Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Leikskóli heimsækir kirkju

Umræðan um tillögur Mannréttindaráðs Reykjavíkur er varða samskipti skóla og kirkju er á ótrúlegum villigötum. Það þarf svo sem ekki að koma neinum á óvart þegar hagsmunaaðilar (les. kirkjunnar menn) reyna markvisst að afvegaleiða umræðuna. Þeir sem láta hvað hæst í sér heyra virðast reyndar fæstir hafa lesið svo mikið sem stafkrók í tillögum. Það sem slær mig þó hvað mest er hversu margir virðast ekki geta séð muninn á trúboði og trúfræðslu.

Ég hef nefnilega ekkert á móti því að börn séu frædd um kristinn sið, sem og raunar öll trúarbrögð. Mér þykir líka eðlilegt að í kennslu sé meiri áhersla lögð á fræðslu um kristni heldur en t.d. íslam, enda á kristnin djúpar rætur í menningu okkar. Þessi kennsla á þó ekkert erindi við börn á leikskólaaldri, sem eiga mjög erfitt með að greina ævintýrin í sögubókunum frá raunveruleikanum.

Á dögunum fékk ég tækifæri á að upplifa frá fyrstu hendi heimsókn leikskóla í kirkju. Dóttir mín 3 ára, tilkynnti mér það glöð í bragði að hún væri að fara í kirkjuna að syngja með leikskólanum. Ég tók þessum fréttum með jafnaðargeði, enda sé ég ekkert að því að börn komi saman og syngi jólalög. Raunar fagnaði ég því að fá loksins að sjá svona heimsókn með eigin augun, því kirkjan hefur hamrað á því að ekkert trúboð fari fram í þessum heimsóknum, og þær séu allar á forsendum skólanna. Það er hins vegar skemmst frá því að segja að á þessari samkomu fór harla lítil fræðsla fram og hlutleysi var það síðasta sem einkenndi hana.

Presturinn byrjaði samkomuna á því að láta börnin teikna kross með fingrunum, og lét þau síðan signa sig, og sagði þeim að þau væru að merkja sig börn guðs. Einnig leiddi presturinn börnin áfram í látbragðsleik sem endaði þannig að þau bönkuðu á lófann á sér. Hver var að banka? Jú það var enginn annar en Jesús kristur, bankandi á hjarta þeirra. Presturinn spurði hvort það væri ekki örugglega pláss fyrir Jesú þar, því hann væri besti vinur þeirra. Svo hélt hún áfram og sagði að það væri rosalega gott að tala við vin sinn og í framhaldinu lét hún öll börnin spenna greipar og þau fóru saman með Faðir Vor.

Síðan sagði presturinn börnunum söguna af Jesúbarninu sem hún lauk með þeim orðum að þetta væri merkilegasta saga í heimi. Það er auðvitað alveg satt, þetta er ekkert nema saga. Það hefði presturinn mátt leggja miklu meiri áherslu á. Uppáhalds saga dóttur minnar er Rauðhetta, og hún getur ekki farið að sofa nema að fá að heyra hana fyrst. En hún á mjög bágt með að greina atburði sögunnar frá raunveruleikanum og spyr mig gjarnan áður en hún sofnar hvort það sé ekki örugglega læst, „svo það komi enginn refur inn til okkar.“ Þriggja ára gamalt barn hefur engar forsendur til að greina á milli þess sem er sannleikur eða skáldskapur. Mig langar í þessu samhengi að rifja upp orð John Locke, sem voru rituð fyrir meira en 300 árum síðan en eiga enn ótrúlega vel við í dag:

„Ekkert er algengara en að börn fái inn í hugann fullyrðingar... frá foreldrum sínum, fóstrum eða fólkinu í kringum þau. Og með því að þeim er lætt inn í óviðbúinn og fordómalausan skilning þeirra, og festast þar smátt og smátt, eru þær að lokum (hvort heldur sannar eða ósannar) svo rígnegldar þar af löngum vana og innrætingu að útilokað er að draga þær út aftur“

Að þessu sögðu má hverjum manni það ljóst vera að öll orð kirkjunnar á þá leið að ekkert trúboð sé stundað í skólum eru lítið annað en innantóm. Því hvað var þessi heimsókn í kirkjuna annað en trúboð í sinni tærustu birtingarmynd? Hefði ekki verið hægt að sleppa signingunni og bæninni og draga svolítið úr þessu yfirborðskennda og væmna helgisiðafasi? Þá hefði þessi samkoma einfaldlega verið hlýleg og vinaleg stund þar sem börnin komu saman til að syngja og leika saman leikrit. Þess í stað var um ræða einhliða trúaráróður, sem börnin og þeirra ómótuðu hugar, sátu undir grandalaus með öllu.

Greinin birtist í Fréttablaðinu í dag.

Siggeir F. Ævarsson 20.12.2010
Flokkað undir: ( Skólinn )

Viðbrögð


Atli Jarl Martin - 20/12/10 09:58 #

Frú mín er leikskólastjóri í stórum leikskóla hér í höfuðborginni. Hún tók þá ákvörðun í ár að fara ekki með skólann sinn í kirkjuheimsókn í ár sökum umræðunnar í þjóðfélaginu, en einnig sökum eigin sannfæringu um að þetta skuli aðskilið. Í kjölfarið fékk hún póst frá prestinum þar sem hann, þó á kurteisan hátt, tilkynnti henni það að þarna hefði hún brotið áratugahefð og að hún væri með þessu að meina börnunum aðgang að boðskapnum og þar fram eftir götum, en undirliggjandi boðskapur bréfsins var einungis sá að sá sektarkennd í huga hennar yfir þessu "svívirðilega broti."

Frú mín tók þessu að sjálfssögðu ekki vel, kældi sig niður í skapinu í tæpar 2 vikur áður en hún svaraði bréfinu og sagði sig síðan úr ríkiskirkjunni.

Þarna sjáið þið hvernig þessir óforskömmuðu þjónar ríkiskirkjunnar starfa. Finnst ykkur í lagi með svona framkomu?


Matti (meðlimur í Vantrú) - 20/12/10 10:21 #

Að sjálfsögðu er þessi framkoma ekki í lagi. Hún sýnir okkur aftur á móti frekjuna hjá ríkiskirkjufólki. Það heldur því fram að þessar heimsóknir séu á forsendum skólanna en það er augljóslega ósatt ef skólarnir mega ekki "brjóta þá hefð".

Frú þín á hrós skilið.


Jón Magnús (meðlimur í Vantrú) - 20/12/10 10:36 #

Nei! En það kemur okkur ekkert á óvart hérna í Vantrú hvernig þjónar gvuðs haga sér. Þeir eru voða kammó þegar þú ert með þeim í liði og ert ekki að bögga þá en um leið og taflið snýst við þá ljúga þeir upp á þig og hóta.


frelsarinn (meðlimur í Vantrú) - 20/12/10 12:49 #

Öll þessi heilaþvottastarsemi er á forsendum ríkiskirkjunnar frá A-Z. Börn skipta engu máli, foreldrar skipta engu máli og skólinn skiptir engu máli. Boðorð ríkiskirkjunnar er: Hér er ég, um mig, frá mér, til mín.


Hermann Þ. - 20/12/10 13:09 #

Þessi "áratugahefð" kirkjunnar er nú ekki mjög gömul. Þegar ég var í skóla á sjöunda áratug síðustu aldar tíðkuðust engar slíkar heimsóknir skóla né leikskóla í kirkjur. Þeir sem vildu gátu farið í sunnudagaskólann að eigin vali eða foreldranna. Ég myndi kalla þetta mjög nýtilkomna "hefð" þó þetta sé kannski 1-2 áratugir sem þetta hefur viðgengist.


Jón Magnús (meðlimur í Vantrú) - 20/12/10 13:12 #

Ríkiskirkjan tók líka mjög meðvitaða ákvörðun eftir aldamótin að sækja inn í skólana því börnin voru hætt að sækja sunnudagaskólann í eins mikið og þau gerðu hérna áður fyrr.

Það eru til ályktanir frá kirkjuþingum um þessa auknu sókn inn í skólana.


Kjartan - 20/12/10 14:17 #

http://xkcd.com/836/

Í tilefni jólanna ;)


Stormur - 20/12/10 17:12 #

Jón Magnússon hittir nagglann á kollinn.

Með hruni Sunnudagaskólanna fékk kirkjan ekki lengur "nýtt blóð".
Margir af frammámönnum sókna og drjúgur hluti prestastéttarinnar var að hluta alinn upp í sunnudagaskólunum og skíðan KFUX og slíkum kristilegum samtökum.

"Video Killed the Radio Star"

Tilkoma "Morgunsjónvarps Barnanna" drap sunnudagaskólana og þegar komið var fram yfir siðustu aldamót stefndi þessi útungunarstarfsemi í þrot af þáttökuleysi. Í aldagamalli stofnun eins og kirkjunni er fullur skilningur þeim þætti að ala upp næstu kynslóð presta og sóknarnefndarmanna. Aðferðin sem nú er beitt er mun ágengari en þegar ég var í barnaskóla á 8. og 9. áratugunum.

Í dag fer kirkjan einfaldlega inn í grunn og leikskólana og sækir sér nýtt blóð með handafli.

Þetta heitir sjálfsagt "Bein Markaðssetning" en í raun og veru er þetta propaganda í sinni tærustu mynd...


Trúlaus - 20/12/10 18:55 #

Mig langar til að sannreyna þessa frásögn þína Siggeir. Til þess vantar mig að vita:

  1. Hvaða leikskóli er þetta sem um er rætt?
  2. Hvaða kirkja er þetta sem um er rætt?
  3. Hvaða prestur er þetta sem um er rætt?
  4. Hvenær átti þessi heimsókn sem um er rætt sér stað, þ.e. hvaða dag og klukkan hvað?

Siggeir F. Ævarsson (meðlimur í Vantrú) - 20/12/10 19:03 #

Þú heldur sem sagt að ég sé að skálda þetta?

Ég ákvað viljandi að nafngreina hvorki menn né stofnanir í þessari grein, enda birtist hún í Fréttablaðinu og ég vildi ekki persónugera innihald greinarinnar.

En þetta er svo sem ekkert leyndarmál og upplýsist hér með opinberlega.

Umræddur leikskóli er Arnarborg, en elstu deildir á Bakka- og Fálkaborg voru líka þarna. Kirkjan er Breiðholtskirkja og presturinn Bryndís Malla Elídóttir.

Og svo að þú þurfir pottþétt ekki að gruna mig um græsku, þá var þetta 8. desember klukkan 10.

Vonandi sefuru rótt í nótt eftir að hafa fengið þessar lykilupplýsingar um málið.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 20/12/10 19:16 #

[ athugasemd og hluti svars flutt á spjall ]


Trúlaus - 20/12/10 23:42 #

Þakka þér fyrir upplýsingarnar Siggeir. Ég ætla að kanna málið.

flutt á spjall


Matti (meðlimur í Vantrú) - 21/12/10 00:22 #

Þessi frásögn rímar alveg við reynslu mína af kirkjuferðum þegar dætur mínar voru í leikskóla. Þetta er langt frá því að vera einsdæmi.


Árni Páll Jónsson - 21/12/10 01:07 #

Talandi um Sunnudagaskólann þá man ég eftir að einhverntíman voru sýndir Sunnudagaskólaþættir í morgunsjónvarpinu þegar ég var gutti, það var alltaf buzzkiller fyrir mér, minnti mig alltaf á að ég ætti dót til að leika mér við.


Trúlaus - 21/12/10 15:03 #

Siggeir. Eftir að hafa kannað málið þá skilst mér að þessi kirkjuheimsókn sem þú nefnir í grein þinni hafi verið farin að frumkvæði leikskólanna en ekki kirkjunnar eða prestsins.

Er það rétt?


Matti (meðlimur í Vantrú) - 21/12/10 15:12 #

Það skiptir engu máli.

Svaraðu á spjallinu áður en lengra er haldið.


Siggeir F. Ævarsson (meðlimur í Vantrú) - 21/12/10 15:17 #

Ég veit það ekki og ég sé ekki að það skipti máli í þessu samhengi.


Trúlaus - 21/12/10 16:54 #

Jú, Siggeir, það skiptir meginmáli í þessu tilfelli.

Hér ert þú að tala um kirkjuheimsókn sem er farin að frumkvæði viðkomandi leiksskóla. Þú ert ekki að tala um trúboð í skólum.

Í núgildandi viðmiðunarreglum um samstarf skóla og kirkju frá árinu 2008 stendur þetta:

"Ef óskað er eftir skólaguðsþjónustu í tengslum við jól eða aðrar hátíðir er það á forsendum kirkjunnar. Það er skólans að setja reglur um hvernig með það skuli fara ef foreldrar óska ekki að börn þeirra taki þátt í slíkum athöfnum."

Þú segir hins vegar í grein þinni að kirkjan hafi "hamrað á því að ekkert trúboð fari fram í þessum heimsóknum, og þær séu allar á forsendum skólanna".

Eins og þú sérð á núgildandi reglum þá stenst þessi fullyrðing þín ekki. Geturðu bent á þessar ítrekuðu "hamranir" sem þú talar um?

Ps. Matti ég hef engan áhuga á að taka þátt í þessum nornaveiðum þínum og þinna manna á spjallsvæðinu. Ég hef eingöngu áhuga á að ræða efni greinarinnar sem Siggeir skrifaði.


Edward - 21/12/10 19:51 #

Hér eru menn hvattir til að sýna málefnaleg viðbrögð sem tengjast greininni beint en svo kemur í ljós að málefnaleg innlegg sem tengjast greininni beint eru ritskoðuð og flutt annað.

Eftir hvaða ritskoðunarreglum er farið?

Hvers vegna mátti síðasta innlegg "Trúlauss" ekki standa?


Siggeir F. Ævarsson (meðlimur í Vantrú) - 21/12/10 19:53 #

Athugasemdin stendur enn á spjallinu. Við erum einfaldlega að biðja þennan meinta trúleysingja að koma heiðarlega fram.


Halla Sverrisdóttir - 21/12/10 20:14 #

Það er kannski ástæða til að árétta að óánægja foreldra með helgihald leikskólabarna hefur einmitt líka beinst að stjórnendum skóla, sem hafa haft svo gott sem geðþóttaákvörðunarvald um það hversu mikið eða á hvern hátt kirkjunni er leyft að koma inn í skólanna eða börnin látin heimsækja kirkjuna. Foreldrar hafa verið ákaflega valdalausir gagnvart ákvörðunarvaldi stjórnendanna, og það er ein af ástæðunum fyrir því að það er nauðsynlegt að setja um þetta bæði skýrar og nokkuð strangar reglur. Þetta er eiginlega tvíhliða: í sumum skólastofnunum hefur kirkjan haft frumkvæði að heimsóknum og í öðrum hafa stjórnendur sóst sérstaklega eftir heimsóknum presta eða heimsóknum í kirkju. Aðrir leikskólastjórar hafa leitast við að hafa sem minnst afskipti af kirkjunni og öfugt, en þetta hefur auðvitað verið algjörlega undir hverjum stjórnanda komið. Sem er ekki ásættanlegt.

En hvort sem leikskólinn kom að eigin frumkvæði í þessa tilteknu kirkjuheimsókn eða ekki þá er ljóst af lýsingunni að presturinn gekk mjög langt, og að margra mati allt of langt, í því að innræta og boða fremur en fræða. Prestum ber líka að vera meðvitaðir um þá miklu ábyrgð sem þeir bera þegar hópur af áhrifagjörnum og opnum barnssálum situr fyrir framan þá. Það ætti ekki að vera til of mikils mælst.

Bæði vandamálin ættu að leysast með skýrari reglugerð og það getur ekki annað en talist jákvætt.


Siggeir F. Ævarsson (meðlimur í Vantrú) - 21/12/10 20:19 #

Hjartanlega sammála þér Halla. Öll tvímæli um samskipti skóla og kirkju eru tekin af með þessum tillögum.

Það vill ekkert foreldri setja barnið sitt í þá stöðu að vera eina barnið, eða eitt af fáum, sem er tekið út fyrir hóp í uppákomum sem þessum. Þess vegna verðum við einfaldlega að fá skýrar reglur um þetta sem mismuna engum.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 21/12/10 21:26 #

Í athugasemd sinni hér fyrir ofan skrifar Hörður:

Hér ert þú að tala um kirkjuheimsókn sem er farin að frumkvæði viðkomandi leiksskóla. Þú ert ekki að tala um trúboð í skólum. #

Hvað í ósköpunum á maðurinn við? Um er að ræða trúboð, um það er ekki deilt. Trúboðið fer fram á skólatíma. Hvað er það annað en trúboð í skólum?

Auk þess hafa kirkjurnar haft frumkvæði að þessum heimsóknum, ekki leik- eða grunnskólarnir.

Í núgildandi viðmiðunarreglum um samstarf skóla og kirkju frá árinu 2008 stendur þetta:

Viðmiðunarreglum hverra?


Halldór L. - 23/12/10 17:51 #

Hvernig er svona "misskilningur leiðréttur"? Varla er hægt að segja við barn sitt á leikskólaaldri: Hey, manstu eftir þarna manninum/konunni í svarta kjólnum? Já hún var bara að ljúga og ekkert hlusta á hana/hann.


Margrét - 26/12/10 09:48 #

Stormur - 20/12/10 17:12 #:::

Ég get verið alveg sammála ykkur í að foreldrar ráði innrætingu þeirri sem börnin þeirra fá og kirkjunni verði meinaður aðgangur að börnunum í gegnum skólana. En finnst ykkur Walt Disney vera betri innræting? Amerískur hraða og sexy áróður eins og teiknimyndirnar eru sem börnin horfa á?


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 26/12/10 11:14 #

Er mikið horft á Disney myndir í leikskólum og skólum? Er foreldrum ekki leyft að stjórna Disney neyslu barna sinna?

En fyrir mitt leyti tel ég Disney mikið skárri en kirkjuna þó málið snúist alls ekki um slíkan samanburð.


Sigrún - 26/12/10 14:23 #

Ég skil ekki alveg hvað málið er með þennan herra trúlausan? Ef satt er að leikskólinn átti frumkvæðið að þessari heimsókn, er þá ekki aldeilis ágætt að vita það og viðurkenna? Þá veit fólk (ég þar á meðal) a.m.k. hvert það á að fara með kvartanir sínar ef það vill ekki sjá trúboð í leikskólum? Ef hann er hins vegar raunverulega að fara með rangt mál þá má endilega benda á það með rökum. Mér þætti a.m.k. afar gott að vita hvort er og þykir þetta því alveg eiga við í þessa umræðu?

Að öðru leyti þykir mér illa farið með athugasemdir hans, að beina honum á spjallið með einhverjum stælum. Mér þóttu spurningar hans líka skrítnar, en í fyrsta lagi var honum svarað, með þótta, og svo eru viðbrögðin þau að hlaupa upp í vörn í stað þess að halda áfram málefnalegri umræðu? Kommon.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 27/12/10 14:34 #

Sigrún, athugasemdir hans eru allar hér við greinina. Málið er að "trúlaus" er alls ekki trúlaus. Okkur þættir heiðarlegra ef Hörður myndi einfaldlega tjá sig hér undir réttu nafni.


Balli - 28/12/10 20:08 #

Sælir

Hvað mig snertir skiptir máli hvort það eru yfirmenn leikskólanna eða kirkjunnar sem hafa frumkvæði að því hvort leikskólabörn heimsæki kirkju/prest. Ef yfirmenn leikskóla ákveða að heimsækja ákveðinn prest/kirkju er það á þeirra ábyrgð og ég geri ráð fyrir að áður en heimsókn á sér stað séu hugmyndir um það hvað eigi að lærast í þessari heimsókn og tilgang þess (t.d. með viðræðum við viðeigandi prest) Ef prestur þrýstir hinsvegar á að fá leikskólabörn í heimsókn til sín og hann fær því framgengt ( kannski vegna hefða), þá ber prestur meiri ábyrgð þar sem ég geri ráð fyrir að hann útlisti hvað eigi að lærast í þessari heimsókn. Ef hann svíkst undan þeirri dagskrá er hann einn um ábyrgðina. Ef hann hinsvegar segist ætla að boða trú og yfirmenn leikskólans samþykkja það ( án þess að ræða við foreldra ) er um sameiginlega ábyrgð að ræða. Þetta er samt einfölduð mynd og raunveruleikinn er ekki alltaf svona einfaldur.


Jón Ferdínand - 26/01/11 11:03 #

Ég spurði móður mína um daginn af hverju í ósköpunum hún hefði sent mig og yngri systur mína í sunnudagaskóla sem börn þar sem hún var og er ekki trúuð manneskja og svar hennar var það að hún hélt að við hefðum bara gaman að þessu, þ.e.a.s að syngja og leika okkur og svo framvegis. Ég ber engann kala til móður minnar útaf þessu heldur fannst mér það einungis forvitnilegt. Sú varð þó raunin að ég þoldi ekki að mæta í þetta, vegna, eins Stormur nefnir, að það þýddi að ég missti af barnaefninu;) Hinsvegar þá fylgdi sögunni að systur minni fannst alveg ægilega gaman í þessu og viti menn, í dag er hún trúuð!!! Fannst mér svo alveg merkilegt að þegar ég reyndi að rökræða við hana um daginn á hvaða grundvelli trúarsannfæring hennar byggist, þá var hennar eina svar(orðrétt eða svona um það bil): Þetta er ekki kaþólska(hún er í lútherskri kirkju) Jón, við trúum ekkert á Biblíuna!!!! Halló góðann daginn, krakkar eru semsagt heilaþvegin á unga aldri með ævintýrum og helgislepju eins og minnst er á í greininni hér fyrir ofan og svo þegar þau verða eldri(hún er 17 ára núna) þá vita þau ekki einu sinni á hvað þau eru að leggja átrúnað!!!! Þetta er það sem getur gerst í þessari svokölluðu 'trúfræðslu'. Skammarlegt hneyksli.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.