Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Nálarauga Fréttablaðsins

Kristilega Fréttablaðið

Auðveldara er fyrir úlfalda að fara gegnum nálarauga en auðmanni að komast inn í Guðs ríki. (Mk. 10:25)

Mér líður eins svolítið eins og úlfalda. Því miður er það ekki vegna lausafjár- og eignastöðu minnar né heldur hef ég verið að æfa fyrir stórkostlegasta töfrabragð seinni tíma. Ég hef hins vegar reynt að koma að grein í Fréttablaðið þar sem ég var ókurteis í garð ríkiskirkjunnar.

Tilefni þessa dólgsháttar míns var grein eftir Arnald Mána Finnsson sem birtist í Fréttablaðinu 4. september. Mín grein barst fréttablaðinu daginn eftir og hefur ekki birst ennþá.

Ég get huggað mig við það að til er að verða vísir að úlfaldahjörð. Auk greinar minnar er vitað um tvær aðrar sem ekki hafa hlotið náð fyrir augum ritstjórnar Fréttablaðsins sem lýtur sterkri stjórn prestssonarins Ólafs Þ. Stephensen. Valgarður Guðjónsson hefur þurft að bíða ennþá lengur en ég eftir að svar hans við grein eftir sr. Baldur Kristjánsson birtist og Jóhann Björnsson gerðist svo djarfur að ætla sér að kynna borgaralegar fermingar Siðmenntar í blaðinu. Ég hef ekki séð grein Valgarðs en trúi ekki öðru en að þar hafi hann verið málefnalegur og rökfastur að vanda. Það er svo erfitt að sjá hvað það var í grein Jóhanns sem fór fyrir brjóstið á Fréttablaðsfólki. Ólukkulegri félög en Siðmennt hafa fengið að kynna hina og þessa starfsemi sína á síðum blaðsins en borgaralegar fermingar eru greinilega ekki boðlegar.

Það skyldi þó ekki vera að ritstjóri Fréttablaðsins sé nú farinn að beita sér fyrir því að eigin skoðanir fái veigameiri sess í ritstjórnarstefnu blaðsins? Nú fer bráðlega fram stjórnlagaþing þar sem m.a. verður fjallað um aðskilnað ríkis og kirkju. Það er ansi slæmt ef rétt er að ritstjóri víðlesnasta dagblaðs landsins skuli vera að reyna að hafa stýra umræðunni í aðdragana stjórnlagaþings.

Þar sem ég geri ekki ráð fyrir því að greinin mín birtist í Fréttablaðinu úr þessu hef ég ákveðið að birta hana hér.

Arnaldi Mána Finnssyni svarað

Í helgarútgáfu Fréttablaðsins skrifar stjórnarmaður í félagi guð- og trúabragðafræðinema við Háskóla Íslands, Arnaldur Máni Finnsson, grein um málefni ríkiskirkjunnar. Þar talar hann um það af hverju hann sjálfur hafi ekki sagt sig úr henni þrátt fyrir þær upplýsingar um yfirhylmingu, lygar og kynferðisbrot sem dunið hafa á landsmönnum upp á síðkastið. Arnaldur virðist vilja varpa ábyrgð á breytingum á kirkjunni frá henni sjálfri yfir til ríkisins. Við sem stöndum utan hennar fylgjumst með því sem innan hennar gerist vegna forréttindastöðunnar sem hún nýtur. Þau forréttindi þarf að afnema sem allra fyrst með fullum aðskilnaði ríkis og kirkju. Þegar hann er gengin í garð geta þeir sem enn vilja tilheyra kirkjunni séð alfarið sjálfir um málefni hennar.

Arnaldur vill túlka öldu úrskráninga úr kirkjunni sem mótmælaaðgerðir. Það má hins vegar færa rök fyrir því að þar fullyrði hann meira en innistæða er fyrir. Trúarlífskannanir hafa iðulega sýnt að stór hluti þeirra sem skráðir eru í ríkiskirkjuna eiga litla samleið með kennisetningum hennar. Þetta fólk hefur þó ekki skráð sig úr kirkjunni fyrr en núna og sú staðreynd að flestir kjósi að standa utan trúfélaga en skrái sig ekki í önnur kristin trúfélög eins og t.d. Fríkirkjuna gefur vísbendingar um að annað standi á bakvið en bara mótmæli. Ekki er ólíklegt að leiðréttingar á trúfélagaskráningu aukist nú eftir að Hagstofan hóf að bjóða upp á rafrænar skráningar.

Arnaldur hefur áhyggjur af því að ýmsar merkar byggingar lendi í eigu „einhvers trúfélags“ þegar aðskilnaðurinn er gengin í gegn. Það er alveg rétt að við aðskilnað þarf að fara yfir stöðuna og sjá hvort og þá hvaða eignir ríkiskirkjunnar munu lenda í eigu hins nýja óháða trúfélags. Ef til vill myndu einhverjar kirkjubyggingar enda í höndum sveitarfélaga sem hafa einmitt í gegnum tíðina stutt þær með beinum eða óbeinum hætti. Sveitarfélögin gætu þá leigt út aðstöðuna, m.a. til hins nýja trúfélags, auk þess að nýta byggingarnar til félags- og tómstundastarfs.

Ólíkt Arnaldi tel ég að framtíðin eigi ekki að snúast um jafnari framlög ríkisins til trúfélaga heldur afskiptaleysi ríkisins í þessum málum. Ríkið á ekki að gera annað en að setja ákveðinn ramma utan um þessa starfsemi sem tryggir trúfrelsi sem best.

Egill Óskarsson 29.09.2010
Flokkað undir: ( Stjórnmál og trú )

Viðbrögð


Jón Steinar - 29/09/10 12:31 #

Sá einmitt mikinn fögnuð preláta yfir ráðningu þessa manns. Allavega lýsti hinn yngsti þeira að mig minnir fögnuði sínum í annálapári sínu og vissi greinilega að þarna var kominn hlutdrægur maður með slagaíðu til hins geistlega, enda prestsonur að mér skilst.

Haldið bara áfram að senda greinar til að fá þetta fullreynt og kærið hann svo fyrir blaðamannafélaginu. Ef rétt er þá eru þetta gróf brot á hlutleysi. Þetta ætti allavega að fá umfjöllun í einhverjum blöðum fyrir vikið.

Fréttablaðið hefur annars orðið ósvífnara og ómarktækara eftir tilkomu þessa ritstjóra og spuninn og falsanirnar himinhrópandi á fleiri sviðum. Ritstjórinn tilheyrir einnig öðrum átrúnaði, sem ekki er síður dreginn taumur af. Eitthvað sem ég kalla Evrópusambandsköltið.


Lesandi - 29/09/10 13:59 #

@Jón Steinar - 29/09/10 12:31 Ég er ekki viss um að vefur Vantrúar sé rétti staðurinn fyrir þessar ásakanir þínar - sér í lagi þetta með ESB. En ég ætla samt að gerast svo djarfur að svara þér;

Ef þú ætlar að saka ritstjóra Fréttablaðsins um "spuna og falsanir" færi ágætlega á því að koma með staðreyndir máli þínu til stuðnings. Að öðrum kosti kemurðu út sem algjör ómerkingur.

Gífuryrði þín um Evrópusambandssinna eru sömuleiðis út í hött - spurning hvort þú hafir lesið yfir þig af Mogganum? ;)


Matti (meðlimur í Vantrú) - 29/09/10 14:14 #

Æi já, ræðum Evrópusambandið á öðrum vettvangi :-)


Jón Steinar - 29/09/10 17:35 #

Lesandi: Það er aldeilis að menn eru hörundsárir. Lestu athugasemd mína aftur. Innihald hennar er ekki Evrópusambandið. Ég nefni aðeins að ritstjórinn tilheyri líka þeim átrúnaði. Sannfæringu, ætti ég kannski að hafa sagt. Heilög hneykslanin, bendir þó til að hin skilgreinigin sé nær lagi.

Ég ætla ekki að ræða það hér. Er það fjarri. Tengsl ritstjórans við hinn geistlega aðal er þó eitthvað sem sýnir augljósa hlutdrægni, enda fögnuðu kirkjunar menn ráðningu hans. 2 plús tveir eru 4 en ekki simsalabimm. Ekkert hrapað að ályktunum í því.

Mér dettur helst í hug að þessi lesandi sé ritstjórinn sjálfur eða skjallbandalagsmaður úr prestastétt.

Varðandi spuna og falsanir, þá skoðaðu hvernig skoðanakannanir eru matreiddar þar á bæ, bara sem eitt dæmi.


Jón Steinar - 29/09/10 17:41 #

Lesandanum til fróðleiks, hvort sem það skiptir hann máli eður ei, þá er ég ekki í neinum söfnuði né stjórnmálaflokki. Ekki einu sinni Lions eða Rotary. Ég mynda mér mínar skoðanir án forskriftar að ofan. Mbl. er samur í hlutdrægni sinni og Fréttablaðið, jafnvel ekki síður varðandi trúmál, sem ég hef fengið að kenna á á þeirra bloggi. Hræsnin á sér engin landamæri, því miður.


Lesandi - 29/09/10 18:18 #

@Jón Steinar - 29/09/10 17:41 Aftur: Þetta er ekki rétti vettvangurinn til að ræða þessi mál - hvorki Evrópumálin né aðdróttanir þínar um að ég hljóti að vera "ritstjórinn sjálfur eða skjallbandalagsmaður úr prestastétt". Því ætla ég að láta það verða mín lokaorð að ítreka að mér þyki andskoti hart að tengja Evrópusambandsumfjöllun Fréttablaðsins við trúarskoðanir ristjórans.


Jón Steinar - 30/09/10 01:46 #

Ok,ok...þá er þetta Jón Frímann eða Gilitrutt sjálf... Nafnleysi þitt býður einfaldlega upp á slíkar getgátur. Ég er ekki að spyrða saman trúarskoðanir hans og pólitíska sannfæringu. Það er þinn meðvitaði og heimatilbúni misskilningur minn kæri. Ég benti bara á að hann hefur tvennskonar átrúnað, sem hann er jafn hlutdrægur með í starfi sínu og þar með að brjóta siðareglur blaðamanna. Ertu að ná þessu? Yfir og út.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 30/09/10 14:42 #

Ansi er leiðinlegt að fá ekki svar frá Arnaldi Mána.


Egill (meðlimur í Vantrú) - 30/09/10 14:54 #

Heldur betur. Manni líður eins og hálfgerðu olnbogabarni. Úlfalda og olnbogabarni.


Arnaldur Máni - 03/03/12 11:05 #

Nei, en gaman. Ég hafði bara hvorki séð né heyrt af þessu svari yðar herra Egill - ég googla sjálfan mig bara svo sjaldan... Og þetta er nú ansi gamalt mál í dag. En eitt: Þegar ég segi að það megi ekki afhenda mikilvægar byggingar almennings "einhverju óháðu trúfélagi" eða hvernig sem það er orðað - þá á ég vitanlega við það að það verði að halda aftur af því hvaða guðfræði eitthvað fyrirbæri eins og þjóðkirkjan heldur frammi. Sé hún ótæk og ólýðræðisleg stofnun sem gerir eintómar kröfur þá ber ríkið ábyrgð á því að afhenda Þjóðkirkjunni ekki bæði sjálfstæði (sbr. fullan aðskilnað) og byggingar sem eru í "þjóðareign".
PS.Þið hefðuð nú auðveldlega getað látið mig vita af því að greininni hafi verið svarað - eða eruði kannski hafnir yfir það? Á ég að vera leita að því hvort þið hafið tjáð ykkur? Og sögðuði þá eitthvað um greinina sem ég birti síðasta mánudag í morgunblaðinu? góðar stundir.


Þórður Ingvarsson (meðlimur í Vantrú) - 03/03/12 11:12 #

Ég hélt að það hefði verið búið að láta þig vita. Það hefur bara verið yfirsjón. Afsakið það.


EgillO (meðlimur í Vantrú) - 04/03/12 03:45 #

Já, það hefur farist fyrir að láta þig vita af greininni Arnaldur á sínum tíma, ég vona að þú getir sé þér fært að afsaka okkur það.

Hins vegar verð ég að viðurkenna að ég skil engan vegin svarið þitt við þessu ákveðna atriði. Viltu ekki lesa aftur greinina sem þú skrifaðir og svarið í samhengi, ég á voðalega erfitt með að ná einhverju viti í þetta svar.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.