Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Annáll 2010 : IV af V

Landslag

[I. hluti] [II. hluti] [III. hluti] [V. hluti]

Fyrr á árinu uppgötvuðum við ein merkileg fræði. Svokallaða guðfræðilega stærðfræði, en líklegt þykir að þessi tiltekna tegund af stærðfræði hefur verið notuð til að reikna út ýmislegt er varðar ríkiskirkjuna í milljón ár (svo maður kukli aðeins í þessum fræðum). Verðmat kirkjujarða hefur eflaust verið reiknuð út á þennan hátt, en verðmatið var fyrst talið vera 16 þúsund milljarða króna virði. En á skömmum tíma fór verðmatið úr 16 þúsund milljarða uppí 19 þúsund milljarða króna virði. En þeir félagar séra Valdimar Hreiðarsson og séra Halldór Gunnarsson eiga heiðurinn af þessum útreikningum, og þetta er víst "vægt reiknað" samkvæmt þeim báðum.

Egill Óskarsson var samt dálítið efins varðandi þessar tölur og óskaði vinsamlega eftir útreikningum frá prestunum og guðfræðilegi stærðfræðingurinn Valdimar Hreiðarsson svaraði um hæl og sagði að þessar tölur stæðust alveg. En þó lækkaði verðmatið um 2 þúsund milljarða í millitíðinni og því eru kirkjujarðirnar 17 þúsund milljarða króna virði í dag. Egill reyndi nú að setja þetta í visst samhengi:

Við getum byrjað á því að bera verðmæti jarðanna saman við skuldir íslensku þjóðarinnar. Nýjustu upplýsingar sem finnast við fljóta leit eru frá seinasta sumri en þá sagði í frétt RÚV að þær næmu 3-4000 milljörðum. Fyrir þá upphæð væri hægt að reka heilbrigðiskerfið í rúma hálfa öld. Fyrir andvirði kirkjujarðanna gömlu væri sá tími eitthvað á þriðja hundruð árin.

Til að hjálpa þeim (og okkur) til að skilja þessa heimskulega, gígantíska tölu, hentum við upp tveimur skýringarmyndir á 17 þúsund milljarða króna virði.

Egill Óskarsson er verðandi leikskólakennari og vinnur með börnum. Hann velti aðeins vöngum yfir sandkassaleikjunum sem töluverður fjöldi fullorðna trúmanna stunda í rökræðum við fullorðna trúleysingja í greininni Þú ert það sjálfur ef þú segir það! og finnst skiljanlega einkennilegt af trúfólki að segja að trúleysingjar eru í raun trúaðir. Það getur nefnilega verið alveg yfirgengilega barnaleg hegðun þrátt fyrir orðskrúðan sem getur fylgt.

Svona fullyrðingum fylgja oft gríðalega flóknar merkingafræðilegar fimleikaæfingar þar sem trúmaðurinn sýnir fram á að allt sé í raun ekkert, allir litir geti í sjálfu sér talist svartir og að í orðinu trú felist svo víð merking að munurinn á Krossinum og Bútasaumsfélagi Raufarhafnar sé aðallega sá að fyrri hópurinn innheimti sóknargjöld og sá seinni hafi harðari viðurlög við fjarvistum frá reglubundnum fundum.

Kristinn Theódórsson vísar í rannsókn er bendir sterklega til þess að trúleysingjar og efahyggjumenn vita mest um trúarbrögð. Hvernig þá? Í stuttu máli felst það í því "að vita eitthvað um trúarbrögð og velta þeim fyrir sér."

Niðurstaðan er ekki að trúleysingjar séu svo klárir heldur að þekking á trúarbrögðum leiðir til trúleysis, eða kannski öllu heldur, að almenn vanþekking á þeim heldur trúardyrunum opnum og viðheldur trú.

Nálarauga Fréttablaðsins er þröngt fyrir suma. Það fékk Egill Óskarsson að kynnast þegar hann vildi svara grein eftir Arnald Mána Finnsson.

Arnaldur vill túlka öldu úrskráninga úr kirkjunni sem mótmælaaðgerðir. Það má hins vegar færa rök fyrir því að þar fullyrði hann meira en innistæða er fyrir. Trúarlífskannanir hafa iðulega sýnt að stór hluti þeirra sem skráðir eru í ríkiskirkjuna eiga litla samleið með kennisetningum hennar. Þetta fólk hefur þó ekki skráð sig úr kirkjunni fyrr en núna og sú staðreynd að flestir kjósi að standa utan trúfélaga en skrái sig ekki í önnur kristin trúfélög eins og t.d. Fríkirkjuna gefur vísbendingar um að annað standi á bakvið en bara mótmæli.

Frelsarinn gerðist orðljótur og heimskur trúleysingi í október:

Hinn andlegi hafís trúarinnar lónar fyrir landi, og ískalda og vonarsnauða þoku stafar frá honum. Gegn því stendur trúleysið. Það er til trúaður maður og það er ekki gott. Það eru líka til siðlausir menn. En trúleysi er manninum er eðlislægt. Trúaður maður hefur slitið það sem manninum eðlilegt. Trú ógnar mannlegu samfélagi því í trú er allt falt og allt til sölu.

Er hann að meina þetta?! Auðvitað ekki. En það er lítill hópur manna sem á það til að tala í svona frösum um trúlaust fólk.

Reynir Harðarsson, sálfræðingur og formaður Vantrúar, hitti dr. Hjalta Hugason og séra Örn Bárð Jónsson eftir fund um aðskilnað ríkis og kirkju og spjallaði við kallana í mesta bróðerni um þær stríðandi fylkingar sem er Vantrú og ríkiskirkjan. Voru vopnin kvödd í kjölfarið?

Þegar tvær fylkingar eru hjartanlega ósammála en hittast aldrei að máli, heyra fyrst og fremst álit jábræðra og samherja, er eðlilegt að hvor um sig fái bjagaða mynd af andskota sínum. Á innra spjalli Vantrúar (aðeins ætlað innmúruðum og óvígðum) eru líflegar samræður á hverjum degi og þótt við fárumst þar mikið yfir alls konar gervivísindum og kukli er því ekki að leyna að kirkjunnar menn eru þar oft ofarlega á blaði.

Þeir komu saman um að það væri á reynandi að halda einhvern fund milli þessara aðila til að koma "sjónarmiðum okkar óbrjáluðum til skila, á báða bóga." Vitaskuld hefur ekkert orðið af þessum fundi og Örn Bárður er samur við sig er kemur að úthúða trúleysingja og húmanista í tíma og ótíma.

Prestur sem predikar, ýkir og skrumskælir er ekki eitthvað sem kemur okkur sérstaklega á óvart. Guðmundur D. Haraldsson tók predikun Gunnlaugs Stefánssonar, sóknarprestur í Heydalaprestakalli, og tætti hana í sig, á yfirvegaðan og skynsamlegan máta. Gunnlaugur reyndi að gera lítið úr þeirri öldu úrskráninga sem átti sér stað í ágúst í kjölfarið á fréttum af kynferðisbrotum innan kirkjunnar og viðbrögð kirkjunnar við þeim uppljóstrunum. Um 2000 manns sögðu sig úr kirkjunni og einnig fór umræðan um aðskilnað ríkis og kirkju vel á flug.

Greinilegt er af predikunninni að Gunnlaugur er ekki sáttur við þá umræðu. Segir Gunnlaugur í predikun sinni að þeir sem hafi lengst gengið gegn kirkjunni hafi látið „sér oft fátt um sannleiksgildi staðreynda finnast“. Má svo vera. En sýnist mér að Gunnlaugur gangi illa um sannleikann í predikun sinni.

En þetta var nú ekki í síðasta sinn sem Gunnlaugur Stefánsson lét á sér bera í umræðunni um aðskilnað. Andrea Gunnarsdóttir gerði sér mat úr einum pistli eftir hann, þar sem hann sagði meðal annars að kirkjan "er sjálfstæð og aðskilin frá ríkinu". Andrea velti fyrir sér í kjölfarið hvort að ríkisvernd kirkjunnar sé ofmetin.

Séra Gunnlaugur fer ekki með fullkomin sannindi ef hann fullyrðir að kirkjan sé sjálfstæð og aðskilin frá ríkinu, þar sem það stendur afar skýrt í stjórnarskrá Íslands að „hin evangeliska lúterska kirkja skuli vera þjóðkirkja á Íslandi“, og að ríkisvaldið skuli „að því leyti styðja hana og vernda“. Kirkjan er að einhverju leyti skilin frá ríkinu miðað við það sem hún var, ríkið samþykkti að vernda og styðja kirkjuna og halda uppi launum presta og biskupstofu í skiptum fyrir jarðir sem kirkjan komst yfir með afar vafasömum hætti. Sumir myndu jafnvel segja að kirkjan hafi sölsað þessar jarðir undir sig.

Er eitthvað til í því að ríkistrú hindri framgang kynþáttahyggju? Nei. En Ólafur Jóhannson, prestur, vill halda það. Egill Óskarsson gerði tilraun til að sporna við þessum furðulegu vangaveltum.

En er einhver tenging á milli rasisma og stöðu trúfélaga? Svo virðist ekki vera(.pdf). Á meðal þeirra þjóða sem skora hæst hjá Eurobarometer eru bæði ríkiskirkjuþjóðir og þjóðir sem borið hafa gæfu til þess að rífa trúfélög af spenanum. Það er hins vegar áhugavert að þær þjóðir sem koma best út úr könnuninni (Spánn, Írland, Portúgal, Lúxemborg, Svíþjóð) hafa allar aðskilið ríki og kirkju þó að áhrif trúfélaga séu vissulega sterk í sumum þeirra.

Ert þú í sambandi við guð? Kristján Lindberg reyndi að athuga hvort einhver væri í beinu sambandi við almættið með smá tilraun:

Svona förum við að þessu: ég hef skrifað texta og vistað hann í skránni lestumig.txt á flash lykli sem ég geymi á öruggum stað. Svo ég get nú ekki breytt textanum ef einhver giskar á réttan texta, þá hef ég reiknað út MD5 hash'ið af textanum og birti það hér:

dae71494e4c410ab87593b5393995ae7

Ef einhver hefði fengið svarið frá Gvuði þá hefði sá hinn sami verið heilum tíu þúsund krónum ríkari.

Birgir Baldursson færði okkur góðar fréttir sem voru á þá leið að "við verðum öll dauð áður en við vitum af."

Góðu fréttirnar felast í síðustu fimm orðunum; áður en við vitum af. Því það er einmitt þetta sem nagar og skelfir flest fólk og er undirtónn allra trúarbragða, óttinn við að vita af sér eftir dauðann.

En það sem bar helst til tíðinda þetta haust var tillaga Mannréttindaráðs Reykjavíkur um að gera skýrar reglur varðandi aðkomu trúfélaga að skólum. Í stuttu máli: Banna trúboð í opinberum skólum. Frekar hófsöm krafa og skynsamleg, byggð á faglegri skýrslu starfshóps um samstarf skóla og kirkju frá febrúar 2007. Að sjálfsögðu fögnuðum við í Vantrú þetta mikilvæga skref í mannréttindabaráttu og sendum þeim stuðningsbréf:

Við lýsum yfir mikilli ánægju með hugmyndir ykkar í Mannréttindaráði Reykjavíkur um samskipti leik- og grunnskóla við trúfélög. Vantrú hefur í mörg ár reynt að benda á mikilvægi hlutleysis skóla í trúmálum og fyrir vikið höfum við fengið á okkur ásakanir og árásir líkar þeim sem þið megið nú þola.

Hverskonar ásakanir og árásir? Nú, að vera kallaðir t.d. mannhatarar og öfgamenn.

Það sem gæti hugsanlega komið í veg fyrir að þessi tillaga verði samþykkt er óheyrileg frekja og fávitaskapur starfsmanna og forstjóra ríkiskirkjunnar.

Ég verð bara að koma þessu frá mér og lái mér hver sem vill: Þið höguðu ykkur flest einsog verstu fautar og trúarbullur í þessari umræðu. Að þið skuluð ekki skammast ykkar fyrir þá forkastanlegu aðkomu að þessu mikilvæga mannréttindamáli bendir annaðhvort til þess að þið séuð siðlaus eða heimsk, nema hvort tveggja sé. Þið vílið ekki fyrir að ljúga blákalt uppá fólk og félög ef það hentar ykkar auma málstað, látið svo einsog þið vitið eitthvað um þetta mál þegar það er augljóst öllum sem hafa eitthvað annað en hey á milli eyrnana að þið voruð sama sem ekkert búin að kynna ykkur þetta. Meðan ég afsaka gífuryrðin þá vona ég samt að ykkur sárni smá, þið eigið það skilið. Enda hefur framkoma ykkar í þessu máli verið til háborinnar skammar og ykkur til minnkunar.

Mér varð bara ómótt að fylgjast með málflutningum hjá ykkur ríkisstyrktu talíbönunum og hvernig þið fóruð að því að þyrla upp einhverjum moðreyk og rugli um að nú ætti banna litlu-jól, banna sálmasöng, banna kirkjuferðir, banna presta, banna trú og banna allan andskotan sem ykkur datt í hug sem varðaði þessa tillögu að litlu sem engu leyti. Var þetta siðleg hegðun? Nei, langt í frá, nema þetta hafi verið hið kristilega siðgæði í verki. Ef svo er, þá er eins gott að halda ykkur eins langt frá leik- og grunnskólabörnum og hægt er ef þetta er "fræðslan" sem þið hafið uppá að bjóða. Oj barasta.

Talandi um kirkjuferðir, trúir því einhver að það eigi sér ekki stað trúboð þar þegar t.d. leikskólabörn heimsækja þessi hof? Auðvitað á sér stað trúboð.

Heldur einhver að heimsendaboðskapur sé boðlegt fyrir börn? Sumir halda það.

Tökum til að mynda nokkra aðila fyrir og byrjum á vonlausa prestinum Guðrúnu Karlsdóttur sem finnst bara að skólastjórnendur á hverjum stað ætti að ráða þessu.

Mig langar að hvetja mannréttindaráð til þess að endurskoða þessar hugmyndir sínar í nafni trúfrelsis og leyfa skólastjórnendum á hverjum stað að taka þessar ákvarðanir.

Er það svoleiðis hjá hinum fjölmörgu prestaköllum ríkiskirkjunnar? Eruði bara með sérreglur í hverri sókn? Þó ég hafi nú ekki mikið álit ykkur og ber sama sem enga virðingu fyrir starfstéttinni ykkar, vinnustað og hvað þið standið fyrir þá er ég mjög efins um að svo sé raunin. Auðvitað þarf skýra stefnu og samhæfðar reglur innan opinbera skóla (og opinberar stofnanir almennt) hvað þetta varðar og margt annað. Það gengur bara ekki upp að skólastjórnendur í hverjum skóla móti sínar eigin reglur eftir hentisemi og geðþótta, ekki sé talað um trúarsannfæringu viðkomandi. Það býður bara uppá mismunun.

Hvað með hinn forherta flautaþyrill Örn Bárð Jónsson? Ómerkilegri pappír er varla hægt að finna og hann er efalaust einn óheiðarlegasti presturinn á landinu. Hann er lygin og rætin og með alveg hreint mannfjandsamlegt viðhorf gagnvart minnihlutahópum:

Það hefur alltaf haft kostnað í för með sér að tilheyra minnihlutahópi. Þessi nálgun, „vesalings ég og börnin mín", virkar ekki sannfærandi. Þú verður bara að kyngja því að börnin þín uppgötvi að þau tilheyri minnihlutahópi ef þú hefur valið sjálfum þér og þeim lífsskoðanir minnihlutans. Kristnir menn um allan heim verða að þola hið sama.

Er maðurinn að meina þetta? Er hann brjálaður? Hann er beinlínis að segja að fyrst að kristnir menn hafa það slæmt einhversstaðar útí heimi þá eiga minnihlutahópar hér á Íslandi að sætta sig við það að vera annars eða þriðja flokks borgarar í sínu eigin landi. Dísús fokking kræst, hversu lágt er hægt að leggjast?

Sko, viljum við fá vísindahyggju inn í staðinn, haldið þið að það verði eitthvað betra? Trúin á manninn? Það er aumasta trú sem til er, það er trúin á manninn.

Það er hægt að leggjast ansi lágt. Og þetta er eflaust ekki það versta sem þessi fantur hefur látið útúr sér.

Svo var (og er) kirkjan bara almennt óheiðarleg þegar kom að þessari umræðu, einsog Hjalti Rúnar Ómarsson benti á:

Þegar ríkiskirkjufólkið talar síðan um að auðvitað eigi trúboð ekki heima í skólum, þá átta sig kannski líka fæstir á því að hún meinar það eiginlega ekki. Í umræðunni um Vinaleið kom einmitt fram hjá einum ríkiskirkjupresti að kirkjufólkið vildi ekki lengur nota orðið "trúboð", þrátt fyrir að hún viðurkenndi að vera skólaprests væri auðvitað trúboð, af því að "trúboð er bara orðið jafnt og ofbeldi"#

Og það er ekki skrítið að meirihluti kirkjunnarmanna séu óheiðarlegir í málflutningi þegar sjálfur forstjórinn er gjörsamlega í ruglinu hvað þetta mál varðar:

Trúfrelsi er skilgreint sem útilokun trúar frá hinu opinbera rými, uppeldi, kennslu. Sem mun þó einungis stuðla að fáfræði, fordómum og andlegri örbirgð. Það má sannarlega sjá í drögum að samþykkt Mannréttindaráðs Reykjavíkurborgar, sem krefst þess að lokað verði á aðkomu kirkjunnar að skólunum, kirkjuferðir verði bannaðar og sálmasöngur og listsköpun í trúarlegum tilgangi sömuleiðis. Ættarmótið leynir sér ekki!

Er það furða að töluverður fjöldi fólks hafi "andúð á trú, sérílagi kristni og Þjóðkirkju“ þegar hann og aðrir láta svona dómsdagsþvælu útúr sér. Það væri auðveldlega hægt að tala um andlega örbirgð Karls Sigurbjörnssonar einsog Guðmundur D. Haraldsson gerði:

Því má vel halda fram að Karl Sigurbjörnsson búi sjálfur við „andlega örbirgð“. Í fyrsta lagi hefur hann litla þekkingu á trúleysingjum, en tjáir sig þó títt um trúleysi og trúleysingja. Verður það að teljast heldur lélegt fyrir guðfræðing og biskup. Í öðru lagi virðist hann ekki átta sig á virkni samfélagsins; trú á gvuð og himnaríki stjórna ekki réttlætiskennd fólks, heldur annað fólk í kringum það. Í þriðja lagi er eins og sérann þekki ekkert til gagnrýni á kirkju og trúarbrögð.

Björn Kristjánsson benti á þetta væri allt misskilningur, að tillögunni "er ætlað að leiðbeina skólum um hvernig þeir geti betur framfylgt stefnu borgarinnar í mannréttindamálum. Þar kemur fram að í skólastarfi á vegum borgarinnar sé mikilvægt að ekki sé gengið út frá því að allir aðhyllist sömu trú." Hann sagði einnig:

Þjóðkirkjan er, eins og biskup sagði sjálfur, sjálfstætt trúfélag og það er einmitt þar sem hundurinn liggur grafinn. Trúfélög eru hagsmunasamtök sem byggja á ákveðnum hugmyndafræðum og lífsskoðunum og skólum ber að sjá til þess að áhrif slíkra félaga á starf skólans sé eins takmarkað og mögulegt er. Gildir þar einu hvort um er að ræða trúfélög eða önnur hagsmunasamtök.

Kolbrún Bergþórsdóttir er dæmi um manneskju sem á oft mjög auðvelt með að misskilja og rangtúlka ýmislegt sem kemur við kauninn á kirkjunni. En henni tókst að taka saman bullið í umræðunni einsog Egill Óskarsson benti á, þó það hafi ekki verið upprunalegi tilgangurinn hennar. T.d. að nú ætti að hætta að kenna börnum að vera góð við hvort annað ef trúboð verður bannað.

Þetta er akkúrat ekki niðurstaða Mannréttindaráðs, eins og þeir sem hafa annars vegar lesið tillögurnar og hins vegar fylgst með því sem fulltrúar ráðsins hafa sagt vita. Hin svokölluðu kristnu gildi, sem eru í raun almennt siðferði, sem Kolbrún telur upp munu áfram verða leiðarljós í skólastarfi. Það er óheiðarlegt að stunda svona málflutning hann gengur í berhögg við níunda boðorðið, en ég stóð í þeirri trú að kristið fólk eins og Kolbrún mætti helst ekki brjóta þau.

Svo er það náttúrulega þáttur ofstækisfólkinu í Sjálfstæðisflokknum sem er í borgarstjórn Reykjavíkur, en þau reyndu einnig að gera lítið úr þessu máli með því að segja að "einungis" 24 kvörtuðu yfir trúboði í skóla. Þvílíkir þöngulhausar. Einsog að óréttlæti og mannréttindabrot sé metið á þann hátt hversu margir hafa kvartað? Þó það sé óþarfi að taka það fram að miklu, miklu, miklu fleiri hafa kvartað undan trúboði í leik- og grunnskólum útum allt land þá er þetta samt einsog að segja að það voru alltof fáar konur sem kvörtuðu útaf kynferðisofbeldi Ólafs Skúlassonar biskups svo að hægt sé að gera eitthvað í því. Nei, mannréttindabrot og óréttlæti er metið út frá því hvort brotið sé á þínum almennu mannréttindum, ekki hversu margir hafa "kvartað", og allar ábendingar um slíkt ber að taka alvarlega og faglega. Og trúarinnræting barna án vitundar foreldra er skýlaust mannréttindabrot. Kynnið ykkur málið.

Það á sér stað trúboð í sumum skólum og venjulegt fólk þarf að líða fyrir það. Er ykkur fyrirmunað að setja ykkur í spor annarra?

Og því minna sagt um helvítis Gídeón-félagið, því betra.

En sem betur fer er nú ekki öll von úti fyrir ríkiskirkjunna. Þar er vissulega ágætt fólk, þau virðast bara vera svo fá og það heyrist mjög sjaldan í þeim, en þau eru þarna einhverstaðar. Til dæmis Sigríður Guðmarsdóttir, prestur í Guðríðarkirkju, en hún er langtum betri talsmaður kirkjunnar en þeir veraldarsauðir sem minnst hefur verið á. Hún predikaði á sama tíma og Karl Sigurbjörnsson var að ropa útúr sér dómsdagsþvæluna sína í Hallgrímskirkju, og hún hafði bara margt mjög gott að segja:

Heimilið og kirkjan þarf að axla frekari ábyrgð á trúaruppeldinu, ekki skólinn og þess vegna les ég tækifæri frekar en ógnun út úr þessum skjölum. Og því er að mínu viti mál að leggja frá sér sverðið og geyma heimsslitaorðaforðann en tala meira saman trúlaust fólk og trúað um það hvernig við getum virt sérstöðu og mannréttindi hvers annars.

Og maður er undantekningalaust sammála þessum orðum hennar:

Mannréttindi eru málefni allra og við eigum að taka þau alvarlega.

Einmitt. Fólk sem heldur að meirihlutinn ráði er kemur að mannréttindum eru á miklum villigötum.

Hún var nú samt ekki eini trúaði öfgamaðurinn og mannhatarinn í þessum efnum, sem betur fer.

Ég spurði þá:

Ef umræðan verður áfram undirlögð þeim öfgum og ósannindum sem við höfum horft uppá síðustu vikuna er þá nokkuð hægt að ræða almennilega og skynsamlega við trúmenn vegna þessa háværa en þó tiltölulega litla hóps af öfgafólki í þeirra röðum?

Kannski. Krafan er samt skýr: Trúboð úr skólum!

Eigum við að ræða það eitthvað?

[I. hluti] [II. hluti] [III. hluti] [V. hluti]

Þórður Ingvarsson 06.01.2011
Flokkað undir: ( Leiðari )

Viðbrögð

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.