Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Barnaverndarlög og siðareglur

Sautjánda grein barnaverndarlaga gerir ráð fyrir því að þeir sem verða varir við að barn búi við óviðunandi aðstæður sé skylt að tilkynna til barnaverndaryfirvalda. Það sem er eftirtektarvert hefur verið feitletrað:

17. gr.
Tilkynningarskylda þeirra sem afskipti hafa af börnum.

Hverjum þeim sem stöðu sinnar og starfa vegna hefur afskipti af málefnum barna og verður í starfi sínu var við að barn búi við óviðunandi uppeldisskilyrði, verði fyrir áreitni eða ofbeldi eða að barn stofni heilsu sinni og þroska í alvarlega hættu er skylt að gera barnaverndarnefnd viðvart.

Sérstaklega er leikskólastjórum, leikskólakennurum, dagmæðrum, skólastjórum, kennurum, prestum, læknum, tannlæknum, ljósmæðrum, hjúkrunarfræðingum, sálfræðingum, félagsráðgjöfum, þroskaþjálfum og þeim sem hafa með höndum félagslega þjónustu eða ráðgjöf skylt að fylgjast með hegðun, uppeldi og aðbúnaði barna eftir því sem við verður komið og gera barnaverndarnefnd viðvart ef ætla má að aðstæður barns séu með þeim hætti sem lýst er í 1. mgr.

Tilkynningarskylda samkvæmt þessari grein gengur framar ákvæðum laga eða siðareglna um þagnarskyldu viðkomandi starfsstétta.

Þetta lagaákvæði er mjög skýrt.

Hvernig ætli siðareglur heilbrigðisstétta nálgist þetta mál? Skoðum fyrst siðareglur Sálfræðingafélagsins um trúnað:

Trúnaður og þagnarskylda

Sálfræðingurinn virðir rétt einstaklingsins til trúnaðar með því að segja ekki frá því sem honum er trúað fyrir af skjólstæðingi og því sem hann fær vitneskju um við sálfræðilega starfsemi sína. Undantekningu skal gera frá þagnarskyldunni, ef augljós hætta bíður skjólstæðings eða annarra. Sálfræðingurinn getur þó í samræmi við lög verið skyldaður til að veita upplýsingar og gerir því skjólstæðingi sínum grein fyrir þeim takmörkunum á þagnarskyldu sem gilda skv. lögum.

Sálfræðingafélagið gerir ráð fyrir því að það megi rjúfa trúnað ef augljós hætta bíður skjólstæðingsins eða annarra og að lög geti skyldað þá til þess að veita upplýsingar. Þetta er í samræmi við barnaverndarlög. Ætli það sama gildi um læknana?

Siðareglur lækna
13. gr. Lækni er skylt að forðast af fremsta megni að hafast nokkuð að, er veikt gæti trúnaðarsamband hans við sjúklinga sína.

Lækni er óheimilt að skýra frá heilsufari, sjúkdómsgreiningu, horfum, meðferð eða öðrum einkamálum sjúklinga eða afhenda gögn með upplýsingum, sem sjúklingar hafa skýrt honum frá eða hann hefur með öðrum hætti fengið vitneskju um í starfi sínu, nema með samþykki sjúklings, eftir úrskurði dómara eða samkvæmt lagaboði. Lækni ber að áminna samstarfsfólk og starfslið sitt um að gæta með sama hætti fyllstu þagmælsku um allt er varðar sjúkling hans.

Lækni hlýðir ekki fyrir dómi, að leggja fram sjúkraskýrslur máli sínu til sönnunar án úrskurðar dómara. Sjúklingur getur hins vegar krafist þess, að slík skýrsla um hann sé lögð fram.

Siðareglur lækna gera sem sagt líka ráð fyrir því að þagnarskyldan sé ekki algild. Það má rjúfa trúnað með samþykki sjúklings, með úrskurði dómara eða samkvæmt lagaboði, eins og til dæmis barnaverndarlögunum. En hvað með presta?

Siðareglur presta

4. Trúnaður
Ákvæði um þagnarskylduna

4.1 Prestur er bundinn þagnarskyldu um allt er hann verður áskynja í starfi og leynt skal fara. Í sálgæslu og skriftum er prestur áheyrandi í Krists stað. Þess sem hann verður þannig áskynja má hann því aldrei láta uppi án samþykkis viðkomandi skjólstæðings. Presti ber að fylgja samviska sinni og sannfæringu.
4.2 Þegar prestur leitar sér faglegrar ráðgjafar eða handleiðslu varðandi mál sem hann hefur eða hefur haft með höndum, gætir hann þess að ákvæði þagnarskyldu séu virt.
4.3 Noti prestur dæmi úr starfi í ræðu eða riti skal hann sjá til þess að þau séu órekjanleg.

Siðareglur presta gera ráð fyrir því að það megi ekki undir nokkrum kringumstæðum brjóta trúnað. Það er því ekki skrýtið að sumir prestar vilji ekki fara að landslögum.

Ritstjórn 09.11.2010
Flokkað undir: ( Vísun )

Viðbrögð


Einar S. Arason - 10/11/10 04:29 #

Góð ábending, þakka þér fyrir. Þarft að laga þessa siðareglu.

Vegna neikvæðrar umræðu vil ég þó benda á, að sá eini starfandi prestur sem sagði að þagnarskyldan væri landslögum æðri skipti um skoðun eftir samtal við biskup.

Þessi misskilningur örfárra presta (sem aðeins einn er enn í starfi) er því úrelt hugsun sem er ljóslega á útleið innan kirkjunnar.

Eitt enn. Geir Waage, sem um ræðir, var einn fárra sem strax frá upphafi stóð með konunum sem ásökuðu Ólaf biskup.

Ég held að afstaða hans hafi snúist um það að hann óttaðist að fólk þyrði ekki að koma fram með vanlíðan sína í trúnaðarsamtali ef það ætti von á að upplýsingarnar sem það hefði væru gerðar opinberar að því forspurðu.

En hversu göfug sem afstaða hans kann að hafa verið, þá voru aðrir prestar sammála um að landslög tækju af öll tvímæli. Þetta benti Karl biskup á og örugglega var það engin tilviljun að Geir skipti um skoðun eftir viðtal við biskup.


Þórður Örn Arnarson - 10/11/10 10:19 #

Sæll Einar. Ertu alveg viss um að Geir Waage sé eini presturinn sem er á þessari skoðun?


EgillO (meðlimur í Vantrú) - 10/11/10 13:47 #

Skemst frá því að segja var Geir Waage langt í frá eini presturinn á þessari skoðun. Sjá http://www.vantru.is/2008/05/27/09.30/

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.