sr. Gunnar faðmlagaprest á Selfossi. Maður á bara ekki til orð..


Funi - 31/08/10 14:44 #

Harðræði og framkoma Auðar Eir á Bjargi hefur verið kunnugt í yfir 40 ár. Það var blaðamál á sínum tíma. Samt fékk Auður Eir vígslu nokkrum árum síðar. Til að mynda byggðist leikritið Fjaðrafok eftir Matthías Jóhannessen (frumsýnt 1969) á hneykslinu á Bjargi. Samt var samkomulag um að þaga áfram í þessu ógeðslega þjóðfélagi. Auður Eir er í forystu kvennakirkjurnar og þykir trúverðug er hún boðar mjúka kvengyðju og predikar anarkisma gegn stigveldi. Það er athyglisvert hvað valdstjórnin og kirkjan hefur verið nátengd frá siðskiptum þegar prestum var umbreytt í einhverskonar lögreglu. Ekki er langt síðan að það var hluti af guðfræðinámi að starfa í lögreglu, geðdeild eða slökkviliði á sumrin. Einnig má benda á að kirkjan heyrir ennþá undir lögreglumálaráðuneytið.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.