Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Einyrkjar með spákvisti

Í tíufréttum RÚV í fyrrakvöld (ath. tengill hættir að virka innan tíðar) sagði frá fósturdauða meðal búpenings á austurlandi og hvernig menn væru að taka á því vandamáli með því að finna og uppræta rafsegulbylgjur. Þegar fréttin byrjaði fylgdist ég spenntur með, því ég er alveg tilbúinn að trúa því að rafsegulbylgjur geti valdið skaða, um leið og færð eru fyrir því haldbær rök. Spenna mín fólst því í því að sjá hvaða aðferðir yrðu notaðar og hvaða röksemdafærsla kæmi frá rannsakendum. Ég hugsaði: "Ekki kall með spákvist, ekki kall með spákvist, plís!"

En það var auðvitað enginn vísindamaður með fullt af rökum og sönnunargögnum sem birtist á skjánum, heldur nákvæmlega sá karakter sem ég óttaðist að sjá þarna: Einyrki með spákvist.

Spákvistur er íslenska orðið yfir það það tæki sem notað er við athöfn sem á ensku er kölluð dowsing. Menn hafa um langan aldur haldið því fram að með því að halda á prikum eða málmstöngum á ákveðinn hátt út frá líkamanum megi finna allan fjárann, vatnsrásir og málma í jörðu og svo auðvitað segulsvið.

Ekkert hefur komið fram við ítrekaðar rannsóknir á þessu sem bendir til nokkurs annars en að þarna séu menn að fara flatt á óskhyggju og auðugu ímyndunarafli.

Ég tók einu sinni viðtal við svona rafsegulmann sem ferðaðist um landið og seldi hrekklausum kukl sitt. Það má segja honum til afsökunar að sennilega trúði hann á aðferðir sínar sjálfur og var því ekki meðvitað að blekkja nokkurn mann. Samt blekkti hann fjölda fólks og hirti af því stórar upphæðir fyrir gagnlaust fimbulfamb út í loftið.

Þessi maður var ekki, eins og maður gæti þó hafa haldið, að reyna að mæla út rafsegulsvið af völdum háspennulína, spennistöðva og fjarskiptamastra í takt við þingsályktunartillögu um rannsóknir á áhrifum þessara fyrirbæra á mannslíkamann. Nei, hann talaði um lágspennurafmagn og gas sem ómælanlegt væri með venjulegum græjum og beitti þess í stað spákvisti. Þetta ímyndaða lágspennurafmagn og gas hét því spekingslega nafni jarðára í kokkabókum þessa manns.

Einyrkinn í fjárhúsunum á austurlandi sagði fjálglega sögur af virkni aðferðar sinnar og er auðvitað ekki að ljúga neinu meðvitað. Hann beitir auðvitað aðeins valkvæmri hugsun og staðfestingartilhneigingu eins og t.d. svo margir gera þegar þeir fullyrða að það sé ekki einleikið hvað menn séu gjarnir á að hringja þegar hugsað sé til þeirra:

Þetta er þá skrítin tilviljun ef þessi vandamál eru akkúrat þar sem mælist suð. Svo eru gemlingar á öðrum stöðum, þar sem þetta mælist ekki, og það er í lagi með þá.

Nei Brynjóflur minn, þetta er hvorki skrítin tilviljun né sönnun fyrir virkni aðferða þinna. Þú ert bara ekki nógu vísindalegur í faraldsfræðilegum útlistunum þínum. Þú ert blindaður af óskhyggju og trúgirni (að því gefnu að þú sért ekki hreinlega bara að ljúga).

Við hér á Vantrú kvörtum hvað eftir annað sáran yfir því hve fjölmiðlafólk er gagnrýnislaust í umfjöllun sinni um húmbúkk og hindurvitni. Af hverju hlustar þetta fólk ekki á okkur, eða það sem betra er, kannar sjálft málin frá öllum hliðum áður en rokið er af stað með þennan þvætting í fréttatímana? Flytjandi þessarar fréttar má þó eiga það hafa varpað fram kuklfaktornum í fréttinni. Takk fyrir það.

Birgir Baldursson 30.04.2008
Flokkað undir: ( Kjaftæðisvaktin )

Viðbrögð


Finnur - 30/04/08 11:46 #

Garðar nefnir fjölda fólks máli sínu til stuðnings. Aðferðir hans hjálpa því greinilega. Gott framtak segji ég bara. Ef mér væri illt í bakinu vildi ég heldur fá hann í heimsókn en einhvern Vantrúartuðara með bækling um forspjallsvísindi.


Hjalti Rúnar Ómarsson (meðlimur í Vantrú) - 30/04/08 11:54 #

Finnur, í sambandi við bakverkinn þinn, hvort myndirðu fara til lækna sem nota aðferðir sem hafa verið vísindalega staðfestar eða fara til kuklara sem styðst bara við einhver meðmæli frá "fjölda fólks"?

Ég held að allir Vantrúartuðararnir myndu hvetja þig til þess að kíkja til læknis.

Mistökin sem þú gerir eru hérna: "Garðar nefnir fjölda fólks máli sínu til stuðnings. Aðferðir hans hjálpa því greinilega.". Þetta er einfaldlega rangt.


Haukur Ísleifsson (meðlimur í Vantrú) - 30/04/08 12:27 #

Kallast "staðfestingartilhneiging" ekki öðru nafni rörsýni?

En ef þessar aðferðir virkuðu þá hefði sú virkni sést í rannsóknum.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 30/04/08 13:08 #

Garðar nefnir fjölda fólks máli sínu til stuðnings. Aðferðir hans hjálpa því greinilega.

Þarna verður þér fótaskortur á hinu rökræna svelli, Finnur. Garðar heldur einhverju fram og þú ákveður að trúa því gersamlega að óreyndu. Hefurðu sjálfur talað við þetta meinta fólk? Og þótt það fólk myndi staðfesta fullyrðingar Garðars, myndirðu láta það nægja sem sönnun einhvers?

Sérðu ekkert athugavert við þessa tegunda hugarfars?


Jón Frímann - 30/04/08 14:49 #

Minnir mig á kallin sem vildi setja spólur (sem gerðu ekkert gagn) á gervihnattadiskana mína. Einmitt útaf svona "geislun". Staðreyndin er hinsvegar bara sú að gervihnattadiskar senda ekki frá sér neina geislun og hafa aldrei gert. Þar fyrir utan er geislunin of breið og veik til þess að valda skaða á, þar sem að hún hefur ferðast 35,000 km leið frá gervihnettinum.


baddi - 01/05/08 08:19 #

Ein fyrrverandi kærasta mín til Brynjólfs í einhverskonar "rafgreiningu", djöfull sá ég eftir þeim peningum ofaní Brynjólf.

Ein kerlingartuðra í blokk sem ég bjó í beitti neitunarvaldi þegar ég óskaði eftir því að fá að setja um gervihnattadisk vegna "geislunar" sem af þeim stafaði. Og blessuð konan var hjúkrunarfræðingur! Það var engu tauti við hana komandi, þrátt fyrir að tæknifræðingur og aðrir í blokkinni væru á mínu bandi og reyndu að tala um fyrir henni.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 01/05/08 12:56 #

Já, skaðsemi hindurvitna liggur í stóru og smáu.


Finnur - 02/05/08 17:41 #

Sýnist viðbrögð Vantrúarsinna einkennast af öfund í garð rafsegulmanna. Vantrúarsöfnuðurinn getur varla soðið pasta hjálparlaust, fær sjálfsagt áfallahjálp eða hotline hjá Matta ef sýður uppúr.


Haukur Ísleifsson (meðlimur í Vantrú) - 02/05/08 19:33 #

Bara svo það sé á hreinu, þá kann ég að elda pasta.


Hjörtur Brynjarsson (meðlimur í Vantrú) - 03/05/08 00:13 #

Öfund??? Sagðuru ÖFUND??

úfff, ég veit ekki einu sinni hvar ég ætti að byrja.

Annars mætti benda á stutt myndband með Dawkins þar sem hann kíkti í heimsókn þar sem verið var að testa downsara....

http://www.youtube.com/watch?v=V-JWGiliOfY#


Ragnar Sigurmundsson - 03/05/08 14:50 #

Sælir,

hið merka rit Austurglugginn hefur tekið þetta mál upp og birtu um það grein hér:

http://austurglugginn.is/index.php/20080501470/Austurland/Ymislegt/Kukl_i_fjarhusum_

Þessari grein var síðan svarað og er svarið að finna hér:

http://austurglugginn.is/index.php/20080502474/Landid/Ymislegt/Segir_Brynjolf_ekki_plokka_fe_af_folki


Finnur - 04/05/08 08:51 #

Þetta er svo sem ekki í fyrsta skipti sem Birgir Baldursson hleypur á sig. Hér um árið var hann í froðufellandi krossferð gegn endurvinnslu. Það var allt saman húmbúgg og nóg af ódýrum hráefnum á heimsmarkaði. Endurvinnsla var bara stór svikamilla og þar fram etir götunum. Svo varð karlinn auðvitað að éta það allt ofan í sig aftur.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 04/05/08 11:53 #

Lágkúrulegur málflutningur atarna. Það er auðvelt að afgreiða heilbirgðar efasesmdir, byggðar á góðum rökum, sem froðufellandi krossferð. Finnur hefur ekki hrakið neitt af þessum rökum og það er lygi að ég hafi þurft að éta nokkuð ofan í mig. Hann mætti alveg vísa í þau skrif sem eiga að hafa sannfært mig, hvar eru þau að finna?

Ég verð með hverju árinu meira furðu lostinn yfir ómálefnalegum, rætnum og hálfvitalegum málflutningi þeirra sem verja þær skoðanir sem ég gagnrýni.

Finnur segir hér að ég hafi hlaupið á mig. Er hann að tala um að þessi maður sem svaraði í Austurglugganum hafi hrakið eitthvað sem ég gagnrýndi? Var mér sýnt þarna fram á rangindi skoðana minna, eða getur verið að greinin í Austurglugganum sé einungis léleg og illa rökstudd málsvörn þess sem hefur hagsmuna að gæta við útbreiðslu hindurvitna?

Svari hver fyrir sig.


Haukur Ísleifsson (meðlimur í Vantrú) - 04/05/08 12:55 #

Rétt er að nefna að Landslæknir útilokar ekki að rafsegulmengun geti valdið þessum fósturlátum.


Finnur - 04/05/08 12:57 #

Fyrst Birgir Baldursson þjáist svona af minnisleysi þegar kemur að eigin afglöpum, er sjálfsagt að rifja þetta endurvinnsluraus hans upp öðrum lesendum til glöggvunar. Dæmi hver fyrir sig:

"Vissuð þið til dæmis að endurvinnsla er algert kjaftæði? Hafið þið velt því fyrir ykkur að allt þetta tilstand í kringum flokkun sorps hefur ekkert með umhverfisvernd að gera, en kostar samfélagið aftur á móti óheyrilegar upphæðir? Hvað á t.d. endurvinnsla á pappír að fyrirstilla? Það er ekki eins og þetta sé ekki endurnýjanleg auðlind. Út um víðan völl eru trjábúgarðar standa þeir vel undir þeirri eftirspurn sem er á timbri. Endurvinnsla á pappír gerir ekki annað en grafa undan lífsviðurværi trjáframleiðenda og svo kostar það fé og fyrirhöfn að koma öllu þessu pappírsflóði í endurvinnlustöðvar og gera það aftur nýtilegt."


Þórður Ingvarsson (meðlimur í Vantrú) - 04/05/08 13:11 #

Endurvinnsla er kjaftæði.

Að vísa í greinina þar sem tilvitnunin er fengin er ágætis kurteisi.


Hafþór Örn - 04/05/08 13:21 #

Það ætti að vera mjög auðvelt að sanna eða afsanna hvort þessi maður geti mælt eitthvað með þessum prjónum. Ætli hann sé tilbúinn til að gangast undir blint próf?

Það gæti verið stórskemmtilegt.


danskurinn - 04/05/08 15:16 #

"Endurvinnsla er kjaftæði. "

Ein skemmtileg saga um endurvinnslu er frá Bernard Shaw (minnir mig). Einhver fýlupúki hafði sent honum leiðinlegt bréf sem hann þurfti að svara. Hann skrifaði: “Ég sit hér í minnsta herbergi hússins með bréf þitt fyrir framan mig. Bráðum verður það fyrir aftan mig.”


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 04/05/08 15:52 #

Fyrst Birgir Baldursson þjáist svona af minnisleysi þegar kemur að eigin afglöpum, er sjálfsagt að rifja þetta endurvinnsluraus hans upp öðrum lesendum til glöggvunar. Dæmi hver fyrir sig

Af hverju hrekur þú ekki bara þessar röksemdir í stað þess að vísa þeim á bug sem kjaftæði án allrar röksemdafærslu? Ég fæ ekki séð að nokkur hafi gert það í kommentum undir greininni. Og hvað er þá orðið um fullyrðingu þína að ég hafi þurft að éta þetta ofan í mig.

Ósannindi eru lágkúrulegasta leiðin sem hægt er að fara við að svara gagnrýni. Og þá leið fórst þú í dag.


Haukur Ísleifsson (meðlimur í Vantrú) - 04/05/08 15:59 #

EF við ætlum að tala um endurvinslu þá væri gott að gera það á spjallinu.


Bjarki - 04/05/08 22:23 #

Þessi grein fékk mig til þess að missa allt álit á hinum svokallaða Birgi Baldurssyni. Það er greinilegt að þú sjálfur hefur ekki hundsvit á vísindum, þú ert einn af þessum týpísku frummönnum sem enn halda að jörðin sé flöt.

Það eru vantrúamenn á borð við þig sem eru að halda heiminum aftur, hvernig væri líka að þú kæmir með einhverjar alvöru sannanir fyrir þínu máli heldur en "ég sá hann í fréttunum og hann hélt á einhverjum pinnum".

Og ef þú hefðir nú grafist aðeins um þetta mál áður en þú skrifaðir þessa grein hefðirðu kannski komist að því að Brynjólfur notast við hátækni mælitæki sem eru viðurkennd samkvæmt reglugerðum, og ég held nú að hann ætti að vita sínu viti þar sem hann hefur verið að vinna við þetta í meira en 20 ár. Enn nei þú ert þessi týpíski "mbl.is bloggari" sem fer bara eftir sínum skoðunum sama hversu mikið hann viti um umrætt mál.

Nú ætla ég að vitna í X-ið þar sem þetta á klárlega við um þig Birgir minn.

,,Jónas hefur ekki hlustað á plötu í meira en 10 ár, samt er hann að dæma hvað sé gott og hvað ekki. Jónas er að tala út úr rassgatinu á sér."

Þannig að Birgir það eina sem þú ert að gera er að tala út úr rassgatinu á þér.

Reyndu síðan að afla þér aðeins meiri vitneskju um hlutina áður en þú ferð að skrifa svona dellu eins og þessa aftur.


Hjalti Rúnar Ómarsson (meðlimur í Vantrú) - 04/05/08 22:53 #

Bjarki, maðurinn notaði víst eingöngu prjónana áður fyrr og notar þá enn að einhverju leyti! Eru prjónarnir viðurkenndir? Er hægt að taka mark á manni sem notar spákvist?


Bjarki - 04/05/08 23:16 #

Hjalti, allir hlutir hafa þróast út frá einhverju þegar Brynjólfur byrjaði að starfa við þetta voru ekki til þessir mælar sem til eru í dag. Prjónarnir eru nú eingöngu tæki sem notuð eru við forkönnun á aðstæðum ekki hið eiginlega mælitæki! Og ef þú trúir ekki á ágæti þessara prjóna þá máttu endilega koma með útskýringu á því afhverju þeir hafa þá virkað svona vel í tímanna rás.

Nú eru komnir flottir bílar til þess að koma manni á milli staða en það þýðir ekki að hestarnir hafi ekki virkað jafn vel hér áður fyrr til þess sama.

Er hægt að taka mark á manni sem byggir greinar sínar eingöngu á sinni eigin fávísi heldur en rökum og sannleika?

Og svona eitt í viðbót Hjalti, þú mátt endilega útskýra það afhverju prjónarnir segja það sama og mælarnir?


Jón Frímann - 04/05/08 23:19 #

Rafsegulsvið hefur ekki áhrif á fólk, nema þegar það er orðið virkilega sterkt, þá yfir 1000kW og sterkara. Staðreyndin er hinsvegar bara sú að hvorki segulsvið frá rafmagni eða rafsegulsviðsgeislun frá farsímamöstrum og öðru slíku hefur ekki áhrif á fólk, enda langt fyrir neðan þau mörk að geta valdið skaða. Enda eru slíkir sendar yfir leitt ekki sterkari en 50W í byggð en geta farið uppí 1 til 2kW á afkekktum sendistöðum. Venjulegur GSM sími sendir út frá sér á 2W að hámarki á 900Mhz en aðeins 1W að hámarki á 1800Mhz. GSM farsímar nota nánar aldrei fullt afl, enda ekki þörf á því í fullu sambandi, ofast nota þeir í kringum 500mW í sendiafl, jafnvel minna.

Bylgjulengdin á þessu tíðnisviði er uþb 20cm og uppí 10cm. Alltof stór og breið til þess að valda skaða á erfðaefni og frumum í líkamanum.

Þessir menn með spákvisti og annað slíkt eru bara að bulla, enda hafa þeir ekki vit á þessu og eru bara að svíkja peninga af fólki.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 04/05/08 23:59 #

Reyndu síðan að afla þér aðeins meiri vitneskju um hlutina áður en þú ferð að skrifa svona dellu eins og þessa aftur.

Ég hef yfirgripsmikla og staðgóða þekkingu á dowsing og máli mínu til stuðnings vísaði ég í myndbönd í greininni. Hefurðu ekki litið á þau?

Hjörtur Brynjarsson vísaði síðan í þetta hér:

http://www.youtube.com/watch?v=V-JWGiliOfY#

Ég vísa þessum skætingi til föðurhúsanna og hvet þig til að kynna þér málin áður en þú byrjar að baula út um boruna, svokallaður Bjarki.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 05/05/08 00:01 #

Og svona eitt í viðbót Hjalti, þú mátt endilega útskýra það afhverju prjónarnir segja það sama og mælarnir?

Það er auðvelt að útskýra. Prjónarnir espa upp óskhyggju rannsakandans og staðfestingartilhneigingu. Mælarnir gera slíkt hið sama í höndunum á þessum amatör.


Hjalti Rúnar Ómarsson (meðlimur í Vantrú) - 05/05/08 00:04 #

Og ef þú trúir ekki á ágæti þessara prjóna þá máttu endilega koma með útskýringu á því afhverju þeir hafa þá virkað svona vel í tímanna rás.

...

Og svona eitt í viðbót Hjalti, þú mátt endilega útskýra það afhverju prjónarnir segja það sama og mælarnir?

Ég hefði mjög gaman af því að sjá manninn prófa prjónana í tvíblindu prófi. Heldurðu að Brynjólfur væri til í það? Prófa spákvistina sína?


Helgi Briem (meðlimur í Vantrú) - 05/05/08 08:44 #

Allir spákvistaleitendur sem hafa undirgengist hlutlaust próf á hæfileikum sínum hafa kolfallið á því. Spákvistar eru ekki nothæfir til að leita að neinu eða mæla neitt.

Hvort rafsegulmengun getur hugsanlega valdið skaða af einhverju tagi læt ég liggja milli hluta því ekki hefur verið sýnt fram á að slík mengun sé til staðar í þessu tilfelli.


Finnur - 06/05/08 09:32 #

[ athugasemd færð á spjallið - Matti Á.]


Baldur - 12/08/08 18:20 #

Þess má geta að Brynjólfur er menntaður sem sjúkranuddari en hefur enga menntun í raunvísindum, hvað þá rafmagnsfræðum. Hann getur því fullyrt og talað eins og honum sýnist án þess að fá samviskubit yfir því að tala gegn fræðunum. Er það tilviljun að flestir nafntogaðir "sérfræðingar" í þessum geira hafa enga menntun til að bakka sig upp ? það held ég ekki...


Svenni - 12/08/08 20:49 #

ég reyndar finn og skynja fyrir svona orkum, ég nota engan spákvist, heldur bara líkamanann, auðveldast á ég að með að finna fyrir raforku.

en einnig skynja ég hitt og þetta hvarsemer.

dæmi, stattu við hliðina á öflugri rafmagnstöflu, ekki venjulegri, heldur fyrir stórt hús eða fyrirtæki, því meira hljóð sem heyrist í töflunni, því auðveldara að skynja(meira rafmagn), ég er það næmur á þetta að ég finn fyrir töflunni, löngu áður en að ég kem nálægt henni, en með tilraunum hef ég séð að aðrir geta fundið þetta líka, ef þeim er bent á þetta.

sterkasta skynjunin er svona kitl á nefinu og efst í kinnunum.

það voru ekki allir færir um að skynja þetta, oftast fólk sem taldi sig næmt og svo börn.

svo finn ég fyrir öðrum orkum, sem eftir að hafa rannsakað, minnir helst á lýsingu "ley" lines, en maður tekur aðallega eftir þeim þegar eitthvað, oftast rafmagnslínur er að trufla þessar orkulínur.

ég nota þetta aðallega til að finna út hvar er best að hafa rúm og sófa, hvar eru þægilegustu orkupunktarnir.

fyrir sjálfan mig, hef stundum bent fólki á, en vantrú er nú þónokkur hér á landi, sem mér finnst fyndið, því allt er orka og hver segir að við getum ekki skynjað það? líkaminn er eitt skynjunartæki eftir allt.

annars hef ég á littlu tilraunum mínum séð að ALLIR eiga að geta þetta og dettur mér ekki í hug að rukka fyrir né hafa eitthvað slíkt.

fólk getur lært þetta sjálft ef það vill og ef ekki, hverjum er ekki sama.

annars með spákvisti, þeir oft komu heim og saman við það sem ég skynjaði, en eru ansi viðkvæmir og ónákvæmir. segja lítið til um, hvernig orka er á staðnum.


Siggi - 14/08/08 21:46 #

Hahahaha, batshit.

Þó þykir mér þín skilning á eðlisfræði vorkumkennanleg, ég hef séð börn í grunnskóla sem skylja þessa hluti betur.


Haukur (meðlimur í Vantrú) - 15/08/08 00:29 #

Við skulum nú ekki vera með neinn dónaskap þó vissulega sé margt rangt við það sem Svenni segir. Rafsegulsvið hafa svo gott sem engin áhrif á líkaman okkar og aldrei hefur verið sýnt fram á með óyggjandi hætti að fólk geti skynjað þau af einhverju ráði. Hinsvegar geta ýmis sjávardýr, svo sem álar skinjað slík svið.


Svenni - 15/08/08 08:39 #

þetta eru nú bara athuganir mínar á sjálfum mér og smá tilraunaskapur.

ég hef afar lítinn áhuga á eðlisfræði og hef lítið kynnt mér þau fræði.

(annað en einstaka bbc þætti er ég hef rekist á)

ég er ekki með email, svo netfangið er bara bull, set þetta þarna inn, því svo margar vefsíður, heimta slíkt er maður setur inn svar við einhverju.

ég er kallaður svenni og vefslóðin er alvöru.

annars er algjör óþarfi að móðgast fyrir mína hönd, þetta er meira svar við þann er svaraði móðgaranum :D

ég persónulega hef séð hagnýti þess að þróa með mér slíka næmni, en annars er þetta meira um að fá breiðari tilfinningu fyrir heiminum og sjálfum mér (líkaminn er nú ansi rafmagnaður), en kannski bara mest forvitni.


Einar Steinn Valgarðsson - 07/05/12 16:10 #

"hinum svokallaða Birgi Baldurssyni"? Endilega skýrðu hvað þú átt við. Viltu meina að hann sé rangnefndur? Og þá að hvaða leiti? Nú er ég forvitinn.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.