Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Meirihlutinn ræður

Ógisslega krúttlegur kettlingur og dúllulegur hvolpur

Í umræðunni sem skapast hefur í kjölfar þess að nú stendur til að úthýsa trúboði úr menntastofnunum í einu sveitarfélagi á landinu sér maður stundum þau skrýtnu rök að þar sem meirihluti þjóðarinnar sé í þessu eina trúfélagi sem fær að boða sína trú innan skólanna þá réttlæti það óþægindin og raskið sem verður á menntun annarra barna fyrir vikið. Minnihlutinn má ekki brjóta mannréttindi á meirihlutanum leyfir fólk sér jafnvel að halda fram.

Fyrir nú utan það hversu skrýtna túlkun á mannréttindum svona málflutningur ber með sér þá er augljóst að hann er stórhættulegur. Eða á kannski aldrei að taka tillit til einstaklinga sem tilheyra einhverjum tilteknum minnihluta? Á meirihlutinn alltaf að ráða?

Ímyndum okkur í smá stund að hér á Íslandi væru svipuð viðhorf og í Bandaríkjunum til Þróunarkenningarinnar. Þar telur meirihluti fólks að hún sé röng og að biblíuleg sköpun sé rétt. Ætti þá að henda Uppruna tegundanna út í hafsauga í náttúrufræðikennslu og taka upp Gamla testamentið? Höldum svo ímyndunarleiknum áfram og gefum okkur að hér á landi hefðu siðaskiptin aldrei átt sér stað og að þeir sem eru nú í lútherskri-evangelískri kirkju væru kaþólikkar. Væri þá réttlætanlegt, í krafti meirihluta, að nemendum í kynfræðslu yrði sagt að smokkurinn væri ekki ásættanleg getnaðar- eða kynsjúkdómarvörn?

Merkilegast í þessari umræðu allri er þó þegar prestar taka undir meirihlutarökin. Þau eiga nefnilega ekki alltaf upp á pallborðið hjá prestum. Sérstaklega ekki þegar um er að ræða aðskilnað ríkis og kirkju. Hvað skyldi valda?

Egill Óskarsson 25.10.2010
Flokkað undir: ( Efahyggja )

Viðbrögð


Björn I - 25/10/10 17:41 #

Vildi meirihlutinn ekki negrana aftast í strætó? Vildi meirihlutinn ekki gasa gyðinga?

Meirihlutinn meikar ekki alltaf sens, þannig er bara lífið og ég hélt nú að flestir væru búnir að átta sig á því. En kristnir virðast ekki hafa gert það. Kannski enn fastir á fyrstu öld?

Ég hélt bara að allir væru komnr með það á hreint að múgæsing væri af hinu illa og að rökræn hugsun væri góð. En svona umræður vekja mann þá bara upp af værum blundi :)


EgillO (meðlimur í Vantrú) - 25/10/10 17:51 #

Haha gaman að þú skyldir taka dæmið um strætóana. Ég hef einmitt stundum notað það seinustu daga. Þar hafði minnihlutinn þau réttindi af meirihlutanum að geta sest hvar sem hann vildi í strætó.


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 25/10/10 20:34 #

Hefur það skaðað einhvern að sitja aftast í strætó?


Árni Árnason - 25/10/10 22:02 #

Séu meirihlutarökin slæm, eru hefðarrökin ekki síður afspyrnu léleg. Hversu oft hefur maður ekki heyrt það í umræðunni undanfarna daga að kristni hafi verið trú Íslendinga í meira en 1000 ár, hún hafi verið lögtekin á Þingvöllum árið 1000. Sumir hafa jafnvel gengið svo langt að tala um að "samkomulag" hafi verið gert um þessa skipan. Rétt er að menn átti sig á því að trú verður í raun aldrei lögtekin, það er eðli málsins samkvæmt ekki hægt að lögskipa mönnum að trúa einhverju. Hægt er að lögskipa hverju menn segjast trúa og refsa þeim grimmilega ef þeir láta eitthvað annað í ljós. Staðreyndin er að Íslendingar voru svínbeygðir til að játa kristni undir hótunum um valdbeitingu. Flott byrjun ekki satt ? Íslendinga voru líka lúsugir og ólæsir um aldir, en við höfum heldur ekki séð ástæðu til að halda í þær hefðir.


Atli Jarl Martin - 25/10/10 22:43 #

Sammála þér Árni, að vilja halda í þessar hefðir þýðir einungis að haldið verði áfram að viðhalda þessari rúmlega 1000 ára kúgun á Íslendingum sem aðhyllast ekki kristinni trú.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.