Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Helgi Hós var ekki geðveikur

Helgi Hóseasson

Í kjölfar kirkjubrunans í Krýsuvík hafa sumir bloggarar reynt að leita staðfestingar á djúpstæðum fordómum sínum í garð trúleysingja og ekki síst þeirra sem á þetta vefrit skrifa. Allt er tínt til, jafnvel meint aðkoma Helga Hóseassonar að kirkjubrunanum að Heydölum í Breiðdal fyrir margt löngu. Staðfestingin á siðleysi vantrúaðra á að liggja í því að Helgi hafi gerst sekur um Breiðdalsbrunann og þar sem hann var trúleysingi á það að sanna vilja slíkra til jafnljótra verka.

Í ofanálag þykir mönnum íþrótt í því að sjúkdómsgreina gamla manninn og kalla geðveikan. Ég hef ýmislegt við þetta allt saman að athuga.

Hugsýki og þráhyggja

Helgi var ekki geðveikur. Hann var vissulega haldinn þráhyggjuröskun, en slíkt flokkast vart undir geðsjúkdóm. Þegar ég lærði mína abnormal-sálfræði í menntaskóla var efni hennar skipt í þrennt: Hugsýki, geðveiki og geðvillu.

Undir hugsýkina, sem einnig var kölluð taugaveiklun í þá daga og njúrósis upp á ensku, flokkuðust kvíði, þráhyggja/árátta, klofinn persónuleiki (multible personality) og sál-líkamlegir sjúkdómar á borð við blindu og lömun sem ekki á sér líkamlegar orsakir. Geðveikin (psycosis) var aftur á móti þrískipt, fyrst ber að nefna geðklofa (sem margir rugla saman við klofinn persónuleika). Þunglyndi eða maníu-þunglyndi er svo annar kimi þessarar flokkunar og loks var það geðstjarfi sem á sér vefrænar orsakir, t.d. i kjölfar sárasóttar sem ekki er meðhöndluð.

Geðvillan er svo sérkapítuli og mikið í umræðunni í samfélagi okkar nú um stundir.

Helgi var semsagt með þráhyggju og ef til vill ekki að ástæðulausu.

Hann fékk snemma að kynnast óréttlæti heimsins, heimsku og grimmd. Ungur var hann rekinn úr Iðnskólanum á Akureyri eftir að hafa tekið upp það baráttumál að banna reykingar innan veggja skólans. Hann krafðist þess að vera laus við að anda að sér eiturgufum út úr kennurum og nemendum, en skilningsleysið var slíkt að á endanum þurfti hann að taka pokann sinn.

Í dag eru reykingar bannaðar á öllum opinberum stöðum, meira að segja á vínveitingahúsum. Slíkar eru framfarirnar. Þarna var Helgi einfaldlega langt á undan sinni samtíð og hafði réttlætismál að reka.

Seinna tók við baráttan fyrir að fá að ógilda skírnarsáttmálann. Helgi hefði varla getað valið sér þröngsýnni, ósveigjanlegri og óheiðarlegri mannskap til að kljást við þar sem kirkjan er og þjónar hennar. Segja má að hann hafi aldrei náð sér af þessari viðureign, hún eitraði huga hans og líf upp frá því. En baráttumaður var hann og tók til við mótmælastöður í kjölfarið.

Skiltin hans voru listaverk, enda maðurinn hagur með afbrigðum. Undir það síðasta náði hann þó að mestu að beina kröftum sínum frá hinni vonlausu baráttu við kirkjuskrímslið og hellti sér út í pólitíkina. Langt á undan okkur hinum mótmælti hann morðum og limlestingum Nato og Bandaríkjanna í löndum þar sem eftir var einhverju að slægjast. Vanþróuð og varnarlítil samfélög fengu yfir sig miskunnarlausa böðla og að sjálfsögðu kom að því að þau næðu að sparka til baka. Og það varð einungis til að auka blóðsúthellingarnar.

Ekki gleyma!

Við munum öll Fallujah, er það ekki? Þegar íslensku samfélagi varð loks nóg boðið hafði Helgi misserum saman mótmælt með orðsendingum á borð við Blóð-Busi-Dóri-Davi, þar sem sáttmáli "hinna staðföstu þjóða" var fordæmdur. Helgi gat ekki hugsað sér að vera dreginn inn í óhugnaðinn sem þegn staðfastrar þjóðar. Hann skynjaði ábyrgð sína og óhræddur mótmælti hann.

Helgi var einfaldlega sannur heiðursmaður og með svo sterka réttlætiskennd að hann gat ómögulega þagað yfir óréttlæti. En barátta hans var aldrei ljót: Hann notaði skyr en ekki málningu, skilti en ekki grjót.

Við molbúarnir í þessu villimannasamfélagi höfðum aldrei séð svona aktífisma eins og Helgi stóð fyrir. Standa með skilti á götuhorni tímunum saman? Svona gera bara klikkaðir menn, eða hvað?

Í stærri samfélögum eru svona mótmælendur í kippum. Í fásinninu áttum við bara einn.

Bruninn í Heydölum

Ég þekki lítillega til málavöxtu þarna í Heydölum og hef þær eftir manni sem gjörla þekkir. Helgi var húsasmiður og hafði ríkan skilning á þeim menningarverðmætum sem gömul hús búa yfir. Sagan segir að hann hafi grátið þegar gamla kirkjan fuðraði upp.

Bróðir Helga var prestur í Heydölum og Helgi var staddur í heimsókn þegar brann. Heimildir mínar segja að gamla kirkjan hafi verið þyrnir í augum prestsfrúarinnar og hún hafi oft haft á orði að lýti væri af þessu mannvirki, auk þess sem það truflaði útsýnið í hinum fagra Breiðdal. Búið var að reisa aðra kirkju þarna og þessi var því aflögð.

Prestshjónin áttu leið af bæ og báðu Helga að gæta búsins á meðan. Skömmu eftir að þau voru horfin af vettvangi gaus upp eldur í kirkjunni gömlu.

Við yfirheyrslur játaði Helgi hvorki né neitaði. Það kann að stafa af því að hann vissi hver átti sökina, en ákvað að vernda heiður viðkomandi með þessum hætti. Þvert nei hefði þýtt að grunsemdir hefðu getað vaknað gagnvart öðrum sem þarna voru nálægir rétt áður en brann og játning hefði þýtt að hann hefði bæði tekið á sig sök og refsingu sem og að fara með rangt mál og það hugnaðist þessum heiðarlega manni ekki.

Ég rita þetta hér nú til mótvægis öllum þeim óhroða sem nafn Helga Hóseassonar hefur þurft að þola í kjölfar Krýsuvíkurbrunans. Ekkert bendir til að Helgi hafi kveikt í Heydalakirkjunni og ekkert bendir til þess að vantrúað fólk sé líklegra en annað til að fremja slíka óhæfu sem kirkjubrennur eru.

Birgir Baldursson 26.02.2010
Flokkað undir: ( Helgi Hóseasson , Hugvekja )

Viðbrögð


Örninn - 26/02/10 09:23 #

Þakka þér þessa samantekt Birgir. Aldeilis gott að gera þessum bruna góð skil. Mér finnast einmitt svona ásakanir frekar sýna hvernig sumt trúarpakkið hugsar sjálft. Mér finnst líka oft gleymast að í rúman áratug reyndi Helgi að fá fram réttlæti með bre´faskrifum til Alþingis sem og biskups. Alltaf án árangurs. Þess vegna greip hann á endanum að ég til skyrslettinga og þeirra mótmæla er við munum svo vel.


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 26/02/10 09:47 #

Vantrú hefur oft fjallað um Helga enda var hann eini heiðursfélagi okkar. Þeir sem vilja kynna sér umfjöllun okkar geta t.d. lesið:

Helgi Hóseasson og himnafeðgarnir.

Mótmælandi Íslands.

Skyrdagurinn mikli á Austurvelli 2004.

Heppilegt fyrir mig.

Helgi Hóseasson og staðfesting ógildingar.

Að þessu loknu er ekki úr vegi að menn kynni sér hvernig guðfræðingi nokkrum í Háskóla Íslands þótti sæma að "kynna málstað hans" nýlátins í kennslu í kúrsinum Nýtrúarhreyfingar.


Ásgeir (meðlimur í Vantrú) - 26/02/10 12:52 #

Var ekki búið að koma í ljós að þessi kirkjubruni átti sér eðlilegar orsakir? Þ.e. að ekki hafi verið um íkveikju að ræða?


Baldvin (meðlimur í Vantrú) - 26/02/10 12:59 #

Ef þú átt við brunann í Krýsuvík,jú. Að öllum líkindum kviknaði í út frá kerti sem gestur hafði skilið eftir logandi í ógáti.

Samkvæmt rannsókn lögreglu benti ekkert til vísvitandi íkveikju. Að minnsta kosti eftir því sem fram kom í fréttum.


Ásgeir (meðlimur í Vantrú) - 26/02/10 13:00 #

Jú, ég átti við Krýsuvík.

Sýnið viðbrögð, en vinsamlegast sleppið öllum ærumeiðingum. Einnig krefjumst við þess að fólk noti gild tölvupóstföng, líka þegar notast er við dulnefni. Ef það sem þið ætlið að segja tengist ekki þessari grein beint þá bendum við á spjallborðið. Þeir sem ekki fylgja þessum reglum eiga á hættu að athugasemdir þeirra verði færðar á spjallborðið.

Hægt er að nota HTML kóða í ummælum. Tög sem virka eru: a href, b, i, u, br, p, strong, em, ul, li og blockquote. Einnig er hægt að notast við Markdown rithátt í athugasemdum. Notið skoða takkann til að fara yfir athugasemdina áður en þið sendið hana inn.










Muna þig?