Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Óheiðarlega kirkjan

Börn að leik

Í allri umræðunni um tillögur mannréttindaráðs Reykjavíkur þá ganga kirkjunnar menn fram og segja að þeir séu baráttumenn fyrir mannréttindi hinna ókristnu og að þeir skilji vel muninn á hlutverki skóla og kirkju og svo framvegis. En reynslan sýnir okkur að þetta er einfaldlega ekki satt.

En ef maður skoðar hvað kirkjan gerir en ekki hvað hún segir, þá kemur allt önnur mynd í ljós. Fyrir einungis tveimur árum þá barðist kirkjan fyrir því, og hún gerir það líklega enn, að það verði starfandi sérstakur skólaprestur eða skóladjákni í grunnskólum. Þetta kallaðist Vinaleið og ég held að þetta sé enn í gangi í örfáum grunnskólum.

Síðan má ekki gleyma því að þrátt fyrir allan fagurgalann um mismunandi hlutverk kirkju og skóla, þá er prestunum sama um þetta þegar í skólann er komið. Trúir því einhver að þegar prestur heimsækir skóla muni hann bara syngja „Öxar við ána“ og segja börnunum að vera góð hvort við annað?

Reynslan sannar að í „samverustundum“ fara prestar að tala um það hvað Jesús hafi verið frábær, hvað það sé frábært að tala við guð og syngja „Jesús er besti vinur barnanna“. Og ef presturinn ætlar bara að segja börnunum að vera góð hvort við annað og syngja „Öxar við ána“, hvers vegna ætti að fá prest í það?

Það er alveg eins með þessar heimsóknir og skólaprestana, kirkjan segir opinberlega að þetta hafi ekkert með trú að gera, en samt verður af einhverjum undarlegum ástæðum að fá prest í starfið.

Þegar ríkiskirkjufólkið talar síðan um að auðvitað eigi trúboð ekki heima í skólum, þá átta sig kannski líka fæstir á því að hún meinar það eiginlega ekki. Í umræðunni um Vinaleið kom einmitt fram hjá einum ríkiskirkjupresti að kirkjufólkið vildi ekki lengur nota orðið "trúboð", þrátt fyrir að hún viðurkenndi að vera skólaprests væri auðvitað trúboð, af því að "trúboð er bara orðið jafnt og ofbeldi" #.

Í staðinn fyrir "trúboð" notar kirkjufólk orð eins og að "vinna með trúaruppeldi" # eða einfaldlega "fræðslu", því að mikið af ríkiskirkjufólki telur að það sé ekki hægt að stunda trúboð þegar barnið er skírt. Skírt barn er nefnilega kristið barn, það þarf aðeins að "fræða" það um trú sína. Þannig að þegar kirkjunnar menn segjast ekki vilja trúboð í skólum, þá er alls ekki víst að það sé hægt að treysta því að þeir meini það virkilega.

Þegar maður sér sama fólkið eitt árið tala fyrir tilvist skólapresta og skóladjákna, og síðan næsta árið segja að þeir vilji alls ekki traðka á réttindum hinna ókristnu og að þeir vilji alls ekki trúboð í skólum, þá byrjar maður að efast um heiðarleika þessa fólks.

Hjalti Rúnar Ómarsson 26.10.2010
Flokkað undir: ( Siðferði og trú , Skólinn )

Viðbrögð


Hjörtur - 26/10/10 23:41 #

Afhverju fær vantrú ekki að fara í grunnskóla og leikskóla landsins? Þið komuð í minn framhaldsskóla á sínum tíma. Mjög skemmtilegur fyrirlestur og umræðutími. Væri það ekki alveg brilliant?


Haukur Ísleifsson (meðlimur í Vantrú) - 27/10/10 00:05 #

Við höfum aldrei og munum aldrei fara í grunn- og leikskóla. Við gerum okkur grein fyrir að börn á þessum aldri eru ekki nógu þroskuð til að geta tekið við svo gildishlaðinni kynningu af nægri gagnrýni. Okkur þætti beinlínis siðlaust að sækja í börn sem eru auðveldasta skotmark innrætingar.

En almennt séð erum við á því að menntaskólanemar séu orðnir það þroskaðir að þeir geti fengið frá okkur kynningu og tekið henni með nægri gagnrýnni hugsun.


Þröstur - 27/10/10 00:16 #

Ef vantrú færi í grunn- eða leikskóla myndi ég og ansi margir hætta í félaginu.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.