Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Lýgur séra Svavar Alfreð Jónsson?

Smekkur manna er misjafn, rétt eins og rökvísin. Um páskan birtist pistill á tru.is í boði ríkiskirkjunnar (sem kostar okkur að vísu 5.000.000.000 kr. árlega) eftir siðapostulann Svavar Alfreð. Tilefnið er „mesta hátíð“ kristinna manna, páskarnir, þegar þeir minnast þess að guð þeirra lét pynta og drepa son sinn (en þó sig sjálfan) til að fyrirgefa mönnunum að vera ekki betri en hann gerði þá (en að vísu reis hann svo upp tveimur dögum síðar – allt í plati).

Í prédikun Svavars segir hann frá filharmóníutónleikum nokkrum sem haldnir voru undir lok síðari heimsstyrjaldar í Berlín í boði nasistaflokksins þegar ósigur blasti við. „Við útgöngudyr biðu einkennisklædd börn úr Hitlersæskunni, héldu á körfum og buðu fólki blásýruhylki. Ókeypis,“ skrifar Svavar.

Nú á ævintýrið um trésmiðinn á krossinnum einmitt að sýna að dauðinn sé blekking, líf bíði okkar að loknu harðræðinu í þessum táradal (að vísu aðeins ef við segjumst trúa ævintýrinu). Þess vegna eru blásýruhylkin e.t.v. meira viðeigandi á páskum en oblátur (hold trésmiðsins – grafið og upprisið) sbr. Laxness.

Sagan minnir okkur líka á að það eru öfl í þessum heimi sem vilja ekki að við upplifum neina páska. Þau vilja slökkva ljósin sem páskarnir kveikja. Það er þeim hagstæðara að hafa lýðinn vonlausan. Þeim hentar betur að útbreiða trú á dauðann en lífið.

Hver eru þessi hræðilegu öfl? Eru það kannski trúleysingjar eða Vantrú? Mín vegna má Svavar „upplifa alla páska“ en ef „ljósin sem páskarnir kveikja“ eru hrævareldar einir og villuljós – sem afvegaleiða í stað þess að vísa veginn – áskil ég mér allan rétt til að benda á það. Því þarf ekki að fylgja neitt vonleysi, hvað þá trú á dauðann. Það eru kristnir sem dýrka dauðann, eins og best sést á páskum. Í dauðanum er eilífðin og guðinn – ekki í aumkunarverðu og einskisverðu jarðlífi (að þeirra mati).

Í sögunni eru börnin með blásýruhylkin verkfæri slíkra afla. Svo úthugsuð og kaldrifjuð er illskan að hún notar börnin, tákn framtíðarinnar og vonarinnar, til að slökkva vonarneistann sem hugsanlega hafði kviknað í borg dauðans. Börnin voru gerð að standandi auglýsingaskiltum með áróðri um að framtíðin sé dauðans en ekki lífsins. Er þetta ekki dæmigert? Þeir sem gleypa ekki bullið í prestinum eru eins og Hitlersæskan með blásýrutöflur!

Þessi öfl, sem vilja innræta okkur trú á dauðann fremur en lífið, þau eru enn að verki. Þau eru vel merkjanleg í samtíð okkar. Og heilagir páskar eru þeim ekki að skapi. Þeir eru eins og Berlínarfílharmónían. Þeir kveikja ljós, þeir glæða vonir, þeir efla lífstrú og lífsmátt.

Börnin með blásýruhylkin eru send á vettvang; úrtöluraddirnar, efasemdirnar, vantrúin. Stanslaus áróðurinn um að manneskjan sé ekkert nema hold, bein og sinar og eigi sér engan tilgang nema þann að fullnægja sínum efnislegu þörfum. Og það sé um að gera að fullnægja þeim sem best og mest og fljótast, því enginn viti hvenær hinn mikli Herra alls, dauðinn, kemur, moldin eignist okkur og hlátrarnir kafni í myrkrum grafanna.

Hvað er svona hræðilegt við að njóta lífsins eða fullnægja hvötum sínum? Viljum við ekki lifa, læra, njóta? Er ekki gefandi að hlúa að ástvinum og reyna að bæta samfélagið og jarðlífið? Til að skilja Svavar Alfreð er ágætt að skyggnast aðeins inn í hugarheim hans og sjá hvaða augum hann (og kristnin) lítur mennina. Eftirfarandi er tekið af bloggi hans:

Í hefð kristninnar er það orðað þannig að maðurinn sé fallinn syndari. Hann er kengboginn inn í sjálfan sig. Hann er sjálfum sér ekki nógur. Hann er sitt eigið fórnarlamb. Mesta ógn mannsins er hann sjálfur. Hann er ekki jafn blindur á neitt eins og sig sjálfan. Hann getur ekki logið jafn rækilega að neinum eins og að sjálfum sér. #

Þetta hafði hann reyndar sagt áður, svo hér er ekki um stundarsturlun að ræða:

Í kristni er maðurinn fallinn syndari. Hann er kengboginn inn í sjálfan sig. Hann er sjálfum sér ekki nógur. Hann er sinn eiginn böðull og sjálfs sín fórnarlamb. Hann er sjálfum sér tækifæri og ógn.

Maðurinn er ekki jafn blindur á neitt og sig sjálfan og engri lygi trúir hann greiðlegar en þeirri sem hann skrökvar að sér sjálfum.

Hann sér það sem honum hentar, skilur það sem hann vill skilja og heyrir það sem kemur honum vel. #

Getur verið að Svavar hafi logið því og skrökvað að sjálfum sér og öðrum að bullið í Biblíunni sé einhver sannleikur af því að „það kemur honum svo vel“?

Reynir Harðarson 12.04.2010
Flokkað undir: ( Kristindómurinn , Siðferði og trú , Upprisan )

Viðbrögð


Valtýr Kári Finnsson - 12/04/10 13:44 #

Nei. Hann lýgur ekki. Þ.e.a.s. Hann trúir þessu öruglega sjálfur, hvort hann hafi kolrangt fyrir sér er svo allt annað mál. Sérstaklega þar sem ég sé ekki betur en að hann sé í hrópandi mótsögn við sjálfann sig.

Þetta er bara sama gamla bullið sem kemur alltaf frá svona fólki. Best að hundsa það bara.


Kári Örn Hinriksson - 12/04/10 15:54 #

Finnst mjög lélegt að segja að allir "kristnir" finnist jarðlífið aumkunarvert og einskisvert. Það er bara fullyrt eins og hver önnur staðreynd. Finnst svolítið eins og það sé verið að tala niður til mín því ég er kristinn og almennt mjög lífsglaður


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 12/04/10 18:15 #

Kári, þú ert kannski ekki nógu kristinn, þ.e.a.s. ekki nógu "kengboginn inn í sjálfan þig".

Til hamingju með það. Miklu heilbrigðara að standa beinn í baki og njóta lífsins.


Einar Einars (meðlimur í Vantrú) - 13/04/10 16:14 #

Ótrúleg lesning.


Kári Örn Hinriksson - 13/04/10 20:00 #

Ég þekki ungt, mjög svo kristið fólk sem lifir í samræmi við sína sannfæringu sem er alls ekki "kengbogið" inn í sjálft sig heldur virkilega lífsglatt og gamann að vera í kringum.

En vissulega er fólkið eins misjafnt og það er margt :)


G2 (meðlimur í Vantrú) - 14/04/10 22:09 #

Ég á mikið erfitt með að trúa því upp á þann sómaklerk Svavar Alfreð að hann ljúgi - ef slíkt hendir þá er það aðeins ef hann opnar munninn eða stingur niður penna.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.