Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Forstjóri ríkiskirkjunnar í ruglinu

Tveir kettir að tjilla

Karl Sigurbjörnsson steig á stokk í Hallgrímskirkju sunnudagsmorguninn 24. október og fabúleraði. Hann fabúleraði um mannréttindi og Mannréttindaráð Reykjavíkur, deleraði um hvað allir væru vondir við kirkjuna og röflaði svo um Jésú Krist, sálma, kennslu og eitthvað um styrk, veikleika, ímynd og veruleika og það sé vegið að rótum trúar, siða og hefða ef prestar fá ekki að koma í skóla. Mesta furða var að hann minntist ekkert á jólin. Þetta var að sjálfsögðu vandlega pakkað inní grænsápu og kristilega helgislepju sem kallinum (og kannski Einari Karli) er einum lagið að möndla saman og auðvitað básúnað í útvarpi allra landsmanna sem heilögum sannleika.

Það hafa undarlega margir fallið fyrir ákveðnum lygum og rangfærslum sem Biskupsstofa og aðrir starfsmenn ríkiskirkjunnar hafa haldið úti síðan Mannréttindaráð Reykjavíkur vakti athygli á því, þann 15. október sl., að verið væri að athuga aðkomu ríkiskirkjunnar (og annarra trúfélaga) að leik- og grunnskólum.

Líklegt þykir að einhver skýr rammi verði myndaður þannig að ekki komi upp óþarfa núningur milli foreldra og skóla útaf trúarlegri ástundun t.d. starfsmanna ríkiskirkjunnar, Gídeon-félagsins eða annarra trú- og lífsskoðunarfélög innan veggja þessara menntastofnana. Í stuttu máli: Trúboð verður algjörlega bannað í almennum skólum í Reykjavík, að þar á að fara fram fræðsla en ekki trúarinnræting eða annar heilaþvottur.

Ítrekaðar rangfærslur

Kennum börnunum bænir! ætti að vera heróp og hvatning kirkjunnar. Og í því skyni ættum við að kalla til samstarfs foreldra og uppalendur, dagmæður, leikskóla og grunnskóla. Barnastaf kirkjunnar hefur verið ómetanlegt starfstæki í miðlun trúar og bænar. Það er útrétt hönd til heimilanna. Gleðilegt er að sjá að þeim foreldrum fer fjölgandi sem fylgja börnum sínum í barnastarf kirkjunnar. (Í birtu náðarinnar eftir Karl Sigurbjörnsson, b.89, Skálholtsútgáfan, 2001)

Rangfærslur og ýkjur Biskupsstofu eru á þá leið að ef af þessu verður þá munum við í kjölfarið; banna trú, banna kristinfræðslu, banna jólahald og að jafnvel verði farið fram á að brenna kirkjur um helgar og berja presta á þriðjudögum og byggja sundlaug í gamla Reykjavíkurkirkjugarðinum. Dómsdagsþvæla, ýkjur og rugl virðast vera kjörorð Biskupstofu er kemur að einföldum málefnum sem einhvernmegin snerta hagsmuni ríkiskirkjunnar. Síðan er náttúrulega að endurtaka ruglið nógu andskoti oft, kannski sirka seytjánþúsundmilljarða sinnum, svo að líklegt þyki að einhverjir hugsanlega trúa því.

Þessi hegðun er alls ekki ný af nálinni. Biskupstofa virðist virkilega telja að besta leiðin til að ná sínu fram er að fríka gjörsamlega út og vera alveg ógeðslega móðursjúkur og frekur og ásaka alla sem eru hugsanlega á einhvern hátt á öndverðum meiði, um illt innræti og þaðan af verra. Þetta er taktík sem ríkiskirkjan hefur notað í mörg ár, ef ekki fleiri áratugi, og virkar furðuoft. Sérstaklega á sumt áhrifagjarnt fólk í áhrifastöðum. Nú er mál að linni og vonandi að fólk sem fái svo óvandaðar kveðjur hafi kjark gegn þessari sjálfhverfri kirkju.

Agalegur málflutningur

Ekkert foreldri getur varið barn sitt fyrir ágengni þess ofstækis sem helst sækir að þeim hjörtum og sálum sem ekki hafa fengið næringu trúar, ekki hafa fengið viðmið helgra sagna og helgrar iðkunar og ein megna að hamla gegn áhrifum sálardeyðandi og mannskemmandi guðleysis og vantrúar.

Þetta sagði forstjóri ríkiskirkjunnar í Áskirkju í mars árið 2005. Þetta er ekki heilbrigð hugsun og ekki til þess fallandi að vekja upp eitthvað sérstakt traust. Ef þetta eru þau viðhorf sem hann vill halda að börnum, þá væri ég til í að sjá sérstakt nálgunarbann sett á þennan einstakling þannig að hann fái ekki að koma nálægt opinberum leik- og grunnskólum.

Er hægt að finna viðlíka málfutning hjá okkur sem teljumst eflaust þeirra mestu og hættulegustu fjandmenn? Það væri óskandi fá skýrt og gott dæmi. En það virðist sem að forystumenn Biskupstofunar telji okkur trúleysingjana, og sérstaklega Vantrú, vera varhugaverðir óvinir kirkjunnar og beinlínis skaðlegir samfélaginu. Af hverju? Því við gagnrýnum málflutning ríkiskirkjunnar. Biskupstofa telur þann sjálfsagða rétt okkar vera alveg agalega ósvífið og dónaleg hegðun. Þannig að haldið er úti viðlíka, jafnvel verri og rætnari, málflutningur gagnvart trúlausum einstakingum, t.d. með því að míga í brunninn í háskólanum og telja okkur tilfinningalaus og ómanneskjulegar á einhvern hátt. En það getur ekki annað verið en að hver hugsandi heiðarlegur maður sjái nú í gegnum þennan óþverra sem elur á sundrungu og almennum leiðindum.

Trygg mannréttindi

En starf leikskólakennarans og grunnskólakennarans er líka ómetanlegt. Sú miðlun fræðslu sem fer fram innan veggja dagvistasofnunar, leikskóla og skólastofunnar er af öðru tagi en verk foreldra og kirkjunnar, og hlýtur að vera það. Eitt hið mikilvægasta sem skólinn og kennarinn geta miðlað í þessum efnum er virðingin fyrir þeim raunveruleika sem trúin er og trúararfurinn. Vitandi að úr þeim arfi sprettur margt það sem dýrmætast er í okkar menningu, svo sem mannréttindin, umburðarlyndið og réttlætiskrafan. (Í birtu náðarinnar eftir Karl Sigurbjörnsson, b.90, Skálholtsútgáfan, 2001)

Sem betur fer er nú sumt fólk sem sér í gegnum þennan barnaskap og skæting. Það er virkilega afhjúpandi að sjá hvað þessi stofnun hefur verulega sundrandi áhrif á þjóðfélagið og það útaf máli sem varðar grundvallargildi í vestrænu lýðræðissamfélagi; mannréttindi. Mannréttindi eru ekki til þess sérstaklega að tryggja réttindi minnihlutahópa, hvað þá sérréttindahópa og ekki heldur meirihlutahópa. Mannréttindi felast í því að tryggja réttindi allra, hvaða hóp sem þú tilheyrir.

En þetta yrðu nú svosum ekki í fyrsta sinn sem kirkjan stæði í vegi fyrir hófsömum tillögum er varða jafnrétti og mannréttindi og ekki verður þetta í síðasta sinn heldur.

Betri talsmenn

Þó að helstu málsvarar ríkiskirkjunnar geta verið frekar óheiðarlegir í samskiptum, þá er nú ekki öll von úti. Það var allavega einn prestur í Guðríðarkirkju sem nálgaðist þetta málefni á heiðarlegan og sanngjarnan hátt á svipuðum tíma og Karl var skæla í útvarpinu. Presturinn hafði meðal annars þetta að segja:

Heimilið og kirkjan þarf að axla frekari ábyrgð á trúaruppeldinu, ekki skólinn og þess vegna les ég tækifæri frekar en ógnun út úr þessum skjölum. Og því er að mínu viti mál að leggja frá sér sverðið og geyma heimsslitaorðaforðann en tala meira saman trúlaust fólk og trúað um það hvernig við getum virt sérstöðu og mannréttindi hvers annars.

Og endar svo á þessum orðum:

Mannréttindi eru málefni allra og við eigum að taka þau alvarlega.

Af hverju var sú predikun ekki frekar flutt í útvarpinu í staðinn fyrir kjaftæðið hans Karls? Af hverju er þessi prestur ekki frekar biskup?

Ef málflutningurinn frá kirkjunni væri á svipuðum nótum og Sigríðar Guðmarsdóttur væri líklega hægt að ljúka umræðu um þessi mál á frekar stuttum tíma og á sanngjarnan hátt, jafnvel með friðsamlegum sáttum þar sem allir getað unað við sitt. Það væri eflaust vænlegra en að væla og reyna að spila sig sem eitthvað varnarlaust fórnarlamb en í leiðinni ráðast á saklausa samborgara með ósiðlegum aðdróttunum í hvert einasta sinn sem mál er varða kirkjunna eru rædd af hörku í þjóðfélaginu. Hættið þessum aggresíva, andskotans aumingjaskap, takið á ykkur rögg og ræðið um þetta málefni einsog upplýstar manneskjur og skoðið þetta útfrá því hvað er rétt og sanngjarnt.

Kanína að hafa það kósí
Þórður Ingvarsson 25.10.2010
Flokkað undir: ( Leiðari )

Viðbrögð


gös - 25/10/10 09:56 #

Gott nýyrði/stafsetningarvilla: "varghugaverðir".

Kjarni málsins kemur fram hjá Karli:

Það er vegið er að rótum trúar

Þetta er auðvitað rétt hjá karlinum. Rætur trúar hjá flestum liggja í bernsku þeirra.

Afstaða Karls er að mörgu leiti eðlileg. Það er erfitt að verja ekki hagsmuni sína, og hagsmunir Þjóðkirkjunnar, presta, og evangelískrar Lúterskar trúar (ef hægt er að tala um hagsmuni hennar) munu klárlega verða fyrir skaða ef trúaðir fá ekki að sá trúarfræjum sínum í huga ungra barna.

Svo er annað mál að við getum reiðst aðferðir Karls - óheiðarleikann og rætnina - en þær eru fyrst og fremst til marks um hve veik hans afstaða er. Hann getur ekki varið hana málefnalega og grípur því til þessa ráða.


Pétur - 25/10/10 13:15 #

Og svo eru margir sem telja okkur öfgamenn. Ég skil ekki hvernig fólk fer að því að horfa framhjá hatursboðskap biskups.


Árni Árnason - 25/10/10 21:44 #

" - fáfræði, fordómum og andlegri örbirgð."

Þetta er lýsing biskupsins á áhrifunum af tillögu Mannréttindaráðs.

Er hægt að komast slysalegar að orði í ljósi þess að bábiljutrúin biskupsins, rakalausi þvættingurinn og glórulaus fornaldarþjónkunin eru skólabókardæmi um einmitt þetta, Fáfræði, fordóma og andlega örbirgð.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.