Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Prestar telja sig hafna yfir lög

Á aðalfundi Prestafélags Íslands á Húsavík 24. apríl 2007 var siðareglum presta breytt. Þar varð nokkur umræða um þagnarskylduna en prestafélagið komst að þeirri niðurstöðu að guðs lög væru ofar landslögum, þar á meðal tilkynningarskyldu í Barnaverndarlögum!

Þá var komið að 4. kafla siðareglnanna sem fjallar um trúnað og geymir ákvæði um þagnarskylduna. Nefndin gerir eftirfarandi tillögur að breytingum á grein 4.1:

4.1 Prestur er bundinn algjörri þagnarskyldu um allt er hann verður áskynja í starfi og leynt skal fara. Í sálgæslu og skriftum er prestur áheyrandi í Krists stað. Þess sem hann verður þannig áskynja má hann því aldrei láta uppi án samþykkis viðkomandi skjólstæðings. Presti ber að fylgja samvisku sinni og sannfæringu. Þagnarskyldan leysir prest þó aldrei undan ákvæðum Barnaverndarlaga um tilkynningaskyldu.

All nokkrar umræður urðu um breytingartillögu nefndarinnar á þessari grein. Ræddu menn einkum það er lýtur að þagnarskyldunni, fella út algjörri, og þau orð að sú skylda leysti prest aldrei undan ákvæðum Barnaverndarlaga um tilkynningaskyldu.

Sr. Sigríður Guðmarsdóttir spurði hvort ákvæðið þar sem Barnaverndarlaga væri getið ætti heima í siðareglum P.Í. Þyrfti að taka það fram að prestar væru ekki undanþegnir lögum? Setning þessi ætti ekki heima í siðareglum.

Sr. Geir G. Waage lagði áherslu á að um algjöran trúnað væri að ræða. Presturinn segði engum frá neinu og skipti engu máli um hvað væri að tefla. Hverjum ætti að vera hægt að treysta ef frjálst væri að halda þagnarskyldu? Prestafélag sem er frjálst félag innan þjóðkirkjunnar getur ekki lýst því yfir ótilneytt og bundið félagsmenn sína við þá stefnumörkun að fremur beri að hlýða mönnum en Guði. Sagðist vel geta lifað við að slíkt stæði í lögum en skyldur hans sem prests gengju lengra en mannanna boð. Gæti vart verið félagi í P.Í. ef þessu yrði breytt.

Sr. Úlfar Guðmundsson ræddi þagnarskylduna og sagðist vera mikill þagnarskyldumaður. Hvað Barnaverndarlögin snerti sagðist hann líta svo á að það væri hlutverk P.Í. að hafa áhrif á að þeim væri breytt svo prestar yrðu leystir undan því að tala. Taldi að með því að presti væri leyft að þegja þá væri í raun verið að fjölga meðferðarúrræðum. Þagnarskylda væri visst aukameðferðarúrræði. Samtöl í trúnaði gætu haft þau áhrif að hægt væri að bregðast við eftir ýmsum leiðum en eftir stæði trúnaðarsamtalið óskert.

Sr. Bjarni Karlsson sagði að kirkjan mætti aldrei vera sá staður þar sem setið væri inni með upplýsingar sem varða líf og heill einstaklinga sem ekki gætu varið sig. Taldi mikilvægt að fagfólk í landinu vissi að ef leitað væri til prests þá væri staðið þétt við bakið á þeim sem brotið væri á. Hlýða verður Barnaverndarlögum og kirkjan má ekki verða skálkaskjól fyrir óheilbrigði.

Sr. Cecil Haraldsson íhugaði hversu framkvæmanleg þagnarskyldan væri. Hún væri ekki aðeins skylda heldur og líka réttur sem prestar væru vígðir undir. Hún væri á vissan hátt vernd prestsins sem sálusorgara.

Sr. Kristinn Jens Sigurþórsson hvatti til þess að þagnarskyldin yrði í heiðri höfð. Stundum stæðu menn frammi fyrir því sem óbærilegt væri – og gætu ekki annað.

Sr. Irma Sjöfn Óskarsdóttir ítrekaði að taka þyrfti fullt tillit til Barnaverndarlaga enda þótt oftast yrði að þegja – og þá helst alltaf.

Sr. Gunnar Rúnar Matthíasson ítrekaði að aðeins væri vísað til Barnaverndarlaga. Ekki hægt að múlbinda þagnarskylduna. Styður eindregið að orðið algjörri verði fellt út. Lítur svo á að breytingin veiki í engu umræðuna um þagnarskylduna.

Sr. Bára Friðriksdóttir ræðir um Barnaverndarlögin frá 2002. Vann í eitt ár við mál sem tengjast m.a. barnavernd og sá að börnin eru iðulega fórnarlömb aðstæðna sinna og undir hina fullorðnu sett. Þögnin er þeirra mesti óvinur og hún meiði oft mest.

Sr. Anna Pálsdóttir segist hafa hugsað mikið um þetta mál og sitthvað togast á í huga hennar. Börnin eigi um sárt að binda vegna alvarleika margra mála sem upp koma. Sannfærð um það að til þess að mál sé rætt þá verði að ríkja trúnaður - ef ekki þá verður ekki samtal. Situr ekki þegjandi ef einhver stórkostleg alvörumál eru reifuð í hennar áheyrn.

Sr. Þórir Jökull Þorsteinsson leggur áherslu á að þagnarskyldan sé algjör. Prestar séu fulltrúar heilagrar kirkju og framar beri að hlýða Guði en mönnum. Tilvera kirkjunnar helgast af því að allir eru pervers af syndinni og ýmislegs er að vænta af þeim. Menn umgangist embætti sín í samræmi við þagnarskyldu. Og næsta víst sé að menn finni leið sem bjargar þeim er líða.

Sr. Halldór Gunnarsson tekur undir orð síðustu ræðumanna. Alvörumál ef menn hyggjast segja skilið við P.Í. verði þessu breytt. Leggur áherslu á alvöru mála af þessum toga sem barnaverndarlög ná til. Treystir prestum vel til að vinna mál þess sem talar við þá og leiða það til lykta.

Sr. Vigfús Ingvarsson segist ekki tala af mikilli reynslu af hinum viðkvæmustu málum. Trúnaður er forsenda þess að prestur komi að máli. Ekki trúnaðarskylda sem hefur stöðvað mál í réttlætisátt. Þagnarskyldan leysir menn ekki undan því að réttlæti nái fram að ganga og sér í lagi gagnvart þeim sem höllum fæti standa eins og til dæmis börnum. Strika út algjörri – þagnarskylda ein og sér sterk. Óeðlilegt að mati hans að binda það í siðareglur að það beri að fara að landslögum.

Sr. Geir Waage lagði til að orðið algjörri stæði áfram í grein 4.1 og var sú tillaga borin upp til atkvæða og hún felld.

Þá var borin upp tillaga um að síðasta setningin í grein 4.1 (þar sem getið er um Barnaverndarlögin) sem nefndin leggur til að bætt verði inn, falli út. Var tillaga nefndarinnar felld. Tillaga nefndarinnar að öðru leyti samþykkt.

Greinin hljóðar því svo eftir afgreiðsluna:

4.1 Prestur er bundinn þagnarskyldu um allt er hann verður áskynja í starfi og leynt skal fara. Í sálgæslu og skriftum er prestur áheyrandi í Krists stað. Þess sem hann verður þannig áskynja má hann því aldrei láta uppi án samþykkis viðkomandi skjólstæðings. Presti ber að fylgja samvisku sinni og sannfæringu.

Barnaverndarlög eru þó skýr:

17. gr. Tilkynningarskylda þeirra sem afskipti hafa af börnum. Hverjum þeim sem stöðu sinnar og starfa vegna hefur afskipti af málefnum barna og verður í starfi sínu var við að barn búi við óviðunandi uppeldisskilyrði, verði fyrir áreitni eða ofbeldi eða að barn stofni heilsu sinni og þroska í alvarlega hættu er skylt að gera barnaverndarnefnd viðvart. Sérstaklega er leikskólastjórum, leikskólakennurum, dagmæðrum, skólastjórum, kennurum, prestum, læknum, tannlæknum, ljósmæðrum, hjúkrunarfræðingum, sálfræðingum, félagsráðgjöfum, þroskaþjálfum og þeim sem hafa með höndum félagslega þjónustu eða ráðgjöf skylt að fylgjast með hegðun, uppeldi og aðbúnaði barna eftir því sem við verður komið og gera barnaverndarnefnd viðvart ef ætla má að aðstæður barns séu með þeim hætti sem lýst er í 1. mgr. Tilkynningarskylda samkvæmt þessari grein gengur framar ákvæðum laga eða siðareglna um þagnarskyldu viðkomandi starfsstétta.

Það er ekki getið um nein viðurlög í Barnaverndarlögum en í dæmi presta má vitna í að samkvæmt lögum um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar (nr. 78/1997) eru prestar opinberir starfsmenn (61. gr) og skulu því lúta lögum um opinbera starfsmenn (nr. 70/1996). Í þeim lögum segir í 21. gr.:

Ef starfsmaður hefur sýnt í starfi sínu óstundvísi eða aðra vanrækslu, óhlýðni við löglegt boð eða bann yfirmanns síns, vankunnáttu eða óvandvirkni í starfi eða athafnir í því þykja að öðru leyti ósæmilegar, óhæfilegar eða ósamrýmanlegar starfinu skal forstöðumaður stofnunar veita honum skriflega áminningu.

Refsingin er svo í hegningarlögum:

140. gr. Opinber starfsmaður, sem synjar eða af ásettu ráði lætur farast fyrir að gera það, sem honum er boðið á löglegan hátt, sæti sektum eða fangelsi allt að 1 ári.

141. gr. Opinber starfsmaður, sem sekur gerist um stórfellda eða ítrekaða vanrækslu eða hirðuleysi í starfi sínu, skal sæta sektum eða fangelsi allt að 1 ári.

Reynir Harðarson 27.05.2008
Flokkað undir: ( Siðferði og trú )

Viðbrögð


Flugnahöfðinginn (meðlimur í Vantrú) - 27/05/08 09:38 #

Það er með ólíkindum viðhorf sumra prestanna þarna. Hugsið ykkur að til er fólk í dag sem telur boð biblíunnar æðri mannanna lögum. Ég gæti sýnt þessu skilning ef þetta væri haft eftir fólki sem var uppi á 19. öld. Reyndar hef ég hvergi rekist á það í biblíunni að þegja skuli yfir barnaníð eða öðrum óhæfuverkum. Það eru væntanlega seinni tíma hugmyndir kirkjunnar.


Arnar - 27/05/08 09:39 #

Þetta er náttúrulega einstaklega heppilegt fyrir kirkjuna. Þeir vilja að 'fagráð' fjalli um öll svona brot innann kirkjunar og ef það er prestur í fagráðinu sem talar við alla þolendur þá þarf hann ekki að tilkynna eitt eða neitt.


Teitur Atlason (meðlimur í Vantrú) - 27/05/08 10:25 #

Augljóst er að þetta "fagráð" er bara apparat til þess að ríkiskirkjan geti keypt sér tíma, fengið upplýsingar á undan lögreglu og mögulega þaggað niður mál..

-Þetta sér hver maður.


Matthías Freyr Matthíasson - 27/05/08 13:26 #

Þvílkt og annað eins Teitur, að halda því fram að prestar og fagráðið starfi þannig að þeir séu að reyna að "þagga" niður mál, þvílík endemis vitleysa. Þú virðist halda að prestar landsins séu illmenni og mestu fól!

Að þessu sögðu er ég ekki að leggja blessun mína yfir þessa ályktun.....er ekki búinn að kynna mér málið nóg til þess.


Baldvin Örn Einarsson - 27/05/08 14:02 #

Matthías, það er engin önnur augljós ástæða fyrir tilvist þessa svokallaða fagráðs en að tefja fyrir meðferð þessara mála hjá til þess bærum yfirvöldum.

Mál sem varða brot gegn börnum eiga tafarlaust að vera tilkynnt barnaverndaryfirvöldum og lögreglu. Það hefur sýnt sig að fagráðið hefur dregið óeðlilega að tilkynna meint brot, og þar með brotið Barnaverndarlög, eins og fram kom í greininni.

Ekkert annað stéttarfélag myndi láta sér detta í hug að stofna einhverja nefnd í öðrum eins tilgangi. Svona mál eru einfaldlega tilkynnt yfirvöldum og stéttarfélög skipta sér ekki af þeim á neinn hátt, nema þá til að ávíta viðkomandi eða svipta hann réttindum.

Með þessum breytingum á siðareglum eru prestar enn og aftur að undirstrika að þeir eru ekki í neinu sambandi við raunveruleikann.


Matthías Freyr - 27/05/08 14:35 #

Sæll Baldvin.

Nú þekki ég ekki starfsemi fagráðsins í þaula og get því ekki tjáð mig um hvernig þau starfa, en tel mig þó vita það að þau starfa ekki með því markmiði að meiða eða koma fólki illa.

En þó held ég það að ef einstaklingur sem starfar fyrir ÍTR ( tökum það sem dæmi ) verður fyrir því að vera ásakaður um kynferðislega áreitni að þá er það skoðað af yfirmönnum ÍTR áður en tekin er ákvörðun um að vísa því á þar til gerð yfirvöld. Því bara það eitt að vera ásakaður um eitthvað missjafnt, í þessari starfsgrein, getur þýtt það að viðkomandi verði brennimerktur það sem eftir er, þrátt fyrir sakleysi.

Nú verð ég að undirstrika að þetta sé eitthvað sem ég haldi, er ekki fullviss um þetta. En held það.


Arnar - 27/05/08 14:42 #

Alveg er ég viss um að ef starfsmaður ÍTR verður uppvís um kynferðisbrot gegn barni að þá sé ekki 'fagráð' innann ÍTR til að fjalla um málið og það sé ekkert í reglum ÍTR sem segi að aðrir starfsmenn geti valið um að tilkynna það eða ekki eftir eigin samvisku.


Matthías Freyr - 27/05/08 14:48 #

Það er enginn að tala um að tilkynna e-d eftir eigin samvisku eður ei og ekki er verið að ræða um óbreytta starfsmennm, og ég tók ÍTR sem dæmi.....hefði getað nefnt hvaða æskulýðs - félagsstarfsemi sem er


Baldvin Örn Einarsson - 27/05/08 14:57 #

Það er á hendi barnaverndaryfirvalda að rannsaka ásakanir um brot gegn börnum. Þar er fólk einnig bundið þagnarskyldu, að því ég best veit, þar til að brot eru kærð til lögreglu. Það eru ekki nærri allar tilkynningar til barnaverndarnefnda sem enda með kæru, enda er þá búið að kanna hvort tilkynningin eigi við rök að styðjast. Þetta er ekki á valdi einstakra stofnana eða stéttarfélaga, heldur barnaverndaryfirvalda og lögreglu.

Prestar eiga ekkert með að ákveða að þagnarsylda þeirra sé æðri landslögum. Ekki frekar en læknar, sálfræðingar, kennarar eða aðrar stéttir sem bundnar eru þagnar- eða trúnaðarskyldu gagnvart skjólstæðingum sínum. Það stendur svart á hvítu í lögum að tilkynningarskyldan gangi framar þagnarskyldunni í þessum málum, þar með eru prestar skyldugir til að tilkynna þessi mál rétt eins og allir aðrir, burtséð frá því sem stendur í siðareglum þeirra.


Baldvin Örn Einarsson - 27/05/08 15:03 #

Matthías skrifaði:

Það er enginn að tala um að tilkynna e-d eftir eigin samvisku eður ei ...

Jú, það er einmitt verið að tala um það

Í siðareglunum stendur:

Presti ber að fylgja samvisku sinni og sannfæringu.

Baldvin Örn Einarsson - 27/05/08 18:09 #

Geta ákvæði siðareglna stéttarfélags staðið ef þau samræmast ekki landslögum?

Væri ekki rétt að leggja þetta fyrir umboðsmann Alþingis eða annað úrskurðarvald?


Haukur Ísleifsson (meðlimur í Vantrú) - 28/05/08 07:13 #

Það getur ekki annað verið en að landslög hafi forgang.


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 28/05/08 08:02 #

Lögin eru skýr, en þau er "mannanna boð". Sumir prestar fullyrða að fremur beri að "hlýða Guði" eða að það sé réttur og skylda þeirra að þegja samkvæmt vígslu þeirra.

Eins og við vitum er aldrei að vita hvað "Guði" dettur í hug. Ímyndunarafl hans var töluvert hérna í gamla daga en við eigum líka skjalfestar, nýrri og innlendar heimildir þar að lútandi.


Baldvin Örn Einarsson - 28/05/08 10:08 #

Hvar ætla þeir að draga mörkin í að fylgja lögum guðs fremur en manna?

Ríkiskirkjan hefur í raun aldrei ætlast til að lögum guðs samkvæmt gamla testamentinu sé fylgt í hörgul, ekki einu sinni meðan stóridómur var og hét.

Þessi orð eru því algerlega tóm.

Eru messuklæði presta ekki úr meira en einu efni? Á þá ekki að grýta þá samkvæmt guðs lögum?


hinn útskúfaði (Lárus Páll Birgisson) - 29/05/08 04:37 #

Þetta segir vantrú: "Þar varð nokkur umræða um þagnarskylduna en prestafélagið komst að þeirri niðurstöðu að guðs lög væru ofar landslögum, þar á meðal tilkynningarskyldu í Barnaverndarlögum!"

..á meðan prestar segja: "Þagnarskyldan leysir prest þó aldrei undan ákvæðum Barnaverndarlaga um tilkynningaskyldu."

Og er hér komið enn eitt dæmi um lygar vantrúarmanna og hve hatur þeirra blindir þeim sýn.


Teitur Atlasonq (meðlimur í Vantrú) - 29/05/08 05:52 #

: "Þagnarskyldan leysir prest þó aldrei undan ákvæðum Barnaverndarlaga um tilkynningaskyldu."

Hvar stendur þetta?


hinn útskúfaði (Lárus Páll Birgisson) - 29/05/08 06:17 #

Í 10. línu pistilsins. Svona gerist víst þegar fólk er blindað af fordómum.


Hin útskúfaði. (Lárus Páll Birgisson) - 29/05/08 06:20 #

Nei heyrðu mig nú. Það er ég sem er að bulla. Svona gerist víst þegar fólk les í fljótfærni :) Ég biðst afsökunar á þessum ómaklegu ummælum mínum.


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 29/05/08 08:47 #

Rétt, útskúfaður. Það var borin upp tillaga þess efnis að í siðareglum presta yrði þess getið að þagnarskyldan leysti prest aldrei undan tilkynningarskyldu Barnaverndarlaga - en sú tillaga var felld!

En Barnaverndarlög segja líka að tilkynningarskylda þeirra gangi framar ákvæðum siðareglna um þagnarskyldu presta.

Sér enginn hversu spaugilegur Geir Waage er þegar hann hótar að segja sig úr Prestafélaginu ef þessi tillaga næði inn í siðareglur presta? Hann hikar ekki við að hunsa Barnaverndarlög en telur sig bundinn af siðareglum presta. Siðareglur presta virðast þá ekki vera "mannanna boð".

Kannski Geir ætti að íhuga að segja upp áskrift sinni af ofurlaunum presta frá ríkisvaldi sem setur honum lög sem hann ætlar ekki að hlíta. Einhvern veginn virðist það ekki hafa hvarflað að þessum hugsjóna- og prinsippmanni.


Ómar Harðarson - 31/05/08 22:18 #

Ég verð að viðurkenna að þótt niðurstaða prestafundarins hafi verið afleit, þá er ekki endilega ástæða til að gera gys að þeim. Ég efast ekki um að nefndarmenn hafi verið að reyna sitt besta og færa siðareglurnar nær nútímanum. Þá ætti því að hvetja til frekari dáða. Kristilegt siðgæði er hins vegar ekki komið lengra. Þar að auki þurfa menn að kljást við kristilega arfleifð (þagnarskyldu skriftafeðra) og fulltrúa hennar í mynd Geirs Waage og annarra svartklerka. Útkoman var málamiðlun, "algjört" og tilvísun í lög tekin út, en traust sett á samvisku og sannfæringu prestanna. Ekki beinlínis traustvekjandi, en samt varla tilefni til ályktunar um að (allir) prestar telji sig hafna yfir lög.

Það er hins vegar ákaflega lærdómsríkt að bera þessa nýsamþykktu grein í reglum prestanna saman við samsvarandi ákvæði í siðareglum sálfræðinga. Þar er ekki vaðið á súðum öfgafyllra staðhæfinga, enda engin kristileg arfleifð að þvælast fyrir:

"Trúnaður og þagnarskylda

Sálfræðingurinn virðir rétt einstaklingsins til trúnaðar með því að segja ekki frá því sem honum er trúað fyrir af skjólstæðingi og því sem hann fær vitneskju um við sálfræðilega starfsemi sína. Undantekningu skal gera frá þagnarskyldunni, ef augljós hætta bíður skjólstæðings eða annarra. Sálfræðingurinn getur þó í samræmi við lög verið skyldaður til að veita upplýsingar og gerir því skjólstæðingi sínum grein fyrir þeim takmörkunum á þagnarskyldu sem gilda skv. lögum."


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 01/06/08 10:44 #

Ég er ósammála. Það er full ástæða til að gera gys að ummælum og hugmyndum vissra presta (svartklerka eða svartstakka). Hvað eigum við að gefa þeim langan tíma til að "komast nær nútímanum"? Eigum við kannski að sætta okkur við að í siðferðismálum verði þeir alltaf um þremur öldum á eftir almenningi?

Kristilegt siðgæði er þá dragbítur og kristin menningararfleifð stangast á við landslög. Það er umhugsunarefni í ljósi umræðu um grunn- og leikskólalög á Alþingi nýverið.

Hins vegar er alveg rétt að það eru ekki allir prestar sem telja sig hafna yfir lög, enda er slíkt ekki fullyrt í titli þessa pistils.


Ómar Harðarson - 01/06/08 13:23 #

Ég get verið þér alveg sammála Reynir. Alveg eins og ekki er hægt að segja að allir prestar séu hafnir yfir lög þá eru það einnig svo að suma presta er rétt að gagnrýna eða draga sundur með háði, þ.e. skoðanir þeirra, enda eiga þær ekkert erindi meðal siðaðra manna og kvenna.


ofn - 17/08/10 00:59 #

  1. gr. þessara starfsreglna: “Ef meint kynferðisbrot varðar barn, skal talsmaður eða sá sem hefur vitneskju um ætlað kynferðisbrot, gegna skilyrðislausri tilkynningaskyldu til hlutaðeigandi barnaverndarnefndar sbr. 16. og 17. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.”

http://blog.eyjan.is/klerkur/2010/08/15/prestar-eru-tilkynningarskyldir/


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 17/08/10 08:15 #

Ofn, að sjálfsögðu ná landslög yfir presta eins og aðra hér á landi. Það þarf ekki að segja okkur það heldur þeim prestum sem eru greinilega á öðru máli.

Sjá hér,


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 26/08/10 13:26 #

Þótt ég hafi bent fjölmiðlum á þessa makalausu afstöðu margra presta á sínum tíma voru viðbrögðin engin. Annað var uppi á teningnum þegar mál Ólafs Skúlasonar komu aftur upp á yfirborðið og þá ofbauð almenningi með réttu.

Ég vona að allir hafi horft á þetta viðtal við Geir Waage og gleymi því aldrei.

Menn geta svo lagt þetta saman við nýjustu upplýsingar RÚV:

Aðeins þrjár af ríflega fjögur þúsund og þrjú hundruð tilkynningum um brot gegn börnum í Reykjavík í fyrra komu frá prestum.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.