Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Arnarsjón í Fréttablaðinu

Örn

Í fylgiblaði Fréttablaðsins (Fólk – Heimili) þann sjöunda maí er umfjöllun um námskeið sem „sjónþjálfarinn“ danski Leo Angart ætlar að halda á Íslandi nú á næstunni. Angart er mikill kraftaverkamaður en hann getur læknað nærsýni, fjærsýni og sjónskekkju með því einu að kenna fólki að nota augun rétt.

Angart-sjón

Angart gengur reyndar lengra. Hann segir að með því að nota þessar æfingar geti fólk - og reyndar í þessu tilfelli börn því að til stendur að halda sérstakt barnanámskeið - ekki bara fengið fullkomna sjón heldur líka það sem hann kallar „arnarsjón“ sem ku vera „[...] betri en hefðbundinn mælikvarði á góða sjón“ eins og stendur í umfjölluninni.

Ástæður þess að fólk fer að sjá illa eru fyrst og fremst vegna rangrar notkunnar augna samkvæmt Leo Angart. Hann er síður en svo hrifinn af gleraugum. Hann heldur því fram að þau geri sjónina beinlínis verri þar sem þau verði líkust hækju fyrir augnvöðvanna og að augun verði hreinlega löt við notkun þeirra.

Þetta eru ansi nýstárlegar pælingar hjá herra Angart. Eða hvað?

Aðferð Bates

Fyrir rúmlega 120 árum setti bandaríski augnlæknirinn William Bates fram ákaflega líkar tilgátur og Angart gerir nú. Bates vildi meina að nær allir sjóngallar væru vegna of mikils álags á augun og að gleraugu gerðu bara illt verra. Hans lausn, líkt og hjá Angart, var sú að láta fólk gera æfingar. Eins og í tilfelli Danans gengu miklar tröllasögur um árangur þessara æfinga.

Því miður fyrir okkur sjóndapra fólkið hafa tilgátur Bates fyrir löngu síðan verið afsannaðar og sýnt hefur verið fram á að þær geti beinlínis verið skaðlegar þeim sem þær nota. Vonandi eru æfingarnar sem Leo Angart lætur fólk gera ekki hættulegar. Það er hins vegar erfitt að segja til um hvort að þær skili betri árangri en þær sem Bates fann upp.

Það virðast nefnilega ekki liggja neinar rannsóknir fyrir um aðferðir Leo Angart. Það sem við getum stuðst við eru rannsóknir á augnæfingum almennt. Niðurstöður úr þeim benda til þess að stórkarlalegar fullyrðingar um fullkomna sjón, og jafnvel ofurmannlega sjón, séu úr öllu hófi ýktar. Einhver árangur getur náðst við ákveðnum kvillum en engin við öðrum.

Hvað varðar hættuna við þær æfingar sem fólk er látið gera í dag er kannski ekki úr vegi að vitna bara beint í skýrslu sem samtök bandarískra augnlækna létu vinna fyrir sig og hlekkjað er í hér að ofan:

The only risk attributable to visual training is financial.
Eina áhættan sem er bundinn við augnæfingar er fjárhagsleg.

Auglýsing eða umfjöllun

Það væri kannski ofmælt að segja að það kostaði hvítuna úr augunum að fara á námskeið hjá Leo Angart en tuttuguþúsund krónur fyrir tveggja daga barnanámskeið og tíuþúsund ofan á það fyrir þá fullorðna er þó fullmikið af því góða þegar um er að ræða algjörlega óstaðfestar meðferðir.

Að lokum vildi ég aðeins minnast á þátt Fréttablaðsins varðandi þessa umfjöllun. Það er ómögulegt að greina hvort að um umfjöllun eða frétt sem blaðamaður á vegum blaðsins hefur unnið eða hvort að um er að ræða hreina auglýsingu. Í því samhengi er kannski ágætt að vitna í 9. grein siðareglna Sambands íslenskra auglýsingastofa:

9. grein
Auðkenning
Auglýsingar eiga að vera auðþekktar sem slíkar, burtséð frá því á hvaða formi þær eru og hvaða miðill er notaður. Þegar auglýsing birtist í miðli sem einnig birtir fréttir eða ritstjórnarefni, á framsetningin að vera þannig að hún sé auðþekkjanleg sem auglýsing og greinilega komi fram hver auglýsandinn er (sjá einnig 10. grein).
Auglýsingar eiga ekki að villa á sér heimildir um hver raunverulegur tilgangur þeirra er. Það á til dæmis ekki að kynna þær sem markaðsrannsóknir eða neytendakannanir ef tilgangurinn með þeim er viðskiptalegs eðlis, það er til að selja vöru.

Ef að um er að ræða auglýsingu í Fréttablaðinu má vera ljóst að hún er á ansi gráu svæði. Ef þetta er umfjöllun frá hendi blaðamanns þá er það auðvitað bara enn ein staðfestingin á því hversu mikil gróðrastía kukls og hindurvitna íslenskir fjölmiðlar eru að verða.


Ljósmynd frá Des Morris

Egill Óskarsson 10.05.2012
Flokkað undir: ( Kjaftæðisvaktin )

Viðbrögð


Ásta Elínardóttir - 10/05/12 09:37 #

Ég rakst einmitt á auglýsingaplakat uppi í Háskóla Íslands. Hló samt pínu þegar að ég áttaði mig á því að það hékk fyrir ofan ruslatunnurnar en því miður var það eflaust ekki með vilja gert.


Einar Karl Friðriksson - 10/05/12 09:52 #

Miðjukáflur Fréttablaðsins er kynntur með þeim orðum að þessi hluti blaðsins bjóði "auglýsendum að kynna vörur og þjónustu í formi viðtala og umfjallana".

Þannig að Fréttablaðið segir það berum orðum að blaðið fari ekki eftir siðareglum SÍA.

Ég er reyndar hræddum um að öll dagblöðin bjóði uppá kostaða umfjöllun (auglýsingar settar fram "í formi viðtala og umfjallana") með þessum hætti.


Jóhannes Kári Kristinsson - 13/05/12 12:36 #

Sem augnlæknir er ég oft spurður um þessar augnæfingar. Eins og hér kemur fram eru engar rannsóknir sem styðja þær og raunar forkastanlegt að í landinu megi ekki auglýsa augnlækningar en hins vegar er engin löggjöf sem bannar að auglýsa augnskottulækningar. Kærar þakkir fyrir að halda uppi gagnrýnni hugsun.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 13/05/12 18:43 #

Fréttastofa Stöðvar2 var með gagnrýnislausa frétt (auglýsingu) um þessar skottulækningar rétt í þessu. Næsta frétt var svo um innhverfa íhugun.


Þossi - 14/05/12 12:07 #

Og fréttin þar á eftir var um guðsþjónustu í sundi.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.