Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Nýtilkominn friðarboðskapur og barnatrúboð ríkiskirkjunnar

Í Fréttablaðinu þann 28. desember síðastliðinn skrifa heilir átta guðfræðingar um fæðingarsögu Jesú. Undirliggjandi er sami boðskapur og Karl Sigurbjörnsson var með yfir jólin - það á að stunda kristniboð í leik- og grunnskólum. Fyrirsögn greinarinnar er "Friðarboðskapur eða ævintýri?". Það er reyndar undarlegur titill enda er ekkert sem útilokar að ævintýri geti verið með friðarboðskap.

En þessi guðfræðingaflokkur leggur mikla áherslu á að boðskapur fæðingarsögunnar sé friður á jörð, þau leggja slíka áherslu á þetta að þessi frasi er skrifaður með stórum stöfum. Þau nefna reyndar ekki að þessi boðskapur sé nýtilkominn. Þar til fyrir svona tveimur árum var bara friður á jörðu hjá mönnum sem guð hafði velþóknun á. En í tengslum við nýjustu þýðinguna á biblíunni skipti guð um skoðun og ákvað að hafa frið á jörðu handa öllum. Það gæti reyndar líka tengst því að þýðingarnefndin valdi í nær öllum vafatilvikum að velja þá þýðingu sem hljómaði betur í augum nútíma Íslendinga. Hinn almenni friðarboðskapur sögunnar hvílir allavega á mjög umdeildri þýðingu. Þessi þýðing verður líka nokkuð vafasöm og boðskapurinn innihaldslítill í ljósi þess Jesús sjálfur segir seinna í Lúkasarguðspjalli: "Ætlið þér að ég sé kominn að færa frið á jörðu? Nei, segi ég yður, heldur sundurþykki."

Aftur af flokkun sagna. Þegar ég lærði um Nýja testamentið í Guðfræðideildinni var mér reyndar kennt að sögur af Jesú væru af tegund bókmennta sem kallast mýta. En ég nota flokkunarkerfi þjóðfræðinnar og samkvæmt því er þetta helgisögn. Það sem einkennir helgisagnir er að þær eru sagðar eins og þær séu sannar á sama hátt og flökkusagnir um ketti í örbylgjuofnum eru settar fram sem sannleikur. Þetta er reyndar aðalatriði. Ævintýri eru aftur á móti sett fram þannig að öllum ætti að vera ljóst að þau eru ekki sönn.

Af þessu má sjá að mögulega eru guðfræðingarnir knáu að vísa til sannleiksgildi sögunnar. Ég hefði reyndar haldið að það væri erfitt að finna fólk menntað í Nýja testamentisfræðum sem telur að fæðingarsögur Jesú, sem eru reyndar tvær og mjög ólíkar, séu bókstaflega sannar. Flest bendir til þess að þær hafi orðið til löngu seinna. Það er engin ástæða til að trúa að þær byggi á staðreyndum frekar en sagan af því að Júlíus Sesar hafi komið í heiminn með keisaraskurði. Fjöldi furðusagna er til um fæðingar fræga fólksins og flestar eru þær falskar.

Vandamálið við það hvernig fæðingarsaga Jesú er sett fram í leik- og grunnskólum landsins er að hún er sögð eins og hún sé sönn. Það er einfaldlega trúboð og það er lögum samkvæmt bannað í skólum og einnig banna siðareglur kennara slíkt. Við sem ekki trúum á guðdóm Jesú vonumst eflaust flest til þess að friður verði á jörð og við þurfum þá engar vísanir í Jesú til þess. Góð blanda af samúð og rökhyggju skiptir þar mestu máli.

Það sem við óskum hins vegar eftir er að starfsfólk ríkiskirkjunnar á Íslandi fari nú fljótlega að taka til sín boðskap gullnu reglunnar og hætti að stunda trúboð á börnum fólks sem ekki hefur tekið upplýsta og óþvingaða ákvörðun um að leyfa slík. Erfiðasti þröskuldurinn er að sjálfsögðu sá að ríkiskirkjan hefur svo ríkan fjárhagslegan ávinning af því að reyna að snúa börnum okkar til fylgis við sig og sérstaklega nú þegar Íslendingar kjósa sem aldrei fyrr að snúa baki við kirkjunni.

Óli Gneisti Sóleyjarson 02.04.2010
Flokkað undir: ( Kristindómurinn )

Viðbrögð

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.