Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Annáll 2010 : II af V

Kettlingar

[I. hluti][III. hluti] [IV. hluti] [V. hluti]

Í apríl skrifaði Óli Gneisti Sóleyjarsson um nýtilkominn friðarboðskap og barnatrúboð ríkiskirkjunnar. En hann gerir greinina "Friðarboðskapur eða ævintýri?" að umtalsefni og bendir á að núverandi útgáfa af friðarboðskap biblíunnar er aðeins að finna í nýju íslensku biblíuþýðingunni.

Auk þess bendir hann á að:

Vandamálið við það hvernig fæðingarsaga Jesú er sett fram í leik- og grunnskólum landsins er að hún er sögð eins og hún sé sönn. Það er einfaldlega trúboð og það er lögum samkvæmt bannað í skólum og einnig banna siðareglur kennara slíkt.

Reynir Harðarson óskaði landsmönnum gleðilegra páska og vísar svo í nokkur orð Karls Sigurbjörnssonar um þennan mesta brandara gvuðs.

Að fólk á 21. öld skuli líta á svona velling sem vitræna nálgun á tilverunni er kannski það hlægilegasta af öllu hlægilegu og ótrúlegast af öllu ótrúlegu.

Ímyndaðir andstæðingar upprisunnar eftir Hjalta Rúnar Ómarsson fjallar um úrelt rök sem kennd eru við rökhyggjumenninna á 18. og 19. öld sem reyndu að gera kraftaverkasögurnar um Jésú raunverulegar með því að benda t.d. á að hann hafi ekki labbað á vatni heldur labbað á grjóti sem var í vatninu

Þessir menn höfðu nefnilega undarlega blöndu af skoðunum. Annars vegar trúðu þeir því að kraftaverk gerðust ekki, en hins vegar trúðu þeir því að guðspjöllin væru algjörlega áreiðanleg. Til þess að samræma þessar skoðanir sínar, þá fundu þeir upp ótrúlega langsóttar skýringar til þess að útskýra sögur af kraftaverkum í guðspjöllunum.

Ketill Jóelsson ræðir ögn um sína Vantrúarupplifun og vísar í árshátíð félagsins sem hann mætti á. Þessum unga vísinda- og rökhyggjunörd fannst hann vera bara í nördahimnaríki. Bendir á að umræðuefnið var af fjölbreyttum toga og var meðal annars rætt um:

kennilega eðlisfræði, stærðfræði, meðaltalsrannsóknir, þróun, nýjustu tæknina, kjarnorkumál heimsins, heimsmálin, bækur, heimildarmyndir, tónleikaferðir, heimasíðugerð, biblíulestur, heilsu, fúskara, og margt fleira.

Gott að fólk skemmtir sér.

Baldvin Örn Einarsson ræddi um kaþólska barnaperra og Ratzinger páfa. Páfinn - einsog flestir vita - er óttalegur skíthæll. En hann hefur persónulega aðstoðað barnaperrapresta við að flýja undan réttvísinni aðeins til að viðhalda einhverjum helgislepjuljóma kaþólsku kirkjunnar.

Hvort Benedikt XVI sé óskeikull skal ósagt látið, en allt bendir nú til að Joseph Ratzinger sé sekur um að hylma yfir með stórfelldu barnaníði innan þeirrar stofnunar sem hann nú, undir nýja nafninu sínu, veitir forstöðu.

Reynir Harðarson spyr sig og aðra hvort að séra Svavar Alfreð Jónsson ljúgi þegar hann fer með svona bull:

Sagan minnir okkur líka á að það eru öfl í þessum heimi sem vilja ekki að við upplifum neina páska. Þau vilja slökkva ljósin sem páskarnir kveikja. Það er þeim hagstæðara að hafa lýðinn vonlausan. Þeim hentar betur að útbreiða trú á dauðann en lífið.

Útúrsnúningatrú: samtal af barnum er lítið leikrit eftir Kristinn Theódórsson þar sem hann reynir að koma sumum í skilning hvað það er vægast sagt furðulegt að ræða við sumt trúfólk. En trúleysingjar eru sagðir skilja ekki hinar og þessar forsendur þegar hin og þessi mál eru rædd er varðar trú og trúarbrögð, t.d. eðli guðs eða samspil guðs og manna. Hvað sem það þýðir.

En hvað er það sem trúleysinginn ekki skilur við "eðli guðs" og "samspil guðs og manna"? Það fer eftir hver er spurður, í hvaða samhengi og á hvaða tíma dags, því alltaf virðast mörkin færast þegar trúmaðurinn er inntur eftir frekari upplýsingum um samhengi hlutanna í heimsmynd hans.

Hinn fimmtugi grallari Reynir Harðarson er af sumum talinn reiður ungur maður því hann er trúleysingi í Vantrú og formaður þess. Hann skrifaði einu sinni grein:

Fyrir rúmum tuttugu árum (12. júlí 1989) birtist eftirfarandi grein eftir mig í DV vegna heimsóknar páfa til Íslands. Það var undarleg tilfinning að rekast á hana aftur um daginn og skyggnast aðeins inn í hugsunarhátt sinn þá. En í stað þess að hrista hausinn yfir rausinu í þessum "reiða unga manni" var ég bara nokkuð stoltur af því að hafa komið þessu frá mér í því umhverfi sem ríkti á níunda áratug síðustu aldar.

Birgir Baldursson bendir á þann vitsmunalega óheiðarleika trúfólks að geta ekki séð eða skoðað heiminn án þess að troða gvuði í nær allt.

Það hefur lengi verið vinsælt meðal trúmanna að afgreiða trúleysi sem trú. Röksemdir sem heyrast eru jafnvel á þá lund að skynfæri okkar séu einfaldlega með þeim hætti að veröldina fyrir utan hauskúpuna sé ekki hægt að sannreyna öðru vísi en með túlkun taugaboða. Þessi túlkun sé ekkert annað en trú.

Hjörtur Brynjarsson hafði samtal við suðurríkjamann um trú og trúleysi sem hann heimfærði og þýddi. Þetta samtal gefur ágætis innsýn inn í vissan hugsunarhátt.

Suðurríkjamaður: Að ætla að bera saman trú okkar kristinna manna saman við jólasveininn og tannálfinn er rosaleg fáfræði og það eina sem þú ert að reyna að gera er að rakka okkur niður og gengisfella okkur og trú okkar. Trú okkar er mun dýpri en trú einhverja á jólasveina og álfa. Ég bjóst nú við meiru af þér!

Hjörtur: Nei, það er bara engin fáfræði í þessu, þvert á móti. Þau haldbæru rök og gögn sem styðja tilvist allra þeirra yfirnáttúrulegu fyrirbæra sem ég hef nefnt eru sama merki brennd - þau eru ekki til!

Prestar og annað trúfólk hefur stöku sinnum verið duglegt við að benda á að núverandi fjármálaástand megi að einhverju leyti rekja til skorts á trú. Það er náttúrulega argasta bull. Guðmundur Guðmundsson gerir þessu viðhorfi stórkostleg skil í pistlinum Þúsund ár dugðu ekki til.

Næstu vikur og misseri á eftir að freyða um talfæri sjálfskipaðra siðapostula ríkiskirkjunnar í heilagri vandlætingu yfir siðferðisbrestunum. Þeir eiga eftir að draga fram boðskap síns krosshangna frelsara og finna þjóðfélaginu og höfuðpaurum hrunsins það til foráttu að hafa rásað út af vegi dygðanna.

Það er einnig óneitanlega skondið að á sama tíma og prestar predika skort á dygðum og gegndarlausa græðgi í þjóðfélaginu nema skuldir sumra sóknarkirkna tugum ef ekki hundruðum milljóna króna. Að gefnu tilefni bendum við á að félagið Vantrú:

[...] skuldar ekki krónu og hefur engin lán tekið, hvorki gengislán né verðtryggð. Félagið hefur ekki eytt milljörðum í að byggja of stórar byggingar, hundruðum milljóna í að kaupa gríðarlega stór orgel, tugmilljónum í hurð eða hundruðum þúsunda í rauðvínsglas. Vantrú óskar ekki eftir því að gjöld ríkis til félagsins hækki, enda eru þau engin. Vantrú mun hér eftir sem hingað til sjá um sín fjármál án aðstoðar ríkisins.

Andrea Gunnarsdóttir gerir meðal annars skólagöngu sína í gegnum leik- og grunnskólan að umræðuefni í greininni Hugleiðingar trúleysingja. Hún ræðir meðal annars um það skýlausa trúboð og innrætingu sem átti sér stað í þeim barnaskólum sem hún var í.

Hugsunarháttur minn á þessum tíma var sá að þeir sem trúa á Guð séu góðir, þeir sem gera það ekki eru vitlausir eða jafnvel illa innrættir og þeim bar að vorkenna. Mér fannst ég því alveg rosalega góð kristin manneskja, að líta ekki niður á þá sem trúðu ekki því sem ég trúði heldur vera góð við þá, því þeir geta ekki að því gert að þeir eru svona. Er þetta eitthvað heilbrigður hugsunarháttur sem þarna var búið að innræta í mig? Nei.

Reynir Harðarson er með svipaðar vangaveltur og Andrea í hugvekjunni Bókasafnið í Alexandríu þar sem hann m.a. bendir á hina annarlegu hvöt starfsmanna ríkiskirkjunnar að troða trúarvírusnum í ung og óhörðnuð börn í leik- og grunskólum og ræðir ögn um hina frábæru sjónvarpsþætti Cosmos eftir Carl Sagan.

Með aukinni þekkingu eykst frjálslyndi og víðsýni. Við erum að sjá endurreisn, vísindabyltingu og upplýsingu í margföldu veldi, beint fyrir framan nefið á okkur. Fórnarlömbin eru fáfræði, kreddur og þröngsýni, hornsteinar gyðingdóms, kristni og íslam.

Guðlast og málfrelsi er umræðuefni Kristins Theódórssonar og útlistar móðgunargirni trúmanna - múslíma sérstaklega - þegar gert er gys að trúnni þeirra. Hann stingur upp á hugmynd:

Komum okkur upp opinberum "gerum-grín-að-kreddum-degi". Þann dag mætti gefa frí í skólum og öllum þess í stað boðið að kríta myndir af guðum og spámönnum á skólalóðirnar Síðan mætti kannski teikna Dawkins og Darwin líka, svona til að pirra okkur trúleysingjana.

Og viti menn! tveim dögum síðar þennan maí-mánuð var Allir teikna Múhameð dagurinn sem Kristinn velti svo vöngum yfir:

Það má túlka þessa hluti á ýmsa vegu og spurningin verður alltaf hvort aðgerðin hafi verið réttlætanleg eða ekki miðað við gefnar forsendur. Sjálfur held ég að Allir teikna Múhameð dagurinn hafi verið ágætur. Umræðan á netinu í kjölfarið var víða skynsamleg og margir lögðu sig fram við að teikna myndir sem voru langt frá því að vera móðgandi.

Á Hvítasunnudegi telja sumir að það að fara með bull eins og "Barakarasha berikum kasalasam. Berishalasali kameri shala brimsel kramgala berikum" sé hápunktur hátíðarinnar. Reynir Harðarsson veltir þessu allavega fyrir sér.

Einhverra hluta vegna virðist þessi gáfa ekki mikils metin í ríkiskirkjunni en vilji menn sjá fullorðið fólk gera sig að fífli með því að bulla svona steypu er hægt að sjá það í Hvítasunnukirkjunni, Krossinum og fleiri stöðum.

Vitið þið um einhvern annan félagsskap en trúfélög sem dásamar bull, bókstaflega?

Svo fór vefritið í smá sumarfrí. Það birtust þó nokkrar greinar út sumarið. Birgir Baldursson benti á þann stóra dag í júní er Karl Sigurbjörnsson viðurkenndi að hann hefði haft rangt fyrir sér. En þetta sumar voru hjúskaparlögunum breytt þannig að samkynhneigð pör geta nú gengið í hjónaband, en Karl og aðrir prestar höfðu barist nokkuð hatrammalega gegn þessum breytingum og ríkiskirkjan reyndi eftir mesta megni að tefja þetta sjálfsagða mannréttindamál.

Í júlí birtist mannskemmandi grein í Morgunblaðinu eftir prestinn Björn H. Jónsson. Í kjölfarið skrifaði ég lítinn stúf sem fékk titillinn Vitsmunaleg holræsi:

Þetta er semsagt enn einn rugludallurinn sem sárbiður um gamla góða myrkra miðaldahugsunarháttinn. Leggðu líf þitt í lúkurnar á gvuði, biðja bara nógu andskoti mikið og - voila! - engin veikindi, engir sjúkdómar og þú munt lifa heilbrigðu lífi.

Að eilífu, amen.

Þó trúmál séu mikið rædd hér á Vantrú þá vílum við ekkert fyrir því að taka kukl og annað kjaftæði fyrir. Ragnar Björnsson benti á MMS krafraverkalausnina og óábyrga fréttamennsku í Síðdegisútvarpi Rásar 2:

Byrjað var að tala við Harald Briem sóttvarnarlækni um málið en svo var tekið viðtal við verslunarkonu í Heilsubúðinni. Þarna hefði maður átt von á því að fréttamaðurinn hefði jafnvel kynnt sér málið aðeins og tæki þann pól í hæðina að spyrja bara hreint út "Hvað í ósköpunum eruð þið að gera með að vera selja landsmönnum eitur á brúsa ?!"

Baldvin Örn Einarsson fjallaði um hvað einkennir vísindi og gervivísindi:

Sumir nota orðið gervivísindi (eða samheitið hjáfræði) um fræðigreinar á borð við sálfræði, félagsfræði og jafnvel heimspeki, í þeirri trú að aðeins „hörð” vísindi eins og eðlis- og efnafræði geti talist til vísinda. Rétt merking orðsins á þó við hugmyndakerfi sem eru sett fram á vísindalegan hátt án þess að vísindastarf liggi þeim til grundvallar.

Innerlight supergreens - Kraftaverkalyf? er pistill eftir Trausta Frey. Þar bendir hann á þá furðulegu vöru Innerlight Supergreens sem Robert nokkur Young, sjálfskipaður doktor í einhverju, framleiðir og Ólafur Stefánsson selur hér á landi. Þetta "lyf" á að geta stillt sýrustigið í líkamanum og þannig getur það læknað öll mein. Ekki var hægt að leita upplýsinga um þessa vöru hjá sjálfum dreifingaraðilanum:

Við höfðum samband við seljanda vörunnar hér á Íslandi, Ólaf Stefánsson, og báðum hann um að benda okkur á slíkar rannsóknir en Ólafur baðst undan því og sagði okkur að gera það sjálf. Þess í stað benti hann okkur á að lesa það sem Róbert Young hefur sjálfur skrifað um vöruna sína á vefsíðu sinni.

Kristinn Theódórsson blöskraði kuklvæðing Bylgjunnar.

Í morgunþætti Bylgjunnar, Í bítið, hefur síðustu tvo þriðjudaga verið tekið á móti Ingibjörgu nokkurri Sigfúsdóttur til að tala um heilsuráðin á Heilsuhringurinn.is. Á þeim vef eru svokallaðar óhefðbundnar lækningar af ýmsu tagi reifaðar og látið vel af nánast öllu sem fólki hefur dottið í hug í þeim efnum. Af einhverjum ástæðum virðist þáttarstjórnendum á Bylgjunni þykja mikilvægt að ota þessum upplýsingum að hlustendum, hversu vafasöm sem heilsuráðin kunna að vera.

Hann spurði svo í kjölfarið hvar ábyrgð fjölmiðla liggi í þessum efnum, og vísar meðal annars í siðareglur 365 miðla.

Það er þó að sjálfsögðu ekki hægt að ætlast til þess að þáttargerðarfólk kynni sér í þaula allt sem fjallað er um í þættinum, en einmitt þess vegna hlýtur því að bera viss skylda til að ganga út frá almennt viðurkenndri afstöðu fræðimanna til svona hluta, t.d. þeirri afstöðu að taka þurfi fullyrðingum kuklgeirans með miklum fyrirvara þar sem það er vel þekkt að það gengur afar illa að staðfesta mikið af því sem þar er haldið fram.

Eru lífrænt ræktuð matvæli hollari en önnur? Spyr Baldvin Örn Einarsson. Það þarf ekkert endilega að vera. Í raun er sáralítill munur á lífrænt ræktuðum matvælum og venjulega ræktuðum matvælum.

Ef eitthvað er að marka rannsóknir á sviðinu er því ljóst að harla lítil innistæða er fyrir digurbarkalegum yfirlýsingum heilsugúrúanna og að lítið fæst fyrir peninginn þegar rándýrt, lífrænt ræktað, fæði ratar ofan í matarkörfuna í stað þess venjulega.

Kristján Lindberg bendir á gagnslausa plastdraslið Power Balance og hvað það virðist bara vera óttalegt drasl:

Jafnvægið ekki í lagi? Hvað er til ráða? Gæti verið að þú sért með of mikið af pening í öðrum vasanum sem er að valda þér ójafnvægi? Þá er ég með frábæra lausn fyrir þig, keyptu gagnslaust plastdrasl armband fyrir heilar fimm þúsund íslenskar krónur. Það ætti að koma þér í jafnvægi aftur!

Hver er skaðinn? spyr Hjalti Rúnar Ómarsson og vísar í vita gagnslaust sprengjuleitartæki sem hugsanlega hefur murkað lífið úr hundruði manna því tæknin sem er notuð við gerð þessara tækja er byggð á spákvist og gerir þ.a.l. ekkert gagn.

Venjulega skiptir afar litlu máli að fólk sé að nota spákvisti, það er erfitt að drepa fólk með því að leita að vatni. En um leið og svona bull fer að reyna að gera eitthvað sem skiptir einhverju raunverulegu máli, þá verður skaðinn meiri. Það er talið að rekja megi dauða hundruða manna til þessa gagnslausa sprengjuleitartækis.

Svo skoruðum við á "lithimnufræðingana" og kuklarana Lindu Líf Margrétardóttur og Lilju Oddsdóttur. En haft er eftir Lindu Líf í fylgiblaði Fréttablaðsins Allt þann 6. júlí sl.: „Mér fannst bara svolítið skrítið að uppgötva að augun væri hægt að lesa eins og kort sem veita innsýn inn í ástand líkamans og líffæri hans. Svona eftir á að hyggja er það í raun bara frekar rökrétt.“ En við buðum 100.000 kall ef þau gætu virkilega staðið við stóru orðin og sýnt fram á að "öðlast megi innsýn í ástand líkamans og líffæri hans með því að „lesa“ augu fólks."

Til að sýna fram á að lesturinn hafi tekist þarf „augnfræðingurinn“ aðeins að lesa augu (og bara augu) tíu manns og í kjölfarið þarf annar aðili (sem Linda Líf eða Lilja mega tilnefna) að geta parað lestur augnfræðingsins við læknaskýrslur þessara tíu manna. Takist að para saman 7 af 10 lithimnulestrum og læknaskýrslum telst lesturinn hafa tekist.

Þessari áskorun var hafnað. Auðvitað, enda er lithimnufræði bara djöfulsins rugl.

Einn helsti gagnrýnandi gervivísinda, Martin Gardner að nafni, lést árið 2010. Reynir Harðarson skrifaði nokkur orð um manninn:

Fyrstu kynni mín af honum voru er ég festi kaup á bókinni Fads & Fallacies in the name of science (frá 1957) þar sem hann fjallar um alls konar hjáfræði s.s. kenningar um Atlantis, pýramídana, fljúgandi fruðuhluti, lithimnufræði, smáskammtalækningar, dulskynjun, vísindakirkjuna og margt fleira.

Félagið Vantrú flutti svo inn hinn hýra og heillandi töfra- og efahyggjumann extraordinaire James Randi. Randi hélt fyrirlestur í sal 105 á Háskólatorgi þann 24. júní, sem var þéttsetinn. Fyrirlesturinn átti bara að standa í klukkutíma, en Randi var bara í svo miklu stuði að hann spjallaði í aukalegan klukkutíma. Heimsókn James Randi var einn af hápunktum sumarsins sem og fyrirlestur Daniel C. Dennet nokkrum dögum áður.

[I. hluti] [III. hluti] [IV. hluti] [V. hluti]

Þórður Ingvarsson 02.01.2011
Flokkað undir: ( Leiðari )

Viðbrögð

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.