Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Um vísindi og gervivísindi

Við höfum öll heyrt fólk nota orðið gervivísindi (pseudoscience) í niðrandi merkingu um ákveðin fræði eða kenningar sem viðkomandi telur ekki eiga við rök að styðjast. En hvað eru gervivísindi og hvernig eru þau frábrugðin því sem kalla má „alvöru” vísindi? Sumir nota orðið gervivísindi (eða samheitið hjáfræði) um fræðigreinar á borð við sálfræði, félagsfræði og jafnvel heimspeki, í þeirri trú að aðeins „hörð” vísindi eins og eðlis- og efnafræði geti talist til vísinda. Rétt merking orðsins á þó við hugmyndakerfi sem eru sett fram á vísindalegan hátt án þess að vísindastarf liggi þeim til grundvallar.

Gerviskammtafræði

Þessar kenningar eru margvíslegar og ólíkar innbyrðis en eiga það sameiginlegt að reynt er að gefa þeim ásýnd vísinda án þess að innistæða sé fyrir því. Algengt er að notast sé við orð eða hugtök sem hafa yfir sér vísindalegan blæ þegar vara eða aðferð er kynnt, án þess að þau komi því nokkuð við sem verið er að kynna. Hver man t.d. ekki eftir vísunum til skammtafræði í kringum Secret æðið hér um árið. Þó átti bókin og hugmyndafræðin á bak við hana alls ekkert skylt við skammtafræði.

Það er einmitt nokkuð algengt viðkvæði hjá þeim sem halda fram hæpnum staðhæfingum að vegna þess að skammtafræðin hefur sýnt okkur fram á að heimurinn er flóknari en okkur óraði fyrir þá getum við í raun ekkert sagt um hvað sé hægt og hvað ekki. Og vegna þess hvað skammtafræðin er flókin og erfitt er að skilja hana getur fólk staðhæft hitt og þetta um það hvað skammtafræðin segi okkur án þess að eiga á hættu að venjulegt fólk sjái í gegnum það. Jafnvel þó viðkomandi viti ekki meira um skammtafræði en viðmælandinn.

Þetta á við um fleiri fræðigreinar en skammtafræðina. Þetta er til að mynda ástæðan fyrir því að oft sjást ýmisskonar heilsubótarvörur auglýstar með vísunum til „quantum”-virkni, eða að varan virki á „sameinda stiginu” (molecular-level) eða valdi jafnvel segul- eða tíðnisviði í líkamanum.

Ekki-vísindi

Það er einmitt aðalsmerki gervivísinda að notast við óljósar skilgreiningar og víð viðmið á borð við þessi þegar kemur að því að rökstyðja staðhæfingar. Svo dæmi sé tekið af óhefðbundnum meðferðum þá er sjaldséð að þar sé lofað bata á ákveðnum sjúkdómum eða vandkvæðum. Algengara er að lofað sé bættri alhliða líðan, aukinni orku, betri einbeitingu eða öðru því sem ekki er jafnt auðvelt að skilgreina eða mæla og t.d. sótthita eða fjölda hvítra blóðkorna.

Óspart er gripið til vitnisburða (anecdotes) til að rökstyðja virkni meðferðarinnar í stað þess að rannsaka hana á hlutlægan hátt, en eins og sagt er þá jafngilda margir vitnisburðir ekki gögnum („the plural of anecdote is not data”).

Vísindi eru fyrst og fremst ákveðin aðferð. Gervivísindi er einfaldlega það sem lítur á yfirborðinu út fyrir að vera vísindalegt en er það ekki vegna þess að aðferðum vísindanna hefur ekki verið beitt til að komast að því sem haldið er fram.

Ögn um vísindi

Raunverulegar vísindakenningar eru studdar rannsóknum sem hver sem er getur endurtekið og fengið sambærilega niðurstöðu. Þær útskýra fyrirbrigði á þann hátt að ekki stangast á við eldri kenningar eða náttúrulögmál. Niðurstöður eru birtar í ritrýndum tímaritum þar sem öðrum fræðimönnum er gefinn kostur á að gagnrýna niðurstöðurnar og aðferðirnar sem beitt er.

Aðferðum og tilraunaaðstæðum er lýst nákvæmlega til að auðvelda endurtekningu. Reynt er eftir bestu getu að takmarka skekkju í mælingum með ýmsum aðferðum, t.d. með því að nota viðmiðunarhópa, „blinda” þátttakendur og rannsakendur svo að þeir viti ekki hvenær tilraunaaðstæður eigi við o.s.frv. Síðast en ekki síst þarf vísindakenning að vera nógu afmörkuð til að hægt sé að sýna fram á að hún sé röng með því að fá niðurstöður sem ganga gegn henni.

Tíu vísbendingar um gervivísindi

Til einföldunar má segja að ef eitthvað af eftirtöldu á við um ákveðna kenningu eru miklar líkur á að um gervivísindi sé að ræða (svo ekki sé talað um ef margt af neðangreindu á við):

  1. Ekki er hægt að afsanna kenninguna.

  2. Forsvarsmenn kenningarinnar slá um sig með frösum og hugtökum sem ekki er ljóst hvernig tengjast kenningunni (orð á borð við tíðni, orkusvið, skammtur (quantum), DNA eða stofnfrumur eru notuð þar sem þau eiga ekki við).

  3. Upphafsmaður kenningarinnar vann að rannsóknum sínum í einangrun og hefur ekki gefið út fræðigreinar.

  4. Forsvarsmenn kenningarinnar halda því fram að samsæri gegn kenningunni viðgangist meðal fræðimanna og/eða lyfjaframleiðenda.

  5. Kenningin er sögð byggjast á aldagömlum fræðum sem nýlega hafi verið enduruppgötvuð (eða nýlega borist til vesturlanda frá fjarlægum slóðum).

  6. Helsti stuðningur við kenninguna byggir á vitnisburðum (anecdotes).

  7. Kenningin byggir á fornum textum eða helgiritum frekar en rannsóknarniðurstöðum.

  8. Setja þarf fram ný náttúrulögmál eða breyta eldri lögmálum til að kenningin fái staðist.

  9. Ekki er hægt að mæla það sem kenningin snýst um eða áhrif aðferðarinnar þverra skyndilega sé reynt að mæla þau.

  10. Kenningin byggist á öflum eða hæfileikum sem ekki eru öllum aðgengileg (s.s. skyggnigáfu eða trúfestu).

Að sjálfsögðu er ekki sjálfkrafa hægt að slá því föstu að einhver tiltekin kenning sé gervivísindi þó að eitthvað af ofangreindum atriðum eigi við, en það bendir þó til þess að ekki sé allt með felldu.

Tengdar greinar:

Baldvin Örn Einarsson 10.02.2010
Flokkað undir: ( Efahyggja , Efahyggjuorðabókin , Kjaftæðisvaktin )

Viðbrögð


Arnar - 10/02/10 09:10 #

"Setja þarf fram ný náttúrulögmál eða breyta eldri lögmálum til að kenningin fái staðist."

Er nú ekki jafnvel frekar algengt að nýjar kenningar breyti eldri lögmálum? Eins og td. þyngdarlögmál Newton vs. afstæðiskenning Einstein?


Baldvin (meðlimur í Vantrú) - 10/02/10 09:20 #

Eins og ég segi í greininni þá er ekki sjálfkrafa um gervivísindi að ræða þó að eitthvað af þessu eigi við. Þó að það komi vissulega fyrir að fullgildar kenningar kollvarpi áður viðteknum lögmálum, eins og afstæðiskenningin og skammtafræðin gerðu t.d. er það miklu algengara að þær kenningar sem krefjast breytinga á lögmálum séu einfaldlega rangar. Sem dæmi má nefna hómópatíu, eilífðarvélar og margt fleira.


Haukur Kristinsson - 10/02/10 09:51 #

Athyglisverð grein og vel skrifuð. Í síðasta tölublaði Newsweek var merk grein eftir hina ágætu Sharon Begley; The Depressing News about Antidepressants. Þar vekur hún athygli á því að mikið notuð lyf við þunglyndi(Zoloft, Paxil, Effexor, Wellbutrin, Prozac, Serzone, Celexa), séu ekki virkari en Placebo, jafnvel verri. Að placebo effect sé í rauninni til við vissum sjúkdómum. Skýringin er sú, að placebo þ.e.a.s. trúin á „lyfið“ virki eins og „natural medication“. Hún kemur af stað losnun á efnum eins og Dopamines og Opiates í heilanum. Til eru heilar verslanir sem hafa á boðstólum ótrúlegt úrval fóðurbætiefni, vörur sem ég flokka undir rusl. En fólkið hefur trú að þessum pillum, getur svarið fyrir það að áhrifin séu góð (anecdotes)og framleiðandinn græðir. Oft getur maður dáðst af hugmyndafluginum á bak við nöfnin á þessu drasli.


Árni Þór - 10/02/10 19:43 #

Mér þykir nú nokkuð líklegt að tvíblindar ransóknir á virkni þessara lyfja hafi verið gerðar til þess einmitt að bera saman við lyfleysuáhrif.


Feyerabend - 15/02/10 14:57 #

Ég veit ekki betur en að þunglyndislyfin hafi verið þróuð samkvæmt stöðlum nútíma vísinda. Hvaða lærdóm má draga af því? Ef til vill hefur Begley ekki rétt fyrir sér, og hennar niðurstöður dregnar af lélegum rannsóknum, eða hún hefur rétt fyrir sér og vísindi, eins og þau eru stunduð, eru ekki alveg jafn hrein og klár eins og "ídeal" hugmyndin um þau. Í þessari grein er einmitt sett fram slík lýsing, en það er alveg hægt að benda á fjöldamargt í vísindum sem stangast á við hana.


Baldvin (meðlimur í Vantrú) - 15/02/10 15:16 #

Ég skil ekki alveg hvað þú átt við, Feyerabend.

Ef þú átt við það að fræðimenn starfi ekki alltaf samkvæmt þessum "ídeal" staðli vísindalegrar aðferðar þá er það svosem ekkert leyndarmál, enda eru fræðimenn bara menn eins og hverjir aðrir. En þar kemur yfirlestrarfyrirkomulagið (peer-review) og krafan um endurtekningu inn í. Þetta er það sem heldur vísindunum á réttum kúrsi. Þó að menn geti verið ósammála um einstaka atriði er það á endanum það sem betur stendur af sér vísindalega gagnrýni sem haft er fyrir satt.


Feyerabend - 16/02/10 09:32 #

Pointið er að það leynist einhver framfaragoðsögn þarna undir - einhver hugmynd um að hlutir leiðréttist. Kenningar dagsins í dag eiga allar eftir að breytast. Ekki endilega vegna þess að þær afsannist í tilraunum, heldur vegna þess að það koma fram ný sjónarhorn, ný hugtök, nýtt fólk.

Svo er ótalmargt sem telst til starfsemi vísinda þar sem engin krafa er um endurtekningu. Lyfjarannsóknir, sem nefndar eru í kommenti, eru gott dæmi. Þú veist sjálfsagt hvernig þær fara fram í grófum dráttum. Í tilfelli geðlyfja koma upp mörg erfið atriði, til dæmis hvernig á að meta árangur. Hvenær er maður þunglyndur og hvenær ekki þunglyndur, og er það vegna lyfsins eða vegna annarra hluta, tímans sem líður og svo framvegis. Það sem reynt er að gera með þær mælingar er svo tölfræðilegt próf, sem segir bara (ef vel á að vera) að það sé mjög ólíklegt að munur á hópum sé tilviljun. Þetta ferli er í ídeal heimi mjög strangt, og vel skilgreint. Látum vera að fyrirtækin svindli, en það sem má benda á er að þetta er mjög sérstakt form rannsóknar, og á lítið sameiginlegt með tilraunum í eðlisfræði, svo dæmi sé tekið. Hins vegar nota svokallaðir dularsálfræðingar sama prótókol og þykir sjálfum að þeir hafi fengið alls konar marktækar niðurstöður.

Þetta er orðið of langt, en það er margt og miklu fleira í þessu, og kannski ekki hægt að aðgreina vísindi frá gervivísindum með neinum einföldum hætti. (Það þýðir ekki að það sé ekki munur.)


Matti (meðlimur í Vantrú) - 16/02/10 09:35 #

Pointið er að það leynist einhver framfaragoðsögn þarna undir - einhver hugmynd um að hlutir leiðréttist

Uh, já. Er það virkilega goðsögn?


Feyerabend - 16/02/10 11:01 #

Já "leiðrétt" gefur í skyn að það sem kemur á eftir sé "rétt". Það sem er "rétt" í dag er hins vegar "rangt" á morgun, og það á ekki eftir að breytast...


Baldvin (meðlimur í Vantrú) - 16/02/10 12:35 #

Nei, leiðrétt gefur í skyn að það sem kemur á morgun sé réttara heldur en það sem haldið er fram í dag.

Ekki endilega rétt en þó í betra samræmi við raunveruleikann heldur en fyrri hugmyndir.

Það er einmitt kosturinn við hina vísindalegu aðferð að þar er sífellt verið að betrumbæta og laga hugmyndir að raunveruleikanum eins og hann birtist okkur í gegnum tilraunir og reynsluprófanir.

Góð hugmynd getur vikið fyrir betri hugmynd. "Rétt" hugmynd getur vikið fyrir réttari hugmynd.


Feyerabend - 16/02/10 15:50 #

Ég er ekki að reyna að rífast eða snúa út úr, en maður gæti spurt, hvað þýðir eiginlega "réttara"? Mér finnst undirliggjandi einhver hugmynd um að við séum smám saman að hnita okkur nær og nær sannleikanum - sem ég er ekki viss um að sé besta lýsingin.

Ég er ekki með þessu að neita því að það sé munur á visindum og fyrirbærum sem má kalla gervivísindi, en það getur verið að það sé ekki hægt að gefa fullkomna skilgreiningu sem aðgreinir. Hægt er að tala um gagnrýnisanda (inn í því er auðvitað ritrýni jafningja - sem er þó aldrei betri en þær manneskjur sem koma við sögu), traust gögn, skynsamlegar ályktanir, og þess háttar. Ég myndi kannski sérstaklega finna önnur einkenni en tilraunir og reynsluprófanir. Ef ég væri mjög harður á þessu getur maður fundið óteljandi hluti sem eru aldrei reynsluprófaðir, og annað sem dettur út, jafnvel þó það standist prófanir. Jarðmiðjukenningin stóðst allar prófanir - en hún meikaði bara ekki sens í hinu stóra samhengi, og vék fyrir gagnlegri lýsingu.

Yfir og út.


Baldvin (meðlimur í Vantrú) - 16/02/10 16:14 #

Ef heimurinn er á annað borð til, þá er hann einhvern veginn.

Rétt kenning er þá kenning sem lýsir því hvernig heimurinn er í raun og veru.

Kenning sem lýsir því betur hvernig heimurinn er í raun og veru heldur en einhver önnur kenning er því í þessum skilningi réttari en sú kenning.

Þannig var t.a.m. landrekskenningin ágæt, en flekakenningin betri, réttari.

Auðvitað er hægt að orða hlutina betur og kafa dýpra ofan í þá heldur en ég geri í þessari grein, enda er hún ekki löng.

Ég myndi nú samt segja að jarðmiðjukenningin hafi einmitt fallið vegna þess að hún stóðst ekki raunprófun. Um leið og menn höfðu forsendurnar og tæknina til að kanna hvernig sólkerfið var í raun og veru þá féll jarðmiðjukenningin.

En það er auðvitað rétt að suma hluti þýðir ekki að raunprófa. En umræða um A priori þekkingu er of flókin til að fara út í hér.

Það gæti hins vegar verið gaman að ræða það á spjallborðinu

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.