Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Enn um trúboð í leikskólum

Í haust þegar skólastarf byrjaði fór af stað eins og mörg undanfarin ár umræða um heimsóknir kirkjunnar manna í leikskóla og siðferðið á bak við þær.Fylgjendur þessara heimsókna nota gjarna rök eins og þau að þjóðin sé kristin, 80% séu í þjóðkirkjunni og að þeir sem séu á móti því að börnin heyri eitthvað “gott” í leikskólunum séu aðeins örfáir, háværir og öfgasinnaðir trúleysingjar sem vaði um net- og kjötheima með hatrömmum hætti.

Nú vill svo til að í könnun Gallups á trúarlífi Íslendinga sem gerð var 2004 var einmitt sérstaklega spurt um þetta atriði. Spurt var: “Ættu kristnar trúarathafnir að vera liður í uppeldi barna á dagvistarstofnunum?"

Og svörin koma reyndar ekki á óvart þó mikið sé talað um þennan fámenna hóp sem vill allar heimsóknir trúfélaga út úr skólunum. 52,9% voru fylgjandi en 41,5% voru á móti. 5,6% svöruðu hvorki né.

Ég ætla að endurtaka: 41,5% á móti. Miðað við umræðuna undanfarin ár tel ég víst að þessi hópur hefur ekki minnkað.

Þarna fer ekki á milli mála að hópurinn sem vill hverskonar trúarstarf út úr leikskólunum er þá ekki eins lítill og sumir vilja láta í veðri vaka. Hann er reyndar það stór að einbeittur vilji kirkjunnar, sókn hennar og átroðsla í leikskólum er til hreinnar skammar því þarna eru greinilega mun fleiri en yfirlýstir trúleysingjar að lýsa skoðun sinni. Miðað við ca. 80% skráningu í þjóðkirkjuna eru allavega verulegur hluti af þeim sem eru á móti í könnuninni einnig skráðir í þjóðkirkjuna!

Fleiri kannanir hafa sýnt afgerandi niðurstöður eins og til dæmis könnun Heimilis og Skóla frá 2007 en þar var meirihluti svaranda á móti trúarstarfi í skólum.Það er í raun fáránlegt að það þurfi að þrátta um það árið 2008 að leikskólarnir eigi að vera lausir við hvers konar auglýsingarskrum og ágang trúfélaga.

Þetta væri sennilega ekki til umræðu ef eitt ákveðið trúfélag myndi ekki þverskallast við og reyna með öllum mætti og brögðum að lauma sér inn í leik og grunnskóla. Þetta ákveðna trúfélag sem í daglegu tali er nefnt Þjóðkirkjan hefur stundað grímulausa innrás í leik- og grunnskólana undanfarin ár.

Þess utan er þessi hernaður á skólana óskiljanlegri þegar á í hlut félagskapur sem á eigið húsnæði á hverju horni og stundar þar starfsemi sína, þar á meðal barnastarf.

Sennilega má skýra þetta að hluta eða öllu leiti með örvæntingafullri tilraun hrörnandi stofnunar til að viðhalda fornri frægð með að því að reyna að laða til sín og ánetja óvita börn þegar síst skyldi og þar sem síst skyldi.

Það segir bæði í siðareglum presta og skipunarbréfi að þeirra líf og starf sé að þjóna drottni, vitna um hann og breiða út boðskapinn. Allt raus um að prestar séu ekki í trúboði þegar þeir koma inn í skólana dæmir sig því sjálft. Prestur í starfi er prestur í trúboði og óþolandi þegar þeir með málskrúði reyna að tala sig frá starfi sínu þegar heimsóknir í leikskóla eru réttlættar.

Sigurður Ólafsson 20.10.2008
Flokkað undir: ( Kristindómurinn , Skólinn )

Viðbrögð


Óskar - 20/10/08 20:42 #

Ég setti dóttur mína á leikskóla núna í ágúst. Átti langt samtal við deildarstjórann og spurði þar á meðal einmitt um stefnu skólans í þessum málum. Hún þurfti að leita sér uppl. en í ljós kom að það er kirkjuferð fyrir jólin fyrir krakkana. Já og svo kemur djákninn fyrsta föstudag í hverjum mánuði. En það er ekkert trúarlegt.. ónei... bara svona uppbyggilegt.. kenna börnunum að virða hvort annað þó þau séu ólík... notar til þess brúður og syngur svo með þeim. Ekkert trúboð þar !

Dóttir mín syngur "Jesus er besti vinur barnana" og "Hver hefur skapað fuglana?" með tilheyrandi handahreyfngum öllum stundum, hún er tveggja og hálfs. En það er náttl. ekki trúboð eða hvað ?

ps. Mamman hlær mikið af svipbrigðum mínum þegar litla stýrið byrjar að kenna mér handahreyfingarnar... enda ekki eins "öfgafull" og ég. ;-) Ég hlakka mikið til næsta foreldraviðtals, ætla að fá að vera viðstaddur þegar djákninn kemur næst !


Ásta Elínardóttir - 20/10/08 20:46 #

Ég hlakka einmitt svo til að vita hvaða stefnu leikskólinn sem við stefnum á sé með í þessum málum. En leikskólinn gerir einmitt svoldið út á að vera frábær eins og maður er og varla getur trúleysi þá verið undanskilið frá því frekar en þá múslimar, gyðingar og þar fram eftir götum.


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 21/10/08 07:16 #

Menntasvið Reykjavíkur hefur markað þá stefnu í samskiptum leik- og grunnskóla og trúfélaga að undir engum kringumstæðum skuli starfi þeirra blandað saman og að forðast skuli aðstæður þar sem börn eru tekin út úr hópnum vegna trúarskoðana.

Þarsíðasta sunnudag fullyrti prestur í útvarpinu að ekki þyrfti nema eitt foreldri að mótmæla heimsóknum kirkjunnar manna í skóla, þá væri sjálfhætt. (Sjá grein síðar.)

Ég skora á foreldra að láta í sér heyra og láta vita af viðbrögðunum.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 21/10/08 08:25 #

Ansi er það lúalegt að halda því fram við foreldra að þarna fari ekkert trúarlegt fram, þegar augljóslega er það einmitt raunin. Hvað er þetta með fólk og endalausar lygar þess?


Brynjólfur Þorvarðarson (meðlimur í Vantrú) - 22/10/08 08:47 #

Óskar og Ásta, það er eitt atriði sem mig langar til að benda ykkur á:

Þegar starfsmaður skóla eða leikskóla fer að inna eftir trúarskoðunum ykkar þá er hann að fara út fyrir það sem honum er heimilt.

Eigi sér stað einhver skráning innan skólans, um að barninu sé heimilt eða óheimilt að taka þátt í trúarstarfi, þá er um skýrt lögbrot að ræða. Persónulegar upplýsingar á borð við þessar eiga ekki að vera á skrá hjá leikskólastjóra.

Endilega hafið samband við persónuvernd ef skólastjóri eða leikskólastjóri fer að spyrja um afstöðu til trúarstarfs í skólum. Það eru bara aðilar máls sem geta beðið um athugun persónuverndar!


Ásta Elínardóttir - 22/10/08 10:24 #

Ég býst nú ekki við því að þeir inni eftir mínum trúarskoðunum, heldur mun ég sjálf spyrja út í kristniboð inn á leiksólanum. En takk samt fyrir ábendinguna Brynjólfur.


Óskar - 22/10/08 13:48 #

Ég spurði að fyrra bragði um þetta og kom það deildarstjóranum satt að segja í opna skjöldu. Held að fólk spái ekki mikið í þetta.. sinnuleysissindrome.. og greinilegt að hún skilgreinir heimsóknir djáknans ekki sem trúarlegar. Enda öruggt að þannig hefur þetta verið selt í upphafi,þ.e. sem einhverskonar fræðsla eða tilbreiting fyrir börnin. Æi.. finnst þetta hálf skítlegt að þurfa að passa uppá svona á 21 öldinni.. við eigum að vera búin að losa okkur við svona bábiljur úr opinmberum skólum og leikskólum. Grundavallarmannréttindi eru ekki eitthvað sem foreldrar eiga að þurfa að berjast fyrir í leikskólum.


Dóra - 07/11/08 09:20 #

Mig langar svolítið að athuga hvernig hin trúarfélögin hegða sér í þessu. Koma td. muslimar, gyðigar, ásatrúarmenn, baháíar eða búddistar líka í heimsóknir á leikskólanna? Ekki misskilja mig, mér finnst persónulega að trúboð eigi aldrei erindi inn í skólana. En ef að það sé viðtekin venja að kristniboð sé viðhaft í skólastofnunum finnst mér að það ætti þá að bjóða öllum hinum líka í partýið.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 07/11/08 09:27 #

Við vitum ekki til þess að nokkuð annað trúfélag stundi trúboð í leikskólum hér á landi. Ég hef a.m.k. aldrei heyrt af slíku.


Dóra - 07/11/08 17:38 #

Hvernig væri ef að hin trúfélögin færu nú líka að heimta að fá að koma og rugla í vesalings börnunum? Eða þá þið vantrúarfólk? Er viss um að þá kæmi annað hljóð í strokkinn og það yrði heilmikið gert til að koma í veg fyrir slíkar heimsóknir.

það er munur á jóni og séra jóni...

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.