Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Vel gert DV!

DV

DV birti grein undir heitinu "Láttu ekki plata þig" í helgarútgáfu blaðsins. Í greininni er farið yfir allrahanda húmbúkk sem verið er að selja fólki á Íslandi og víðar. Frábært hjá þeim. Það var mikið að einhver fjölmiðill tók sig loksins til og birti einhverja gagnrýni á það ógrynni af kjaftæði sem hefur annars fengið að viðgangast nánast gagnrýnis- og athugasemdalaust í fjölmiðum undanfarin ár og áratugi.

Gagnrýnisleysið sem hefur einkennt viðtöl og blaðagreinar um hvað það sem hefur eitthvað með hindurvitni og gervivísindi að gera er svo svakalegt á köflum að það mætti að halda að hér sé verið að ræða um meðvitaða ásókn í fávisku. Vonandi verður þessi umfjöllun í DV til að rugga bátnum aðeins hvað það varðar.

Í grein DV er rætt við nokkra valinkunna sérfræðinga um sjónþjálfun, detox, bowen-tækni, LifeWave-plástra, Power Balance, blómadropa, The Secret og fleira endemis rugl. Hvert og eitt þeirra á skilið þá útreið sem það fær og gott betur. Það mætti halda að þessir blaðamenn hafi aðeins verið að skoða Kjaftæðisvaktina á Vantrú.

Kjaftæðisvaktin?

Við á Vantrú höfum verið með temmilega öfluga samfélags- og neytendaþjónustu er við köllum Kjaftæðisvaktina. Kjaftæðisvaktin hefur starfað síðan síðla árs 2004. Í Kjaftæðisvaktinni vekjum við athygli á ýmsu kjaftæði sem viðgengst í fjölmiðlum og netheimum. Við reynum eftir mesta megni að vera vakandi fyrir allskyns húmbúkki sem er gagngert ætlað til að féfletta fólk með innantómum loforðum um bætt líf og/eða bætta heilsu.

Það hefur því miður borið of oft við að íslenskir fjölmiðlar hafa kóað með og jafnvel ýtt undir allskyns heimsku, vitleysu og þvætting þegar kemur að furðuhlutum einsog; smáskammtakukli, spákvistum, fjarskynjun, heilun og öðrum fíflalegum fyrirbærum.

Okkur finnst það í sjálfu sér vítavert þegar illa innréttaðir einstaklingar reyna pranga bölvaðri steypu og rugli inn á fólk með því að notfæra sér almenna fáfræði og/eða vankunnáttu fólks á vísindalegum vinnubrögðum. Það að eitthvað hljómi vísindalega þarf ekki þýða að um alvöru vísindi sé að ræða. Það verður að teljast allt að því glæpsamlegt þegar fjölmiðlar ýta undir þesskonar hegðun þegar þeir gefa kuklurunum vægi með gagnrýnislausri blaðaumfjöllun.

Einn mesti skaði sem fjölmiðlar geta valdið með meðvirkni sinni varðar almennt heilsu fólks. Má þar nefna lífshættulega hluti einsog alnæmi og krabbamein; illkynja eða góðkynja æxli, og lífsnauðsynlega hluti á borð við bólusetningar. Þetta eru viðkvæmir hlutir sem á ekki að hafa í einhverjum flimtingum og hvað þá að gefa einhverjum fáfróðum rugludöllum færi á að grautast í málefnum sem er í raun einungis á færi sérfræðinga að hrærast í.

Fjölmiðlar: takið ykkur tak

Fjölmiðlar eiga að vera upplýsandi, ekki forheimskandi. Þó það geti verið fróðlegt að lesa um manneskju sem „sigraðist“ á krabbameini með einhverjum náttúrulegum remedíum þá er varla hálf sagan sögð . Það að barn fái bólusetningasprautu á unga aldri og greinist með einhverfu (eða einhvern sjaldgæfan sjúkdóm) síðar á ævinni þarf ekki að þýða að það tvennt tengist á nokkurn hátt.

Það ætti að vera skylda viðkomandi blaðamanns að leita upplýsinga hjá fleiri en einum aðila þegar um umdeilda hluti er að ræða. Blaðamenn verða að láta af þeim slæma ósið er mætti kalla töfrahugsunarhátt. Galdrar eru ekki til, yfirnáttúra er rugl. Svo vitnað sé í tvo spekinga: Ótrúlegar staðhæfingar þarfnast ótrúlegra sannana. Og; það sem er sett fram án sannana er hægt að afskrifa án sannana.

Það er nauðsynlegt að fjölmiðlar verði meira vakandi fyrir bulli sem gerir í raun ekkert annað en að rugla fólk í ríminu og gæti á endanum ollið óbætanlegu tjóni ef því er leyft að grassera í þjóðfélaginu án teljandi gagnrýni eða athugasemda. Við eigum að efla fræðslu, ekki draga úr henni. Auka á gagnrýna hugsun og auk þess krefjast af fólki sem staðhæfir einhver ótrúlegheit að það vísi í almennilegar sannanir.

Ef engar eru sannanir þá skal sá sem vekur athygli á ótrúlegheitunum afla sér sannana og gagna eða þegja ella. Það er engin skömm að því að hafa rangt fyrir sér endrum og eins. En fólk á að skammast sín fyrir að vekja athygli sömu eða enn einni helvítis dellunni sem skemmir bara fyrir þeirri gagnlegu upplýsingaöflunar sem við höfum nú þegar: vísindalegum vinnubrögðum.

Því eiga blaðamennirnir á DV hrós skilið fyrir umfjöllun sína og vonandi verður hún öðrum fjölmiðlum sem vilja láta taka sig alvarlega til eftirbreytni.

Fréttablaðið og Morgunblaðið; ykkar leikur.

Þórður Ingvarsson 12.05.2012
Flokkað undir: ( Kjaftæðisvaktin , Leiðari , Vísun )

Viðbrögð


Matti (meðlimur í Vantrú) - 12/05/12 19:28 #

Það verður samt að taka fram að aftar í sama blaði eru frekar hæpnar fullyrðingar um mataræði og megrun.


Óskar P. Einarsson - 14/05/12 10:02 #

Fín grein hjá DV. Samt alveg rosa fyndið að á sömu forsíðu var líka vísað í greinina "MATUR SEM GRENNIR ÞIG", hehe!


Kristján (meðlimur vantrú) - 15/05/12 02:32 #

Vá hvað það gladdi yfir mér þegar ég sá þessa grein hjá DV.


Jon Steinar. - 17/05/12 08:07 #

Nú var verið að sekta amerískt skófyrirtæki um milljarða fyrir að halda því fram að einhver skótýpa væri grennandi og gæti gefið stinnan rass. Neytendur kærðu. Af hverju skyldu ginkeyptir neytendur aldrei kæra þessar vörur sem höfða til yfirnáttúru eða hafa engin vísindi á bakvið sig? Hómópatía selur vatn við öllum krankleikum t.d. og engin leið að hún hafi læknað nokkurn mann, en samt er hún viðurkennd af hinu opinbera og fær meira að segja ríkisframlög í Bretlandi og víðar.

Er nokkur leið að sporna við svona dellu nema að vísindamenn bindist einhverskonar samtökum, sem taka að sér að kæra svona rugl? Einhverskonar vörusvikanefnd heilbrigðisgeirans.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.