Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Predikun Karls Sigurbjörnssonar og andleg örbirgð hans

Kápa bókarinnar Þú sem ert á himnum

Nýverið hélt Karl Sigurbjörnsson, biskup Ríkiskirkjunnar, predikun í Hallgrímskirkju. Predikun þessi fjallaði að stórum hluta um tillögur Mannréttindaráðs Reykjavíkur [1] [2] um trúboð og aðkomu trúfélaga að skólum í Reykjavík. Hér verður rýnt í predikun síra Karls og hún rædd.

Predikunin

Karl fer í þessari predikun með nokkrar rangfærslur. Þær eru þessar helstar:

Karl segir að „Íslensk þjóðmenning [sé] byggð á kristindómnum. Kerfisbundið virðist vera unnið að því að fela þá staðreynd og víða ráð [sic] för skefjalausir fordómar gagnvart og andúð á trú, sérílagi kristni og Þjóðkirkju.“

Íslensk þjóðmenning reiðir sig í nútíma ekki á kristindóm. Ekkert í okkar þjóðlífi, siðferði, siðum eða menningu hefur svo mikil tengsl við kristni, að samfélagið geti ekki án kristni verið. Tæplega verðum við öll rænandi, ruplandi og meiðandi ef við höfum ekki kristindóminn til að minna okkur á að vera stillt og góð? Nei, samfélagið refsar þeim sem ræna, rupla og meiða - og flestir láta sér það að kenningu verða. Gvuð og eilíf vist í himnaríki kemur því ekkert við að fólk almennt haldi sig á mottunni í samfélaginu.

Og hvernig á það að geta staðist að bann við trúboði í skólum sé til þess að „fela þá staðreynd“ að Ísland hafi verið undir áhrifum kristni? Engu verður breytt í kennslu - og ekki stendur til stórfelld ritskoðun á skólabókum og öðrum ritum. Ekkert er, eða verður, falið!

Fordómar þeir sem Karl nefnir, eru sjaldnast fordómar, heldur yfirleitt vel rökstudd gagnrýni á kirkju og trúarbrögð. Gagnrýni sú spannar nú nokkrar aldir. Ég hygg, að ef Karl myndi nú taka sér bók í hönd og lesa eitthvað um þá gagnrýni, að hann yrði nokkru nær. Karl myndi líklega komast að því líka, að helstu gagnrýnendur kristinnar trúar hafa sjálfir verið kristnir á einhverjum tímapunkti - tæpast eru það fordómar! Ég mælist til þess að Karl lesi sér betur til, áður en hann tjáir sig frekar. Í öllu falli mætti hann lesa aðeins um málið á Vantrúarvefnum.

Karl segir næst:

Trúfrelsi er skilgreint sem útilokun trúar frá hinu opinbera rými, uppeldi, kennslu. Sem mun þó einungis stuðla að fáfræði, fordómum og andlegri örbirgð. Það má sannarlega sjá í drögum að samþykkt Mannréttindaráðs Reykjavíkurborgar, sem krefst þess að lokað verði á aðkomu kirkjunnar að skólunum, kirkjuferðir verði bannaðar og sálmasöngur og listsköpun í trúarlegum tilgangi sömuleiðis. Ættarmótið leynir sér ekki!

Karl fer hér aftur með staðlausa stafi. Karl heldur því fram, sem hann hefur gert áður [1] [2] að það að trúa ekki á Gvuð, muni á einhvern hátt leiða til verra sálarlífs og verra lífs yfir höfuð. Kallar hann það örbirgð. Þetta er líka rangt. Trúleysingjar eru almennt upplýstari um trúmál en trúmenn, trúleysingjar eru álíka vel menntaðir og þeir sem trúa (sjá hér, bls 24.) og trúleysingjum, eftir því sem ég best veit, líður álíka vel og öðru fólki. Nema að hann meini eitthvað allt annað með örbirgð?

Karl segir líka að ferðir í kirkjur verði alfarið bannaðar. Þetta er ekki rétt túlkun. Heimsóknir verða leyfilegar, en ekki í þeim tilgangi að innræta trú á almætti í krakkana. Ef tilgangurinn er að skoða kirkjuna og fræðast um hana, þá er það leyfilegt.

Áfram heldur Karl og segir:

Mannréttindaráð vill banna það að Gídeonfélagið megi afhenda grunnskólabörnum Nýja testamentið að gjöf. Á vettvangi skólans skal börnunum meinað að kynnast því riti sem er lykillinn að skilningi á listum og bókmenntum heimsins, og kristinni trú og sið Íslendinga, - og sem grunnskólinn á reyndar að lögum að byggja á og fræða um. [..]

Hér mætti ætla að Karl hafi ekki skoðað tillögur Mannréttindaráðsins. Hið rétta er að skólabörn munu ekki fara á mis við Nýja testamentið, þau munu halda áfram að fræðast um það rit, í kristinfræðitímum. Vissulega á að meina Gídeonfélaginu að gefa Nýja Testamentið í skólanum, en það er ekki þar með sagt að skólakrakkar muni ekki fræðast um þetta rit. Svo er ekkert sem meinar Gídeonfélaginu að senda bókina í pósti eða senda þeim gjafabréf fyrir bókinni. Það sem er verið að loka á er að bókin verði gefin á skólatíma, og að mögulegt trúboð, til dæmis í formi bæna, geti átt sér stað.

Eins skal í nafni mannréttinda ekki lengur kalla til presta og djákna þegar áföll verða heldur svonefnda „fagaðila“. Með þessu er gert lítið úr menntun og reynslu kirkjunnar þjóna hvað varðar sálgæslu og samfylgd við syrgjendur, og sem flestir Íslendingar kjósa reyndar að þiggja. Þetta er illa dulbúin atlaga að faglegum heiðri presta og djákna og útilokun þeirra frá því að sinna starfi sínu. Allt ber þetta að sama brunni.

Karl dylgjar hér um sálfræðinga og félagsráðgjafa, sem Mannréttindaráðið vill heldur að sinni þessum lið í skólastarfinu. Þykir Karli ekki undarlegt að kalla til fulltrúa trúfélags - sem hefur það að markmiði, fyrst og síðast, að boða sín trúarbrögð - þegar áföll dynja yfir? Kannski ekki. En það þykir öðrum óeðlilegt, og þykir mér líklegt að það sé ástæðan fyrir þessari tillögu Mannrétttindaráðs.

Ég vil líka benda lesendum á að það er talsverður munur á menntun og reynslu sálfræðinga og félagsráðgjafa annars vegar og presta hins vegar. Menntun presta felst aðallega í að kanna og ræða plögg sem eru nokkuð komin til ára sinna - Biblían er nokkuð gamalt rit. Reynsla þeirra felst fyrst og fremst í messuhaldi, fermingarfræðslu og skírnum. Þeir sinna nokkuð af sálgæslu, sem þeir kalla svo, en það er ekki kjarninn í þeirra starfi. Sálfræðingar og félagsráðgjafar hins vegar hafa það að sérsviði sínu að aðstoða fólk sem einhverra hluta vegna á í erfiðleikum. Þeirra menntun er fyrst og fremst fólgin í því að skilja orsakir hegðunar og samspil við samfélagið sem og finna aðferðir til að bæta úr vanda fólks . Reynsla þeirra er fólgin í því að vinna á hverjum degi með fólki sem þarfnast aðstoðar vegna erfiðleika sinna.

Má og við bæta að í prestsnámi við Háskóla Íslands eru einungis tvö námskeið sem fjalla um sálgæslu. Þau eru valnámskeið bæði tvö. Sálfræðingar og félagsráðgjafar taka hins vegar mörg skyldunámskeið í fræðum sem varða aðstoð við fólk í vanda.

Munurinn á prestastéttinni annars vegar og hins vegar sálfræðingum og félagsráðgjöfum er augljós - og það er engin ástæða til að gera lítið úr reynslu og þekkingu sálfræðinga og félagsráðgjafa, eins og Karl gerir með gæsalöppum sínum.

Örbirgð Karls Sigurbjörnssonar

Því má vel halda fram að Karl Sigurbjörnsson búi sjálfur við „andlega örbirgð“. Í fyrsta lagi hefur hann litla þekkingu á trúleysingjum, en tjáir sig þó títt um trúleysi og trúleysingja. Verður það að teljast heldur lélegt fyrir guðfræðing og biskup. Í öðru lagi virðist hann ekki átta sig á virkni samfélagsins; trú á gvuð og himnaríki stjórna ekki réttlætiskennd fólks, heldur annað fólk í kringum það. Í þriðja lagi er eins og sérann þekki ekkert til gagnrýni á kirkju og trúarbrögð. Sérann ætti kannski að kíkja upp úr bókhaldinu og skoða gagnrýni á þá stofnun sem hann veitir forstöðu? Hann ætti kannski að glugga í nokkrar bækur um málið?

Guðmundur D. Haraldsson 31.10.2010
Flokkað undir: ( Efahyggja )

Viðbrögð


Hanna Lára (meðlimur í vantrú) - 31/10/10 11:55 #

Ég dáist að þér, GDH, að nenna að standa í að reka ofan í menn bullið sem þeir láta sér um munn fara.

Grein þín er vel grunduð, skýr og skilmerkileg og ætti auðvitað að birtast opinberlega.

Karl og aðrir sérar hafa greiðan aðgang að áheyrendum, bæði gegnum kirkjurnar og í fjölmiðlum (sunnudagsmessan) að breiða út ósannindi og óhróður.

Því miður eru alltof margir sem trúa þessu bulli Karls og annarra á sömu slóðum. Því ber að þakka fyrir svona greinar.


Ásgeir Helgi Hjaltalín - 01/11/10 10:49 #

Flott grein GDH! Má ekki leyfa þeim að komast upp með svona rugl.


Halldór Logi Sigurðarson - 01/11/10 21:20 #

Verst að biskup mun örugglega aldrei lesa þetta.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.