Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Dauðastríð ríkiskirkjunnar

Biskup og krú ganga til kirkju

Nú er sumarfríi Vantrúar lokið þetta árið og við búum okkur undir spennandi vetur. Í sumar bar hæst heimsókn James Randi og hvert hneykslið innan kirkjunnar á eftir öðru. Í haust kemur The God Delusion eftir Richard Dawkins út í íslenskri þýðingu, Ranghugmyndin um guð. Við vonumst líka eftir að geta gert minningu Helga Hósaeassonar skil og væntum farsælla málaloka erindis okkar til siðanefndar Háskóla Íslands vegna áróðurs Bjarna Randvers Sigurvinssonar í guðfræði- og trúarbragðadeild. Að sjálfsögðu stöndum við vaktina sem fyrr í báráttu okkar gegn boðun hindurvitna og brátt verða lesendur varir við andlitslyftingu þessa vefrits.

Hneykslismálin hrannast upp

Fyrr í þessum mánuði greindi DV frá því að dóttir Ólafs Skúlasonar fyrrum biskups krefðist uppgjörs kirkjunnar í kynferðisbrotamálum og að kirkjan hefði leynt bréfi hennar. Ekki batnaði staðan svo þegar formaður fagráðs kirkjunnar í kynferðisbrotamálum (kirkjan er svo fagleg í öllu, jafnvel kynferðisbrotum sínum) neitaði að tjá sig um fjölda kynferðisbrota innan kirkjunnar.

Ofan á þetta bættist að DV sagði frá öðru leynibréfi á Biskupsstofu þar sem organisti Bústaðakirkju lýsir því hvernig hann kom að verðandi biskupi lausgyrtum ofan á útgrátinni konu í myrkrakompu hans í kirkjunni. Um biskupinn sagði organistinn: ...hann var haldinn mikilli kynferðislegri þrá eða löngun sem kom fram í óeðli.“ Um þetta má líka lesa í Pressunni og bréfið sjálft á DV. DV greindi líka frá viðbrögðum Biskupsstofu.

Þessi mál voru heldur bagaleg fyrir kirkjuna ekki síst vegna þess að einmitt um þetta leyti var það fréttaefni að kirkjan vill ekki leggja sitt af mörkum í sparnaði ríkisins og „hafnar níu prósenta niðurskurðarkröfu“. Það eitt og sér var nóg til að ergja margan manninn eins og sjá má í athugasemdum við fréttina. Vegna þessa fór formaður Vantrúar m.a. í viðtal í þættinum Harmageddon:

En í kjölfar alls þessa bentum við á umræður á Prestaþingi 2007 sem við fjölluðum um á sínum tíma í grein á Vantrú. Þar kemur skýrt fram að nokkrir prestar telja sig hafna yfir lög, m.a.s. lög um barnavernd! Í fundargerð Prestafélagsins stendur m.a.:

Sr. Þórir Jökull Þorsteinsson leggur áherslu á að þagnarskyldan sé algjör. Prestar séu fulltrúar heilagrar kirkju og framar beri að hlýða Guði en mönnum.

Sr. Úlfar Guðmundsson ræddi þagnarskylduna og sagðist vera mikill þagnarskyldumaður. Hvað Barnaverndarlögin snerti sagðist hann líta svo á að það væri hlutverk P.Í. að hafa áhrif á að þeim væri breytt svo prestar yrðu leystir undan því að tala.

Sr. Geir G. Waage lagði áherslu á að um algjöran trúnað væri að ræða. Presturinn segði engum frá neinu og skipti engu máli um hvað væri að tefla. Hverjum ætti að vera hægt að treysta ef frjálst væri að halda þagnarskyldu? Prestafélag sem er frjálst félag innan þjóðkirkjunnar getur ekki lýst því yfir ótilneytt og bundið félagsmenn sína við þá stefnumörkun að fremur beri að hlýða mönnum en Guði. Sagðist vel geta lifað við að slíkt stæði í lögum en skyldur hans sem prests gengju lengra en mannanna boð. Gæti vart verið félagi í P.Í. ef þessu yrði breytt.

Þetta vakti verðskuldaða athygli og hlaut umfjöllun í Smugunni og Eyjunni

Trúvörn eða nauðvörn

Nokkrir prestar reyndu að bjarga því sem bjargað varð og meðal þeirra voru Sigríður Guðmarsdóttir sem sagði:

Mér finnst þetta ágæt og greinargóð frétt á vantrú.is og smugunni.is. Prestar þurfa að gera sér grein fyrir því að umræður og ályktanir okkar vekja athygli. Sjálfri finnst mér þessi umræða á Prestastefnunni 2007 vera skandall, eins og ýmislegt fleira sem gerðist á þeirri stefnu. Við þurfum að dusta rykið af guðfræðinni...

og Baldur Kristjánsson sem bloggaði um málið og þetta svar hans birtist líka í Smugunni. Baldur valdi þá leið að skjóta sendiboðann og sagði m.a.:

Hvorki kirkjan, né mikill meirihluti presta, telur sig hafna yfir lög í neinum skilningi. Leiðinlegt er að sjá þessa síbylju að Prestar.......telji hitt eða þetta..þegar aðeins er hugsnalega um lítinn minnihluta að ræða. Ég ætti kannski að taka Vantrú/Smuguna og aðra í tíma í því hvernig eigi að forðast alhæfingar því að alhæfingar leiða til þess að saklaust fólk er haft fyrir rangri sök og kallast rasismi þegar um fólk eða þjóðarbrot er að ræða.

Í greininni um umræður á Prestaþingi kemur skýrt fram að ekki eru allir prestar á sömu skoðun og svartstakkarnir. Til dæmis má þar lesa:

Sr. Sigríður Guðmarsdóttir spurði hvort ákvæðið þar sem Barnaverndarlaga væri getið ætti heima í siðareglum P.Í. Þyrfti að taka það fram að prestar væru ekki undanþegnir lögum? Setning þessi ætti ekki heima í siðareglum.

En þegar ríkisútvarpið greindi frá þessum umræðum í kvöldfréttum og líka í sjónvarpinu hefur Baldri greinilega sviðið að sjá lögfræðing Barnaverndarstofu þurfa að benda starfsbræðrum hans á að þeir væru ekki hafnir yfir lög því hann missti sig algjörlega í næsta bloggi sínu, sem birtist líka á moggablogginu. Grein sína kallar Baldur „Þrasliðið í Vantrú“ og er skólabókardæmi um hvernig reyna má að breiða yfir aðalatriði málsins, að sumir prestar telja sig hafna yfir lög, yfirhylmingar kirkjunnar og Mammonsdýrkun, með því að níða niður sendiboðann, Vantrú. Grein Baldurs hljóðar svo:

Mikið rosalegt raus er inn á Vantrú.is. Að lesa síðuna er eins og að koma inn í menningarkima sem meðlimir hafa ekki hlustað á nema hvorn annan í áratugi. Félagsfræðilega minnir þetta á stúpid sértúarsöfnuð sem gæti einn góðan veðurdag tekið upp á því að elta þrasið á sér til stjarnanna. Þeir liggja yfir skrifum presta þrasa yfir því sem þeir rita of virðast hafa lélegan lesskilning og alls engan húmor, alls ekkert vitsmunalegt svigrúm sem er eitt af einkennum menntaðs fólks og forsenda þess að rökræða skili einhverju sé a.m.k. rökræðunnar virði. Þarna greinirðu milli menntaðrar manneskju og oflátungs sem heldur að hann hafi fundið sannleikann og hangir á honum eins og hundur á spítu eða marhnútur áhandlegg. Vissulega alhæfi ég en alhæfingin er bundin við þá sem móta Vantrúarsíðuna og elta skrif um kirkju og presta eins og geltandi hvolpar.

Nú er ekkert að Vantrú eða guðleysi. Christopher Hitchens er til dæmis einn af mínum uppáhaldshöfundum, rökvís og skemmtilega kaldhæðinn (á síðu Vantrúar er fjallað um hann eins og sértúarsöfnuðir fjalla um trúarleiðtoga sína. Hann er t.d. veikur núna) enda maðurinn þroskaður og vitur. Ég efast um að hann yrði hrifinn af því að vera idol svona gerilesneyddrar klíku sem býr ekki yfir neinum af eðliskostum hans.

Skoðum þetta lið fyrir lið. „Mikið rosalegt raus er inn á Vantrú.is. “ Grein okkar um að (sumir) prestar telji sig hafna yfir lög er nær eingöngu beinar tilvitnanir í fundargerð Prestafélagsins og landslög.

Vantrú er „stúpid sértrúarsöfnuður“ með „lélegan lesskilning og alls engan húmor, alls ekkert vitsmunalegt svigrúm“. Eðli málsins samkvæmt er erfitt fyrir okkur að fullyrða um vitsmunalegt atgervi okkar, lesskilning eða skopskyn en við erum þó með sérstakan greinarflokk sem kallast grín og ófleyg orð. Við höfum líka gaman af Ágústínusarverðlaununum og þannig mætti lengi telja.

„Þarna greinirðu milli menntaðrar manneskju og oflátungs sem heldur að hann hafi fundið sannleikann og hangir á honum eins og hundur á spítu eða marhnútur áhandlegg.“ Meðlimir Vantrúar eru vissulega mismenntaðir og vissulega státar enginn (enn) af embættisprófi í guðfræði. En samkvæmt okkar skilningi er eitt að efast um sannleiksgildi goðsagna og annað að þykjast hafa fundið „sannleikann“. Baldur telur sig væntanlega dyggan lærisvein Jesú nokkurs sem sagði hins vegar „,Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið.“ (Jh. 14:6)

Baldur viðurkennir að í þessari grein sinni alhæfir hann vissulega „en alhæfingin er bundin við þá sem móta Vantrúarsíðuna og elta skrif um kirkju og presta eins og geltandi hvolpar,“ og þá er væntanlega allt í lagi. Við erum rausandi oflátungar í stúpid sértrúarsöfnuði sem teljum okkur hafa fundið sannleikann og höngum á honum eins og hundar á spýtu, geltandi hvolpar, gerilsneydd klíka. Þetta kemur frá sama manni og sagði tveimur dögum fyrr:

Ég ætti kannski að taka Vantrú/Smuguna og aðra í tíma í því hvernig eigi að forðast alhæfingar því að alhæfingar leiða til þess að saklaust fólk er haft fyrir rangri sök og kallast rasismi þegar um fólk eða þjóðarbrot er að ræða.

Sjálfur var ég hissa á að sjá einlæga aðdáun Baldurs á Christopher Hitchens, sem hann segir einn af sínum uppáhaldshöfundum, rökvísan og skemmtilega kaldhæðinn, þroskaðan og vitran, hvorki meira né minna. En okkur í Vantrú sakar hann um að fjalla um hann „eins og sértúarsöfnuðir fjalla um trúarleiðtoga sína. Hann er t.d. veikur núna.“ En í grein okkar um veikindi Hitchens er þó hvergi vott af aðdáun eða dýrkun að finna. Raunar mætti halda að Baldur væri aðdáandinn og við gagnrýnendur Hitchens ef aðeins ætti að dæma af orðunum. Og verða lesendur varir við mikið raus í greininni um Hitchens?

Skrifað stendur

Það vill svo skemmtilega til að raus Baldurs um þrasliðið á Vantrú birtist sunnudaginn 15. ágúst. Sama dag flutti sr. Sigríður Guðmarsdóttir útvarpsmessu þar sem hún vék einmitt að barnaníði og barnavernd. Hún talaði um það út frá guðspjalli dagsins sem fjallaði um tollheimtumann nokkurn og farísea. Sigríður sagði:

Jesús sagði líka dæmisögu þessa við nokkra þá er treystu því að sjálfir væru þeir réttlátir en fyrirlitu aðra: „Tveir menn fóru upp í helgidóminn að biðjast fyrir. Annar var farísei, hinn tollheimtumaður.

Faríseinn sté fram og baðst þannig fyrir: Guð, ég þakka þér að ég er ekki eins og aðrir menn, ræningjar, ranglátir, hórkarlar eða þá eins og þessi tollheimtumaður. Ég fasta tvisvar í viku og geld tíund af öllu sem ég eignast.

Sagan hefur á öllum öldum verið notuð til að tákna tvær gerðir kristins fólks, þeirra sem ástunda dygðugt líferni og ofmetnast á því og síðan hinna sem biðja Guð um hjálp til að bæta sitt synduga líf.

Faríseinn reyndar gerði gott betur en að þakka fyrir eigið ágæti. Hann benti almættinu líka á tollheimtumanninn og þakkaði fyrir að vera ekki sami auminginn og hann. Og það er einmitt hér sem hnífurinn stendur í kúnni og gerði það að verkum að góðu verkin faríseans voru siðferðilega lítils virði. Hann gleymdi meginreglu kærleiksborðorðsins um það að elskan til Guðs og elskan til náungans heyra saman. Hann taldi sig geta staðið í kærleikssambandi við Guð án þess að það breytti afstöðu hans til annara manneskja, þar með talinn hinn fyrirlitna tollheimtumann.

Við hljótum að gera ráð fyrir að Baldur hafi lesið guðspjall dagsins og heyrt prédikun Sigríðar því á Facebook-síðu hennar skrifar hann samdægurs:

„Takk fyrir fína prédikun!“ „og tímabæra!“

Þrátt fyrir meint húmorsleysi verð ég að viðurkenna að mér finnst þetta fyndið.

Reynir Harðarson 17.08.2010
Flokkað undir: ( Kristindómurinn , Hugvekja )

Viðbrögð


doctorE - 17/08/10 09:33 #

Hitch er alveg örugglega miklu "grimmari" en nokkur í Vantrú... Baldur hefur bara ekki áhyggjur af erlendum mönnum, hann hefur áhyggjur yfir því að landar hans séu að segja sannleikann um trú þeirra og hugsanlega glæpsamlegt athæfi kirkju hans


Baldur Kristjánsson - 17/08/10 10:42 #

Sæll Reynir. Þarna er klár maður þú, að kasta hæfileikum sínum á glæ.Í stað þess að birta pistil minn um presta og siðareglur þvælir þú pistlum mínum sem voru birtir annars staðar inn í eitthvert samhengi sem þú býrð til í höfði þínu en hefur enga vitræna stoð. Myndin sem fylgir spunanum segir lesanda strax að ekki er mikið að marka spunamann í þessu efni. Aðeins ómarktækir menn gera lítið úr viðmælendum/andmælendum sínum með myndbirtingum. Í Vantrú hefur safnast saman hópur af gáfuðum þverhausum og þið hljótið að finna það sjálfir að þið eruð að innisnjóast. MBkv. Baldur


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 17/08/10 11:00 #

Takk fyrir að líta inn og svara, Baldur.

Vissulega bjó ég samhengið til í höfði mínu, en menn reyna slíkt gjarnan þegar koma á mörgum atriðum að í einni grein. Mér þykir vissulega leitt að heyra að klár maður og hæfileikaríkur, eins og þú segir mig vera, skuli gera þetta án nokkurrar vitrænnar stoðar, að þínu mati.

Ég skil ekki hvernig mynd af ríkiskirkjuprestum í fullum skrúða ómerkir grein um ríkiskirkjupresta. Sennilega skortir mig vitið þar líka. Ég sé heldur ekki að myndin geri lítið úr þér eða öðrum sem getið er í greininni. Þótt ég hafi engu ráðið í myndavali bið ég þig innilega forláts á myndinni þar sem hún hefur greinilega sært þig.

Ef við erum að innisnjóast vona ég svo sannarlega að Baldur og aðrir verði duglegir að moka okkur út. Að sama skapi reynum við, hér eftir sem hingað til, að moka þá út sem við óttumst um.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 17/08/10 13:37 #

Bíddu við, er þetta svar Baldur? Umkvörtun útaf þessari fyndnu (að mínu mati) ljósmynd sem ég tók á prestaþingi í fyrra. Jahérna.

Sýnið viðbrögð, en vinsamlegast sleppið öllum ærumeiðingum. Einnig krefjumst við þess að fólk noti gild tölvupóstföng, líka þegar notast er við dulnefni. Ef það sem þið ætlið að segja tengist ekki þessari grein beint þá bendum við á spjallborðið. Þeir sem ekki fylgja þessum reglum eiga á hættu að athugasemdir þeirra verði færðar á spjallborðið.

Hægt er að nota HTML kóða í ummælum. Tög sem virka eru: a href, b, i, u, br, p, strong, em, ul, li og blockquote. Einnig er hægt að notast við Markdown rithátt í athugasemdum. Notið skoða takkann til að fara yfir athugasemdina áður en þið sendið hana inn.










Muna þig?