Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Töfrahugsunarháttur

"...töfrahugsunarháttur er "grundvallarþáttur í hugsanaferli barns." --Zusne og Jones

Samkvæmt mannfræðingnum Dr. Philips Stevens Jr., felur hugtakið töfrahugsunarháttur í sér nokkra hluti, þar á meðal þá trú að allir hlutir tengist með kröftum sem hafnir eru yfir bæði efni og anda. Töfrahugsunarháttur gæðir hluti sem teljast táknrænir sérstökum kröftum. Samkvæmt Stevens, "trúir mikill meirihluti mannkyns á að raunveruleg tengsl séu á milli tákns og þess sem það stendur fyrir og að einhver raunveruleg og jafnvel mælanleg orka flæði þar á milli." Hann telur að þetta eigi sér taugafræðilegar skýringar, þótt innihald táknanna sjálfra eigi sér menningarlegar rætur.

Eitt af grundvallaratriðum töfrahugsunarháttar er sú trú að hlutir sem líkjast hver öðrum tengist orsakaböndum, sem liggi á einhvern hátt handan vísindalegra athugana (samsvörunarlögmálið, e: the law of similarity). Annað mikilvægt atriði er sú trú að "hlutir sem hafa annað hvort snerst eða á einhvern hátt tengst í tíma eða rúmi haldi sambandi eftir að sú tenging hefur verið rofin" (smitlögmálið, e: the law of contagion) (Frazer; Stevens). Sem dæmi má nefna gripi dýrlinga sem sagðir eru flytja andlega orku. Annað dæmi eru rannsóknamiðlar (e: psychic detectives) sem segjast geta öðlast upplýsingar um týndar manneskjur með því að snerta hluti sem þær eiga (fjarskynjun (e: psychometry). Enn eitt dæmi væri gæludýramiðill sem segist geta lesið hugsanir hunds með því að horfa á mynd af honum. Að síðustu væri hægt að taka sem dæmi umbreytingatitring (e: morphic resonance) Robert Sheldrakes. Þess má geta að Sheldrake þessi stúderar einnig skyggna hunda.

Samkvæmt sálfræðingnum James Alcock, "er 'töfrahugsunarháttur' sá að telja annan tveggja nálægra atburða hljóta að hafa orsakað hinn, án þess að gera kröfu um orsakasamhengi. Ef þú til að mynda trúir því að krosslagðir fingur verði þér til happs, hefurðu tengt athöfnina að krossleggja fingur við næsta ánægjulega atburð og hefur þar með gefið þér orsakasamhengi þar á milli." Að þessu leiti er töfrahugsunarháttur uppspretta margrar hjátrúar. Alcock bendir á að taugafræðileg uppbygging okkar geri það að verkum að við hneigjumst að töfrahugsunarhættinum og því standi gagnrýnin hugsun oft höllum fæti. Sem dæmi má nefna post hoc rökvilluna og rökvillu fjárhættuspilarans (e: gamblers fallacy). Annað dæmi er það að reyna að finna meiningu í tilviljunum.

Zusne og Jones (1989: 13) skilgreina töfrahugsunarhátt sem trú á:

(a) að flutningur á orku eða upplýsingum milli efnislegra kerfa geti átt sér stað einfaldlega vegna þess hve lík þau eru eða nálæg hvort öðru í tíma og rúmi, eða (b) að hugsun manns, orð eða gjörðir geti haft efnisleg áhrif sem lúta ekki lögmálum um hefðbundna tilfærslu á orku eða upplýsingum.

Tvö augljósustu dæmin um töfrahugsunarhátt eru hugmyndir Jungs um samstillingu (e: synchronicity) og Hahnemanns um smáskammtalækningar (Stevens). Einnig má nefna sem dæmi hagnýta hreyfifræði (e: applied kinesiology), rithandarfræði (Beyerstein), lófalestur og hluthrifni (e: psychokinesis).

Önnur vísindi hafa beint okkur í átt frá hjátrú og töfrahugsunarhætti; dulsálarfræðin hefur hins vegar reynt að beina okkur í þveröfuga átt. Dean Radin (1997), sem er fremstur í röð þeirra sem reynt hafa að réttlæta dulsálfræði, segir "hugmyndina um að hugurinn sé æðri efninu eigi sér djúpar rætur í Austrænni heimspeki og fornum hugmyndum um töfra." Í stað þess hins vegar að segja að tími sé til kominn að hverfa frá töfrahugsunarhætti barndómsins og horfa fram á veginn, kallar hann gagnrýni "Vestrænna vísinda" á slíka trú "tóma hjátrú."


Skeptics Dictionary: magical thinking

Ítarlega heimildaskrá er að finna við upprunalegu greinina á Skeptics Dictionary.

Björn Darri 21.04.2008
Flokkað undir: ( Efahyggjuorðabókin , Nýöld )

Viðbrögð


gimbi - 21/04/08 23:48 #

Já, það er margt skrýtið í kýrhausnum.

Svo þótti mér líka skemmtilegt að sjá skýringu Alcocks á öllu þessu dótaríi:

"Alcock bendir á að taugafræðileg uppbygging okkar geri það að verkum að við hneigjumst að töfrahugsunarhættinum og því standi gagnrýnin hugsun oft höllum fæti."

Það var nebblilega það! Taugafræðileg uppbygging. Það var þá bara svona einfalt eftir allt saman. Sjís...

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.