Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Tilfinningar, rök og trú

Öll dýrin í skóginum eiga að vera vinir. Öruggasta leiðin til að forðast átök er að nefna hvorki stjórnmál né trúarbrögð, eða með öðrum orðum: Forðast að tala um nokkuð sem skiptir máli. Hver einasti maður sér að þessi uppskrift gengur ekki upp.

Að sjálfsögðu er bráðnauðsynlegt að ræða stjórnmál til að finna bestu leiðina til að stjórna samfélaginu, velja markmið og leiðir. Menn getur greint á og umræðan orðið heit á stundum. Eina rétta leiðin er að beita rökum og halda sig við málefnið en oft hættir mönnum til að ráðast á andstæðinginn frekar en skoðanir hans og tilfinningarnar geta borið menn ofurliði.

Sennilega eru menn ekki jafnsannfærðir um að umræða um trúmál sé nauðsynleg. Margir hafa þá afstöðu til trúmála að þau skipti litlu sem engu máli, séu í það minnsta einkamál hvers og eins sem algjör óþarfi sé að ræða í þaula eða brjóta til mergjar. En svo er annar hópur manna sem telur að afstaðan til eilífðarmálanna skipti máli en hann skiptist í tvo andstæða póla. Annars vegar einarða trúmenn og hins vegar einarða trúleysingja.

Þar sem einarðri afstöðu í stjórnmálum er gjarnan stillt upp á ása, t.d. vinstri og hægri, geta menn sagt að sannfærður frjálshyggjumaður sé alveg jafnpólitískur og sannfærður kommúnisti. Að sama skapi vilja sumir meina að sannfærður trúleysingi sé alveg jafntrúaður og sannfærður trúmaður. Báðir eiga það til að berjast með oddi og egg fyrir sannfæringu sinni og líkt og í stjórnmálakarpi hættir mönnum til að ráðast á andstæðinginn frekar en skoðanir hans og tilfinningarnar geta borið menn ofurliði. En er málið svona einfalt?

Epli og appelsínur

Þótt afstöðu manna í trúmálum og stjórnmálum megi líkja saman að mörgu leyti gengur samlíkingin ekki alltaf upp. Stundum eru menn vissulega að skeggræða hvað er líkt með eplum og appelsínum en epli er ekki appelsína. Að sama skapi geta menn skeggrætt hvað er líkt með stjórnmálum og trúmálum en pólitísk afstaða er ekki trúarskoðun.

Helsti munurinn á trúmanni og trúleysingja, að mínu viti, er sá að trúmaðurinn telur sig hafa fundið sannleikann (svarið eða leiðina) en trúleysinginn telur það blekkingu eina (guðleysingi eða trúleysingi), að engin leið sé að finna sannleikann í eilífðarmálunum (óvissumaður – agnostic) eða að efast megi um hann (efahyggjumaður). Svo eru auðvitað til ótal afbrigði af trúmönnum eins og guðhyggjumenn eða frumgyðishyggjumenn – deists, algyðishyggjumenn – pantheists, guðstrúarmenn – theists, sem skiptast svo í eingyðistrúarmenn – monotheists og fjölgyðistrúarmenn – polytheists. Til að flækja málið enn frekar geta menn svo verið missannfærðir í trú sinni, trúleysi, óvissu og efa.

Í stjórnmálum eru að sama skapi til ótal stefnur og straumar en bæði fasistinn og stjórnleysinginn (anarkistinn) telja sig hafa fundið réttu eða bestu leiðina að heillavænlegasta markmiðinu og það sama má segja um frjálshyggjumanninn og kommúnistann. Þess vegna eru báðir jafnpólitískir. Þótt guðstrúarmaðurinn telji sig hafa fundið réttu eða bestu leiðina að heillavænlegasta markmiðinu (t.d. elskaðu guð af öllu hjarta og þín bíður eilíf sæla á himnum) gildir ekki það sama um trúleysingjann og því er þeir ekki jafntrúaðir.Trúleysinginn hefur nefnilega allt annað markmið (t.d. lifðu án blekkinga) og því gengur samanburðurinn ekki upp. En um þetta má vissulega deila.

Trúaðir trúleysingjar

Margir trúmenn, bæði leikir og lærðir, eru sannfærðir um að trúleysingjar séu síst minni trúmenn en heittrúaðir. Af þessu leiðir að oft er því klínt á Vantrú að félagið sé „stúpid sértrúarsöfnuður“ og félagsmenn oflátungar sem telja sig hafa fundið sannleikann. En eitt er að vera sannfærður um að gullpottur sé grafinn við enda regnbogans og annað að efast stórlega um það. Og það er engin leið að saka þann sem er sannfærður um að þar sé engan gullpott að finna um að þykjast vita hvar potturinn er í raun grafinn. Og svo eru þeir til sem segja að við getum ekki einu sinni komist undir regnbogann.

Félagsmenn Vantrúar eru ekki einsleitur hópur. Innan raða okkar má eflaust finna guðleysingja, trúleysingja, óvissumenn og efahyggjumenn en það sem sameinar okkur er að við höfum miklar efasemdir um tilvist þeirra fjölmörgu og ólíku gullpotta sem aðrir hika ekki við að lofa, prísa og selja. Ef þú vilt trúa á tilvist einhvers þeirra eða allra er okkur hins vegar nákvæmlega sama. En ef þú ætlar að básúna ágæti einhvers þeirra, selja aðgang að honum eða þiggja laun þín frá ríkinu fyrir að mala um hann þá áskiljum við okkur allan rétt til að gagnrýna það, krefja þig um svör, benda á rökvillur og jafnvel hæðast að þeim tilburðum þínum. Þetta köllum við að berjast gegn boðun hindurvitna og það eitt er tilgangur félagsins.

Sum okkar fullyrða eflaust að það finnist aldrei neinn gullpottur við enda regnbogans, önnur að þar verði aldrei hægt að leita og enn önnur að ekki sé hægt að útiloka að einhver gullpottur finnist einhvern tíma einhvers staðar. Þeir sem telja sig hafa fundið pottinn verða annað hvort að sýna fram á tilvist hans eða sætta sig við nöldur okkar og raus.

Hvað skiptir máli?

Í upphafi gaf ég í skyn að stjórnmál og trúmál skipti máli. Vantrú er vettvangur umræðu um trúmál. Hér heyrast raddir efasemdarmanna því aðrir hafa sinn vettvang. Blekkingar, svik, villa og svími eru eitur í okkar beinum en það er ekki það sama og hatur. Gagnrýni okkar á skoðanir og fullyrðingar trúmanna, svikamiðla, skottulækna og annarra bullukolla eru ekki persónuárásir. Líkt og drengurinn í ævintýri H.C. Andersen bendum við einfaldlega á að keisarinn er ekki í neinum fötum og það er ekki hroki. En þar sem við teljum það skipta máli hvort farið er með rétt mál í eilífðarmálunum og öðrum getur okkur sárnað þegar félagsskapur okkar og afstaða er ausin auri.

Við skiljum líka mætavel afstöðu andstæðinga okkar, þeirra sem við köllum trúmenn, svikamiðla, skottulækna, bullukolla og annað þess háttar. Auðvitað sárnar þeim og finnst að persónu sinni vegið, oft í fullkomnu skilningsleysi okkar og virðingarleysi, en ég ítreka að það er ekki hatur, persónuárásir eða hroki. Við tölum hreina íslensku, umbúðalaust. Lygi er lygi og bull er bull. Ef tilfinningar okkar bera okkur ofurliði treystum við á að á það verði bent og þá er sjálfsagt að biðjast velvirðingar. Ef við förum með rangt mál eigum við þá ósk heitasta að á það sé bent, því það viljum við síst.

Er þetta flókið?

Að gefnu tilefni vil ég svo árétta að Vantrú, sem félag, getur aðeins staðið við og undir þeim ummælum sem koma fram í greinum á vefritinu. Athugasemdir einstakra félagsmanna við greinarnar eru á þeirra ábyrgð, ekki félagsins. Karp félagsmanna í bloggheimum er svo að sjálfsögðu þeirra en ekki félagsins. En kannski er von að skynlitlir skilji það ekki þegar sá skilningur virðist ofviða kennara í Háskóla Íslands (en brátt kemur í ljós hvort þar ræður siðleysi kennarans eða lágar kröfur þeirrar stofnunar til fræðimennsku).

Reynir Harðarson 29.08.2010
Flokkað undir: ( Efahyggja )

Viðbrögð


Guðjón Eyjólfsson - 29/08/10 11:26 #

Sæll Reynir

Þú segir að helst munurinn á trúmanninum og trúleysingjanum sé að sá trúaði telji sig hafa fundið sannleikann en trúleysingin telji að ekki sé hægt að finna sannleikann.

Síðan talar þú að menn geti verið missannfærðir í trúleysi sínu. Hvaða munur er á trúleysingja sem er svo sannfærður í trúleysi sínu að hann telur sig umkomin að hugsa fyrir aðra og segja þeim til um hvaða skoðanir þeir megi hafa og hvað skoðanir þeir megi ekki hafa í trúmálum og trúmanninum sem gengur of langt í trúboð sínu?

Pirrandi fólk tengist ákveðin manngerð fremur en þeim trúarskoðunum sem það hefur

.

Þarft þú einhverntíman að starfa með trúuðu fólki. Ef þú þarft að starfa með trúuðu fólki er það þá þitt fyrsta verk að berja úr því þær heimskulegu skoðanir sem það hefur í trúmálum?

Forsendan fyrir þjóðfélagi af því tagi sem við búum í er að fólk með ólíkar skoðanir geti starfað saman þegar þörf á án þess að láta skoðana ágreining sinn hafa truflandi áhrif á starf sitt.

Foreldraviðtal við grunnskólakennar skiptir vissulega máli ef það snýst um nemandan og nám hans og hvernig kennari og foreldri geta tekið höndum saman um að stuðla að betri árangri.

Það er vettvangur þar sem ágreingur um stjórnmálaskoðanir eða trúarskoðanir á ekki heima

Í frjálsu ríki gildir sú sú regla að fólk þarf ekki að ræða skoðanir sínar við aðra en það kærir sig um.

Skoðannafrelsi felur það í sér að fólk hefur nákvæmleg þær skoðanir sem því þóknast og það þarf ekki að geta rökstutt þær og það er ekki til neinn vettvangur sem fólk er skylt til þess að ræða þessi mál.

Ef heitur vantrúarmaður og ákafur trúmaður vinna saman þurfa þeir að víkja þeim ágreiningmálum til hliðar í vinnuni til þess að standa sig þar.

Ég held því fram að um persónulega skoðanir gildir sú regla að það er engin leið að komast að endanlegri niðurstöðu um réttmæti þeirra vegna þess að sá sem hefur skoðunina hefur sjálfdæmi um hvernig meta á réttmætið.

Fullvissa vissra trúleysingja um réttmæti skoðana sinna er engu minni en sannfærðustu trúmanna og þegar menn skoða þau mál náið kemur í ljós að undirstöður fyrir þessari sannfæringu eru í lausu lofti.

Þessi sannfæring byggist á barnlegri oftrú á vísindinn.


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 29/08/10 12:55 #

Til hamingju, Guðjón. Þú hefur ráðið niðurlögum strámannsins ógurlega.

Þessi strámaður þinn "er svo sannfærður í trúleysi sínu að hann telur sig umkomin að hugsa fyrir aðra og segja þeim til um hvaða skoðanir þeir megi hafa og hvað skoðanir þeir megi ekki hafa í trúmálum".

Ef strámaðurinn starfar með trúuðu fólki er það hans "fyrsta verk að berja úr því þær heimskulegu skoðanir sem það hefur í trúmálum".

Þessi strámaður getur ekki farið í foreldraviðtal án þess að tala þar um trúmál án þess að það komi barni hans við.

Þennan strámann vegur þú svo með orðunum: "Þessi sannfæring byggist á barnlegri oftrú á vísindinn."

Ef þú sérð ekki hvað svona "röksemdafærsla" er barnaleg er þér ekki viðbjargandi. Og svona í lokin. Hvaðan kemur samasemmerkið á milli trúleysis og vísindahyggju?


Tommi - 29/08/10 13:41 #

Vá að lesa allt þetta sem Guðjón skrifaði sýnir lengdina af vitleysu sem menn eru tilbúnir til að trúa til að skýla þeim sjálfum frá þeirri kaldri staðreynd að það er ekkert eftirlíf.

Með því ímyndunarafli sem menn hafa en önnur dýr ekki fylgir sú vitneskja að við deyjum sem önnur dýr hafa ekki. Ofsatrúað fólk er hrætt við að deyja það er hrætt við staðreyndir þannig að hundsar röksemdir annarra með því að gera þá að óvinum og það trúir á heilagar bækur sem eru svo heimskulegar að börn get séð í gegnum þær.

Trúað fólk trúir því að í 100.000+ ár hafi guð og himnaríki beðið á meðan 99.9% af öllum dýrum hafa dáið og beðið á meðan flestir menn hafa dáið við fæðingu eða við tapið í þeirra eigin tönnum. Þeir vilja kenna börnunum okkar þetta. Þeir vilja að við borgum skatta í að upphalda þessari vitleysu. Eini skatturinn sem ég myndi einhvern tímann borga fyrir ofsatrúarmenn væri fyrir vist á Kleppi.

Trúleysi þarfnast ekki trúar. Trúleysi byggir á þeim upplýsingum sem við höfum fyrir hendi og þeim upplýsingum sem við fæðumst með. Trú krefst þess að trúa á eitthvað sem enginn manneskja getur séð né sannað. Trú er eitthvað sem á að vera stundað í einveru og á ekki að þvinga á annað fólk. Ef trúaðir ættu að fá einhvern rétt að taka skatta sem fólk borgar og að upplýsa aðra um þennan heilaga sannleika eiga þeir að geta mætt sýnt fram á einhver rök.


Valgarður Guðjónsson (meðlimur í Vantrú) - 29/08/10 13:53 #

Virkilega góð grein og ætti, ásamt nokkrum öðrum, að hafa fastan tengil á forsíðu.

Hún svarar mjög vel og afgreiðir afdráttarlaust þessar síendurteknu út-í-loftið fullyrðingum um meðlimi Vantrúar. Þannig væri hentugt að geta vísað beint á forsíðuna.

Það er líka gott að hafa í huga í rökræðum að þegar andstæðingurinn grípur í að dæla skætingi eins og "stúpid sértrúarsöfnuður" þá er það ekki vegna þess að hann hafi rökin sín megin eða góðan málstað. Þetta er nauðvörn rökþrota fólks.


Guðjón Eyjólfsson - 29/08/10 14:18 #

Þú horfir algjörleg framhjá því að ég er að benda þér á að þjóðfélag okkar getur ekki virkað eðlileg nema að menn forðist átök um trúmál þegar aðstæður krefjast þess.

Og vegna þess trúmál eru einkamál er torséð að til sé nokkur vettvangurí þjóðfélaginu þar sem slikar umræður séu æskilega nema fólk sýni hvort öðru gagnkvæma virðingu og sleppi því að níða niður persónu viðmælanda síns

Svar þitt bendir endregið til þess að ég hafi ekkert erind hingað þar sem ég uppfyll ekki þær strögu kröfur um vitsmunaleg getu trúmanna ef þeir eiga að vera þess verið að sé yrt á þá öðruvís en til þess að tjá fyrlitug á persónu þeirra.

Ég hef reyndar ekki orðið var við að sömu kröfur sé gerða til trúleysinga.

Þannig að eina leiðin til þess að ég geti tjáð mig hér er að ég fari að pretika fagnaðarboðskap trúleysi.

Það aðdáungarvert hvernig þú hrekur röksemdir mina með málefnalegum hætti og sýnir að það er algör óþarf að ráðast með hæðis orðum að persónu andstæðings og niðurlægja hann.

Þú hefðir reyndar geta kveðið mig í kútinn með orðum strámannsin Richards Dawkins:

If this book works as I intend, religious readers who open it will be atheists when they put it down. Sjá the God Delusion í formála bókarinnar á bls 5 í minni útgáfu

Hér talar vitsmunalegt ofurmenni sem er væntaleg ég beinu persónulegu sambandi við Sannleikann og menn eins og ég eiga auðvita að tileinka sér þann sannleika en teljast að öðrum kosti vera barnalegir og ekki þess verðir að talað sér við þá eins og fullorði fólk.


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 29/08/10 14:23 #

Guðjón, ég skal stafa þetta fyrir þig. Athugasemd þín er ekki svaraverð.

Þú horfir algjörleg framhjá því að ég er að benda þér á að þjóðfélag okkar getur ekki virkað eðlileg nema að menn forðist átök um trúmál þegar aðstæður krefjast þess.

Um þetta eru flestir sammála.

Og vegna þess trúmál eru einkamál er torséð að til sé nokkur vettvangurí þjóðfélaginu þar sem slikar umræður séu æskilega nema fólk sýni hvort öðru gagnkvæma virðingu og sleppi því að níða niður persónu viðmælanda síns.

Ef allir færu með trúmál sem einkamál væri engin þörf á Vantrú þar sem við "berjumst gegn boðun hinurvitna". Á meðan menn treysta sér til að básúna ágæti gullpottsins við enda regnbogans, jafnvel selja aðgang að honum og svívirða konur og börn í nafni hans þá er þörf á Vantrú.

Á meðan fimm þúsund milljónir af almannafé fara í að viðhalda og boða hindurvitni, með sérstakri vernd og stuðningi ríkisvaldsins eru trúmál fjarri því einkamál.


Guðjón Eyjólfsson - 29/08/10 15:18 #

Þetta er fín grein hjá þér. En ég er greinileg ekki í hópi þeirra sem þú hefur áhuga á að ræða hana við. Þá er umræðum mínum lokið í bili.


Ásgeir (meðlimur í Vantrú) - 29/08/10 15:45 #

Það er eins og þú áttir þig ekki á því, Guðjón, að Vantrú er vefrit á netinu þar sem fólk þarf að stimpla inn slóðina sérstaklega til að lesa greinarnar sem eru skrifaðar þar.

Það er fullkomlega ósambærilegt við að þröngva umræðum um trúmál upp á alla alls staðar, eins og þú virðist halda að félagsmenn í Vantrú geri, til dæmis á foreldrafundum!


Matti (meðlimur í Vantrú) - 29/08/10 17:10 #

Ég hef því miður aldrei rætt trúmál á foreldrafundi.


Kristinn (meðlimur í Vantrú) - 29/08/10 20:52 #

Þetta er fín grein hjá þér. En ég er greinileg ekki í hópi þeirra sem þú hefur áhuga á að ræða hana við. Þá er umræðum mínum lokið í bili.

Þú fórst bara ekkert að ræða greinina, Guðjón, heldur gafst þér að trúleysinginn í jöfnunni væri einhver klikkhaus sem er ofsatrúaður á vísindi og getur ekki unnt vinnfélögum að trúa á einhverja hluti.

Hver er þannig? Hvað kemur slíkur aðili málinu við ef hann er ekki til?

Að berjast gegn boðun óstaðfestra og óskhyggjulegra hugmynda er hinsvegar ágætt markmið og hefur lítið sem ekkert með strámanninn sem þú dróst upp að gera.


gös - 29/08/10 21:06 #

Reynir:

Ef þú vilt trúa á tilvist einhvers þeirra eða allra er okkur hins vegar nákvæmlega sama. En ef þú ætlar að básúna ágæti einhvers þeirra, selja aðgang að honum eða þiggja laun þín frá ríkinu fyrir að mala um hann þá áskiljum við okkur allan rétt til að gagnrýna það, krefja þig um svör, benda á rökvillur og jafnvel hæðast að þeim tilburðum þínum. Þetta köllum við að berjast gegn boðun hindurvitna og það eitt er tilgangur félagsins.

Guðjón:

Forsendan fyrir þjóðfélagi af því tagi sem við búum í er að fólk með ólíkar skoðanir geti starfað saman þegar þörf á án þess að láta skoðana ágreining sinn hafa truflandi áhrif á starf sitt.

Álykta að Guðjón hafi ekki lesið greinina.


Jon Steinar - 30/08/10 22:20 #

Mekilegt með þessa Baháa eins og Guðjón...Þeir eru svo ofboðslega opnir fyrir trúarbrögðum og "umræðu" um trúarbrögð að þeir eru algerlega afstöðulausir. Þeir hafna öllum trúarbrögðum en heiðra þau í sömu andrá. Baháa hreyfingin var hinn hentugi frígír fyrir þá sem ekki þora að fara alla leið. En þegar kemur að trúleysi, þá les maður tannagnístrið milli línanna.

Ég veit fátt yfirborðskenndara og falskara en hræsni þeirra og miðjumoð.

Þið fyrirgefið mér væntanlega, en ég varð bara að hægja mér hér.


Jóhann - 31/08/10 20:59 #

Ég gæti sem best trúað að þú hefðir gaman af þessum samræðum, Reynir, því þarna tala saman klárir karlar:

http://www.youtube.com/watch?v=cG3sfrK5B4E

P.S. "Þið fyrirgefið mér væntanlega, en ég varð bara að hægja mér hér."

Ég vænti þess að húsráðendur fari samt fram á það við þig, Jon Steinar, að þú þvoir þér á endanum um hendurnar...

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.