Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Er ríkisvernd kirkjunnar ofmetin?

Kettlingar

Aðskilnaður ríkis og kirkju hefur verið mikið ræddur undanfarið en samkvæmt könnunum eru 73 prósent þeirra sem taka afstöðu hlynnt aðskilnaði ríkis og kirkju. Ástæður þeirra sem eru hlynntir aðskilnaði eru af mörgum toga, fyrir sumum er það einungis pólitísk afstaða, fyrir öðrum er það afstaða til trúarbragða sem ræður ríkjum og fyrir enn öðrum er það jafnvel bæði. Öll virðumst við sem hlynnt erum aðskilnaði þó eiga að það sameiginlegt, hvaða sauðahúsi sem við kunnum að vera af, að hafa almenn mannréttindi og sanngirni í hávegum. Mörgum þykir fáránlegt að þjóðkirkjan fái að liggja á spena ríkisins fram eftir öllu og þiggja fimmþúsund milljónir á ári úr tómum kassa ríkisins á meðan öll önnur trúfélög þurfa að halda sér uppi sjálf.

Fabúleringar prests um aðskilnað

En þrátt fyrir þessa umræðu og afar háværan hóp manna sem mótmælir þessum framlögum ríkisins til kirkjunnar birtist pistill eftir séra Gunnlaug Stefánsson þann 19. október á trú.is þar sem hann segir að kirkjan sé sjálfstæð og nú þegar aðskilin frá ríkinu.

Skiljanlegt er að menn tjái sig þegar svona hávær meirihlutahópur vegur að hagsmunum manns en það sem séra Gunnlaugur segir er gjörsamlega út í hött. Hægt er að vera ósammála skoðunum og viðhorfum annarra í góðu en þessi pistill er ekki eitt af því sem ég get leitt hjá mér eins og hverja aðra húsflugu. Lái mér hver sem vill. Byrjum á byrjuninni.

Kirkjan er sjálfstæð og aðskilin frá ríkinu

Séra Gunnlaugur fer ekki með fullkomin sannindi ef hann fullyrðir að kirkjan sé sjálfstæð og aðskilin frá ríkinu, þar sem það stendur afar skýrt í stjórnarskrá Íslands að „hin evangeliska lúterska kirkja skuli vera þjóðkirkja á Íslandi“, og að ríkisvaldið skuli „að því leyti styðja hana og vernda“. Kirkjan er að einhverju leyti skilin frá ríkinu miðað við það sem hún var, ríkið samþykkti að vernda og styðja kirkjuna og halda uppi launum presta og biskupstofu í skiptum fyrir jarðir sem kirkjan komst yfir með afar vafasömum hætti. Sumir myndu jafnvel segja að kirkjan hafi sölsað þessar jarðir undir sig. Séra Gunnlaugur heldur áfram:

Aðskilnaðarferlið hófst fyrir alvöru með lagasetningu um sóknargjöldin og stofnun Jöfnunarsjóðs kirkjunnar árið 1988. Þar var grunnur að fjárhagslegu sjálfstæði kirkjunnar staðfestur. Síðan voru skrefin stigin í áföngum m.a. með yfirtöku kirkjunnar á stjórn og skipan innri mála þar sem kirkjuþing er æðsta valdastofnun, samningnum um kirkjujarðirnar árið 1997 sem stendur undir launum presta og yfirstjórnar á Biskupsstofu. Þá var einnig staðfest að ríkið sjái um innheimtu sóknargjalda fyrir söfnuðina. Samkomulag varð um stöðu prestsetranna árið 2007, og að biskup skipi presta í embætti, en ekki ráðherra sem er áþreifanleg staðfesting á sjálfstæði kirkjunnar frá ríkisvaldinu.

Hinn hlýji barmur ríkisins

Í stuttu máli sagt, þá fær kirkjan fjárlög frá ríkinu en hún ræður samt fullkomlega sjálf hvað hún gerir. Kirkjan ræður hverjir starfa innan hennar, þeir sem starfa innan hennar ráða hvað þeir gera, þeir sem verða fyrir misrétti innan kirkjunnar eru vinsamlegast beðnir um að tala ekki of hátt um svona óþægilega hluti, þeir sem að telja orð kirkjunnar um himnadrauga ósönn eru sagðir vera ógn við mannlegt samfélag og kirkjunnar menn ganga frjálsir um leik- og grunnskóla landsins og troða boðskap sínum upp á börn samfélagsins - hvort sem það er í trássi við vilja foreldra eða ekki.

Jú, kirkjan ræður sér svo sannarlega sjálf en það erum við þjóðin, þar á meðal þeir sem eru ógn við samfélagið vegna öðruvísi lífsviðhorfa og þeir sem hafa orðið fyrir misrétti af hálfu kirkjunnar, sem borga henni himinhá laun fyrir að ráða sér sjálf. Þessi orð séra Gunnlaugs gera kirkjuna sambærilega einstakling sem fór loksins að heiman og ræður sér sjálfur en lætur foreldra sína ennþá halda sér uppi á allan hátt sem hægt er. Séra Gunnlaugur kýs þó að líta á þetta sem samstarf:

Þrátt fyrir aðskilnað ríkis og kirkju, þá er með þeim náið samstarf. Sambúð kirkju og þjóðar er samofin þar sem kristinn siður er kjölfestan í þjóðlífinu. Vandlifað er án þess að kirkjan komi við sögu í persónulegu lífi auk umsýslu hennar á dýrmætum menningarverðmætum.

Ofmetið samstarf og of mikið samkrull

Samstarf kirkju og ríkis felst þá í því að samankominn hópur af fólki, sem kallast prestar, vill vera í þægilegu embættismannasæti og á öruggum launum frá ríkinu á meðan það ræður yfir sér sjálft og starfinu sem þau sinna. Í mínum bókum kallast það ekki samstarf, heldur að sníkja. Ef Ísland er eins kristið og séra Gunnlaugur heldur fram og ef fólk getur ekki lifað án þess að kirkjan komi við sögu í lífi þeirra, af hverju þarf kirkjan þá þetta svokallaða samstarf við ríkið? Ef Ísland er svona gegnumsýrt af kristnum gildum þá á kirkjan ekki að þurfa vernd, stuðning og fjárlög frá ríkinu. Engin kann ég deili á þessum menningarverðmætum sem Gunnlaugur talar um, en ég efast um að varðveisla kirkjunnar sé nauðsynleg, hvaða verðmæti sem hann er að vísa í.

Mikilvægt er að Þjóðkirkjan geti áfram gegnt hlutverki sínu, að standa vörð um kristin gildi, vera samastaður í blíðu og stríðu og veita öllum landsmönnum trausta þjónustu. Því ræður fólkið með aðild sinni að Þjóðkirkjunni og þátttöku í kirkjulegu starfi, en ekki ofmetin ríkisvernd.

Ef ríkisvernd kirkjunnar er ofmetin af hverju vilja kirkjunnar menn þá svona ólmir halda í hana? Ef ríkisvernd kirkjunnar er ofmetin, ef hlutverk kirkjunnar er svona mikilvægt og ef Ísland getur ekki verið gegnheilt samfélag án þess alls þá getur kirkjan auðveldlega haldið sér uppi sjálf. Þá er meint samstarf ríkis og kirkju með öllu ónauðsynlegt og sóun á peningum ríkisins. Sem gæti fengið fólk til að velta því fyrir sér af hverju kirkjunnar menn fara sér alltaf að voða og snúa sér snarlega í vörn ef það er bryddað upp á því að kirkjan eigi að halda sér uppi sjálf. Þá vaknar gjarnan sá grunur að flestir, ef ekki allir, sem starfa innan kirkjunnar geri sér fyllilega grein fyrir að gildi kristninnar eru ónauðsynleg og að menn geti auðveldlega komist af án þeirra og að það fjölgar óðum í hópi þeirra sem „ógna mannlegu samfélagi“.

Kristin gildi kosta sitt

Sem gerir það að verkum að ef það verður endanlega skorið á samstarf ríkis og kirkju þá mun að öllum líkindum draga allverulega úr launum presta - og ef það er áhyggjuefni þeirra þá velti ég því fyrir mér hvort þeir eigi heima í starfi sínu, starfi sem á að felast í því að boða kærleik og góð gildi. Nú er ég að miðla mínum eigin boðskap og það sem ég tel vera góð gildi, launalaust og ekki til að tryggja það að launaseðill fyrir samstarf mitt við ríkið komi inn um lúguna hjá mér í byrjun hvers mánaðar, heldur af hugsjón. En er kirkjan að miðla kristnum gildum af hugsjón? Eru prestar að hugsa um þjóðina þegar þeir segjast ekki vilja hætta meintu samstarfi sínu við ríkið?

Ég viðurkenni að það fauk allverulega í mig við lestur þessa pistils. Hvernig vogar séra Gunnlaugur sér að slengja því fram að samfélagið geti ekki komist af án kirkjunnar? Hvernig vogar hann sér að alhæfa það að kristinn siður sé kjölfestan í þjóðfélaginu? Og hvernig vogar hann sér að segja ríkisverndina, sem kirkjan reiðir sig algerlega á, ofmetna? Hvernig væri nú ef kirkjunnar menn hættu þá að reiða sig á ríkisvernd kirkjunnar, fyrst hún er svona ofmetin og greinilega óþörf. Ef kirkjan getur svo ekki haldið sér uppi sjálf, þá geta þeir fengið sér vinnu eins og venjulegt fólk.

Andrea Gunnarsdóttir 21.10.2010
Flokkað undir: ( Efahyggja )

Viðbrögð


Jóhanna Ella - 21/10/10 12:16 #

frábær pistill, þú svo sýnir einmitt þá þversögn sem kemur fram í öllu sem þeir segja varðandi þetta mál!


Einar Þórir Árnason - 21/10/10 12:21 #

Einstaklega vel orðað. Ég held einmitt að allir vissu stöðu mála milli kirkju og ríkisins á einhvern hátt en ekki tekið sér tíma í að hugsa á þennan hátt. Kirkjustarfsemin þreifst í rauninni undir radar almennings og núna þegar allt er komið í ljós eru kirkjunnar menn eins og gagnslausir stjórnmálamenn sem neita að segja af sér út af því að launin eru fáránlega há og vinnan er lítil sem engin, en er í rauninni alveg sama um hagsmuni landsmanna. Ég man einmitt þegar ég var í grunnskóla og bekkjafélagar mínir voru að tala um að gerast prestar til að lifa frítt á launum.


Björn I - 21/10/10 14:38 #

Um dagin talaði þingmaður um að listamenn ættu bara að fá sér vinnu eins og venjulegt fólk. Nú segir pistlahöfundur á Vantrú það sama um presta.

Eftir orð þingmannsinns stungu listamenn upp á því að fara í verkfall til að sýna fram á gildi vinnu sinnar. Við skulum vona að prestar fari nú ekki í verkfall vegna orða Andreu, því hvað gerðum við þá?


Halldór Logi Sigurðarson - 21/10/10 15:39 #

Þetta getur varla verið raunverulegt álit kirkjumanna, það verður að vera eitthvað að til þess að útiloka öll þau rök og skoðanir 73% landsmanna. Þetta er kannski ákveðin umræðulist, við komumst aldrei út í alvöru aðskilnaðar umræður (hverjir eiga að fá hvaða eignir og uppsagnir) á meðan kirkjan getur enn haldið málum á byrjunarreit. Ég veit ekki hvort sé skárra að þetta sé, þrjóska, afneitun eða helber lygi til þess eins fallin að draga fólk aftur á upphafsreit.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.