Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Öfgafólkið og börnin þeirra

Kettlingur

Sigga, Jói, Stína og Gunni eru fjórir nemendur af tuttugu í fimmta bekk í skóla einum í Reykjavík. Þau skera sig úr hópnum að því leytinu til að foreldrar þeirra eru ekki í Þjóðkirkjunni og þau þar af leiðandi ekki heldur. Foreldrar Siggu, Jóa og Stínu eru trúlausir en foreldrar Gunna eru múslimar.

Foreldrar allra barnanna gera sér grein fyrir því hversu samofin kristin trú er samfélaginu sem þau búa í og eru því hlynntir því að kristinfræði sé stærsti hluti þeirrar trúarbragðafræðikennslu sem börnin þeirra hljóta. Þeir eru einnig hlynntir vettvangsferðum í kirkjur og aðrar trúarstofnanir sem hluta af kennslunni. Foreldrarnir halda einnig upp á jól með börnunum sínum og fjölskyldu, þó að eðlilega sé lítið um kristilegar tengingar þar að lútandi, og finnst hefðbundinn jólaundirbúningur eðlilegur hluti af skólastarfi.

Á skólagöngu barnanna fjögurra hafa þó komið upp nokkur mál sem foreldrunum og börnum þeirra hafa þótt erfið. Kennara einum þótti eðlilegt að kenna börnum að biðja bænir í kristinfræðikennslu, farið hefur verið í kirkjuferðir í trúarlegum tilgangi fyrir jól og aðrar hátíðir og nú stendur fyrir dyrum heimsókn Gídeonfélagsins sem er félag sem hefur það yfirlýsta markmið að „ávinna menn og konur fyrir Drottinn Jesú Krist“. Dreifing Nýja Testamentisins er aðferð til að ná þessu markmiði samkvæmt félaginu og liðsmenn þess lesa upp valda kafla úr ritinu í þessum heimsóknum og biðja Faðirvorið með skólabörnum.

Foreldrum barnanna fjögurra er þarna komið í erfiða stöðu. Valið stendur á milli þess að láta börnin sitja undir því sem svo sannarlega má kalla trúboð eða þess að taka þau út úr bekknum og láta gera eitthvað annað á meðan. Báðir kostirnir eru slæmir. Foreldrar Jóa, Stínu og Gunna hafa tekið þann seinni og börnin hafa liðið fyrir það og fengið spurningar og athugasemdir frá hinum börnunum. Af hræðslu við þessar afleiðingar ákváðu foreldrar Siggu strax í upphafi að láta ekki taka hana úr þessum tímum og athöfnum, þó að þeim hafi verið það þvert um geð. Þess má einnig geta að í lögum og reglum Menntasviðs Reykjavíkurborgar segir nú þegar að forðast skuli aðstæður þar sem börn séu tekin úr hópum eða skylduð til að taka þátt í atburðum sem ekki samræmast trúar- eða lífsskoðunum þeirra en lítið virðist farið eftir því.

Nú gerast þau tíðindi að Mannréttindaráð Reykjavíkurborgar hefur lagt fram tillögur sem ætlað er að koma í veg fyrir að foreldrar og börn lendi í þessum aðstæðum. Færa á allt sem heitir boðun út úr skólakerfinu og yfir til trúfélaganna þangað sem foreldrar geta sótt með börnin sín kjósi þeir að innræta þeim trú.

Foreldrar Siggu, Jóa, Stínu oog Gunna eru auðvitað ánægðir með þessar tillögur. En þeir eru síður ánægðir með viðbrögðin sem þær hafa vakið hjá ákveðnum hópi í samfélaginu. Allt í einu þykir mörgum, og þar hafa prestar síst verið undanskyldir, í lagi að skilgreina foreldrana sem öfgafólk og gera þeim upp skoðanir sem þau ekki hafa eins og að eyða eigi öllum kristnum áhrifum úr skólakerfinu. Það er ekki vilji foreldra barnanna fjögurra. Þeir vilja bara að boðun trúar sé gefinn sinn rétti staður sem er innan trúfélaganna og að skólar einbeiti sér að því að gefa börnum bestu menntun sem kostur er á.

Fyrir það eru þau kölluð öfgafólk. Er það réttlátt? Lýsir það kristilegu siðferði? Börnin sjálf heyra og sjá þessa umræðu líka. Hvaða áhrif það hefur á barn sem ekki tilheyrir Þjóðkirkjunni að fá það á tilfinninguna að það eigi minni rétt en bekkjarfélagarnir og að það tillheyri öfgahóp?

Egill Óskarsson 29.10.2010
Flokkað undir: ( Gídeon , Siðferði og trú )

Viðbrögð


arnar - 29/10/10 16:39 #

Afhverju leifa þessir foreldrar ekki bara börnunum sjálfum að ráða hvort þeir vilji nýja testamentið eða ekki.


Egill (meðlimur í Vantrú) - 29/10/10 16:45 #

Gídeon-félagið á bara ekki að fá að fara inn í skóla á meðan félagið stundar trúboð. Og trúboð er nota bena yfirlýst markmið félagsins.

Þeir gætu áfram gefið NT en bara utan skóla og þá gætu foreldrar ákveðið það með börnunum sínum hvort þiggja ættið ritið.


Helga - 29/10/10 17:31 #

Sæl.

Í greininni kemur fram að börn foreldra sem eru ekki meðlimir í Þjóðkirkjunni séu einnig skráð úr Þjóðkirkjunni. Ég skráði mig úr Þjóðkirkjunni um daginn og og spurði hvort að börnin mín yrðu þá ekki sjálfkrafa úrskráð. mér var sagt að það væri ekki þannig og að ég þyrfti að úrskrá þau sérstaklega. Vildi koma þessu á framfæri ef einhver vissi ekki um þetta.

Mér finnst viðbrögð fólks við áliti mannréttindarnefnar allt of harkaleg. Ég er t.d. engin öfgamanneskja en fagna því að trúboð skuli gert brottrækt úr skólum. Ég er ekki yfirlýstur trúleysingi, en efast um hvort að guð sé til, og það hefur æxlast þannig að ég hef ekki rætt trúmál við börnin mín nema að takmörkuðu leyti.

Sonur minn þurfti að syngja lagið Kumbaija my lord (veit ekki hvort þetta sé rétt stafað)reglulega þegar hann var í Ísaksskóla. Hann tók út fyrir það og sagðist ekki þola þetta lag. Ég tel að þetta hafi verið andstætt gilismati sem hann hefur komið sér upp sjálfur því að aldrei hef ég bannað honum að trúa eða talað illa um trú í hans eyru. Hann fékk þó ekki trúarlegt uppeldi því að ég hef t.d. ekki kennt honum bænir. Þetta var áður en ég fór að pæla í mikið í trúmálum og ég var ekki að gera neitt vesen út úr því að honum þætti þetta svona hræðilegt. Í dag er ég hugsi yfir því að hafa ekki tekið meira mark á honum og viðurkennt að þetta væri e-ð sem stríddi gegn hans samvisku.

Þess vegna finnst mér tillaga mannréttindarnefndar bara gott mál og vona að hún nái fram að ganga.

Kveðja Helga.


Egill (meðlimur í Vantrú) - 29/10/10 17:43 #

Sæl Helga

Takk fyrir að skerpa á þessu með trúfélagaskráninguna. Ég einfaldaði þetta aðeins í greininni en það er rétt að trúfélagaskráning fer bara eftir móður við upphaflega skráningu í Þjóðskrá.

Og já, vonandi ná þessar tillögur fram að ganga án þess að inntakið í þeim breytist.


arnar - 29/10/10 17:58 #

En hvaða álit hafið þið á því að það sé verið að troða Jólasveininum upp á börnin í skólum og leikskólum. Með allskonar leikritum og sögum.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 29/10/10 18:08 #

Þegar jólasveinafélagið boðar jólasveininn hér á landi á kostnaði ríkisins (segjum fjóra til fimm milljarða á ári), heldur því fram að án jólasveinsins muni "andleg örbirgð" ríkja hér á landi og að þeir sem ekki trúa á jólasveininn séu siðlaust fólk - skal ég pæla í þessum samanburði.


arnar - 29/10/10 18:34 #

Þú getur senm sagt ekki svarað þessu.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 29/10/10 18:43 #

Þetta var svar. Samanburður á kristni og jólasveinum stenst ekki skoðun. Það er enginn að boða trú á jólasveininn og enginn að halda því fram að án trúar á jólasveininn geti fólk ekki verið gott við náungann.

Hvað er annars að því að segja börnum að jólasveinninn sé ekki alvöru? Verða krakkar að trúa á jólasveina?


arnar - 29/10/10 19:45 #

Ég held að kennararnir í yngstu bekkjunum og leikskólunum séu nú ekki að segja börnunum að jóla sveinninn sé ekki til. Þvert í móti eru þaug mötuð og boðað það í boði sveitarfélagana á því að hann sé til. Þannig að það stenst nú ekki hjá þér. Svo er það notað sem vöndur á börnin að grýla éti þau og þau fá ekkert í skóinn ef þau eru ekki þæg.

Og það er ekki verið að kenna börnum að án trúar þá geti þau ekki verið góð við náungann.

Þessi fullyrðing er mesta steypa sem ég hef heyrt lengi.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 29/10/10 20:43 #

Svo er það notað sem vöndur á börnin að grýla éti þau

Slíkt segja bara vanhæfir foreldrar eða kennarar

Og það er ekki verið að kenna börnum að án trúar þá geti þau ekki verið góð við náungann.

Víst eru til fjölmörg dæmi um það. Hér er eitt úr kristinfræðikennslu í grunnskólum:

Svo eru til fjölmargar tilvitnir í presta og biskup, t.d. hér.


Egillo (meðlimur í Vantrú) - 29/10/10 21:19 #

Viltu Arnar að ég skrifi samskonar grein frá sjónarhorni foreldra sem trúa ekki á jólasveinin og telji að börnum þeirra sé mismunað með boðun hans í skólakerfinu?

Heldurðu í alvörunni að það sé vandamál á sama leveli?


Halldór Logi Sigurðarson - 29/10/10 23:00 #

@En hvaða álit hafið þið á því að það sé verið að troða Jólasveininum upp á börnin í skólum og leikskólum. Með allskonar leikritum og sögum.

Jólasveina má frekar líta á sem þjóðlegan (og fjölþjóðlegan) leik. Jólasveinar eru ekki lífsskoðun, né pólitísk afstaða, og því ekkert sem hægt er að nota til þess að móta heimsmynd barna langt frammí framtíðina.

@Og það er ekki verið að kenna börnum að án trúar þá geti þau ekki verið góð við náungann.

En það er einmitt megininntak kristni, og aðal boðskapur kirkjunnar.


Trúlaus - 31/10/10 01:45 #

"Fyrir það eru þau kölluð öfgafólk."

Heyrðu höfundur skáldsögunnar hér efst: Það hefur enginn kallað trúlausa öfgafólk. Hins vegar hefur fólk í Vantrú verið kallaðir öfgafólk. Vinsamlega ekki ýja að því að öfgafólkið í Vantrú sé í forsvari fyrir trúleysingja. Heiðarlegir trúleysingjar vilja ekkert af þessum öfgaklúbbi vita.


Guðmundur Jóhann Arason - 31/10/10 01:50 #

Halldór Logi Sigurðarson: (...Og það er ekki verið að kenna börnum að án trúar þá geti þau ekki verið góð við náungann" ...): "En það er einmitt megininntak kristni, og aðal boðskapur kirkjunnar".

Ég nenni varla að eyða orðum á svona ummæli, þau dæma sig sjálf. Sem trúlaus einstaklingur, heldurðu þá að þú vitir manna mest um kristni? Hvílíkur hroki. Eyddu þessu af síðunni ef þú vilt ekki verða þér til ævarandi skammar. Orð Páls um "the noble savage" eru einmitt til að undirstrika að náungakærleikur sé allt sem þarf (ekki það að hafa heyrt Guðs orð). Kristur eyddi öllu sínu ævistarfi í að kenna faríseum að þeir yrðu ekki hólpnir fyrir kunnáttu í lögmálinu (ekki einu sinni góð verk) heldur EINUNGIS fyrir gott hjartalag. Það sem ég hef lesið á þessari vefsíðu bendir til að 99% aðstandenda vantrúar vaði um allt með sleggjudómum en hafi ekki einu sinni fyrir því að lesa Biblíuna eða mynda sér rök, - skoðanir kristinna eða trúaðra manna eru bara búnar til á staðnum, - og af andstæðingunum.


Guðmundur Jóhann Arason - 31/10/10 01:53 #

Takk fyrir þörf og mjög skemmtileg orð "Trúlaus". Einkum þessi: "Vinsamlega ekki ýja að því að öfgafólkið í Vantrú sé í forsvari fyrir trúleysingja. Heiðarlegir trúleysingjar vilja ekkert af þessum öfgaklúbbi vita".


Þórður Ingvarsson (meðlimur í Vantrú) - 31/10/10 06:11 #

Já sæll. Og ert þú, Guðmundur Jóhann Arason, mjög víðsýnn og réttlátur?


Egillo (meðlimur í Vantrú) - 31/10/10 12:25 #

Það hefur s.s. farið framhjá Trúlausum að fjölmargir sem hafa hafti sig frammi í þessari umræðu hafa sagt að náí tillögur Mannréttindaráðs að ganga fram sé verið að láta undan kröfum öfgafólks? Lítils en háværs minnihluta?

Ert þú Trúlaus hlynntur tillögum Mannréttindaráðs? Eða hefurðu meiri áhyggjur af okkur í Vantrú?


Halldór Logi Sigurðarson - 31/10/10 12:34 #

Já, ég tel mig vita einhvern manna best (allavega næst best eða þriðja/fjórða mest), í sveitarfélaginu þar sem ég bý, um kristni. Og það einmitt orsakar trúleysi mitt.

Það sem ég hef lesið á þessari vefsíðu bendir til að 99% aðstandenda vantrúar vaði um allt með sleggjudómum en hafi ekki einu sinni fyrir því að lesa Biblíuna eða mynda sér rök, - skoðanir kristinna eða trúaðra manna eru bara búnar til á staðnum, - og af andstæðingunum.

Hefurðu skoðað síðuna? Það sem ég hef lesið hér á síðunni um kristni á sér allt stað í Nýja Testamentinu eða biblíunni. Þér til fróðleiks hef ég lesið nýja testamentið, og gluggað verulega í biblíuna. Ekki ÞÚ ganga um með svona sleggjudóma.

  • skoðanir kristinna eða trúaðra manna eru bara búnar til á staðnum, -

Já, teknar úr þeim ritum sem trúaðir tilbiðja.


Halldór Logi Sigurðarson - 31/10/10 13:14 #

Ég hef í raun ekki hugmynd um hversu mikið fólk í kringum mig veit um kristni, en ég veit nóg um kristni til þess að geta rætt hana. Afhverju hélstu að ég héldi mig vita manna mest um kristni?


Halldór Logi Sigurðarson - 01/11/10 20:27 #

Vinsamlega ekki ýja að því að öfgafólkið í Vantrú sé í forsvari fyrir trúleysingja. Heiðarlegir trúleysingjar vilja ekkert af þessum öfgaklúbbi vita.

Fyrst Vantrú er svona óforbetranlegur öfgahópur, ætti þá ekki að vera minnsta mál fyrir þig að benda á þessar öfgar?

Sýnið viðbrögð, en vinsamlegast sleppið öllum ærumeiðingum. Einnig krefjumst við þess að fólk noti gild tölvupóstföng, líka þegar notast er við dulnefni. Ef það sem þið ætlið að segja tengist ekki þessari grein beint þá bendum við á spjallborðið. Þeir sem ekki fylgja þessum reglum eiga á hættu að athugasemdir þeirra verði færðar á spjallborðið.

Hægt er að nota HTML kóða í ummælum. Tög sem virka eru: a href, b, i, u, br, p, strong, em, ul, li og blockquote. Einnig er hægt að notast við Markdown rithátt í athugasemdum. Notið skoða takkann til að fara yfir athugasemdina áður en þið sendið hana inn.










Muna þig?