Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Gagnsemisrökvillan

Gagnsemisrökvillan er framin þegar maður heldur því fram að eitthvað sé satt vegna þess að það virkar. Stjörnuspeki virkar, talnaspeki virkar, heilun virkar. Ekki er alveg ljóst hvað orðið virkar merkir í þessu samhengi. Að minnsta kosti þýðir það að taldir eru kostir við að trúa því að eitthvað sé satt þrátt fyrir þá staðreynd að trú er óháð því hvort eitthvað sé satt í raun og veru. Í þessu samhengi virðist virka þýða "ég er ánægður með það" sem mætti túlka sem "mér líður betur" eða "þetta útskýrir eitthvað fyrir mér". Í besta falli þýðir "virkar""eitthvað hafi jákvæða virkni" jafnvel þó fátt bendi til raunverulegs orsakasambands.

Gagnsemisrökvillan er algeng þegar kemur að óhefðbundnum lækningum og byggir oft á post hoc rökvillu. Til dæmis, einhver er aumur í bakinu, notar nýja segulbeltið, batnar í kjölfarið og fullyrðir því að segulbeltið hafi valdið því að sársaukinn hvarf. Hvernig veit maður það? Vegna þess að það virkar.

Það er algengt svar til efahyggjumanna, sem benda á að ánægja viðskiptavinar sé óháð því hvort tækið, lyfið eða meðferðin sem um ræðir séu ástæða árangursins. Hverjum er ekki sama hvers vegna þetta virkar svo lengi sem það virkar? Það er hægt að rökræða hvernig þetta virkar, en þú getur ekki neitað því að fólk er ánægt. Því líður betur eftir að hafa notað vöruna. Það eitt skiptir máli.

Það er ekki það eina sem skiptir máli. Vitnisburðir koma ekki í stað vísindalegra rannsókna sem eru framkvæmdar til að tryggja að við séum ekki að blekkja okkur með því sem virðist vera satt. Það er nauðsynlegt að framkvæma samanburðarrannsóknir á verkjastillandi aðferðum til að forðast sjálfsblekkingu sökum lyfleysuáhrifa, eftirá rökleiðslu eða stigminnkunar rökvillu. Við viljum kannski ekki efast of mikið um batann sem fólk upplifir, en við verðum að rannsaka hvað veldur batanum.

Það er auðvelt að skilja af hverju einhver sem er með “banvænt” krabbamein og leitar "óhefðbundinna" lækninga þakkar þeim árangurinn ef æxlið minnkar í kjölfarið. En ef óhefðbunda aðferðin er ekki orsök batans fyllir það aðra sem leita sömu leiða falskri von. Að sjálfsögðu eru þeir sem prófa meðferðina og deyja, ekki til staðar til að segja sögu sína. Eftirlifandi ættingjar þeirra munu jafnvel halda því fram að eina ástæða þess að meðferðin virkaði ekki er að hún hófst of seint. Eina leiðin til að komast að því hvort meðferðin virkar í raun er að framkvæma vandaðar vísindarannsóknir. Vitnisburðir um hversu vel meðferðin virkar geta verið hjartnæmir, en þeir geta einnig verið hættulega villandi.

Skeptic's Dictionary - the pragmatic fallacy

Matthías Ásgeirsson 26.02.2004
Flokkað undir: ( Efahyggjuorðabókin )

Viðbrögð

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.