Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

7 fíflaleg fyrirbæri

Sumar fullyrðingar eru dálítið vafasamar, aðrar frekar undarlegar og enn fleiri afskaplega skrítnar. Svo eru það fíflalegu fyrirbærin sem krefjast þess af fólki að það taki alla skynsemi og gagnrýna hugsun og sturti í salernið.

Í dag rifjum við upp sjö fíflaleg fyrirbæri sem við höfum fjallað um á Vantrú síðustu árin.

Detox

Hvers vegna EKKI detox!
Hverjum datt í hug að dæla vatni eða kaffi uppí endaþarminn á sér og svo sjúga vökvablandaðan saurinn úr rassgatinu með garðslöngu? Hljómar dálítið kynferðislega, ekki satt? Einsog eitthvað sem fólk með saurblæti stundar í sínu einkalífi rétt til að krydda uppá sæmilega furðulegt kynlíf. En, nei, þetta kallast Detox og er víst meðferð sem á að stuðla að bættri heilsu og hamingju. Allavega vill heilsurækta- og saurlífsfrömuðurinn Jónína Benediktsdóttir telja okkur trú um það og allir sem segja annað eru bara dónar og hafa ekki kynnt sér málið almennilega - eða það sem verra er - þeir eru trúleysingjar. Við höldum því fram að þetta detox virki ekki rassgat. Þarmarnir sjá um sig sjálfir. Hér er algjörlega ókeypis ráðgjöf: góð hreyfing og trefjaríkur matur stuðlar að góðum hægðum.

Smáskammtalækningar

Smáskammtalækningar
Smáskammtalækningar voru fyrst þróaðar á 19. öld af Samuel C. F. Hahnemann (1755-1843) sem nýr valkostur við hefðbundnar lækningaaðferðir þess tíma, eins og til að mynda blóðtökur.

Hefðbundnar smáskammtalækningar eru vanalega skilgreindar sem ákveðið meðferðarkerfi sem byggist á því að nota örlitla skammta af remedíum, sem í stærri skömmtum valda svipuðum áhrifum og sjúkdómurinn sem meðhöndla á.

Hómópatar vísa til 'örsmæðarlögmálsins' og 'líkingalögmálsins' sem grundvöll þess að nota örlitla skammta og þess að líkt lækni líkt, en þetta eru að sjálfsögðu ekki vísindaleg lögmál. Ef þetta eru yfirhöfuð lögmál, þá eru þau frumspekilegs eðlis, þ.e. skoðanir á eðli raunveruleikans sem ómögulegt er að sannreyna með prófunum.

Flestir gagnrýnendur smáskammtalækninga eiga hvað erfiðast með að kyngja örsmæðarlögmálinu vegna þess að af því leiðir að remedíur verða svo útþynntar að ekki verður eftir ein einasta sameind af efninu sem byrjað var með.

Þrátt fyrir þá staðreynd að mikill meirihluti niðurstaðna hundruða kannanna, sem gerðar hafa verið á remedíum smáskammtalækninganna, hafa verið á þá leið að þær séu gagnslausar þá halda verjendur smáskammtalækninga ekki einungis því fram að remedíur virki heldur einnig að þeir viti hvernig þær virka. Jacques Benveniste segist hafa sannað að remedíur virki með því að breyta byggingu vatns og þannig getur vatnið „munað“ byggingu þess efnis sem þynnt hefur verið í því niður í ekki neitt. Þetta er auðvitað rakalaus þvættingur.

DNA heilun

Hvað er svona skrítið við DNA heilun?
DNA heilun (DNA Theta Healing) er eitt það alruglaðasta sem komið hefur fram í kuklfræðunum og er þó af nógu að taka á þeim bænum.

Á einni kuklsíðunni er þessi lýsing: DNA heilun er í rauninni hagnýt skammtaeðlisfræði. Með því að nota þeta heilabylgju, sem hefur hingað til einungis verið hægt að virkja í djúpsvefni eða í jóga hugleiðslu, getur heilarinn tengst Alheims-Almættis-Orku Skapara Alls sem Er, til að finna hvað er að og til að lækna líkamslíkamann og til að finna og breyta hindrandi sannfæringum.

Heilarinn biður Skapara Alls sem Er að virkja hina 12 þætti DNAsins í höfuðfrumu þriðja augans. Virkjunin verður á því sem nefnt er rusl DNA í frumunum. Virkjunartæknin virkjar alla litninga, sem eru móttækilegir fyrir virkjun. Að henni lokinni fer fram afritun um allan líkamann. Æsku- og Lífsorkulitningarnir eru virkjaðir fyrst og hinir 10 fylgja í kjölfarið. Áhrifin af virkjuninni eru misjöfn milli einstaklinga, en nefna má minnkun á andlitshrukkum, hár vex á ný, ónæmiskerfið eflist, afeitrun líkamans, heilbrigð sambönd styrkjast, sambönd sem þú villt losna úr leysast upp, þú villt neyta hollari fæðu og andlegir hæfileikar styrkjast.

Annað er eftir þessu og það er víst ekki til sá kvilli eða mein sem DNA heilun getur ekki ráðið við. Bullið úr DNA heilurunum sjálfum virðist þó vera ólæknandi.

Bænir

Hinn tvíræði máttur bænarinnar
Bænir til gvuðs eru gagnslausar. Þetta er lafhægt að staðfesta og hefur verið gert mörgum sinnum. Samt er fjöldi fólks haldinn þeirri grillu að bænahjal skili sannanlegum árangri. Ríkiskirkjuprestarnir eru t.d. ákaflega bænheitir og iðnir við að biðja gvuð sinn um ýmislegt. Algengt er að þeir óski þess af almættinu að það passi sjórnmálamennina okkar og leiðbeini þeim. Fullvíst má telja að framistaða íslenskrar stjórnmálastéttar fyrir og eftir hrun afsanni þá firru að bænir hafi nokkuð að segja.

Fleira þessu líku er hægt að tína til, en er í raun óþarfi. Gvuð veit nefnilega allt um bænina - það stendur í biblíunni. Í fyrsta lagi heyrir hann aðeins það sem hann vill heyra (1Jh 5:14-15) og í öðru lagi veit hann hvað bænakvakarinn vill áður en hann biður (Mt 6:7-8 ). Í besta falli er bænin því tímasóun, en sennilegast nær enginn himneskum eyrum drottins því vegir hans eru víst órannsakanlegir og ekki dauðlegra manna að botna í hverjir þeir eru.

LifeWave

LifeWave - Kraftaverkaplástrakjaftæði
Þegar fólk reynir að selja þér lækningarplástra sem virka með því að senda tíðni inn í líkamann er ágætt að hinkra og hugsa málið. Hvað er eiginlega átt við?

LifeWave plástrar voru umtalaðir á árinu, íþróttamenn stærðu sig af því að nota þá og ýmsir notendur komu fram og sögðu að plástrarnir læknuðu verki, ykju þol og gott ef þeir bæta ekki kynlífið líka.

Vandamálið er að plástrarnir hafa enga virkni. Skoðið kynningarnar með gagnrýnu hugarfari. Þetta eru lyfleysuplástrar og við mælum frekar með því að þið kaupið tíu sinnum ódýrari hefðbundna plástra úti í næstu búð og ímyndið ykkur að þeir sendi tíðni í líkamann.

Miðlar

Er Nonni Þarna?
Látum okkur sjá. Til er fólk sem getur haft samband við látið fólk. Sumt af þessu fólki kemur meira að segja fram í sjónvarpi og rabbar við dauða. Þetta er náttúrulega stórfróðlegt, hinir látnu eiga í mestu erfiðleikum með að muna hvað þeir heita en þegar nafnið er komið á hreint virðist sambandið batna og skilaboðin streyma að handan. "Ekki hafa áhyggjur af peningamálum", "þú munt flytja í framtíðinni", "hefurðu áhyggjur af vinnunni" og "hættu að fróa þér, við erum að fylgjast með þér". Þessi síðustu skilaboð heyrast reyndar sjaldan en við verðum að segja eins og er - ef látnir ættingjar okkar hafa meðvitund og fylgjast með okkur í daglega lífinu vonum við bara að þeir sýni þá kurteisi að horfa annað þegar við sinnum líkamlegum þörfum.

Auðvitað er þetta bara svindl. Miðlar notar háttlestur og forlestur og stóla á trúgirni kúnna. Auðvitað trúa einhverjir miðlar því að þeir hafi mátt, annað er varla hægt þegar trúgjarnir íslendingar dýrka þá og dá. En þegar málið er skoðað kemur í ljós að jafnvel bestu miðlar landsins eru hlægilega lélegir. Eina ástæðan fyrir því að þetta fólk makar krókinn er vegna þess að fjöldi fólks rembist við að trúa þeim.

Ríkiskirkja á 21. öld

12 ástæður þess að Þjóðkirkjan er ríkiskirkja
Allt sem við höfum talið upp hér að ofan er óskaplega fíflalegt en samt ekki næstum því jafn fíflalegt og sjálf ríkiskirkjan. Við getum hlegið að miðlum og Jónínum en það er erfiðara að hlægja þegar kemur að ríkisstofnun sem fær meira en fimm milljarða úr ríkissjóði á hverju ári til að boða draugasögu á 21. öldinni.

Og draugasagan er meira að segja fíflaleg. Gvuð skapaði heiminn, svo skapaði hann Adam og Evu. Þau átu af skilningstrénu og þá var Gvuð reiður, þrátt fyrir að hann hafi vitað hvað myndi gerast. Þar sem Gvuð varð reiður þurfti hann að færa sjálfum sér fórn og því ákvað Gvuð að fórna sjálfum sér til að friða sjálfan sig og fyrirgefa syndir mannanna. því barnaði hann unglingsstelpu og fæddist svo sem maður, boðaði heimsenda, sagði fólki að skammast sín fyrir hugsanir sínar. Var loks krossfestur, lifnaði aftur við (ásamt fjölda annarra sombía) og sveif að lokum til himna.

Þetta er ekki bara fíflalegt, þetta er fíflalegt í fimmta veldi. Það fíflalegasta er að flestir sem aðhyllast kristna trú geta hlegið að öllum hinum atriðunum á þessum lista en finnst lokaatriðið ekki við hæfi - það særir eflaust tilfinningar þeirra.

Ritstjórn 17.12.2009
Flokkað undir: ( Listi )

Viðbrögð


Sigurjón Örn Sigurjónsson - 17/12/09 11:47 #

Góð samantekt.

Ef ég ætti að bæta einhverju á listann þá dytti mér helst í hug talnaspeki. Aðallega vegna þess að hún heyrist reglulega í útvarpi hér á landi, og það er fátt sem mér finnst jafn AUGLJÓST bull.

Leggja saman tölurnar í fæðingardegi þínum. Leggja síðan saman tölurnar í þeirri útkomu (minnir að það sé þannig sem þetta virkar).... já, þú ert átta. Áttan er mikill leiðtogi og blabla.

Mig hefur oft langað til að spyrja talnaspeking hvað hafi gerst þegar skipt var úr júlíanska í gregoríanska tímatalið. Hættu sumir að vera leiðtogar í eðli sínu og byrjuðu að vera fylgjendur? Breyttist kærulaust fólk í fullkomnunarsinna í stórum stíl, og öfugt? Eða hnikuðust þeir einfaldlega til fæðingardagarnir sem framkalla viðkomandi eiginleika í fólki?


Björn I - 17/12/09 12:15 #

Ég vil nú bara þakka ykkur fyrir þessar frábæru greinar undanfarið. Þessar upptalningar eru mikið skemmtiefni, fyrir utan fróðleikinn að sjálfsögðu.

Takk fyrir mig.


Óskar P. Einarsson - 17/12/09 12:43 #

Snilldar 13-12-...-5-4-3-2-1 sería hjá ykkur.

Five Gold Rings!


Matti (meðlimur í Vantrú) - 17/12/09 13:07 #

Talnaspeki mætti svo sannarlega vera á þessum list og margt annað en því miður var bara pláss fyrir sjö atriði í dag :-)


Sigurjón Örn Sigurjónsson - 17/12/09 13:25 #

Já, það var einmitt ekki fyrr en Óskar Pétur minntist á það að ég tók eftir niðurtalningarþemanu. Get ímyndað mér að það sé erfitt að velja og hafna í svona samantekt, það er svo margt sem verðskuldar pláss.


trúlaus - 18/12/09 12:07 #

Ég kannast við lifewave þegar ég var í nuddskólanum og annað eins rugl hef ég séð t.d kona sem missti 20 kíló og svo er allt önnur kona á hinni myndinni, hélt að fólk væri búinn að sá nóg af því í fæði bótaefna bransanum. Svo var annar plástur sem átti að hjálpa við svefn. Svo þessi miðilL á skjá einum sem spurði konu ertu úr sveitinni? hvað Íslendingur er ekki úr sveit :) Kallast cold reading.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.