Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Almenningur hafður að fífli?

Lætur þú hafa þig að fífli? Kirkjan virðist ætla að treysta á það. Dettur þér í hug að séra Geir Waage hafi lúffað fyrir herra Karli Sigurbjörnssyni biskupi? Hvarflar að þér að herra Karl Sigurbjörnsson hafi sýnt af sér röggsemi í máli Geirs?

Á aðalfundi Prestafélags Íslands árið 2007 kom greinilega fram hjá Geir Waage að hann getur með engu móti beygt sig undir tilkynningaskyldu barnaverndalaga. Þá sagði Geir:

Sr. Geir G. Waage lagði áherslu á að um algjöran trúnað væri að ræða. Presturinn segði engum frá neinu og skipti engu máli um hvað væri að tefla. Hverjum ætti að vera hægt að treysta ef frjálst væri að halda þagnarskyldu? Prestafélag sem er frjálst félag innan þjóðkirkjunnar getur ekki lýst því yfir ótilneytt og bundið félagsmenn sína við þá stefnumörkun að fremur beri að hlýða mönnum en Guði. Sagðist vel geta lifað við að slíkt stæði í lögum en skyldur hans sem prests gengju lengra en mannanna boð. Gæti vart verið félagi í P.Í. ef þessu yrði breytt.

Rætt var við séra Geir í hádegisfréttum RÚV 21. ágúst sl. og viðtalið birt í kvöldfréttum sjónvarpsins sama dag. Þar kom þetta fram:

Kynnir: Sóknarprestur í Reykholti segir að prestar eigi ekki að tilkynna um kynferðisbrot gegn börnummm komi upplýsingar um það fram í sálusorgarsamtali. Ef hann verður sviptur embætti vegna þessarar sannfæringar verði svo að vera. Biskup mótmælir því að þagnarskyldan gangi lögum framar.

Fréttamaður: Mikil umræða hefur verið um kynferðisbrot innan kirkjunnar. Geir Waage sóknarprestur í Reykholti sagði í hádegisfréttum RÚV að þagnarskylda presta gagnvart skjólstæðingum sínum væri æðri skyldunni til að tilkynna barnaverndarnefnd um kynferðisbrot gegn börnum.

Geir Waage: „Hann er bundinn algjörum trúnaði, algjörri þagnarskyldu um það.

F: En segjum sem svo að til þín komi maður sem trúir þér fyrir því að hann sé að misnota dætur sínar. Gildir þá þagnarskyldan?

Geir: „Hún gildir algjörlega. Annað hvort er hún algjör eða engin. Ég ræð því ekki hvað aðrir menn segja en þetta er sannfæring mín og ég stend við hana. Og einhverjir hafa lýst því yfir að þeir sem ekki hlýddu þessu, þeir yrðu sviptir embætti. Þá verður bara svo að vera.

Eðlilega vakti þetta hörð viðbrögð almennings, ekki síst þar sem hann veit nú sem er að fyrsti æskulýðsfulltrúi Þjóðkirkjunnar, prestur, prófastur, formaður Prestafélags Íslands og biskup var ekki aðeins öfuguggi og nauðgari heldur barnaníðingur sem níddist meira að segja á eigin dóttur. Við svo búið mátti auðvitað ekki standa og núverandi biskup varð að sýnast taka á málinu. Í viðtali í Kastljósi sagði hann um þessa afstöðu séra Geirs:

Fréttamaður: Fólk hefur jafnvel krafist þess að séra Geir Waage missi hempuna vegna hans túlkunar á trúnaðarskyldunni. Hefurðu rætt þetta við Geir?

Biskup: Ekki ennþá en það kemur að því.

F: Hvað hyggstu segja við hann?

B: Ja, það mun ég segja við hann. En ég stend alveg fastur á því að embættismaður kirkjunnar hann hefur unnið eið að því að lúta lögum íslenska ríkisins og íslenska lýðveldisins.

F: Hvað þýðir það þá?

B: Hann er skyldur að gera það. Hann verður að láta það koma skýrt fram að hann geri það í þessu tilviki og það mun hann áreiðanlega gera.

Í dag mátti séra Geir loksins vera að því að hitta biskup að máli og þetta segir um fund þeirra á visir.is:

Síra Geir Waage, prestur í Reykholti, mun hér eftir sem hingað til hlýða þeirri tilkynningaskyldu og samsvarandi ákvæðum sem kveðið er á um í siðareglum þjóðkirkjunnar.

Er þetta fullnægjandi niðurstaða að þínu mati?

Niðurstaða fundar Karls Sigurbjörnssonar, biskups Íslands, og Geirs Waage, sóknarprests í Reykholti, í morgun er fullnægjandi að mati Guðbjargar Jóhannesdóttur, formanns Prestafélags Íslands. #

Höfum hugfast að prestar hafa atvinnu af því að túlka texta svo hann samrýmist hugmyndum þeirra sjálfra í einu og öllu óháð orðanna hljóðan og að við getum verið fullviss um að jafnvel biskupar hika ekki við að ljúga blákalt fyrir framan alþjóð.

Það eru orð biskups að séra Geir Waage ætli að virða "tilkynningarskyldu og siðareglur þjóðkirkjunnar". Hann talar ekki um "tilkynningarskyldu barnaverndarlaga" beint. En við getum gefið okkur að biskup sé ekki vísvitandi að reyna að slá ryki í augun á fólki og að þeir fóstbræður hafi orðið ásáttir um að hafa yfirlýsinguna svona óljósa og loðna til að geta skilið hana öðrum skilningi en almenningur. Þá er þess að geta að þetta eru orð biskups en ekki Geirs.

En við minnum aftur á að í Kastljósi sagði biskup að það væri alveg skýrt að sem opinber embættismaður hefði Geir "unnið eið að því að lúta lögum íslenska ríkisins og íslenska lýðveldisins" og bætti við:

Hann er skyldur að gera það. Hann verður að láta það koma skýrt fram að hann geri það í þessu tilviki og það mun hann áreiðanlega gera.

Þá spyrjum við: Hefur Geir látið það koma skýrt fram að hann lúti lögum íslenska ríkisins og íslenska lýðveldisins, ekki bara hans skilningi á siðareglum presta - og við höfum hugfast að það var fellt á aðalfundi Prestafélagsins að bæta við orðunum "Þagnarskyldan leysir prest þó aldrei undan ákvæðum Barnaverndarlaga um tilkynningaskyldu".

Hér er það sem séra Geir Waage lét "koma skýrt fram" eftir fund sinn með biskupi í dag:

„Ég gef ekkert upp um það,“ segir Geir þegar hann er spurður hvort hann hafi fengið tiltal frá biskupi. Hann sagði Karl biskup hafa greint frá efni fundarins við fréttamenn að fundi loknum og vitnaði því í þau orð, aðspurður um fundinn. „Það sem ég sagði, sagði ég og það sem hann sagði, sagði hann", segir Geir. „Þetta var einkasamtal okkar á milli.“ #

Guðfræðilega gæti þetta sjálfsagt ekki verið mikið skýrara. En Geir bætir þó við:

„Það hefur aldrei verið neinn vafi á því að ég mun hlýða lögum. Ég hef alltaf hlýtt lögum og hef verið talsmaður þess,“ segir Geir. Aðspurður um hvort það stangist á við sannfæringu sína að fara eftir tilkynningaskyldu presta samkvæmt barnaverndalögum segir hann: „Nei, nei. Ég hlýði lögum og hef alltaf verið talsmaður þess.“

Að öðru leyti vildi Geir ekki tjá sig neitt umfram það sem kemur fram í svörum biskups eftir fundinn.

Nei, það hefur aldrei verið neinn vafi á að Geir hefur "alltaf hlýtt lögum" en það hefur komið skýrar fram Geir telur að fremur beri að hlýða guði en mönnum og að "skyldur hans sem prests gengju lengra en mannanna boð".

Það er líklega við hæfi að botna þennan pistil með tilvitnun í fundargerð Prestafélagsins:

Sr. Þórir Jökull Þorsteinsson leggur áherslu á að þagnarskyldan sé algjör. Prestar séu fulltrúar heilagrar kirkju og framar beri að hlýða Guði en mönnum. Tilvera kirkjunnar helgast af því að allir eru pervers af syndinni og ýmislegs er að vænta af þeim. #

Ritstjórn 25.08.2010
Flokkað undir: ( Siðferði og trú , Vísun )

Viðbrögð


Kristín Kristjánsdóttir (meðlimur í Vantrú) - 25/08/10 18:10 #

Þetta er mjög athygliverð greining.

Merkilegt líka að einhverra aðgerða verður fyrst vart frá kirkjunni eftir þennan fund.

Kannski spurning hver snupraði hvern á þessum fundi?


Jon Steinar - 25/08/10 21:35 #

Þeir eru snillingar í að sýnast segja eitthvað, þótt þeir séu ekki að segja neitt. Þetta er list, sem kirkjan hefur fullkomnað í mrgar aldir. Yfirlýsing um barnaverndarmál frá þeim í fréttum var t.d. á þessa leið:

"Þjóðkirkjan stendur með þeim einstaklingum og samtökum sem vinna með þolendum ofbeldis..."

Hvergi kemur náttúrlega fram að þeir taki afstöðu með þolendum. Það yrði aldeilis byltingarkennd yfirlýsing.

Til gamans vil ég benda mönnum á sprenghlægilega niðurstöðu 27 ára Páfanefndar um afnám limbós og spyrja menn hvort í raun og veru sé búið að afnema það, eftir lestur niðurstöðunnar. Talandi dæmi að segja helling án þess að segja neitt:

http://en.wikipedia.org/wiki/Limbo


Jón Steinar - 25/08/10 21:42 #

Annars snertir þú einmitt aðalintak trúarbragða. Það að segja mikið án þess að segja neitt. Allt í hálfkveðnum vísum, táknmáli, líkingum og ofan garðs og neðan eins og hjá Gróu á leyti og Kerlingunni fjórdrepnu.

Hver spyr sig ekki að því t.d. eftir að hafa hlustað á mílnalanga stólræðu prests: "Hvað var maðurinn eiginlega að segja?" Allir gestir hafa sína sýn og túlkun á það, svo mikið er víst, enda var hann örugglega ekki að segja neitt heldur fylla í tíma, sem honum ber samkvæmt hefð. Þykistuleikurinn mikli heldur þó áfram án þess að nokkur hvái. Það þykir nefnilega ekki tilhlýðilegt. etta er ofar okkur að skilja. It's a mystery...


Jórunn - 26/08/10 15:54 #

Hvort það hvarfli að mér að Geir Waage hafi skipt um skoðun á því hvort lög landsins séu æðri trúnaðarskyldu prests? Nei, það dettur mér ekki í hug og ég skil ekki að nokkrum lifandi manni detti það í hug!

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.