Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Miðaldamyrkur á Alþingi

Fimmtudaginn 22. maí sl. fór fram umræða um frumvarp til leik- og grunnskólalaga á Alþingi. Samkvæmt upphaflegu frumvarpi menntamálaráðherra eiga starfshættir skóla að mótast af almennu siðgæði en ekki „kristilegu“. Þetta fer mjög fyrir brjóstið á varðhundum kristninnar og einstaka þingmönnum. Þeir óttast að við blasi upplausn þjóðfélagsins ef kristni er ekki sérstaklega getið í lögum um skóla. Hér er þó ekki verið að fjalla um námskrá, þ.e.a.s. hvað börnin eiga að læra, heldur starfshætti skólanna.

Núverandi námskrá grunnskóla í kristinfræði var samin á biskupsstofu! Aðalhöfundur námsefnis í kristinfræði er prestur, sem nýverið lýsti því yfir að við störf sín hefði hann reynt að sameina hlutverk skólamannsins og boðandi prests. Ekki er hróflað við því og óttinn ætti því að vera ástæðulaus.

Finnst einhverjum eðlilegt að þess sé getið í lögum störf alþingis skuli mótast af kristilegu siðgæði, eða starfshættir lögreglunnar, landhelgisgæslunnar eða sjúkrahúsanna? Starfshættir opinberra stofnana eiga að mótast af fagmennsku og almennt siðgæði ætti þar að ráða för og óþarfi að tilgreina það sérstaklega í lögum. Af hverju þurfa starfshættir skóla að mótast af einhverju kristilegu?

Prestssonur í menntamálanefnd fékk því áorkað að breytingatillögu nefndarinnar við frumvarpið var bætt að auk almenns siðgæðis skyldu starfshættir skóla mótast af „kristinni arfleifð íslenskrar menningar“. Veit einhver hvernig á að framkvæma þetta?

Þingmaður, sem kennir sig við framsókn, taldi að mæltu lögin fyrir um að starfshættir skóla mótuðust af almennu siðgæði en ekki kristilegu væri ofstæki lítils hóps hinna trúlausu að ná fram að ganga, hóps sem vildi gera sitt trúleysi að óbilgjörnum trúarbrögðum. Hann hélt að hann væri að tala um nám og námsefni í skólum, kristinfræðina, ekki starfshætti skólans. Sá litli hópur sem hann vísar í hefur þó marglýst yfir að trúarbragðafræðsla (ekki boðun) eigi heima í skólum og eðlilegt sé að kristninni sé þar gert hátt undir höfði sökum sögu þjóðarinnar.

En hinn framsækni þingmaður er á móti trúarinnrætingu í skólum og taldi enga ástæðu til að óttast slíkt þótt kristilegt siðgæði og kristin arfleifð ættu að móta starfshætti skólans lögum samkvæmt. Slíkt ákvæði hefur þó einmitt verið notað til að réttlæta störf presta í skólum við kristilega sálgæslu í svokallaðri „Vinaleið“. Hlutverk og köllun presta samkvæmt vígslubréfi er þó að boða Guðs orð, biskup segir sálgæsluna hluta boðunar orðsins og öll verkefni kirkjunar hluta af boðun. Boðun er kirkjunni eðlislæg, ekki valkostur heldur grundvöllur veru hennar, samkvæmt stefnuyfirlýsingu hennar.

Annar þingmaður, nýkominn úr fangelsi fyrir að seilast í almannafé í störfum sínum fyrir þingið, kvað sér hljóðs um kristilegt siðgæði en taldi sig líka vera að tala um „hlutverk námskrá og verkefna grunnskóla“. Hann sagði að ef ekki yrði kveðið á um „kristilegt siðgæði“ heldur „kristna arfleifð“ væri „látið undan dekurrófum, víða um heim, trúleysingjum, stjórnleysingjum, fólki sem hugsar mest um sjálft sig og síður um að hjálpa náunganum af kærleik og góðvild. Fólki sem hugsar ekki mikið um það að rækta lítillæti, þakklæti og auðmýkt.“ Hann sagði kristindóminn hafa verið akkeri þjóðarinnar „í gegnum þúsund alda nið“ (ein 100.000 ár, hvorki meira né minna). Hann taldi það beinlínis hlutverk skólanna að annast trúarlegt uppeldi barna.

Fulltrúi lambakjötsins hélt líka að málið snerist um kristinfræðikennslu, þjóðkirkjuna og siðinn í landinu og sagði: „Það er ekki til neitt siðgæði, í rauninni, nema kristið siðgæði“. En 13. desember sl. skilgreindi hann kristilegt siðgæði svo í Kastljósi: „Það er að standa vörð um þjóðkirkjuna.“

Þessir menn setja okkur lög en vita greinilega ekki hvað þeir eru að gera.

Reynir Harðarson 29.05.2008
Flokkað undir: ( Stjórnmál og trú )

Viðbrögð


Ari - 29/05/08 08:51 #

Fín grein hjá þér Reynir. Ágætt að einhver fylgist með vitleysunni sem vellur upp úr sumum þingmönnum. (án þess þó að hafa sannreynt neitt að því sem þú vitnar í.)

kv.ari


Baldvin Örn Einarsson - 29/05/08 08:55 #

Þetta er alveg ótrúleg hringavitleysa ... Eru mennirnir algerlega skilninglausir? Er enginn á þingi sem kann að hugsa rökrétt, sem gæti leiðrétt svona vitleysisgang?


Viddi - 29/05/08 09:06 #

Það er skammarlegt að svona froða skuli koma úr munnum opinbera starfsmana. Bæði orð Guðna og Árna eru mismunum á grundvelli lífskoðanna og gengur þvert á allar starfsreglur opinberra starfsmanna sem og almenna kurteysi.

Það er vel hægt að kæra svona, ef maður á pening. Í nútímaríkjum ættum menn einfaldlega að segja af sér eftir svona ummæli.


Arnaldur - 29/05/08 10:58 #

Ótrúleg skammsýni allra þeirra sem mæla með þvílíkum vitleysisgangi, hvort sem hann heitir vinaleið eða hempu ást.

Það eina sem ég fæ skilið hjá þessum snillingum er að einelti í skólum er allt í lagi, bara á meðan að það er öruggt að það beinist ekki gegn kristnum börnum.


Óskar - 29/05/08 11:13 #

Alltaf fyndið að sjá menn eins og Árna að standa vörð um kristin gildi á sama tíma og hann hefur sjálfur gróflega brotið eitt af boðorðunum "þú skalt ekki stela".

Er hann hræsnari eða bara vitlaus?


Arnar - 29/05/08 12:38 #

Margir hallast að þriðja kostinum, 'bæði'.


Ísleifur Egill - 29/05/08 14:02 #

„í gegnum þúsund alda nið“

Er greyið maðurinn ekki bara að tala um öldugjálfrið í sjónum? Annars finnst mér hann varla eiga efni á því að segja að annað fólk hugsi um sjálfan sig, sjálfur maðurinn sem sveik stórfé úr þjóðinni en var síðan kosinn aftur á Alþingi...


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 29/05/08 15:44 #

Breytingartillaga við frv. til l. um grunnskóla. Frá Steingrími J. Sigfússyni, Árna Þór Sigurðssyni og Álheiði Ingadóttur.

Við 1. mgr. 29. gr. bætist þrír nýir málsliðir, er verði 4.–6. málsl., svohljóðandi: Í námskrá og starfi grunnskóla skal enn fremur tekið mið af aukinni fjölbreytni hvað varðar menningarlegan og trúarlegan bakgrunn nemenda. Hvers kyns trúarleg innræting er óheimil. Fræðsla um trúarlega arfleifð íslenskrar menningar og um mismunandi trúarbrögð skal virða rétt manna til trúfrelsis og trúleysis, með það að markmiði að auka þekkingu, umburðarlyndi, skilning og virðingu milli ólíkra trúar- og menningarheima.

Þessi tillaga verður borin upp við þriðju umræðu í dag. Menn geta veðjað á útkomuna.


Baldvin Örn Einarsson - 29/05/08 17:52 #

Þessi beytingatillaga er mjög góð, og vonandi að þingmenn beri gæfu til að samþykkja hana, þó að ég efist nú því miður um það ...


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 29/05/08 21:11 #

Nú er búið að greiða atkvæði um þessa fínu breytingatillögu. Hún var felld með 37 gegn 8 atkvæðum, 6 sátu hjá.

Í kjölfarið voru samþykkt ný lög um leikskóla og grunnskóla, með kristilega hroðanum í annarri grein. Til hamingju.


Baldvin Örn Einarsson - 29/05/08 22:00 #

Mér verður óglatt af að lesa þetta, Reynir.


Haukur Ísleifsson (meðlimur í Vantrú) - 29/05/08 22:26 #

Þetta gerir mig reiðan.


Birta - 29/05/08 22:39 #

Hverjir aðrir en flutningsmenn greiddu atkvæði með? (hverjir sátu hjá?)


Gunnar J Briem - 29/05/08 23:30 #

Atkvæðagreiðsla um breytingartillögu Steingríms.

Atkvæðagreiðsla um frumvarpið.

Ferill þingmálsins.

Útkoman, hvað trúarlegar tilvísanir varðar, er skárri en þau lög sem hingað til hafa gilt, en lakari en upphaflegt stjórnarfrumvarp, í það minnsta frá sjónarhóli sekúlarista.


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 30/05/08 08:14 #

Mitt álit er að nýja greinin sé mikið verri og mun líklegri til að verða túlkuð sem leyfi fyrir kristniboði.


Haukur Ísleifsson (meðlimur í Vantrú) - 30/05/08 12:19 #

Verð að vera sammála því.


Baldvin Örn Einarsson - 30/05/08 12:44 #

Mér finnst alveg hreint ótrulegt, mér liggur við að segja viðbjóðslegt, að íslenskir þingmenn hafi hafnað jafn sanngjarnri, réttlátri og vel orðaðri breytingatillögu og þarna kom fram, og í staðinn samþykkt þetta loðna ákvæði sem er opið í alla enda og hlýtur að verða misnotað af ríkiskristniboðunum.

Það hefur sýnt sig í þessu máli að þingmenn eru upp til hópa blindaðir af þjóðsögum og ófærir um að greina staðreyndir frá kjaftavaðli, kjarnann frá hisminu.

Það verður langt þangað til ég kýs aftur einhvern þeirra flokka sem nú eru á þingi.


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 30/05/08 13:05 #

Þingmenn eru víst bara fólk. Mörgum þeirra eru afar mislagðar hendur en þeim til vorkunnar er það engin smásúpa af lögum og breytingatillögum sem þeir þurfa að greiða atkvæði um í strikklotu. Þess vegna hafa fæstir þeirra kynnt sér hvað um er að ræða heldur treysta þeir á samflokksmenn sína í nefndum - og kjósa eins og þeir.

Ég fór fyrst á Þingpalla fyrir rúmlega 30 árum og þá kvörtuðu menn undan vinnubrögðum. Í viðræðum við þingmenn vegna eldhúsdagsumræðna um daginn kom fram í máli flestra nýju þingmannanna að þeim þótti margt mega betur fara í vinnubrögðunum - starfsháttunum :) (enginn sagði þó að þeir ættu að mótast meira af kristinni arfleifð!).

Í umræðum um skólafrumvörpin sagði Kolbrún Halldórsdóttir líka að umfjöllunin um þau hefði alls ekki verið næg, meðferðin einkenndist af "flaustri og fljótaskrift".

Manni finnst þó að þingmenn sem taka til máls ættu að vita um hvað þeir eru að tala. Svo var ekki í þessu tilviki.


jogus (meðlimur í Vantrú) - 30/05/08 13:10 #

Ekki bara ríkiskristniboðar - allir kristnir söfnuðir hljóta að eiga skotleyfi á börnin okkar núna. Ég meina, hverjir eiga meira sameiginlegt með týpískum kristnum prestum fyrir 2-300 árum síðan á Íslandi: Þórhallur Heimisson og Bjarni Karlsson eða Gunnar í Krossinum og Snorri í Betel? Það er verið að vísa í kristna arfleifð, right? Ekki kristinn nútíma. Þetta er eitt af stóru vandamálunum við þessa klausu, það er hægt að túlka þetta hvernig sem er því það vill enginn segja hvað þetta þýðir.


Arnar - 30/05/08 13:23 #

Kristin arfleifð..

.. eina sem ég man eftir er: bann við dans og skemmtun, galdrabrennur og hálshöggnum kaþólikkum.


Baldvin Örn Einarsson - 30/05/08 15:11 #

Jú, vissulega eru þingmenn bara fólk eins og aðrir og skiljanlegt á margan hátt að þeir geti ekki þaullesið allt sem fyrir þá er lagt. En ummæli sem menn hafa látið falla í þessari umræðu eru alveg hreint með ólíkindum og einnig sú þrákelkni sem sumir hafa sýnt við að viðhalda eigin misskilningi þrátt fyrir ítrekaðar leiðréttingar.

Álit mitt á íslenskum stjórnmálamönnum yfirleitt hefur minnkað mikið á undanförnum misserum af ýmsum ástæðum og þetta var einfaldlega kornið sem fyllti mælinn, ég held ég skili auðu meðan þetta er úrvalið...


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 30/05/08 15:39 #

Skilir þú auðu fá aðrir að velja þingsetana. Kjóstu frekar þann illskásta.

Svo má beita sér innan stjórnmálaflokkanna eða þrýsta á valda stjórnmálamenn. Þá þarf að ákveða hvort maður reynir að hafa áhrif á þann sem er A) næst manni (mestar líkur á hljómgrunni), B) fjærst manni (mest þörf á breytingu) eða C) þann sem líklegastur er til að fá einhverju ráðið.

Óháð þessu er best að liggja ekki á skoðunum sínum og reyna að opna augu annarra - það skilar sér í atkvæðum þeirra og stefnu flokkanna.


Baldvin Örn Einarsson - 30/05/08 16:25 #

Já, þetta er náttúrulega alveg rétt hjá þér, og ég ligg nú venjulega ekkert sérstaklega á skoðunum mínum, þó ég hafi nú kannski ekki hátt heldur.

Undanfarið hefur mér bara fundist ekki mega á milli sjá hvaða flokkur spýr frá sér mesta kjaftæðinu.

En nóg um það ... :)


Baldvin Örn Einarsson - 01/06/08 20:05 #

Er það rétt sem mér sýnist, að ekki hafi verið minnst einu orði á þetta mál í fjölmiðlum?

Jah, fyrir utan kannski óbeint í mjög ruglingslegri grein Bjarna Harðarsonar í 24 Stundum í gær, "víííltu hnífapör".

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.