Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Post hoc rökvillan

Post hoc ergo propter hoc (gerist á eftir þessu - þar af leiðir: gerist sökum þess) rökvillan byggir á þeirri ranghugmynd að ef eitthvað á sér stað á eftir einhverju öðru hljóti það að vera sökum þess að fyrri atburðurinn leiddi af sér þann síðari. Post hoc rökleiðslan leggur grunn að fjölmörgum hindurvitnum og villukenndum trúarsetningum.

Ótal atburðir eiga sér stað í röð án þess að nokkur tengsl séu á milli þeirra. Sem dæmi má nefna þegar einhver fær kvef, tekur inn einhvern tiltekinn vökva og tveimur vikum síðar er kvefið farið. Annar fær hausverk, stendur á höfði og sex tímum síðar hverfur verkurinn. Enn annar setur græðandi krem á bólu og eftir þrjár vikur er hún horfin. Einhver leysir tiltekið verkefni af stakri snilld án þess að hafa farið í bað nýlega og sleppir því baðinu þegar kemur að því að vinna að samskonar verkefni. Sólmyrkvi verður og menn hamra trumbur sínar svo guðirnir hræki sólinn aftur út úr sér. Sólin birtist á ný og sannar þar með áhrifamátt trumbuleiksins.

Maður beitir spákvisti og finnur vatn. Annar óskar sér þess að skjaldamerkið komi upp þegar hann kastar upp tíkalli og skjaldamerkið kemur upp. Sá þriðji strýkur happagripinn sinn og fær óskir sínar uppfylltar. Svo tapar hann happagripnum og hittir ekki boltann sex sinnum í röð. Sá fjórði sér í hugsýn að lík muni finnast nálægt árbakka eða úti á akri og seinna finnst lík nálægt árbakka eða úti á akri. Þann fimmta dreymir að flugvél farist og næsta dag ferst vél eða þá að hún fórst kvöldið áður.

Hvað sem þessu líður þá hefur atburðaröð ekkert með mögulegt orsakasamhengi að gera frekar en fylgni. Tilviljanir eiga sér stað. Ef einhver atburður gerist á eftir öðrum er það ekki nægileg ástæða til að ganga út frá því að annar atburðurinn orsaki hinn. Ef hægt á að vera að meta líkindin fyrir orsakasamhenginu þarf að beita íhlutun svo koma megi í veg fyrir aðra þætti, svo sem tilviljanir og annað ófyrirséð. Vitnisburður nægir enganveginn því hann byggir á innsæi og huglægu mati. Samanburðarrannsóknir þarf til að minnka möguleikann á röngum niðurstöðum sem stafað geta af sjálfsblekkingu.

Upphaflega útgáfan af greininni og ítarefni

Greinin er þýdd og birt með leyfi höfundar Skeptic's Dictionary.

Birgir Baldursson 05.02.2004
Flokkað undir: ( Efahyggjuorðabókin , Rökvillur )

Viðbrögð

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.