Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Smáskammtalækningar (hómópatía)

Ekki nema að lögmál efnafræðinnar séu farin úr böndunum, þá eru flestar hómópatískar remedíur of útþynntar til að þær geti haft einhver áhrif á líkamsstarfsemina....“ ---Consumer Reports (janúar 1987)

Margar fyrri rannsóknir hafa sýnt fram á að smáskammtalækningar hafi meiri virkni en lyfleysa.... Það er hafið yfir allan vafa og samþykkt af mörgum rannsóknaraðilum að samanburðarrannsóknir sem notast við lyfleysu sem viðmið eru ekki heppilegt rannsóknartæki til prófana á smáskammtalækningum.“ ---Talsmaður Society of Homeopaths

Hefðbundnar smáskammtalækningar voru fyrst þróaðar á 19. öld af Samuel Christian Freidrich Hahnemann (1755-1843) sem nýr valkostur við hefðbundnar lækningaaðferðir þess tíma, eins og til að mynda blóðtökur. Að skera upp æðar til að láta sjúklingum blæða, og neyða þannig sjúkdóminn til að yfirgefa líkamann svo að líkamsvessarnir gætu náð jafnvægi að nýju, var vinsæl lækningaaðferð allt til loka 19. aldar (Williams 1981: 265). Hahnemann hafnaði þeirri hugmynd að lækna ætti sjúkdóma með því að hleypa út vonda efninu sem olli þeim. Þess í stað hélt hann því fram meðhöndla ætti sjúkdóma með því að hjálpa lífskraftinum að koma aftur á jafnvægi og samhljómi í líkamanum. Einnig hafnaði hann öðrum lækningaaðferðum sem voru algengar á hans dögum eins og að gefa stólpípur og uppsölulyf „sem innihéldu ópíum og kalómel með kvikasilfri“ (ibid.: 145). Eftir á að hyggja þá voru hinar nýju lækningaaðferðir Hahnemanns mun mannúðlegri og minni líkur á því að þær gerðu einhvern skaða, miðað við margar aðrar lækningaaðferðir þess tíma.

Læknavísindin voru í mótun á tímum Hahnemanns en smáskammtalækningar áttu ekki eftir að vera hluti af þeirri þróun. Læknisfræði er í eðli sínu tengd efnishyggju. Hún byggist á öðrum fræðigreinum eins og líffærafræði, lífeðlisfræði og efnafræði. Þó að aðferðir Hahnemann taki mið af reynsluathugunum, þá eru kenningar hans um sjúkdóma og lækningar ekki empirískar og fela í sér skírskotun til frumspekilegra fyrirbæra og ferla.

Hahnemann setti fram kenningar sínar um sjúkdóma og meðhöndlun þeirra í bókunum Organon der rationellen Heilkunde (1810) og Die chronischen Krankheiten, Theoretische Grundlagen (1821). Orðið „homeopathy“ (þ. Heilkunde) er sett saman úr grísku orðunum homeo (líkur) og pathos (þjáning). Hahnemann vildi að sínar aðferðir væru andsvar við ríkjandi lækningahefð þeirra tíma, sem gekk út á að láta „líkamsvessana“ ná jafnvægi með því að meðhöndla ójafnvægið með andstæðu sinni (allos). Hann nefndi hefðbundna læknisfræði „allopathy“. Jafnvel þrátt fyrir að nútíma læknisfræði eigi ekkert skylt við þær kenningar um að koma líkamsvessum í jafnvægi eða að meðhöndla sjúkdóm með andstæðu sinni, þá tala hómópatar og aðrir talsmenn óhefðbundinna lækninga ennþá um hefðbunda lækna sem „allopaths“, sem er misvísandi (Jarvis 1994).

Hefðbundnar smáskammtalækningar er vanalega skilgreindar sem ákveðið meðferðarkerfi sem byggist á því að nota örlitla skammta af remedíum sem í stærri skömmtum valda svipuðum áhrifum og sjúkdómurinn sem meðhöndla á. Hahnemann hélt að afar litlir skammtar af lyfi gætu haft mjög kraftmikil læknandi áhrif vegna þess að hægt væri að auka virkni þeirra með því að hrista þá af krafti á tiltekinn hátt (e. succussion). Hahnemann kallaði þessa meintu aukningu á virkninni sem átti að fást með hristingunni eflingu (e. dynamization). Hann var á þeirri skoðun að hristingin gæti leyst úr læðingi „óefnislega og andlega krafta“ og gerðu þannig efnin virkari. „Að slá flöskunni létt á leðurbút eða lófann átti að sögn að tvöfalda þynninguna“ (ibid.).

Eflingin var ákveðin aðferð til að losa um orku sem Hahnemann áleit að væri í eðli sínu óefnisleg og andleg. Eftir því sem á leið varð hann sífellt hrifnari af áhrifamætti þessara aðferða sem hann hafði uppgötvað og hann gaf út strangar viðvaranir um hættuna sem stafaði af því að efla lyfin um of. Það gæti haft alvarlegar eða jafnvel banvænar afleiðingar og hann réði hómópötum frá því að geyma lyfin í vösum yfirhafna sinna því að þeir gætu óafvitandi gert þau of kraftmikil. Undir það síðasta hélt hann því jafnvel fram að sjúklingarnir þyrftu yfirhöfuð ekki að innbyrða lyfin, nægjanlegt væri fyrir þá að lykta af þeim. (Campbell)

Tveir mælikvarðar á styrk remedíana eru algengastir: tugahlutaskalinn þar sem hver þynning er 1:10 af næstu þynningu af undan, og hundraðshlutaskalinn (1:100). Frá hinni upphaflegu urtaveig (e. mother tincture) (ef um plöntu er að ræða þá er það vínandi) er gerð þynning í hlutföllunum 1:10 eða 1:100. Hún er því næst hrist og þá er lausnin orðin að fyrsta styrk. Sá styrkur er þá grundvöllur fyrir næstu þynningu og hristingu, sem verður að öðrum styrk, og svo framvegis. Þynningar í hlutföllunum 1:10 eru vanalega táknaðar með x og í hlutföllunum 1:100 með c. Þannig þýðir Pulsatilla 6c sjötti hundraðs styrkur Pulsatillu, sem hefur verið þynnt og hrist sex sinnum og styrkur hennar er einn á móti þúsund milljörðum. (Campbell)

Eins og flestir samtíðarmenn hans, þá trúði Hahnemann því að lykilinn að góðri heilsu væri jafnvægi og samhljómur, en hjá honum var það lífskrafturinn, sálarkraftur líkamans, sem sér um að koma á jafnvæginu og samhljómnum, með öðrum orðum lækna hann.

Hahnemann hélt því fram að orsök flestra króníska sjúkdóma væru miasms og verst þeirra væri psora. Engar sannanir eru samt sem áður fyrir miasm kenningunni og hún virðist hafa átt rót sína að rekja til einhvers konar yfirskilvitlegrar opinberunar (Campell). Orðið sjálft miasm

kemur úr grísku og þýðir spillt eða mengað eða eitthvað á þá leið. Hahnemann gerði ráð fyrir því að krónískir sjúkdómar væru afleiðingar þess að einhver miasms réðust inn í líkamann gegnum húðina. Fyrstu sjúkdómseinkennin eru því alltaf einhvers konar húðvandamál (Campbell).

Aðferðafræði hans við meðhöndlun sjúkdóma virðist vera mjög nútímaleg, finna á rétt lyf fyrir sjúkdóminn. Þrátt fyrir það voru meðöl hans ekki ætluð til að hjálpa líkamanum við að berjast við sýkingar eða græða líkamsvefi, heldur til að hjálpa lífsandanum við störf sín. Í rauninni þá var Hahnemann á þeirri skoðun að það væri „algjörlega útilokað að þekkja innra eðli sjúkdómsferla og því væri það tilgangslaust að velta vöngum yfir þeim eða að byggja meðferðir á kenningum“ (Campbell). Remedíur hans voru ákvarðaðar af einkennum sjúklingsins, ekki af þeim sjúkdómum sem ollu einkennunum.

„Lögmál“ smáskammtalækninga

Hómópatar vísa til „Örsmæðarlögmálsins“ og „Líkingalögmálsins“ sem grundvöll þess að nota örlitla skammta og þess að líkt lækni líkt, en þetta eru ekki vísindaleg náttúrulögmál. Ef þetta eru yfirhöfuð lögmál, þá eru þau frumspekilegs eðlis, þ.e. skoðanir á eðli raunveruleikans sem ómögulegt er að sannreyna með reynsluprófunum. Hugmyndir Hahnemanns urðu ekki til með reynslunni. Þó að hann hafi dregið frumspekilegar ályktanir af reynslu sinni gerir það ekki hugmyndir hans prófanlegar á empirískan hátt. Örsmæðarlögmálið virðist að hluta til vera dregið af hugmynd hans um að öll lyf valdi því að heilsu sjúklingsins hraki áður en honum batnar á ný og að hægt sé að draga úr þessum neikvæðu áhrifum með því að draga mjög úr stærð lyfjaskammtsins. Flestir gagnrýnendur smáskammtalækninga eiga hvað erfiðast með að kyngja þessu „lögmáli“ vegna þess að af því leiðir að remedíur verða svo útþynntar að varla verður eftir ein einasta sameind af efninu sem byrjað var með.

Hahnemann rakst á líkingalögmálið (líkt læknar líkt) 1790 þegar hann vann við þýðingu bókar William Cullens, Materia Medica, yfir á þýsku (Loudon 1997: 94). Hann hóf tilraunir á sjálfum sér með ýmsum efnum og byrjaði á kíníni.

Í nokkra daga, skrifaði hann, þá hafði hann tekið daglega fjóra skammta af lyfinu. Í hvert skipti þegar hann endurtók gjöfina, þá urðu fætur hans og fingur kaldir, og önnur einkenni fylgdu einnig sem voru dæmigerð fyrir malaríu. Í hvert skipti þegar hann hætti að taka kínínið, þá náði hann fljótlega fullri heilsu á ný. (Williams 1981: 184)

Á næstu árum gerði Hahnemann tilraunir á sjálfum sér með hinum ýmsu lyfjum og komst að þeirri niðurstöðu að „læknir ætti aðeins að nota þau meðöl sem hafa þann mátt til að valda, í heilbrigðum líkama, einkennum sem svipar til þeirra sem geta komið fram hjá veikum einstaklingi sem meðhöndla á (ibid.).“ Hann hélt því fram að gefa ætti lyf í einföldum skömmtun en ekki í flóknum blöndum. Niðurstöður hans virðast hafa verið byggðar á tilfinningu eða opinberun. Hann gerði ekki tilraunir á sjúklingum með því að gefa þeim lyf til að uppgötva hver þeirra virkuðu á hvaða sjúkdóm eða það að einungis óblönduð efni hefðu áhrif. Í raun gat hann ekki gert tilraunir á veiku fólki, því hann gerði ráð fyrir því að remedían yrði að valda áhrifum sem svipaði til sjúkdómsins og hann hefði þess vegna aldrei getað sagt fyrir um hvaða remedíur ætti að nota, vegna þess að erfitt er að greina sjúkdómseinkennin frá áhrifum remedíunnar hjá veikum einstaklingi. Þess í stað ályktaði hann að það sem veldur ákveðnum einkennum hjá heilbrigðum einstaklingi ætti að vera remedía fyrir sjúkdóm sem hefur svipuð einkenni.

Hahnemann nefndi þessa aðferð við að finna út hvaða einkenni ákveðið lyf veldur í heilbrigðri manneskju „prufun“.

Hahnemann skýrði ekki frá því í smáatriðum hversu stóra lyfjaskammta hann notaði eða hvernig hann gaf lyfin, en út frá handahófskenndum athugasemdum á öðrum stöðum í ritverkum hans og frá útskýringum hans á prufun, þá höfum við nokkuð góða hugmynd um hvernig þetta gekk fyrir sig. Allar prufanir á þessum tíma voru framkvæmdar með tinktúrum (e. ectract) úr jurtum eða ef um óleysanleg efni var að ræða, eftir „fyrstu mölun“ (einn hluti efnisins á móti níu hlutum af sykur eða mjólk)...

Aðferð hans virðist hafa verið sú að endurtaka lyfjagjafir þar til að einhver áhrif komu fram: stærð þeirra var fundin út á grundvelli fyrri reynslu hans. Gert var ráð fyrir því að þeir sem prufuðu lyfin ættu að skrá niður einkenni sín af mikilli nákvæmni, og þegar þeir létu Hahnemann fá minnisbækur sínar urðu þeir að bjóða honum hendurnar – sem var hefðbundin venja við að taka eiða í þýskum háskólum á þeim tíma – og sverja að það sem þeir sögðu frá væri satt. Eftir það spurði Hahnemann nákvæmlega um einkenni þeirra til að athuga hvernig þau breyttust með tímanum, hvaða þættir gerði þau verri eða betri, o.s.frv. Kaffi, te, vín, koníak og krydd voru á bannlista hjá þeim sem tóku þátt í prufunum, sem og skák (sem Hahnemann áleit vera of spennandi) en bjór var leyfilegur og hvatt var til hóflegar hreyfingar. (Campbell)

Með því vinna út frá reglunni um að líkt lækni líkt, þá bjó Hahnemann til remedíur fyrir hina ýmsu sjúkdóma sem höfðu einkenni sem svipaði til þeirra sem efnin ollu hjá þeim sem prufuðu þau. Þrátt fyrir það er „...aðferðin við prufun mjög persónuleg og hefur einstaklingsbundna þýðingu fyrir hómópatann eða þann sem framkvæmir tilraunina.“ * Með öðrum orðum, ef hundrað hómópatar útbúa remedíu fyrir einn sjúkling, þá gætu þeir þess vegna útbúið hundrað mismunandi remedíur.

Hægt er að hrósa Hahnemann fyrir að prófa lyf sín á empirískan hátt, en aðferð hans við prófanirnar er augljóslega gölluð. Hann var í rauninni ekki að prófa hvernig virkni lyfjanna væri á veiku fólki, heldur áhrif þeirra á heilbrigt fólk. Í öllum tilvikum þurfti hann að reiða sig á hlutlægt mat þeirra sem prufuðu, sem allir voru annað hvort lærlingar hans eða fjölskyldumeðlimir og þeir voru allir yfirheyrðir af meistaranum sjálfum. (Í dag myndu rannsakendur notast við aðferðir þar sem aðstæðum er betur stýrt *) En jafnvel þrátt fyrir að gögn hans væru ekki gölluð vegna þess möguleika að hann hafi stungið upp á einkennum fyrir þá sem tóku þátt í þessu eða að þeir hafi sagt frá einkennum til að kæta meistarann og vaxa í virðingu hjá honum, þá er það ekkert nema trú á töfra sem tengir saman listann með þessum einkennum við lækningu sjúkdóms með svipuðum einkennum. Í rökfræði er þessi tegund af stökkum í röksemdafærslu kölluð non sequitur: Þrátt fyrir að lyf A valdi einkennum sem svipar til sjúkdóms B, þýðir það ekki að inntaka á lyfi A muni lækna einkenni sjúkdóms B. Hvað sem því líður þá taka hómópatar ánægju viðskiptavina sinna með A sem sönnun þess að A virki.

Sumt bendir til þess að Hahnemann hafi ekki notað heilbrigða einstaklinga til að prófa neinar af þeim remedíum sem hann mælti með við flestum sjúkdómum: brennistein, blek úr blekfiskum, salt og sand.

Það sem virðist hafa gerst er að Hahnemann byggði nýjar prufanir að mestu leiti á sjúkdómseinkennum sem eiga að hafa komið fram í sjúklingum hans sem þjáðust af krónískum sjúkdómum. Samkvæmt hans eigin reglum var þessi aðferð ólögmæt, og í raun hefur þetta eflaust leitt hann til þess að yfirfæra áhrif ýmissa lyfja á einkenni sem voru í raun orsökuð af þeim sjúkdómum sem sjúklingarnir voru haldnir. (Campbell)

Þrátt fyrir að hægt sé að fyrirgefa Hahnemann það að hafa ekki framkvæmt nákvæmar samanburðartilraunir, þá ættum við ekki að sýna hómópötum nútímans sama umburðarlyndi fyrir að skilja ekki eðli sögusagna og vitnisburða. Kannski er ekki hægt að ásaka þá fyrir að framkvæma ekki neinar vel uppsettar samanburðartilraunir. En við getum ásakað þá fyrir að skilja ekki ákveðin grundvallaratriði í því hvernig niðurstöður slíkra tilrauna eru metnar, þar sem mönnum er ýmist gefið lyf eða óvirk efni.

Hómópatar á okkar tímum ættu að gera sér það ljóst að vegna þess hversu flókinn mannslíkaminn er, þá gætu fimmtíu ólíkir einstaklingar sýnt fimmtíu ólík viðbrögð gegn sama efninu. Þetta gerir það að verkum að ferli klíniskra prófana á hugsanlegum lyfjum er þannig að sjaldan er hægt að halda fram sannfærandi niðurstöðum ef aðeins er byggt á einni rannsókn. Að finna tölfræðilega marktækan mun, jákvæðan eða neikvæðan, milli tilraunahóps (í lyfjameðferð) og stýrihóps í einni lyfjarannsókn ætti alltaf að taka með fyrirvara. Sama gildir ef ekki finnst neinn tölfræðilegur munur. Það er ekki óalgengt að niðurstöður tuttugu rannsókna á sama lyfinu séu sumar hverjar jákvæðar, aðrar neikvæðar og enn aðrar misvísandi eða óljósar.

Þrátt fyrir þá staðreynd að mikill meirihluti niðurstaðna hundruða kannanna, sem gerðar hafa verið á remedíum smáskammtalækninganna, hafa verið á þá leið að þær séu gagnslausar þá halda verjendur smáskammtalækninga ekki einungis því fram að remedíur virki heldur einnig að þeir viti hvernig þær virka. Svo virðist samt sem áður að vísindamenn á borð við Jacques Benveniste, sem heldur því fram að hann viti hvernig smáskammtalækningar virki, hafi farið fram úr sjálfum sér. Benveniste segist hafa sannað að remedíur virki með því að breyta byggingu vatns og þannig getur vatnið „munað“ byggingu þess efnis sem þynnt hefur verið í því niður í ekki neitt. (Nature 333, nr. 6176, bls. 816-818, 30. júní, 1988).* (Benveniste hélt því jafnvel fram að líffræðileg virkni hómópatískra lausna gæti verið tekin upp á stafrænt form, vistuð á hörðum diski, send í gegnum Netið og flutt yfir í vatn á hinum endanum. Hann var líffræðingur sem naut velgengi í starfi sínu á opinberri rannsóknarstofnun þangað til að hann byrjaði að koma með þessar fullyrðingar, sem hefur kostað hann stöðu sína og orðspor sem virts vísindamanns. Hann er nú talinn vera af gagnrýnendum (á borð við James Randi) annar Blondlot.) Þar sem að remedíur smáskammtalækninganna virka ekki, þá er ekki þörf á kenningu um hvernig þær virka. Það sem þörf er á er útskýring á því hvers vegna svona margir eru ánægðir með hómópatann sinn þrátt fyrir öll þau gögn sem benda til þess að remedíur hafi enga virkni.

Hvers vegna ætti einhver að hafa trú á smáskammtalækningum?

Áður en farið er út í það að útskýra hvers vegna svona margt fólk trúir því að smáskammtalækningar virki, þá vil ég fyrst verja þá skoðun að remedíur hafi engin áhrif. Nokkrar samantektir hafa verið gerðar á hinum ýmsu rannsóknum sem fram hafa farið á virkni hómópatískra remedía og engin af þeim kemst að þeirri niðurstöðu að góðar vísbendingar séu um að eitthvað af remedíunum hafi einhver áhrif. Hómópatar hafa haft meira en 200 ár til að sýna fram á gildi fullyrðinga sinna og þeim hefur ekki tekist að gera það. Vissulega er hægt að finna einstaka rannsóknir sem hafa fundið tölfræðilega marktækan mun á milli hópa sem annars vegar voru meðhöndlaðir með remedíum og hins vegar stýrihópsins sem fékk enga meðferð, en ekki hefur tekist að endurtaka neina af þessum rannsóknum eða þá að eitthvað hefur verið bogið við aðferðafræði þeirra. Tvo hundruð ár og við erum ennþá að bíða eftir sönnunum! Að hafa hugann opinn er eitt, að bíða endalaust eftir sönnunum er meira í ætt við óskhyggju.

Gerð hefur verið heildarsamantekt um rannsóknir á smáskammtalækningum af Terence Hines (2003: 360-362). Hann tók saman verk Taylor et al. (2000), Wagner (1997), Sampson og London (1995), Kleijen, Knipschild, og ter Riet (1991), og Hill og Doyon (1990). Ekki hefur gengið eftir í meira en 100 rannsóknum að finna einhverjar jákvæðar niðurstöður varðandi hómópatísk lyf. Ramey (2000) segir að

Smáskammtalækningar hafa verið viðfangsefni að minnsta kosti 12 vísindalegra samantekta, þar með taldar allsherjargreiningar, sem hafa verið birtar síðan um miðjan níunda áratug síðustu aldar.... [Og] niðurstöðurnar eru merkilega sambærilegar:.... hómópatískar remedíur hafa engin áhrif.

Þrátt fyrir það hefur hómópatían alltaf sína talsmenn, þrátt fyrir skort á sönnunum fyrir því að remedíur hennar virki. Hvers vegna? Ein ástæða þess er algengur misskilningur á orsökum sjúkdóma og hvernig mannslíkaminn tekur á þeim. Hahnemann gat náð til sín stuðningsmönnum vegna þess að hann leit út fyrir að vera sá sem læknar samanborið við þá sem voru að skera upp æðar og notuðust við eitruð hreinsimeðöl til að koma á jafnvægi hjá líkamsvessunum. Kannski hafa fleiri sjúklingar hans lifað af og náð bata, ekki vegna þess að hann hafi læknað þá, heldur vegna þess að hann olli engum sýkingum eða drap þá ekki með því að taka hið lífsnauðsynlega blóð úr þeim eða gerði þá ekki veikari með öflugum eitrum. Lyfin hans Hahnemanns voru í raun ekkert annað en algengir vökvar sem voru ólíklegir til að valda nokkrum skaða. Hann þurfti ekki að hafa marga sjúklinga sem lifðu af og urðu betri af veikindum sínum, til að líta vel í samanburði við keppinauta sína. Ef um er að ræða einhver jákvæð áhrif á heilsuna þá er það ekki vegna hómópatískra remedía, sem virka ekki, heldur vegna eigin aðferða líkamans við að lækna sjálfan sig eða þá trú sjúklingsins á meðferðina (lyfleysuáhrif) eða þeirra áhrifa sem framkoma hómópatans hefur á sjúklinginn.

Streita getur haft slæm áhrif á sjúkdóma og jafnvel ein og sér valdið veikindum. Ef meðferðaraðilinn hefur róandi áhrif á sjúklinginn þá getur það eitt og sér valdið marktækum breytingum og stuðlað að aukinni vellíðan sjúklingsins. Sú tilfinning gæti aftur valdið jákvæðum sálrænum áhrifum. Eitt af því sem felst í aðferðum hómópata er að eyða miklum tíma með hverjum sjúklingi til að fá sem besta mynd af sjúkdómseinkennunum. Það er mögulegt að það hafi mikil róandi áhrif á einhverja sjúklinga. Þau áhrif geta hjálpað líkamanum við að lækna sjálfan sig í einhverjum tilfellum. Eins og hómópatinn Anthony Campell orðar það: „Ráðgjöf hjá hómópata gefur sjúklingnum tækifæri á því að tala langtímum saman um sig og vandamál sín við áhugasaman og samúðarfullan hlustanda í vernduðu umhverfi, og það eitt útaf fyrir sig er mannbætandi.“ * Með öðrum orðum, smáskammtalækningar eru nokkurs konar sálfræðimeðferð.

....flestir hómópatar vilja að fyrsti viðtalstíminn taki að minnsta kosti 45 mínútur og margir kjósa að hann taki klukkutíma eða jafnvel lengur. Í öðru lagi þá finnst sjúklingum eins og þeir séu meðhöndlaðir „eins og einstaklingar“. Þeir eru spurðir fjölmargra spurninga um líf sitt og hvað þeim finnst gott eða vont að borða, um veðrið o.s.frv., margt af þessu hefur engin augljós tengsl við vandamálið sem varð til þess að þeir leituðu sér aðstoðar. Síðan mun hómópatinn að öllum líkindum leita ráða í afar stóru og merkilegu safni upplýsinga til aðstoðar við að velja réttu remedíuna. (Campell)

Við vitum að það er í raun ekki til nein haldbær vísindaleg gögn sem styðja það að hómópatískar remedíur hafi einhver áhrif. Það þýðir ekki að sjúklingum líði ekki betur eða geti jafnvel batnað eftir heimsókn til hómópata. Það er allt annað mál, þrátt fyrir að það sé greinilega ástæðan fyrir ánægju viðskiptavinanna. (Hér getur lesandinn lesið sér til um lyfleysuáhrif, post hoc rökvilluna og breytileika rökvilluna.)

Wendy Kaminer, sem hefur verið gagnrýnin á ýmsar óskynsamlegar gjörðir, er ein af þessum ánægðu viðskiptavinum. Þrátt fyrir það sagði hún við hómópatann sinn að hún óttaðist það mest að „einhver ætti eftir að komast að því að ég hafði ráðfært mig við hómópata“ (1999: bls. 3), sem augljóslega var ekki raunin því annars hefði hún varla tilkynnt heiminum það í bók sinni.

Þegar ég fer til hómópatans míns þá er ég kannski að fylgja ákveðinni lífsreglu heilsuhreyfingarinnar sem ég hef alltaf hæðst að: Ég er að hugsa með hjartanu en ekki höfðinu. Eða kannski er hegðun mín rökrétt eftir allt saman. Að trúa á smáskammtalækningar er kannski órökrétt, en að notfæra hana sér ekki ef hún virkar er jafnvel enn órökréttara. Ég hef áhuga á því hvort að lyfin virki, ekki hvers vegna. (Ég hef aðeins óljósa hugmynd um hvernig sýklalyf virka)

Svo ég hlusta ekki á vísindamenn sem vilja ákafir skýra það út fyrir mér hvers vegna hómópatískar remedíur geti ómögulega virkað, vegna þess að þær brjóta í bága við lögmál efnafræðinnar. Segjum sem svo að vísindamennirnir hafi rétt fyrir sér, og að remedíurnar sem ég hef tekið hafa einungis lyfleysuáhrif, hvers vegna ætti ég að vilja efast – og gera lítið úr virkni þeirra? Afhverju ekki að vera móttækileg fyrir lyfleysuáhrifunum? (ibid.)

Hér er skynsöm kona, mjög gagnrýnin á óskynsamlega hegðun, sem viðurkennir það að hún hafi gert eitthvað sem flestu skynsömu fólki finnst óskynsamlegt. Það er áhugavert hvernig hún hefur tekið á þessu hugarmisræmi. Hún hefur gert hið óskynsamlega skynsamlegt (eða minnsta kosti ekki eins óskynsamlegt og hinn valkostinn) með því að einblína á þá skoðun sína að smáskammtalækningar virki. En við vitum að meðölin virka ekki svo hvað er Kaminer þá eiginlega að tala um? Hún er ekki að vísa til vísindalegra rannsókna sem hafa sýnt fram á virkni hómópatískra remedía, vegna þess að slíkar rannsóknir hafa bent í þveröfuga átt. Í raun virðist það ekki skipta máli fyrir henni hvort að þannig rannsóknir hafi farið fram yfir höfuð. Það sem hún á við er það að hún trúir því að „smáskammtalækningar hafi hjálpað mér“ (bls. 4). Hún varar lesandann við því að taka orð hennar trúanleg heldur mælir með því að hann prófi sjálfur, sem virðist gefa það í skyn að ef ég færi til hómópata og héldi að það hefði hjálpað mér, þá væri óskynsamlegt af mér að halda ekki áfram að hitta hómópatann. En hvað þýðir hjálp eða að hjálpa? Þessi orð hafa óljósa merkingu, þau hafa ekkert vitrænt innihald þrátt fyrir að þau séu mjög tilfinningahlaðin. Hún gefur lítið fyrir þann möguleika að hún gæti verið að hegða sér óskynsamlega, finnst hann frekar broslegur.

....kannski er ég að ímynda mér að smáskammtalækningar hafi hjálpað mér. Kannski er ég að rugla saman fylgni við orsakasamband, kannski var það vegna tilviljunar að mér byrjaði að líða betur, vegna einhverrar óþekktrar ástæðu, á svipuðum tíma og þegar ég leitaði fyrst til smáskammtalækninga (ibid., bls. 4).

Hún ræður okkur frá því að taka hana á orðinu og segir okkur að við ættum að biðja hana um að færa sönnur á það sem hún heldur fram. Hún ráðleggur okkur jafnvel að reyna að endurtaka reynslu hennar. Kannski eru þetta hennar hugmyndir um hvað skynsöm, vísindalega þenkjandi manneskja ætti að gera. En það er engin leið til þess að ég eða einhver annar gæti sannreynt staðhæfingar hennar með því að reyna að endurtaka þær. Við höfum ekki nógu skýra mynd af hvað það er sem hún heldur fram, til að vita hvað við ættum að reyna að endurtaka. Staðhæfingar hennar um að eitthvað hafi hjálpað henni eru of óljósar til að hægt sér að reyna að líkja eftir þeim. Er hún virkilega að segja það að ef ég færi til hómópata og liði betur eftir á þá hafi ég sannreynt og endurtekið það sem hún heldur fram? Ég held að hún sé að því. Og ég held að hún fari villu síns vegar.

Þrátt fyrir það þá held ég að ég skilji hvað hún er að tala um. Ef ég sem dæmi færi til hómópata og í meðferðinni hyrfi verkurinn í hnjánum gjörsamlega, verkur sem ég hef þjáðst af í mörg ár og læknirinn minn segir að sé vegna belgbólgu, þá væri það órökrétt af mér að halda ekki áfram í meðferðinni. Það sem meira er þá væri það órökrétt af mér að leita ekki ráða hjá hómópatanum mínum, ef ég fyndi fyrir annars konar óþægindum, segjum til dæmis í olnbogunum, öxlunum eða bakinu. Ef ég gæti byrjað aftur að skokka, þá væri það órökrétt að halda ekki áfram að hitta hómópatann. Ég gæti tekið undir þetta. En, ef ég ráðfærði mig við hómópata um ný óþægindi sem læknirinn minn hefði ekki getað hjálpað mér að losna við með hefðbundnum meðferðarúrræðum og eftir hómópatíska meðferð hyrfi sársaukinn, þá myndi ég ekki álíta það vera órökrétt að halda ekki áfram að fara til hómópatans. Ég myndi telja það líklegt að sársaukinn hefði horfið ef ég hefði ekki ráðfært mig við hómópatann. (Ef þú ert að velta fyrir þér hvers vegna þá skaltu lesa færsluna um breytileika rökvilluna.)

Það sem meira er, ef að hómópatísk remedía ætti eftir að lækna mig af verkjunum í hjánum, þá myndi ég vilja rannsaka hvað var í remedíunni. Jafnvel þrátt fyrir að flestar hómópatískar remedíur í Bandaríkjunum og Bretlandi séu lítið annað en vatn og vínandi, þá eru fjölmargar vörur á markaðnum sem eru merktar hómópatískar sem innihalda virk efni (sjá samsettar smáskammtalækningar, ísópatía og „nosodes“). Samt sem áður, ef ég kæmist að því að remedían mín væri ein af þeim sem hefðu verið þynntar svo mörgum sinnum að ekkert væri eftir af upprunalega virka efninu, þá væri ég frekar á þeirri skoðun að verkurinn hefði skyndilega horfið frekar en að einhver hómópatísk remedía hefði læknað hann. Afhverju? Vegna þess að hinum þekktu lögmálum eðlis- og efnafræðinnar hefur verið algjörlega kollvarpað ef að meðal, þar sem búið er að fjarlægja nánast hverja einustu sameind af virka efninu, gæti samt sem áður haldið virkni sinni. En ef að ég gæti haft áhrif á verkinn með því að byrja og hætta til skiptis að taka remedíuna í tvíblindu prófi, þá yrði ég að álykta að lyfið hefði þessi áhrif og ætti eftir að verða talsmaður fyrir þá remedíu. Með þessu vil ég einungis benda á að hægt er að prófa hómópatískar remedíur með tilraunum. Að engin remedía hafi til þessa sýnt þá virkni sem ég hef rætt um hér teljast vera sterk mótrök gegn hómópatískum remedíum.

Jafnvel þó að remedíur smáskammtalækninganna hafi lítil áhrif þá hafa smáskammtalækningarnar sjálfar mikil áhrif, ella hefðu þær ekki viðhaldist og dafnað síðastliðin 200 ár. Þær eru mjög vinsælar í Evrópu, sérstaklega hjá bresku konungsfjölskyldunni. Það eru skólar sem kenna hómópatíu víða um heim. Talið er að ársveltan í smáskammtalækningum í Bandaríkjunum nemi um 200 milljónum dala. „Sú staðreynd að þær séu fordæmdar fyrir að vera óvísindalegar af sumum læknum er jákvæður kostur í augum margs fólks, ekki galli.“ (Campbell).

Mestu hætturnar af völdum hefðbundinna smáskammtalækninga eru líklega ekki vegna remedíanna sjálfra, sem sjálfsagt eru öruggar en óvirkar, þrátt fyrir að breyting sé að verða á þessu þar sem að í sumum tilfellum er hómópatía að verða óaðgreinanleg frá jurtalækningum. Ein möguleg hætta felst í því að hvetja til sjálfs-greiningar og meðferðar. Önnur hætta er fólgin í því að fá ekki hefðbundna læknismeðferð í þeim tilfellum þar sem slík meðferð gæti hjálpað sjúklingnum, nefna má til dæmis blöðru eða sveppasýkingar, eða krabbamein. Smáskammtalækningar gætu virkað í þeim skilningi að þær hjálpi upp á líðan sumra manna einstaka sinnum. Smáskammtalækningar virka hins vegar ekki, samt sem áður, til að útskýra sjúkdómsferla eða lækningar á þeim á þann hátt sem kemur ekki einungis heim og saman við eldri gögn heldur gefur tækifæri á að bæta skilning okkar á eðli heilbrigðis og sjúkdóma.

Skeptic's Dictionary: homeopathy


Helstu heimildir

Campell, Anthony. Homeopathy in Perspective - Myth and Reality

Hill C. and F. Doyon. "Review of randomized trials of homeopathy," Review d'epidemiologie et de Sante Publique, 38(2):139-47, 1990.

Hines, Terence. Pseudoscience and the Paranormal (Prometheus 2003).

Kaminer, Wendy. Sleeping with Extra-Terrestrials (Pantheon Books, 1999).

Kleinjen J., P. Knipschild, G. ter Reit. "Clinical trials of homeopathy." British Medical Journal. 302: 316-323, 1991.

Loudon, Irvine. ed. Western Medicine: An Illustrated History, (Oxford University Press 1997).

Jarvis, William. "Homeopathy: A Position Statement by the National Council Against Health Fraud," Skeptic vol. 3, no. 1, 1994, pp. 50-57.

Ramey, David W. "The Scientific Evidence on Homeopathy," Health Priorities, Volume 12, Number 1, 2000.

Sampson W, W. London. "Analysis of homeopathic treatment of childhood diarrhea." Pediatrics 96:961-964, 1995.

Taylor, M.A., Reilly, D., Llewellyn-Jones, R.H., McSharry, C., Aitchison, T.C. (2000) "Randomised Controlled Trial of Homoeopathy Versus Placebo in Perennial Allergic Rhinitis with Overview of Four Trial Series" BMJ 321, 471-476

Wagner, M. W. 1997. "Is Homeopathy 'New Science' or 'New Age'?" Scientific Review of Alternative Medicine 1(1):7-12.

Williams, Guy R. The Age of Miracles : Medicine and Surgery in the Nineteenth Century (Academy Chicago Publishers 1981).

(Finna má frekari heimildir og ítarefni við upprunalegu færsluna á Skepdic.com.)

Lárus Viðar 03.04.2006
Flokkað undir: ( Efahyggjuorðabókin )

Viðbrögð


Svanur Sigurbjörnsson - 03/04/06 11:33 #

Gott yfirlit yfir hómeópatíu sem er fremst í flokki þess sem ég vil kalla "góðgerðakukl". Að því er virðist vel meinandi kuklarar um allt land hagnast á trúgirni og huggunarþörf fólks. Iðkendurnir sjálfir virðast fara í þetta af þörf til að vera "læknendur" og taka fegins hendi fullyrðingum leiðbeinenda og kennarara þessara gervivísinda. Fokdýr námskeið auka á sannfæringarkraftinn. Tíma og peningum fólks eytt í gervilausnir. Takk, Vantrú fyrir stanslausa baráttu fyrir sannleika og vísindum.


farfuglinn - 03/04/06 15:56 #

Ágæt grein, en mér finnst samt vanta eitt mjög mikilvægt atriði í hana. Af hverju sækist fólk svo mikið eftir óhefðbundnum lækningum? Er það ekki vegna þess að margir læknar hlusta alls ekki á sjúklinga, sýna þeim litla samúð og sjúkdómsgreina þá jafnvel rangt?

Ef einhverjum líður betur þegar hann fer til hómópatans, jafnvel þó að það sé bara vegna þess að einhver hlustaði á hann og kom fram við hann eins og manneskju, er þá nokkuð að því? Það má líta á þetta sem sálfræðimeðferð og tengsl sálrænnar líðunar og ýmissa sjúkdóma eru eflaust meiri en vestræn vísindi hafa oft viljað viðurkenna.

Tek það fram að ég er ekki hómópati, hef aldrei leitað til slíks einstaklings og hef ekkert sérstaklega hugsað mér að gera það, en ég hef nokkra reynslu af heilbrigðiskerfi okkar og hana misjafna. Afsakið ritgerðina. :)


Matti (meðlimur í Vantrú) - 03/04/06 16:02 #

Mér finnst þessum atriðum ágætlega svarað í lokahluta greinarinnar. Auk þess má benda á greinina um gagnsemisrökvilluna þar sem fjallað er um þetta efni.


Staðfuglinn - 03/04/06 16:13 #

Góður punktur hjá Farfuglinum. Ásókn fólks í svona þjónustu hlýtur að koma til af einhverri vöntun - einhverri þörf sem er ekki uppfyllt í opinbera heilbriðgiskerfinu. Það er hugsanlega staðreynd sem má læra eitthvað á.

Ég þekki lauslega til hóps kvenna þar sem svona hómópataæði virðist ganga ljósum logum - svo mikið að jaðri við költisma.

Þær fara hver af annari í greiningu og koma til baka uppfræddar um áður óþekktar meinsemdir sem herja á líkama þeirra og meltingarfæri. Þessar meinsemdir kalla að sjálfssögðu á gerbreytt mataræði og reglulegar endurkomur til hómópatans.

Stórfurðulegt, og vekur manni eilítinn ugg.


Lárus Viðar (meðlimur í Vantrú) - 03/04/06 16:48 #

Ef einhverjum líður betur þegar hann fer til hómópatans, jafnvel þó að það sé bara vegna þess að einhver hlustaði á hann og kom fram við hann eins og manneskju, er þá nokkuð að því? Það má líta á þetta sem sálfræðimeðferð og tengsl sálrænnar líðunar og ýmissa sjúkdóma eru eflaust meiri en vestræn vísindi hafa oft viljað viðurkenna.

Ég er að hluta til sammála og það er líka minnst á þetta í greininni. Hins vegar ef þú vilt fá sálfræðimeðferð þá væri betra að tala við einhvern með sérfræðiþekkingu, menntaðan sálfræðing t.d. í staðinn fyrir hómópata.

Þær fara hver af annari í greiningu og koma til baka uppfræddar um áður óþekktar meinsemdir sem herja á líkama þeirra og meltingarfæri. Þessar meinsemdir kalla að sjálfssögðu á gerbreytt mataræði og reglulegar endurkomur til hómópatans.

Þetta er í rauninni fyrirbæri af svipuðum toga og kirkjan. Hún býr til þörfina fyrir sjálfa sig með trúaráróðri og selur síðan lyfið sjálf. Hómópatinn fer sömu leið, segir fólki sögur um að hitt og þetta ami að því, eða það sem verra er notfærir sér veikindi þeirra, og selur því síðan vatn eða alkóhól til að redda málunum. Kallar sig síðan græðara í þokkabót. Ég hreinlega skil ekki afhverju þetta fær að viðgangast.


Hjalti (meðlimur í Vantrú) - 03/04/06 17:35 #

Ég var að benda Organon, félagi hómópata, á þessa grein og benti á athugasemdakerfið.

Vonandi fáum við einhverjar athugasemdir frá hómópötunum sjálfum.


Már - 04/04/06 20:07 #

Skemmtileg og fræðandi grein. Takk fyrir.


Guðmundur D. Haraldsson - 06/04/06 21:57 #

Ef einhverjum líður betur þegar hann fer til hómópatans, jafnvel þó að það sé bara vegna þess að einhver hlustaði á hann og kom fram við hann eins og manneskju, er þá nokkuð að því? Það má líta á þetta sem sálfræðimeðferð og tengsl sálrænnar líðunar og ýmissa sjúkdóma eru eflaust meiri en vestræn vísindi hafa oft viljað viðurkenna.

Ég er hvorki sérfræðingur í smáskammtalækningum né sálfræði, en eftir því sem ég veit best er þetta með sálfræðimeðferðina ofureinföldun. Það fer þó eftir því hvað er átt við með að „kom[a] fram við hann eins og manneskju“. - Kannski er ég samt bara að oftúlka orð Svans, vonandi fyrirgefst mér það ef svo er. En það kæmi mér ekki á óvart þó ef seinni hluti setningar Svans væri sönn.

Varðandi sálfræðina, þá kæmi mér ekki á óvart þó það væri útbreiddur misskilningur að sálfræðingar hlusti bara. Það er ekki satt, þeir stjórna líka meðferð - meðferð sem er misjöfn eftir kvillum/sjúkdómum og aðstæðum.


Maria - 09/04/06 17:32 #

Langar að deila með ykkur lítilli sögu. Dóttir mín 4.ára var með bólginn kritill við auga. Fór með hana til augnlæknis sem mælti með að barnið væri svæft og stungið á kirtilinn. Fannst það frekar stór aðgerð fyrir 1. kirtill. Auk þess sem enginn veit alveg hvernig svæfing virkar alveg og ekki á að vera svæfa fólk í tíma og ótíma. Hafði samband við hómapata til að athuga hvort hún gæti gert eitthvað áður en svæfingarmeðulin væri notuð. Hómopatalyfið virkaði eftir nokkrar vikur en barnið var búið að vera með bólgin kirtil í svo að segja ár. Segið mér hafði barnið svona ofboðslega trú á lyfinu eða hvað. Eða mín trú á að þetta virkaði ég hugsaði sem svo prófa þetta bara að því að hitt er svo stórtækt út að einum kirtli! kv María


Matti (meðlimur í Vantrú) - 09/04/06 17:40 #

Var barnið búið að þjást útaf bólgnum kirtli í næstum ár áður en farið var til augnlæknis?

Hafði samband við hómapata til að athuga hvort hún gæti gert eitthvað áður en svæfingarmeðulin væri notuð. Hómopatalyfið virkaði eftir nokkrar vikur

Hve langur tími er nokkrar vikur? Voru þetta þrjár vikur eða kannski tíu vikur? Þykir það eitthvað óeðlilegt að bólgnir kirtlar hjaðni á nokkrum vikum?

Hvaða efni innihélt "lyfið" sem hómopatinn lét þig fá handa fjögurra ára barni. Hvernig hafði "lyfið" sem hómopatinn lét þig fá verið rannsakað og hvað fullyrti hómopatinn að "lyfið" myndi gera? Hvað kostaði "lyfið" og meðferðin hjá hómopatanum?


Sverrir Guðmundsson (meðlimur í Vantrú) - 10/04/06 13:44 #

Þetta eru mjög góð tíðindi að bólgan hafi hjaðnað eftir heimsóknina til hómópatans. Ég þekki fleiri sögur af þessu tagi þar sem bólgur hafa hjaðnað hjá ungum börnum en meðferðir lækna gáfu ekki jafngóða raun.

Það er rétt hjá þér að barnið þekki ekki inn á lyfleysuáhrifin líkt og fullorðið fólk.

Hins vegar er best að hrapa ekki að neinum ályktunum um meðferðina hjá hómópatanum áður en ýmis atriði eru skoðuð gaumgæfilega eins og Matti bendir á.


maria - 12/04/06 18:42 #

Já spurt er hve langur tími leið, ég fór með barnið tvisvar til læknis. Í fyrsta skiptið var talað um pensilínkrem annars myndi tíminn væntanlega vinna með barninu. Ekkert gerðist að ráði og árið leið. Þá fór ég aftur og þá var talað um svæfingu. Mér hugnaðist það ekki og hafði samband við hómópata sem starfaði á leikskóla barnanna og ég hafði heyrt af hjá vinkonu minni. Fékk þar töflur spurði nú ekki um innihald fremur en ég geri þegar ég fæ lyf í apóteki enda segja innihaldslýsingar mér þar lítið. Lyfið fór að virka eftir nokkra daga og eftir 2-3 vikur var kritillinn bólgni búin að hjaðna. Konana rukkaði mig um þúsund krónur. Kv M


Matti (meðlimur í Vantrú) - 12/04/06 19:14 #

Fékk þar töflur spurði nú ekki um innihald fremur en ég geri þegar ég fæ lyf í apóteki enda segja innihaldslýsingar mér þar lítið.

Áttu nokkuð umbúðirnar utan af töflunum sem hómópatinn lét þig fá?


Lárus Viðar (meðlimur í Vantrú) - 14/04/06 15:48 #

María, það er skýrt frá því í þýðingunni hér að ofan að allar rannsóknir sem fram hafa farið á virkni hómópatískra remedía hafa ekki sýnt fram á að þær hafi nokkur áhrif. Þó að í einstaka tilfellum hafi sjúklingi batnað eftir meðferð hjá hómópata þá er það ekki nægjanlegt til að sýna fram á það að meðöl þeirra virki.

Ef lyf hómópatans hefur verið eitt af þessum útþynntu þar sem styrkur efnisins er lítill sem enginn, þá teldi ég frekar að ónæmiskerfi líkama dóttir þinnar hefði ráðið niðurlögum sýkingarinnar.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.