Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Baráttan gegn kristinfræðikennslu

Það fer víst fram barátta gegn kristinfræðikennslu á Íslandi. Svo segir þingmaðurinn Bjarni Harðarson allavega þegar hann "rökstyður" það að greiða atkvæði með breytingatillögu um að skólastarfi skuli meðal annars mótast af "kristinni arfleifð íslenskrar menningar". Það var reyndar fátt um svör hjá honum þegar hann var beðinn um að benda á hvar þessi barátta færi fram og hann náði ekki heldur að útskýra hvers vegna þessi lagaklausa tengdist þessari ímynduðu baráttu.

Þó var Bjarni ítrekað spurður út í þessi mál. Hann tók leið pólitíkusins og svaraði fyrst bara einhverju allt öðru en hann var spurður um. Síðan þegar honum var bent á að ummæli hans væru ósönn þá tók hann upp því að vera sár yfir því vera kallaður lygari. Flestir sem eru ásakaðir um lygar að ósekju nota sannleikann sem vopn á móti, þeir sem raunverulega segja ósatt nota sárindarökin.

Undir lokin kom kaþólskur forritari sem greinilega hafði leitað vel og vandlega á Vantrú að einhverju sem mæti túlka sem "barátta gegn kristinfræði". Það sem hann fann var ekki merkilegt. Það var grein eftir Brynjólf Þorvarðsson þar sem fjallað er um kristinfræðikennslu í sögulegu samhengi. Klausan sem forritarinn taldi bera vitni um baráttu gegn þessari námsgrein var á þá leið að rökin sem voru sett fyrir því að kenna hana til að byrja með væru fallin. Þar fylgdi engin krafa um að hætt yrði að kenna kristinfræði. Þó rökin væru aum ákvað Bjarni að hengja sig í þeim. Hann lýsti því yfir að hægt væri að finna pistla á Vantrú þar sem talað er gegn kristinfræði.

Ef umrædd grein er hins vegar sett í samhengi við annað sem hefur verið skrifað á Vantrú er ljóst að það er fáránlegt að skilja þessa klausu á þann veg að hún sé hluti af einhverri "baráttu gegn kristinfræði". Í þau nærri fimm ár sem vefritið hefur verið starfandi hefur oft verið talað um þessi mál. Afstaða okkar er vel skýrð í gamalli grein eftir Birgi Baldursson þar sem stendur:

Það er vægast sagt ótrúlegt að horfa upp á málflutning trúmanna í allri þessari umræðu um trúboð í skólum. Það er eins og flestir þeirra vilji ekki skilja að annars vegar er verið að tala um kennslu í kristnum fræðum, hinsvegar um beinhart trúboð.

Því eru helstu rök þessa fólks að gera okkur trúleysingjum það upp að vilja ekki að kristin fræði séu kennd innan veggja skólanna. En það er auðvitað alrangt.

Ef einhver heldur að þetta sé einsdæmi í grein á Vantrú þá er hægt að benda á mjög nýlega grein eftir formanninn sjálfan:

Við viljum hafa góða kennslu í trúarbragðafræði og teljum eðlilegt að kristin trú fái þar meiri sess en önnur trúarbrögð í ljósi sögunnar. Aftur á móti er ótækt að trúboð eigi sér stað á þeim vettvangi. Trúboð á að fara fram á heimilum og í kirkjum, ekki skólum sem eru fyrir alla óháð trú. Við getum bent á ótal dæmi um trúboð í kristnifræðikennslu hér á landi.

Baráttan er semsagt gegn trúboði en ekki kennslu um kristni.

Nú gæti einhver haldið að Bjarni Harðarson sé bara að misskilja þetta allt saman, að hann sé bara fáfróður málin og ekki að segja viljandi ósatt. Því miður virðist svo ekki vera. Fyrri stuttu senda Vantrú tilkynningu á alla þingmenn, þar á meðal Bjarna, þar sem afstaða okkar var skýrð. Í stuttu máli sögðum við að að okkur þætti rétt að meira væri fjallað um kristni í skólum en önnur trúarbrögð. Eftir að hafa fengið þessa tilkynningu fór Bjarni í ræðustól og talaði um baráttuna gegn kristinfræði. Þá fór formaður Vantrúar á fund hans og útskýrði málið og bað hann um að leiðrétta misskilninginn. Þrátt fyrir það hélt Bjarni áfram að tala um "baráttuna gegn kristinfræði". Það er því ljóst að Bjarni ætti að vita sannleikann.

Hvað veldur þessu? Nú er Bjarni trúleysingi og ætti að hafa einhvern skilning á málstaðnum. Getur skýringin legið í því að sökum trúarskoðanna sinna þá sé hann hræddur um stöðu sína í hinum Framsóknarflokknum vegna þess hve kristileg viðhorf fá þar sífellt meira vægi? Gæti verið að hann sé að reyna að sanna að hann sé "þægur" trúleysingi sem er tilbúinn til að þjóna kirkjunni þrátt fyrir trúarafstöðu sína? Þessum spurningum getur Bjarni einn svarað. Það er allavega ljóst að ef Bjarni hefur rétt fyrir sér að í gangi sé einhver "barátta gegn kristinfræði" þá fer hún svo leynilega fram að ég hef ekki tekið eftir henni.

Óli Gneisti Sóleyjarson 02.06.2008
Flokkað undir: ( Skólinn , Stjórnmál og trú )

Viðbrögð


Teitur Atlason (meðlimur í Vantrú) - 02/06/08 08:30 #

Bjarni réttlætir þennan órétt (trúboð í skólum) á þann hátt að ef ekki væri fyrir ríkiskirjuna, þá færi hér allt í bál og brand í trúmálum landsmanna. Hann telur að ef ekki væri fyrir ríkistrúboðið þá myndi landið allt fyllast af hatursprestum með gríðarstóra söfnuði. Svo ekki sé talað um uppgang islam....

Þessi sérkennilegi mannskilningur Bjarna Harðarssonar á Íslendingum og vantraust hans á andlegum stöðugleika landsmanna (og kjósendum hans sjálfs...) er honum til vansa.

Bjarni er sennilega, eins og Óli Gneisti segir, að reyna að slá pólitískar keylur með þessu nuddi við ríkiskirkjuna.

Staðreyndin er að Bjarni er ekkert skárri en hatursprestarnir og islamistar. Hann á í engum erfiðleikum með að spyrða saman trú á ógeðfelda mannfórn saman við lög og reglur sem í samfélaginu eiga að gilda.

-Hann ætti að skammast sín.


danskurinn - 02/06/08 12:26 #

[athugasemdir við ritstjórnarstefnu fara á spjallborðið]


Svanur Sigurbjörnsson - 02/06/08 13:53 #

Ég hlustaði á ræðu Bjarna Harðarsonar og nokkur andsvör hans við ræðu Steingríms J. Sigfússonar. Af þessu var ljóst að Bjarni hefur ekki skilning á sannfæringarfrelsi og útfærslu þess í opinberu menntakerfi. Steingrímur tuggði það ofan í hann að réttindin væru fyrir alla, ekki bara suma. Bjarni segist vera trúlaus því hann geri ekki upp á milli allra þeirra guða sem hafa verið til. Hann dásamar Þjóðkirkjuna sem fulltrúa hinnar "hógværu kristni" sem engum verði meint af. Sjaldan hef ég vitað metnaðarlausari trúlausan mann. Honum var svo tíðrætt um hina "fáu öfgafullu trúleysingja" sem væru varasamir og hann teldi sig tala fyrir munn stærri hóps trúleysingja sem væru sáttir við Þjóðkirkjuna og settu sig ekki á móti "kristinni arfleifð íslenskrar menningar" í lagafrumvarpinu. Hvar eru þessir trúleysingjar Bjarna? Hvaða umboð hefur hann, annað en frá kjósendum sínum sem eru flestir trúaðir? Þessi upphafning hans á sjálfum sér sem einhverjum fulltrúa og málssvara trúleysingja á Íslandi fannst mér með ólíkindum og verð að taka sem ímyndun hans ein, nema að hann sýni fram á fylgi sitt við skoðun sína meðal trúleysingja. Sannarega eru stærstu samtök trúlauss fólks hér á landi ekki með honum að máli þ.e. Siðmennt, Vantrú og Skeptíkus. Er hann í sambandi við einhverja hulduhópa meðal trúlausra eða kannski bara nokkra jábræður. Mér þætt vænt um að hann sýndi fram á þennan meirihluta sinn.


Sigurður Karl Lúðvíksson - 02/06/08 14:14 #

Strákar mínir, ekki búist þið við heilindum af þingmanni? Það er álíka sjaldséð og gvöð sjálfur.


Stebbz - 03/06/08 01:18 #

Málið er það sem hann fattar ekki að trúlaus börn myndu ekki hlusta á kristinlegt siðgæði, þó að það væri þá ekki nema bara út af nafninu til. Skil ekki afhverju þau taka ekki húmanisman og stefnu siðmenntnar þá frekar til fyrirmyndar?


Þórður Ingvarsson (meðlimur í Vantrú) - 03/06/08 03:56 #

Nú eða hafa þetta í þeirri mynd sem Þorgerður Katrín kom með:

Starfshættir leik- og grunnskóla skulu mótast af umburðarlyndi, jafnrétti, lýðræðislegu samstarfi, ábyrgð, umhyggju, sáttfýsi og virðingu fyrir manngildi.

Þetta er ekki flókið. Og á ekki að vera flókið.


Óli Gneisti - 03/06/08 15:03 #

Bjarni heldur áfram í færslu sem er full af mögnuðu rugli. Takið til dæmis eftir því þegar hann vísar á grein eftir mig og segir að þar sé Matti að kenna hann við lágkúru þó þar sé að ræða tilvitnun í Karl biskup!

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.